Erfðir og ættatengsl

Í Fréttablaðinu er greint frá því að nýr gagnagrunnur hafi litið dagsins ljós. Fæst hann einkum við tengsl fólks í viðskiptalífinu. Segir höfundur grunnsins að með honum megi sjá ótrúleg vensl manna sem stýrðu íslensku útrásinni og sáu um að hirða fé af almennum skattborgurum.

Fyrir nokkru hitti ég glöggan Þingeying sem velti fyrir sér ýmsu sem tengist bankahruninu. Hélt hann því fram að rætur útrásarinnar megi rekja allt aftur til fyrri heimsstyrjaldarinnar en þá höfðu nokkrir Íslendingar einstakt lag á því að maka krókinn. Hann sagðist reyndar telja að undirrótin lægi í tengslum langt aftur í aldir og vildi vekja athygli ættfræðinga á þessu.

Ýmsir telja sig reyndar vita að ýmislegt gangi í erfðir, óeðli sem atgervi. Taldi Þingeyingurinn unnt að komast að hinu sanna í málinu því að sömu ættirnar hefðu setið meira og minna að kjötkötlunum hér á landi öldum saman.

Þetta minnti mig á eitt af síðustu samtölum mínum við dr. Björn Þorsteinsson, prófessor. Hann velti því fyrir sér hvar menningar- og bókmenntakjarninn hefði legið í ættum hér á landi á miðöldum. Fannst honum nauðsynlegt að það yrði rannsakað til hlítar. Það gæti varpað algerlega nýju ljósi á tilurð Íslendingasagna. Hið sama má segja um vangaveltur Þingeyingsins. Með því að rannsaka til hlítar ættir nokkurra atgervismanna væri ef til vill hægt að finna tengsl sem vörpuðu ljósi á það sem gerst hefur að undanförnu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband