Hver bjargar sér sem best hann getur

Við nutum þeirra forréttinda að Árni, sonur Elínar, Elva Hrönn, tengdadóttir okkar og ungir synir þeirra, Birgir Þór og Kolbeinn Tumi, voru hjá okkur í tæpa viku. Í gær ákváðu þau hjónakornin að gera hreint hjá okkur áður en þau yfirgæfu okkur og settust aftur að suður í Hafnarfirði. Tókum við því piltana með okkur út að Bakkatjörn að gefa fuglunum.

Þar var talsvert mávager, nokkrar gæsir, endur og svanafjölskyldan, sem ríkir með harðri hendi yfir Bakkatjörninni. Gassinn var svo aðgangsharður að Elínu ömmu stóð vart á sama og bað fjögurra og hálfs árs snáðann að gæta sín. Svanirnir hvæstu að mannfólkinu í stað þess að þakka fyrir brauðið með svanasöng. Greinilegt var að aðrir fuglar sýndu þeim virðingu og hreyfðu engum mótbárum þótt brauðið væri hrifsað af þeim.

Nokkur lýti þóttu okkur plastpokar undan brauðmeti sem fólk virðist hafa kastað frá sér á tjarnarbakkann eftir að hafa tæmt þá. Plastið eyðist seint í náttúrunni og getur haft hættu í för með sér fyrir fiðraða íbúa Seltjarnarness.

Baráttan í mannheimum er háð af talsverðu miskunnarleysi. Ekki verður því neitað að fuglarnir hegða sér að mörgu leyti eins. Maðurinn virðist taka afstöðu með einni fuglategund annarri fremur. Þannig eru mávar illa séðir en svanir vel þokkaðir, a.m.k. á heiðarvötnum þar sem þeir kváðu syngja öðrum fuglum betur. Á Bakkatjörninni virðast þeir fremur sýna af sér ofbeldi og skefjalausa hörku í garð aðkomusvana og annarra fugla sem leyfa sér að koma sér þar fyrir. Baráttan um brauðið er hörð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Skemmtileg saga.  Svanurinn er illfygli hið mesta :) fagur ásýndum en á honum sannast að oft er flagð undir fögru skinni.

Óskar Þorkelsson, 9.8.2009 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband