Hæstiréttur á villigötum og óaðgengileg heimasíða

Eftir því sem fjölmiðlar hafa greint frá er augljóst að dómarar þeir, sem dæmdi gegn öryrkjum í gær, eru á villigötum. Þeir virðast vart þekkja forsendur kerfis almannatrygginga.

Þegar lífeyrissjóðakerfinu varkomið á fót var hugsunin m.a. sú að efla hag lífeyrisþega og skapa þeim viðunandi lífskjör. Þar með voru almannatryggingar viðurkenndar sem sá grunnþáttur sem bæta mætti við með eigin framlagi.

Eðli málsins samkvæmt skerðast bætur almannatrygginga vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þetta getur ekki verkað á hinn veginn þannig að tryggingar almannakerfisins skerði greiðslur úr lífeyrissjóðum. Þannig er Hæstiréttur farinn að snúa lögum við í landinu.

Þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson kúguðu Alþingi til þess að samþykkja hefndarráðstafanir gegn öryrkjum í kjölfar dóms Hæstaréttar árið 2000 var öllum ljóst að tvennt hafði gerst: ríkisstjórnin ætlaði ekki að fara að dómi réttarins og hugðist ganga þannig frá málum að sigur Öryrkjabandalagsins yrði einungis hálfur en ekki allur. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks afnam þessi ólög.

Forsætisráðherra á nú þegar að sýna af sér þann skörungsskap að láta breyta lögum um almannatryggingar þannig að annað eins og þetta - vanþekking hæstaréttardómaranna - geti ekki haft áhrif á framkvæmd laganna.

Ég hugðist kynna mér hvaða dómarar hefðu dæmt í þessu máli, en mér bauð í grun að sumir þeirra hefðu e.t.v. átt að víkja sæti í málinu vegna pólitískra tengsla sinna við Sjálfstæðisflokkinn, en dómsmálaráðherrar þess flokks hafa séð um að skipa flesta dómara Hæstaréttar frá því að lýðvedi var stofnað hér á landi. Mér lánaðist ekki að leita að viðeigandi upplýsingum á síðu réttarins. Hvorki gekk að fylla út leitarskilyrðin né skrifa einhverjar tölur sem birtust á skjánum. Síða Hæstaréttar er óaðgengileg sjónskertu og blindu fólki.

Ef núverandi ríkisstjórn eða sú fyrri hefðu nú haft manndóm í sér til þess að setja lög um aðgengi heimasíðna svipuð þeim sem gilda í Bandaríkjunum hefði mér við unnt að höfða mál á hendur Hæstarétti fyrir óaðgengilega heimasíðu. Hver veit nema ég leiti styrks hjá Öryrkjabandalaginu til slíkrar málshöfðunar. Mér hefur jafnan verið meinilla við að láta leyna mig upplýsingum og tel Hæstarétt brjóta öll siðferðislögmál með því hvernig gengið er frá heimasíðu réttarins. Hvað skyldi sjónskertum þingmanni Samfylkingarinnar finnast?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæstiréttur er algörlega óstarfhæfur vegna spillingar.

Árni Karl Ellertsson (IP-tala skráð) 18.12.2009 kl. 20:05

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Skrifaðu Helga beint. Kannski getur hann gert eitthvað. Annars alveg sammála þér.

Sæmundur Bjarnason, 19.12.2009 kl. 02:10

3 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Mér finnst afar skrítið hvað dómar hjá hæstarétti ganga oft í berhögg við héraðsdóm ,hafa þessir dómarar ekki lært á sama stað eða er um spillingu að ræða ,sjálfstæðismenn voru duglegir að koma sínum mönnum inn í hæstaréttadóm.Traust er þar ekki fyrir hendi og ég spyr eru þessir menn sem hafa verið skipaðir af sjálfstæðisflokknum hæfir til að dæma í þeim málum er snýr að hruninu og taka afstöðu til öryrkja.

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 19.12.2009 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband