Íslenskir skattsvikarar og sannkristinn smiður

Katrín Jakobsdóttir hefur um nokkurt skeið verið minn uppáhálds stjórnmálamaður og ráðherra. Ég er að vísu ekki í flokknum af persónulegum ástæðum því að á meðal áhrifafólks eru þar einstaklingar sem þjást af of miklum siðferðisskorti til þess að ég telji mig eiga samleið með þeim. Vanþroski minn er slíkur.
Í morgun greindi Ríkisútvarpið frá ræðu sem Katrín flutti í gær á ráðstefnu hjá OECD. Þar fullyrti hún að skattsvik væru hluti af þjóðarvitund Íslendinga, ef ummælin eru trúlkuð réttilega. Rakti hún það til norskra landeigenda sem felldu sig ekki við að greiða Haraldi hárfagra skatta og fóru því úr landi.
Haft var eftir Katrínu að umræðan gegn skattsvikum hefði í raun ekki komist á flug fyrr en eftir hrun. Minntist ég þá þess sem gerðist á 7. áratugnum í ónefndum kaupstað á Íslandi að verkafólk í fiskvinnslu greiddi jafnvel hærri skatta en sumir atvinnurekendur.
Katrín hefur kannski bætt því við að enn sé fólk sem svíkur bligðunarlaust undan skatti en ætlast þó til fullrar þjónustu frá hinu opinbera.
 Ég hef hitt ýmsa skattsvikara í áranna rás og hafa þeir verið misjafnelga óskemmtilegir. Minnisstæðastur er mér maður sem verslun nokkur mælti með til að setja saman húsgögn. Hann var í kristnum söfnuði í Kópavogi, bjó með íslenskri konu sem hann hafði kynnst í Guðs eigin landi, átti með henni börn, en hún leigði hjá honum og einhverjar tilfæringar í öllu þessu voru til þess ætlaðar að komast hjá sköttum og skyldum.
Þegar kom að uppgjöri vegna húsgagnasamsetningarinnar krafðist hann nótulausra viðskipta. Þar sem hann hafði vitnað oft í bæði testamentin í samræðum okkar spurði ég hvort hann myndi eftir því sem frelsarinn hefði sagt um að greiða keisaranum það sem keisarans væri og guði það sem tilheyrði honum.
"Mig varðar ekkert um einhvern andskotans kóng eða keisara," svaraði hann.


Hrefna Jónsdóttir frá Hásteinsvegi 50 í Vestmannaeyjum - minning

Í gær var borin til grafar gömul vinkona og nágranni frá Vestmannaeyjum, Hrefna Jónsdóttir, en foreldrar hennar reistu sér hús við Hásteinsveg 50.
Móðir hennar, Halldóra Jónsdóttir, ævinlega kölluð Dóra Jóns, var vinnukona hjá foreldrum mínum og varð af því einlæg vinátta milli fjölskyldnanna. Þær Hrefna og Guðrún systir mín léku sér saman og við Guðrún, systir Hrefnu, vorum einnig leikfélagar, trúlofuðumst þegar hún var 7 ára og ég ári eldri.
Af því hlaust mikill þrýstingur og ótæpilega hörð stríðni sem endað á því að ég sleit trúlofuninni.:)
Hrefna bjó lengi erlendis, var langdvölum í Þýskalandi og seinni hluta ævinnar í Bandaríkjunum þar sem hún lést í janúar síðastliðinn, á 78. aldursári. Þar rak hún gallerí sem var á meðal 35 virtustu fyrirtækja þessarar tegundar þar í landi.

Þegar við tvíburarnir fæddust þóttust þær Hrefna og Guðrúnar heppnar því að þær voru tvær og við tveir.
Fyrsta minning mín er tengd Hrefnu. Ég var í barnavagni, sá birtuna fyrir utan og heyrði þær stallsystur spjalla saman. Vagninn vaggaði mjúklega, logn var á  og ilmur af sængurfötunum. Mér leið undursamlega og sveif inn í draumheima.
Þessi minning er afar skýr þótt ég hafi sennilega verið á öðru ári - ein þeirra minninga sem ylja mér um hjartaræturnar þegar ævinni vindur fram.

Ég hitti stundum Hrefnu hjá móður hennar og hún bar ætíð með sér einhvern sérstakan blæ að utan, umræðuefni, skoðanir og tónlist sem heyrðist hvergi annars staðar en hjá henni.
Blessuð sé minning hennar.


Ólánsmál

Var ekkiLandsréttur andvana fæddur? Dómnefndin skilaði tillögum um dómara þar sem konur voru í minnihluta og dómsmálaráðherra greip til sinna ráða. Meirihluti þingsins samþykkti gjörninginn án teljandi athugasemda og síðan hófust sumarleyfin. Hér er á ferðinni dæmigerð íslensk stjórnsýsla þar sem hrapað er að hlutunum. Þótt framganga dómsmálaráðherrans sé síst til eftirbreytni mætti Alþingi huga betur að eigin gjörðum og hegðun í þessu máli. Í raun þyrfti að ógilda lögin um Landsrétt og taka allt ferlið til endurskoðunar.


Ábyrgð Alþingis og Kjararáð

Þessi darraðardans hófst með úrskurði Kjararáðs á haustdögum 2016. Alþingi hafði ekki og hefur ekki enn haft burði til þess að breyta hinu ólánlega fyrirkomulagi sem hefur jafnan orðið til þess að setja allt á annan endann. Síðan bættust við upplýsingar um kjarabætur hjá Landsvirkjun. Forseti Íslands er í raun sá eini sem reyndi að bregðast við þessum ólánsúrskurði Kjararáðs sem virðist veruleikafirrt á svo mörgum sviðum. Það bíður því núverandi þings og stjórnar erfitt verk ef koma á í veg fyrir stórátök árið 2019.


Vopnaflutningar íslenskra flugfélaga

Air Atlanta er ekki eina íslenska flugfélagið sem hefur flutt vopn hingað og þangað um veröld alla.
Það var dapurlegt að fylgjast með formanni Framsóknarflokksins í kvöld að reyna að verja þetta siðlausa athæfi vopnlausrar þjóðar án leyniþjónustu. en hér skal sögð saga frá upphafi 9. áratugar síðustu aldar.

Upp úr 1980 fóru að berast hingað þráðlausir símar sem menn notuðu óspart til þess að hringja hver í annan. Hitt vissu fæstir að símarnir voru með sendi á svipaðri tíðni og Reykjavíkurradíó og aðrar strandstöðvar og heyrðust því samtölin í allt að 3-4 km fjarlægð. Ég minnist þess að haa vakið athygli nokkurra Seltirninga á þessu og hlaut ég miklar þakkir fyrir.

Eitt sinn heyrði ég m.a. frænda minn, Hrafn Gunnlaugsson tala í slíkan síma, en ég bjó þá vestur á Seltjarnarnesi og hann austur á Fálkagötu. Hringdi ég til hans á milli samtala og varaði hann við. Honum varð hverft við þegar hann áttaði sig á þessu.

Sama kvöld vildi svo til að maður nokkur, búsettur á Seltjarnarnesi, átti samræður við félaga sinn og var efni þess vopnaflutningar flugfélags sem þeir áttu hlut í og unnu hjá. Ég hljóðritaði samtalið sem endaði þannig: "Þetta verður að vera topp síkrit og má ekki ræða það við aðra."
Hér var um að ræða flutninga á vopnum til Írans ef ég man rétt, en það tók þátt í átökum, klerkastjórnin tekin við og vopnasölubann á landið. Fleiri vopnaflutninga bar reyndar á góma ef ég man rétt.

Örlög segulbandsins urðu þau að skömmu síðar hljóðritaði ég úr BBC samtal við Vigdísi Finnbogadóttur, firna skemmtilegt eins og von og vísa Vigdísar var.
Ég lánaði kunningjakonu minni segulbandið og benti henni á að í upphafi spólunnar væri símtal sem væri dálítið hættulegt.

Það fór reyndar svo að málið komst upp m.a. vegna þessa viðtals á spólunni og hef ég svo sem aldrei skammast mín fyrir minn þátt í málinu.

Undanbrögð og flótti eru dæmi þess sjúklega hugarfars sem einkennir embættisfærslur of margra ríkisstarfsmanna hér á landi. Gegn því þarf að ráðast og það með hörku. Það er ömurlegt til þess að hugsa að fólk, sem flestir þekkja af góðu einu, hafi lífsviðurværi sitt af því að aðstoða við dráp á saklausu f´´ólki, þar á meðal börnum og enn verra er þó skeytingarleysi íslenskra stjórnvalda.


Ásmundur fer ekki að tilmælum Alþingis

Björn Levi, þingmaður Pírata á Alþingi, fékk svör við spurningum um akstur þingmanna.
Eftirtektarvert var að sá, sem ók lengst, náði 48.000 km á ári. Það skal tekið fram að ég þekki einstakling sem nær slíkum kílómetrafjölda, en hann vinnur við ákveðna tegund aksturs og býr rúmlega 50 km frá miðborg Reykjavíkur.
Ásmundur Friðriksson hljóp fram á völlinn og greindi frá því að hann væri methafi aksturspeninga þetta árið og fékk fyrir það 385.000 kr. á mánuði. Sagði hann allt samkvæmt reglum og akstursbók.
Í pistli Björns Levi sem birtist í morgunblaðinu segir m.a.:
"Alþingi hefur nefnilega tekið upp á því á undanförnum árum að fá þingmenn til þess að vera frekar á bílaleigubílum. Í svari við annarri fyrirspurn frá mér kemur til dæmis fram að þegar þingmenn Norðvesturkjördæmis skiptu frá akstursdagbókum yfir á bílaleigubíla lækkaði kostnaður samkvæmt akstursdagbók um 10 milljónir á ári og kostnaður við bílaleigubíla hækkaði um 4 milljónir. Það var sem sagt 6 milljón króna sparnaður af því að þingmenn notuðu bílaleigubíla í stað eigin bíls og akstursdagbókar."
Nú er það deginum ljósara að Ásmundur fær greiddan kostnað vegna aksturs á milli þings og heimilis og fleir sposlur fær hann auk þingfararkaups.
Þrátt fyrir meintan heiðarleika Ásmundar læðist að sumum sá ónotagrunur að nokkur græðgi búi þar undir.
Fjórar milljónir á ári - og hversu margar þau ár sem hann hefur á þingi?
Þessar milljónir getur hann, ef vilji er fyrir hendi, notað til þess að endurnýja bifreið sína og veitir sjálfsagt ekki af vegna þessa mikla aksturs.
Er það þess vegna að Ásmundur vill ekki fara að tilmælum Alþingis um að nýta fremur bílaleigubíla eða önnur úrræði sem bjóðast?
Það virðast fleiri en dómsmálaráðherra úr þingliði "soðningaríhaldsins" eins og Oddsteinn Friðriksson orðaði það,  sem þurfa athugunar við. Réttast væri að gera öll fjármál þingmanna opinber í stað þess að þráast við eins og Alþingi hefur ákveðið.


Heimsókn áhafnarinnar af Sinetu aðfaranótt annars í jólum 1986

Ég er að ljúka við að lesa síðasta bindi bókaflokksins, Þrautgóðir á raunastund. Þar er m.a. sagt frá því þegar tankskipið Sineta fórst við Skrúð aðfaranótt annars í jólum árið 1986.

Ég var þá austur á Stöðvarfirði hjá vinafólki mínu, Hrafni Baldurssyni og Önnu Maríu Sveinsdóttur.
Að kvöldi jóladags tók ég á mig náðir um kl. 10 og sofnaði fljótt.
Um nóttina vaknaði ég og gáði á klukkuna. Hana vantaði þá 11 mínútur í 4.
Svo undarlega brá við að ég fann að herbergið sem ég svaf í var þétt skipað fólki. Það rann vatn úr fötum þess og fannst mér að ég gæti snert það ef ég rétti hægri höndina út fyrir rúmstokkinn.
Það hvarflaði að mér að þetta væri skylt atviki sem er sagt hafa gerst á prestssetrinu Ofanleiti í Vestmannaeyjum árið 1836. Þegar vinnukonu varð gengið fram í bæjargöngin sá hún þar standa 12 skinnklædda menn og vissi þá að skip staðarins hefði farist (þannig er sagan í minni mínu).
Um svipað leyti heyrði ég að María var komin á stjá. Gekk hún að herbergisdyrum mínum og knúði dyra. Ég hugsaði sem svo að hún hefði fengið einhverja aðsókn og ætlaði að bjóða mér að bergja með sér á kaffibolla.
um leið og hún opnaði dyrnar hvarf mér þessi tilfinning um fólkið í herberginu.
María tjáði mér að skip hefði farist við Skrúð og væri Hrafn kominn niður í bækistöð björgunarsveitarinnar á Stöðvarfirði. Hefði hann hringt og stungið upp á að ég kæmi þangað.
Greindi ég henni undir eins frá því sem borið hafði fyrir mig.
Enga skýringu kann ég á þessu en ýmsa þekki ég sem orðið hafa fyrir svipaðri reynslu.
Fyrir vikið og vegna þess sem ég varð áskynja við að hlusta á samskipti björgunarmanna hefur þessi atburður grópast í minni mér.


mbl.is - fyrirmyndar vefmiðill

Föstudaginn 1. febrúar hélt mbl.is upp á 20 ára afmæli sitt. Óhætt er að segja að þessi miðill hafi lyft grettistaki í fjölmiðlanotkun blindra og sjónskertra.
Frá upphafi var það haft að leiðarljósi að miðillinn væri aðgengilegur og var fljótlega tekið að bjóða svokallaðan auðlesinn mogga sem veitir aðgang að öllu efni blaðsins.
Öryrkjabandalag Íslands veitti Morgunblaðinu aðgengisverðlaun árið 2003. Enn er það svo að mbl.is er einhver aðgengilegasti fjölmiðill landsins.
Í tilefni afmælisins voru nokkrar úrbætur gerðar á miðlinum og hefur aðgengi að ýmsum hlutum hans stórbatnað.
Ástæða er til að óska þeim Morgunblaðsmönnum til hamingju með afmælið. Jafnframt skal sú fróma ósk lögð fram að aðrir fjölmiðlar, ekki síst Fréttablaðið, taki Morgunblaðið sér til fyrirmyndar.


Ósigur Áslaugar?

Hvar voru konurnar í Sjálfstæðisflokki Reykjavíkur í gær?
Þeir sem eru langræknir og langminnugir efuðust flestir um að Eyþór Arnalds hefði það. Ef til vill voru þeir eða þau öll í öðrum flokkum.
Hugsanlet er að Eyþór höggvi eitthvað í raðir kjósenda annarra flokka ef hann skýrir betur stefnu sína í spítalamálinu, en afstaða leiðtoga stjórnarflokkanna og annarra fylgismanna óbreyttrar staðsetningar Landspítalans jaðrar við firringu.
Vilji menn vinna út frá miðju höfuðborgarsvæðisins er hún hvergi nærri Hringbrautinni. Tekið skal undir orð þeirra sem telja að senn verði alvarlegt skipulagsslys sem erfitt verður að vinda ofan af.


Brimskaflar brotna á forsætisráðherra

Þegar eru brimskaflarnir farnir að brotna á forsætisráðherra.
Eftirlitsnefnd Alþingis er með mál dómsmálaráðherra til athugunar og það getur orðið upphaf ferlis sem undir öllum kringumstæðum nema hér á landi getur leitt til afsagnar ráðherrans. Verði hún neydd til að segja af sér getur hugsast að grátkór fari af stað og harmi aðför að konum. En minnumst þess að Albert Guðmundsson og Guðmundur Stefánsson voru knúnir til að segja af sér og reyndar einnig Hanna Birna.

Þá er það kjararáð og dómar þess.
´Vesaldómur Alþingis hefur verið algjör í þessu máli og er tími til kominn að ráðið verði lagt niður.

Í raun réttri er hægt að búa svo um hnútana að forsendur verði til þess að laun hækki miðað við tilteknar forsendur. Þá eiga aldraðir og fatlað fólk að fylgja með í slíkri þróun auk þjóna kirkjunnar ef þeir verða áram á framfæri hins opinbera.
Orð forsætisráðherra um endurskoðun málefna fatlaðra valda nokkrum áhyggjum. Sporin hræða. Síðast þegar alvörutilraun var gerð til þess að koma skikki á málefni fatlaðra svo að nokkru næmi brá Alþýðuflokkurinn fæti fyrir væntanlegt frumvarp og hafði þó fulltrúi hans í nefndinni einungis sótt einn eða tvo fundi það rúma ár sem nefndin starfaði.
Nú verður að fara að hreinsa til eftir óstjórn síðustu ríkisstjórna í þessum málaflokkum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband