Auglýsingar eru heimildir

Flest fólk hefur gaman af að safna ýmiss konar efni. Ég hef haft þá ástríðu að safna útvarpsefni til eigin afnota auk þess sem ég hef hljóðritað sitt lítið af hinu og þessu áratugum saman.

Árið 1993 kom myndbandstæki á heimilið. Áttaði ég mig á því að spólurnar væru fyrirtaks geymsla undir hljóðrit. Safnaði ég efni á tæplega 60 spólur, samtals um 400 klst. Nú hálfum öðrum áratug síðar hef ég komist að því að ódýrar spólur, sem ég freistaðist til að kaupa, eru farnar að skemmast og því góð ráð dýr.

Að undanförnu hef ég því dundað mér við að færa þetta efni á stafrænt snið. Vitaskuld hlusta ég ekki á allt efnið heldur færi það yfir á tölvu og brýt risastórar hljóðskrár niður í einingar. Vista ég efnið sem mp3-hljóðskrár á 256 bitum og haldast því hljóðgæðin að mestu.

Ef mig langaði að ná tilteknu efni þurfti ég stundum að setja myndbandstækið í gang nokkru áður en útsending hófst. Slæddust þannig með auglýsingar, veðurfregnir, fréttir og sitthvað fleira. Auglýsingarnar eru einkar athyglisverðar og bregða ljósi á tískuna hverju sinni. Tilkynningarnar varpa auk þess ljósi á ástandið í þjóðfélaginu. Vegagerðin varar við illviðri, rætt er um færð á götum borgarinnar og afleiðingar illviðra eru tíundaðar.

Það gæti orðið skemmtileg hljóðmynd að útvarpa gömlum auglýsingum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband