"Seint fyllist sálin prestanna"

DV greinir frá því í dag að prestur nokkur á Suðurnesjum fái rúma milljón í aksturspeninga á ári. Samkvæmt kjarasamningum ætti hann að fá rúm 300 þúsund.

Áður hefur verið vikið að því á þessum síðum hversu viðkvæmt starf presta sé og hversu auðvelt sé að gera þá að skotspónum. Ókostir eins og græðgi og sérgæska mega helst ekki einkenna þá sem gerast sálusorgarar.

Presturinn gæti nú farið að dæmi mannsins í þjóðsögunni og skipt þessum ofgreiddu aksturspeningum með einhverjum þeim hætti að gögnuðust fleira fólki en honum sjálfum. Hætt er við að sú ágirnd, sem þessar greiðslur fela í sér, verði seint til þess að hann verði auðmaður og skorti aldrei fé.

SEINT FYLLIST SÁLIN PRESTANNA

Einu sinni var ungur maður og efnilegur; hann lagði ástarhug á stúlku eina og bað hennar; en hún aftók um ráðahag við hann. Af því varð maðurinn mjög angraður og fór oft einförum.

Einu sinni var hann einn úti á víðavangi að rölta eitthvað; veit hann þá ekki af því, fyrr en maður kemur til hans og heilsar honum. Biðillinn tekur kveðju hans dauflega, enda þykist hann ekki þekkja manninn. Komumaðurinn er altillegur við hann og segist vita, að það liggi illa á honum og út af hverju það sé, og segist skuli sjá svo um, að stúlkan, sem ekki hafi viljað taka honum, sæki ekki minna eftir honum en hann eftir henni, ef hann vilji heita sér því að verða vinnumaður sinn að ári liðnu. Maðurinn tekur þessu boði þakksamlega, og ráða þeir nú þetta með sér. Eftir það skilja þeir, og fer biðillinn heim.

Litlu seinna finnur hann stúlkuna við kirkju, og er hún þá orðin öll önnur við hann en áður og sækir mjög eftir honum. Maðurinn fer þá heldur undan og hugsar, að þetta sér hrekkur af henni. En bráðum kemst hann að því, að henni er full alvara. Verður það nú úr, að hann fær stúlkunnar og á hana, og voru samfarir þeirra góðar.

Nú fer að líða á árið, frá því hann hitti þann, sem hafði stutt hann til konumálanna, og fer nú bóndi að fá hugsýki af því, hver þetta hafi verið. Þegar mánuður var eftir til krossmessu, fer hann á fund prestsins síns og segir honum upp alla sögu og biður hann ráða. Prestur segir, að hann hafi of seint sagt sér þetta, því þar hafi hann átt kaup við kölska sjálfan, er hann átti við þenna ókunnuga mann.

Fer þá algjörlega að fara um bónda og biður prest því ákafar ásjár.

Prestur varð vel við því og safnar þegar að sér múg og margmenni, lætur þá alla taka til starfa og grafa innan stóran hól og bera alla moldina burtu; síðast lætur hann gjöra kringlótt gat lítið upp úr miðjunni á hólnum. Þegar því var lokið, er komið að krossmessu. Tekur prestur þá sál og úr henni báða botna, en setur krossmark í annan endann og festir sálina í gatinu á hólinn, svo hún stendur þar upp sem strompur, en krossmarkið er í neðri enda sálarinnar. Síðan segir hann við bónda, að hann skuli bíða kaupanauts síns uppi á hólnum og setja honum þá kosti, að hann fylli sálina með peninga, öllum að meinfangalausu, áður en hann fari að þjóna honum; ella sé hann af kaupinu.

Síðan skilur prestur við bónda, og fer hann að öllu sem prestur hafði fyrir mælt.

Nokkru síðar kemur kaupanautur hans, og er hann nokkuð úfnari en í fyrra skiptið. Bóndi segir við hann, að sér hafi láðst eftir seinast að biðja hann bónar, sem sé lítilsverð fyrir hann, en sér ríði á svo miklu, að hann geti ekki farið til hans ellegar. Kölski spyr, hvað það sé, og segir hann, að það sé að fylla sálina þá arna með silfurpeninga, öllum að meinfangalausu.

Kölski lítur til hennar og segir, að það sé ekki meira en mannsverk, fer burtu og kemur aftur eftir litla stund með mikla drögu og lekur úr sjávarselta. Síðan lætur hann úr drögunni í sálina, en hún er jafntóm eftir sem áður. Fer hann þá í annað sinn og kemur aftur með aðra drögu miklu stærri og steypir í sálina; en hún fyllist ekki að heldur. Svo fer hann í þriðja sinn og kemur upp með drögu, og er hún mest þeirra; þeim peningum hellir hann í sálina, og fer það allt á sömu leið. Þá fer hann hið fjórða skipti og sækir enn drögu; sú var meiri en allar hinar; steypir hann þeim peningum einnig í sálina, en ekkert hækkar í henni. Verður kölski þá hvumsa við og segir, í því hann yfirgefur manninn: "Seint fyllist sálin prestanna".

Maðurinn varð, sem von var, alls hugar feginn lausn sinni frá vistráðunum hjá kölska, og af því hann þóttist eiga þar presti best upp að unna, skipti hann jafnt á milli þeirra peningunum, og vitjaði kölski hvorki þeirra né mannsins eftir það, en maðurinn varð auðmaður alla ævi og skorti aldrei fé né heldur prestinn.

Netútgáfan - mars 1997


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þjóðkirkjan er mesta blóðsugan á íslensku samfélagi... þúsundir milljóna fara árlega í þessa hjátrúarseggi sem segjast trúa á ímyndaðan fjöldamorðingja í geimnum.

Eina ráð okkar til að þvinga þessar blóðsugur af samfélaginu er að fara og skrá sig utan trúfélaga... þeir sem gera það ekki ættu að skammast sín.

DoctorE (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 14:26

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband