Fasbókin nýtti til níðskrifa

Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögfræðing og v. hæstaréttardómara. Fjallar hann þar um fasbókarsvæðið „Karlar gera merkilega hluti“.
Samkvæmt greininni virðist helsta markmið svæðisins að ata hann auri.
Ef rétt er að kona hafi stofnað síðuna og að einkum konur tjái sig þar um persónu lögfræðingsins, eins og greinin fjallar um, verður að segjast sem er að síða þessi er aðstandendum ekki til neins sóma. Gífuryrði og niðrandi ummæli ásamt viðeigandi munnsöfnuði eru engum til sóma. Þetta er galli fasbókarinnar. Oft reynist erfitt að halda uppi rökræðum um málefni líðandi stundar þar sem einatt verða einhverjir til þess að spilla þeim með gífuryrðum og málsóðaskap.

Skrumskæling eða skemmtun?

Auglýsingastofum tekst stundum að skemmta fólki með ýmiss konar orðaleikjum. Heldur virðist hafa fjarað undan þessari leikfimi.
Nú er orðið í tísku að breyta nafnorðum í sagnorð:
Hjá hverjum tankarðu bílinn þinn?
Með hverju ætlarðu að dekka bílinn þinn?
Annað afbrigði:
Það borgar sig að dekkja bílinn með ......

Hugsanlegt er að þolfallið bjargi þarna einhverju og að því þurfa þá foreldrar að hyggja?
Ætli menn eigi eftir að heyra spurningar og svör eins og þessi?

Ég þarf að brjósta barnið - barninu!
Viltu ekki drekkja barninu - eða Viltu ekki drekka barnið?

Svona mætti lengi telja en verður hér látið staðar numið.


Hvernig ber að haga sér í nútíma samskiptum?

Þegar ég var við umferlisnám í borginni Torquay í Devonskíri á Englandi fyrir 40 árum gerði ég mér fyrst grein fyrir því að ég væri ekki eins og fólk er flest. Var ég kallaður sagnamaðurinn. Sem betur fer voru fleiri einstaklingar þar slíku marki brenndir.

Þessi tilfinning mín hefur ágerst að undanförnu og niðurstaða mín er sú að ráðast ekki í persónuleikabreytingu úr þessu.
Það er þó eitt sem ég hef orðið var við í ríkari mæli en áður og færist stöðugt í aukana. Fólk hefur ekki lengur úthald í samræður nema þær séu fólgnar í stuttum og hnitmiðuðum skoðanaskiptum.
Ég er alinn upp við ríka sagnahefð og hvað eina varð föður mínu og öðrum skyldmennum og vinum að söguefni. Ég stend sjálfan mig að því að segja ýmsar sögur og það gerist æ oftar að viðmælandi hverfur á brott - jafnvel þótt vart sé liðin mínúta og ætluð saga sé stutt. Þannig var mér bent á það í gær að viðmælandinn væri ekki lengur á staðnum.

Sem betur fer eru þó enn nokkrir sagnamenn í þeim fámenna hópi sem ég umgengst og virðumst við njóta hver annars sagna. En óþol viðmælenda virðist fara vaxandi eftir því sem tímar líða fram.


Þor er allt sem þarf - Hraðinn og græðgin meginorsök loftslagsbreytinga

Allt of oft heyrist að Íslendingar þurfi ekki að hafa áhyggjur af hlýnun jarðar. Við séum svo fáir og smáir að það muni lítt um þann skepnuskap sem við stundum gagnvart umhverfinu.
Hér eru nokkrar tillögur fólki og stjórnvöldum til umhugsunar:

1. Vilji menn draga úr mengun án þess að skaða hagsmuni sjálfra sín geta þeir hafist handa og dregið úr umferðarhraða.
Hámarkshraða í bæjum mætti færa niður í 30-40 km á klst.

2. Hámarkshraði á þjóðvegum verði ekki meiri en 70 km/klst.

3. Landflutningar með fisk verði aflagðir og siglingum komið á í staðinn.

4. Jarðefnaeldsneyti eins og dísel og bensín verði skattlagt í hlutfalli við eyðslu bifreiða.

5. Hraðað verði sem unnt er fyrirhuguðum orkuskiptum.

6. Dregið verði mjög úr komum skemmtiferðaskipa til landsins.

7. Unnið verði markvisst að því að hamla gegn auknum ferðamannafjölda.

8. Hagvaxtartölur verði endurskoðaðar. Með róttækum aðgerðum eins og þeim se mhér eru lagðar til, hlytist meiri sparnaður en við gerum okkur í fljótu bragði grein fyrir.

9. Farið verði ofan í saumana á því hvernig haga skuli innflutningi vissra tegunda matvæla til landsins.

10. Hafin verði markviss uppbygging vistvæns íbúðahúsnæðis með sjálfbærni í huga.


mbl.is Hafinu stafar hætta af hlýnun jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ennþá gleymist upplýsingaaðgengið

Íslendingar eru iðnir við að búa til smáforrit (öpp) fyrir farsíma sem eiga að létta fólki lísbaráttuna.
Því miður er sjaldan hugað að aðgengi þeirra sem eru blindir eða sjónskertir og þurfa að nota talgervil eða blindraletur. Ég nefni sem dæmi fyrirtækið Stokk, en í flestu forritum fyrirtækisins eru einhverjir aðgengiságallar og sum forritin eru aðlerlega óaðgengileg.
Í Morgunblaðinu í dag var greint frá því að Reiknistofa bankanna sé að senda frá sér smáforritið Kvit sem fólk getut notað til að greiða fyrir vörur og þýðir lægri millifærslugjöld.
Ég hafði samband við Reiknistofu bankanna fyrir ári þegar fjallað var í fyrsta sinn um þessar áætlanir og spurði um aðgengi. Þar á bæ höfðu menn ekki hugsað fyrir því en hétu að athuga það.
Í morgun spurðist Blindrafélagið fyrir um aðgengið í þessu nýja smáforriti.
Í svarinu stóð að áætlanir gerðu ráð fyrir að forritið verði aðgengilegt en það væri "backlog hjá okkur" - samkvæmt ensk-íslenskri orðabók óafgreitt verkefni.
Mér er spurn:
Þetta smáforrit hefur verið í prófun í hálft ár. Hvers vegna var ekki gert ráð fyrir aðgengi fyrr?
Ég legg til að fjölmiðlar kanni málið.


Tvískinnungsháttur Íslenskra stjórnvalda

Tvennt vakti athygli í fréttum BBC í gær. Á sunnudag verður umfjöllun um bankahrunið í tilefni þess að 10 ár eru liðin síðan Guð blessaði Ísland og fréttin frá Brasilíu um að Íslendingar hefðu greitt atkvæði gegn því að stofnað yrði verndarsvæði hvala vvið Suðurskautið.

Íslendingar segjast í orði vera náttúruverndarsinnar, en ætli sú tilheiging nái út fyrir lögsögu landsins?

Hvaða hagsmunir eru í veði sem valda því að íslensk stjórnvöld ákveða að greiða atkvæði gegn tillögunni um verndarsvæðið?

 


mbl.is Tillaga um verndarsvæði felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið miðar í kjarabaráttu fatlaðs fólks

Þótt sitthvað sé gott í fjárlagafrumvarpinu vekur athygli að lítið miðar áfram í kjarabaráttu fatlaðs fólks og  aldraðra. Þannig eru tekjuskerðingar enn svo miklar að öryrkjar veigra sér við að fara út á vinnumarkaðinn.

Öryrkjabandalagið vakti athygli stjórnvalda á þessu ástandi m.a. kringum 1990 þegar séð varð að þáverandi ríkisstjórn hygðist þrengja kost öryrkja með auknum skerðingum. Bandalagið færð rök fyrir því að tekjuskerðingar hlytu að draga enn meira úr atvinnuþátttöku fatlaðra en orðið var.

Hvernig væri að samtök fatlaðra, Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp, beittu sér fyrir aðgerðum á næstunni til að vekja athygli á kjörum sínum. Skal nú enn og aftur minnt á hugmynd sem lögð var fram fyrir um þremur áratugum. Hún er sú að stöðva umferð á föstudegi með fjöldagöngu eftir einni af stofnæðum umferðar í Reykjavík. Farið yyrði hægt yfir svo að fólk með hækjur, í hjólastólum og blint fólk með hvítan staf, gæti tekið þátt í göngunni. "Lífið er barátta," sagði Mao formaður. Það vantar hins vegar baráttugugann í forystu fatlaðra.


mbl.is Segir ekkert gert fyrir tekjulága
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mestu heræfingar frá upphafi vega

Nú eru hafnar mestu hernaðaræfingar Rússa á Norðurslóðum frá upphafi vega. Um 300.000 rússneskir hermenn taka þátt í æfingunum auk 3.000 kínverskra hermanna og nokkurra frá Mongólíu. Fjöldi herskipa, flugvéla, skriðdreka og annarra drápstóla hafa verið dregin fram í dagsljósið sem aldrei fyrr.
Pútín og Xi Jinping lögðu áherslu á samstarf ríkja sinna á sviði hernaðar og viðskipta í ræðum sínum þegar ósköpin hófust.
Rússneskur álitsgjafi greindi BBC frá því hvernig samskiptum ríkjanna væri háttað á þessu sviði. Kínverjar kaupa háþróuð vopn af Rússum en sjá þeim um leið fyrir hvers kyns hugbúnaði og tækninýjungum. Hélt hann því fram að þótt kínverska hagkerfið væri margfalt stærra en hið rússneska væru pólitísk áhrif Rússa á alþjóðavettvangi mun meiri.
Í lok samtalsins sagði hann að Bandaríkjaforseti gæti þakkað sér að þessi tvö stórveldi, Rússland og Kína, þjöppuðu sér nú saman vegna þeirrar ógnunar sem þau teldu stafa af Bandaríkjunum.


Ríkið skattlegur sjálft sig - ótrúleg heimska tröllríður íslenska stjórnkerfinu

Heimskan í íslenska stjórnkerfinu ríður ekki við einteyming. Í lok 9. áratugarins átti ég furðulegt samtal við fjármálaráðherra vegna álagningar tolla á blindraletursskjái sem kostuðu álíka og þrjár-fjórar tölvur. Sagðist ég mundi nota hvert tækifæri sem gæfist til að smygla hjálpartækjum inn í landið á meðan þetta ástand varaði.
Svar ráðherrans gleymist mér aldrei: "Ég myndi líka gera það í þínum sporum.
Og enn er vitleysan eins og snýst m.a. um að ríkið skattleggi sjálft sig. Ríkið rýrir fjármagn það sem ætlað er til margs konar útgjalda ríkisstofnana samanber þessa frétt mbl.is kl. 05:30 í morgun:

Varðskipin hafa farið margar ferðir til Færeyja undanfarin ár.
Þór skrapp til Færeyja
Varðskipið Þór, sem var við gæslustörf á Austfjarðamiðum í vikunni, notaði tækifæri og skaust inn til Færeyja til að taka olíu.
Alls tók Þór um 600 þúsund lítra af olíu, en tankar skipsins geta tekið allt að 1.300 þúsund lítra. Þór er kominn á Íslandsmið á nýjan leik. Unnu skipverjar á Þór að því í gær að skipta um dufl við Vestmannaeyjar.
Fram hefur komið í fréttum að Landhelgisgæslan þarf ekki að greiða gjöld og skatta af olíunni í Færeyjum. Því notar Gæslan tækifæri sem gefast til að skjótast þangað til olíukaupa. Hafa varðskipin farið þangað margsinnis á undanförnum árum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.


Meingaða andrúmsloftið í höfuðborginni

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í gær, sem stóð í 10 tíma, var meðal annars rætt um loftgæði í Reykjavík.
Fyrir nokkrum árum snerist umræðan um að vindurinn blési vonda loftinu burtu og því þyrftum við engar áhyggjur að hafa. . Þeir sem eitthvað hugsuðu vissu vel að meingunin fór þá eitthvert annað.
Ég minnist þess að á 7. áratugnum fengum við Íslendingar stundum heimsókn frá meingaða andrúmsloftinu í Evrópu og í Vestmannaeyjum bar stundum við að móða kom á bláleitan himininn. Mér er enn minnisstætt þegar ég fór fyrst til Bretlands með Gullfossi árið 1969 hvernig andrúmsloftið gjörbreyttist þegar við sigldum inn í Norðursjó. Að vísu sá ég ekki móðuna sem allir um borð töluðu um en ég fann óþefinn.
Hhugsandi fólk vissi að þótt meingaða loftið í Reykjavík fyki burtu yrði meingunin eftir í andrúmsloftinu.

Þegar farið er um götur Reykjavíkur á reiðhjóli fer ekki framhjá hjólreiðafólki hvað meingun af völdum sprengihreyfla er mikil. Skiptir þá engu hvort um er að ræða dísil eða bensín. Á annatímum verður meingunin slík að hjólreiðafólk forðast tiltekin svæði.
Síðdegis sunnudaginn 2. þessa mánaðar lögðum við hjónin land undir hjól, fórum hring um Seltjarnarnesið og þaðan út í Effersey. Á leiðinni heim, þegar við hjóluðum með goluna í fangið, var meingunin átakanleg. Heldur dró þó úr henni þegar komið var aftur út á Seltjarnarnes, en þar var minni umferð og þó vottaði fyrir bensín- og olíustybbu.
Það verður mikil heilsubót af því þegar sprengihreyfilsbílum fer að fækka og aðrir orkugjafar taka við.

 

Höfundur ferðast um ásamt eiginkonu sinni á rafbíl eða tveggja manna hjóli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband