Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Það var magnað að hlusta á flutninginn á Orgelkonserti Jóns Leifs á Proms áðan. Netútsending BBC var til svo mikillar fyrirmyndar að hljóðgæðin nutu sín til fulls í góðum heyrnartólum. Mikið væri þess óskandi að Ríkisútvarpið gæti verið með jafngóðar útsendingar á vefnum. Eins og reynslan hefur verið tel ég víst að alls konar yfirtónar rugluðu hljóminn í útsendingunni. Þetta sárnar sumum Seltirningum vegna þess að hlustunarskilyrðin eru hér ekki upp á hið allrabesta og því viljum við hlusta beint af netinu.
Flutningi konsertsins var gríðarlega vel tekið. Í útsendingunni - og e.t.v. hefur það verið svo í salnum - kaffærði orgelið stundum hljómsveitina. Það gerðist reyndar einnig í Hallgrímskirkju hér um árið, þegar Björn Steinar Sólbergsson flutti konsertinn. Undirritaður var svo heppinn að sitja á 3. bekk og naut flutningsins til fulls. En þeim, sem sátu fyrir aftan 5. bekk vað hann algert tónasull, eins og tónskáld nokkurt komst að orði. Í Albert Hall er tónninn fremur þurr af útsendingunni að dæma.
Stjórnmál og samfélag | 21.8.2015 | 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðasta Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins birtist í Mogganum í gær og vakti talsverða athygli. Lýðum má vera ljóst að Davíð Oddson ritaði bréfið, enda víkur hann að sjálfum sér beinum orðum og er því bréfið merk heimild um afstöðu til verkstjórnar í ríkisstjórn og ráðuneytum.
Þótt bréfið sé á köflum skelmislega skrifað eins og tíðkaðist á meðal MR-nemenda í lok 7. áratugarins er þó margt athyglisvert í málflutningi bréfritara. Þess vegna er það birt hér í leyfisleysi fólki til fróðleiks.
"Seinasta bréf fjallaði um efnahagslegar refsiaðgerðir og viðskiptaþvinganir bæði almennt og svo um síðbúna þátttöku Íslands í slíkum aðgerðum gegn Rússum og loks framlengingu þeirra í pukri.
Skynjuðu ekki alvöruna?
Þarna er um alvarlega aðgerð í eðli sínu að ræða og í tilviki Íslendinga var skyndilega ákveðið að beita mikilvægt viðskiptaland til áratuga refsiaðgerðum.
Í Reykjavíkurbréfinu var, sjálfsagt í barnaskap, gert ráð fyrir því, að íslensk yfirvöld og utanríkisráðuneytið sérstaklega, hefðu unnið sína heimavinnu með fullnægjandi hætti.
Þess vegna lauk Reykjavíkurbréfinu með þessum orðum: Ekki hefur verið upplýst hvort fyrir liggi í utanríkisráðuneytinu skýrsla um það, hvaða efnahagslega áhætta fylgdi því að bjóða Ísland fram sem sjálfboðaliða í refsiaðgerðum. Slík skýrsla hlýtur þó að liggja fyrir og hafa verið kynnt í ríkisstjórn landsins áður en tillögur ráðherrans um refsiaðgerðir voru samþykktar.
Skýrslan hefur vafalítið verið rædd í utanríkismálanefnd, hugsanlega í trúnaði. Það er engin ástæða til að halda þeim trúnaði lengur. Hafi utanríkismálanefnd samþykkt þátttöku Íslands fyrir sitt leyti, eftir að hafa farið rækilega yfir áhættumat vegna þeirrar aðgerðar, er skiljanlegra að nefndin árétti nú í kór fyrra álit sitt án nokkurrar raunverulegrar skoðunar.
En sjálfsagt er og nauðsynlegt að yfirvöld birti almenningi nú þegar áhættumatsskýrsluna svo bera megi þær spár, sem þar koma fram, við þann veruleika sem nú blasir við.
Eftir að hafa stappað svaðið og gefið ljónunum af tröppum Stjórnarráðsins á fjórtánda ár og svo í rúmt ár þar á eftir rjátlað um á ráðherraskrifstofu utanríkisráðuneytisins taldi bréfritari sig vita ekki verr en aðrir, hvaða kröfur væru gerðar til mikilvægra ákvarðana, sem legðu ríkar skuldbindingar á Ísland og í þessu tilviki mjög íþyngjandi skuldbindingar.
Það sem virtist óhugsandi
Það virðist ekki einu sinni hafa verið muldrað upphátt um svo mikilvæg efnisatriði, sem áhættu fyrir íslenska þjóðarbúið, svo færa mætti til bókar í ríkisstjórn eða í utanríkismálanefnd Alþingis.
Á síðasta kjörtímabili tíðkuðust vissulega slík vinnubrögð. Þáverandi forsætisráðherra las ekki samninga um Icesave áður en ríkisstjórnin sem ráðherrann var í forsæti fyrir samþykkti þá. Í framhaldinu gerði ráðherrann svo kröfur til stjórnarþingmanna um að þeir gerðu ólesnir það sama. Hótaði ráðherrann afsögn að öðrum kosti. Stjórnin sú rauk í að breyta stjórnarskrá landsins án þess að nokkur nauð stæði til þess og án þess að gerð hefði verið vönduð áætlun fyrir þær breytingar. Var stjórnarskrárferlið uppfært í sirkusbúning og má því nærri geta hverjir settu gleðiríkastan svip á sýninguna.
Sótt var um aðild að Evrópusambandinu fyrir Íslands hönd án atbeina þjóðarinnar og án þess að rætt hefði verið, innan stjórnarliðs eða í þinginu, hver hlytu að verða ófrávíkjanleg markmið Íslands með slíku.
Síðar kom á daginn að Evrópusambandið er löngu hætt að fara í samningaviðræður við umsóknarríki. Sambandið gengur lengra. Það beinlínis bannar slíkar viðræður og setur fram tilmæli til forsvarsmanna umsóknarríkja að þeir láti vera að ljúga því að löndum sínum að samningaviðræður eigi sér stað! Enginn hefur enn sagt Árna Páli Árnasyni samfylkingarformanni frá þessu og hann hefur ekki leitað neinna upplýsinga og heldur því enn að Ísland hafi farið í aðildarferli undir verkferlum sem tíðkuðust fyrir langa löngu og hafa ekki einungis verið lagðir af heldur beinlínis bannaðir.
Þessi dapurlegu dæmi frá síðasta kjörtímabili og annar slíkur vandræðagangur og óbrúklegt verklag áttu að heyra sögunni til við langþráð stjórnarskipti. En stundum virtist að utanríkisráðuneyti Íslands (og raunar fleiri ráðuneyti) hefði ákveðið að taka ekki þátt í stjórnarskiptunum og bíða ríkisstjórn Sigmundar Davíðs af sér.
Nýja ríkisstjórnin sýndi að hún vildi ekki gera veður út af þessum sérkennilegheitum og gerði aðalsamningamann samningaviðræðna, sem fóru ekki fram, að ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu. Reynslan af því liggur fyrir. Fagráðherrann tekur hins vegar heiti ráðuneytisins alvarlega og heldur sig helst utan ríkis og lætur sína menn (eins og Össur kallaði þá og gerir víst enn) um alla stefnumótun, sem er létt verk, enda stefnan í stórum dráttum óbreytt. Reynslan af því er líka kunn.
En þar sem heimavinna og lágmarksáhættumat vegna aðildar Íslands að refsiaðgerðum gegn Rússum var ekki gert er komið í mikil óefni.
Reyndist enn ömurlegra
En að auki var ekki heldur athugað og kynnt viðeigandi aðilum hvert eðli viðskiptabanns á Rússa er.
Í ljós hefur komið að ekki er um eiginlegar viðskiptalegar þvinganir að ræða heldur diplómatískan bútasaum. Þetta kom vel fram hjá framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í samtali hans við Bylgjuna sl. fimmtudag: Það er engin þjóð í Evrópu, nú hvað þá Bandaríkin eða Kanada, sem hefur viðlíka hagsmuni af viðskiptum við Rússland hvað varðar matvæli, og það eru jú bara matvæli sem eru undir. Það eina sem er lokað á er innflutningur á þeim. Það þarf að hafa í huga að það eru enn þá full viðskipti í gangi á milli þessara landa allra saman. Það eru fluttir inn bílar frá Þýskalandi og tískufatnaður frá Ítalíu, og á móti kemur olía og gas til Þýskalands og Evrópu allrar, en það eru matvæli eingöngu sem þarna lenda undir og það er nú bara svo að Ísland er næststærsti innflytjandi á fiskafurðum til Rússlands af öllum löndum í heiminum og fyrir litla þjóð eins og okkar eru þetta náttúrlega gríðarlega stórir hagsmunir.
Þessar upplýsingar eru svo sem nógu alvarlegar.
En aðrar og mun alvarlegri eru þessar: Þá væri einnig mikilvægt að átta sig á að ekki væri um almennt viðskiptabann að ræða, heldur væri bannið sniðið að þremur þáttum, hergögnum, viðskiptum við tiltekna banka og flutningi og frystingu eigna tiltekinna einstaklinga.
Viðskiptabannið er sem sagt lagað að hagsmunum þeirra sem ákvarðanir tóku um hvernig það skyldi útfært.
Óskoðað mál
Sagði enginn í utanríkisráðuneytinu ráðherranum frá því, þegar hann leit við heima, um hvers konar viðskiptabann væri að ræða? Og ef þeir gerðu það, kom hann þá þeim upplýsingum á framfæri við ríkisstjórnina?
Var ESB og Bandaríkjunum virkilega mikið í mun að fá loforð frá íslenskum yfirvöldum um að selja Rússum ekki hergögn? Eða að þeir hættu viðskiptum við tiltekna rússneska banka? Og að þeir frystu eignir Rússa á Íslandi? Á einhver Rússi eignir á Íslandi? Hélt utanríkisráðuneytið að þetta gæti verið mikilvægur þáttur þar sem svo mörg frystihús væru til staðar hér á landi?
Var enginn sem treysti sér til að upplýsa ESB og Bandaríkin um það, að sá her, sem íslenska ríkisstjórnin óttast mest, er svokallaður bloggher hinna virku á netinu. Þeim her tókst að koma í veg fyrir að Landhelgisgæslan mætti taka á móti fáeinum afskrifuðum vélbyssum Norðmanna, sem fást áttu gefins, áður en rokan hófst, en voru svo metnar fyrir siða sakir á upphæð sem bílasala auglýsti að fengist fyrir tveggja ára gamlan Range Rover.
Hafi bandamenn okkar talið að stórhætta væri á að íslensk yfirvöld kynnu að selja Rússum þessar byssur og þar með breytt valdajafnvæginu í heiminum, þá er sú hætta liðin hjá. Blogghernum og pírötum, sem sögðust kannast við þessi vopn úr tölvuleikjum sínum, má þakka það.
Benda hefði mátt bandamönnum á að teygjubyssur væru ekki lengur framleiddar á Íslandi. Íslensku varðskipin hefðu lengst af notast við danskar fallbyssur sem ekki hefði verið pláss fyrir á danska Þjóðminjasafninu og börn á leikskólaaldri notuðu þær vatnsbyssur sem til eru í landinu. Og hitt væri alkunna að síðasti boginn sem eitthvað mátti sín fór strenglaus með Gunnari í hauginn og Rimmugýgur Skarphéðins væri týnd og lyti þjóðminjalögum ef öxin fyndist. Ekkert fyrir Rússana að hafa þar.
Getur það virkilega verið að íslensk yfirvöld hafi talið nauðsynlegt að létta áhyggjum af vestrænum herveldum svo þau teldu ekki hættu á að Ísland kynni eitt og sér að efla herstyrk annars helsta kjarnorkuveldis heimsins?
Í fullri alvöru
Eða án alls gamans, datt engum einasta manni í hug að refsiaðgerðum gegn Rússum, sem sniðnar voru með framangreindum hætti, gætu Íslendingar ekki tekið þátt í.
Vafalaust er að hefðbundnir bandamenn okkar hefðu skilið þá afstöðu á auga bragði, hefði einhver haft manndóm til að skýra málið. Allir vitibornir menn hefðu séð að Íslendingar væru ekki að skerast úr leik. Þeir hefðu ekkert fram að færa til refsiaðgerða sem þannig voru saumaðar með kúnstsaum.
Hefðbundnir bandamenn okkar myndu aldrei hafa gert kröfu til þess, að Íslendingar yrðu sú þjóð sem mesta áhættu allra tæki vegna þátttöku í þessu veiklulega viðskiptabanni ESB og Bandaríkjanna. Það vita allir að þetta viðskiptabann skiptir engu. Það er olíuverðslækkunin sem gerir Rússum erfitt fyrir. Refsiaðgerðirnar eru hrein sýndarákvörðun. Hvernig gat það gerst að íslensk yfirvöld ákváðu að stefna álitlegum hluta íslensks útflutnings í stórhættu, af þeirri ástæðu einni að fréttir hefðu borist af því, að þriðji sendiráðsritari einhvers staðar hefði náð sambandi við eina aðstoðarskrifstofustjórann í íslenska utanríkisráðuneytinu, sem var í húsinu þegar hinn hringdi vegna málsins.
Hefur utanríkismálanefnd, sem samþykkti allt einum rómi í tvígang, án þess að skoða nokkurt gagn, fengið upplýsingar um það, við hvern íslenski utanríkisráðherrann ræddi áður en hann ákvað að óhjákvæmilegt væri að setja íslenskan útflutning í uppnám vegna refsiaðgerða, sem við gætum ekki lagt neitt til, þótt við fegnir vildum? Var það einvörðungu þriðji sendiráðsritarinn fyrrnefndi sem kom að málinu eða var það aðstoðarmaður hans sem náði í dyravörðinn í íslenska utanríkisráðuneytinu?
Er ekki þetta ball búið?
Hver sér ekki nú að það þarf að binda enda á þennan skaðlega flumbrugang án tafar?
Yfirvöld geta borið sig að með hverjum þeim hætti sem þeim þykir viðeigandi.
En þó er sú undantekning gerð frá þeirri reglu, að fyrsta skrefið í þá átt má alls ekki vera það, að starfsmenn utanríkisráðuneytisins semji bréf til ESB sem ráðherrann skrifi síðan blindandi undir.
Ef það telst vera eina færa leiðin þá er eins gott að henda þessum 35 milljörðum króna í hafið án frekari viðhafnar.
Og svo er auðvitað rétt að trufla ekki utanríkismálanefnd frekar. Sú nefnd hefur í ESB-málinu og nú í þessu rækilega sannað gagnsemi sína. Best er að fá engar fréttir af henni, nema þá helst þegar hún afgreiðir mál einum rómi. Þá er rétt að kynna sér alls ekki niðurstöðuna."
Stjórnmál og samfélag | 16.8.2015 | 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna viðskiptabanns Rússa eru með ólíkindum.
Þegar óeirðirnar urðu í Kænugarði og forsetinn flúði land fór Gunnar Bragi Sveinsson til Kænugarðs að stappa stálinu í Úkraínumenn. Síðan ákváðu Bandaríkin og Evrópusambandið ásamt Noregi, Ástralíu og fleiri ríkjum viðskiptabann á Rússa fyrir framferði þeirra. Íslendingar fylgdu með og reyndu ekki að fara í felur með þá ákvörðun sína. Að því leyti var hann hugrakkari en fyrrum utanríkisráðherra og forsætisráðherra sem settu nafn Íslands á lista fylgispkara ríkja þegar Bandaríkjamenn ákváðu að leggja heilt ríki í rúst.
Þegar viðskiptabannið yfir Rússum var framlengt fylgdu Íslendingar með og höfðu engar áhyggjur. Stjórnvöld og fréttamenn nudduðu í Rússum og minntu þá að þeir yrðu að svara því hvort refsa ætti Íslendingum fyrir tiltækið..
Þegar landhelgin var færð út í 12 mílur árið 1952 settu Bretar löndunarbann á íslensk skip og allt var á leiðinni til kaldra kola hér á landi. Þá björguðu Rússar Íslendingum og hafa keypt af þeim fisk síðan þar til í dag.
Hver bjóst í raun við því að Rússar svöruðu ekki fyrir sig?
Eiga Rússar að miskunna sig yfir smáþjóðir sem taka þátt í því að reka tunguna framan í þá o sýna af sér þá aumingjagæsku að kaupa af smáþjóðunum afurðir vegna þess að þær séu svo mikill hluti þjóðarframleiðslunnar?
Úr því að Framsóknarflokkin skorti ekki hugrekki að standa við kosningaloforðin og eyða á milli 80 og 90 milljörðum í það að lækka skuldir sumra heimila án þess að setja nokkurt þak á tekjur þeirra sem bæturnar hlutu, hlýtur flokkurinn að vera reiðubúinn að axla ábyrgðina á utanríkisstefnu sinni og sýna Rússum að Íslendingar láti ekki eitthvert árásarveldi auðmýkja sig.
"Ég held að menn ættu að hugsa áður en þeir framkvæma," sagði viðmælandi nokkur við höfund þessa pistils þegar Gunnar fór til Kænugarðs í hughreystingarstríðið.
Stjórnmál og samfélag | 13.8.2015 | 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í gærkvöld lauk miðsumarshátíðinni sem Víkingur Heiðar Ólafsson, slaghörpuleikari, stóð fyrir í fjórða skipti. Hátíðin var fjölbreytt og með ólíkindum hvað fólki gafst kostur að velja um.
Ég átti þess kost að hlýða á upphafstónleikana í útvarpi austur á Stöðvarfirði og við Elín sóttum lokatónleikana í gær. Hvílík snilld sem borin var á borð!
Umbúnaður var allur hinn vandaðasti og kynningar Oddnýjar Höllu Magnúsdóttur til fyrirmyndar.
Ekki skulu lofaðir einstakir listamenn. En Víkingur Heiðar, sem ber höfuð og herðar yfir aðra íslenska slaghörpuleikara að þeim ólöstuðum, sýndi á hátíðinni hversu fjölhæfur hann er.
Öllum aðstandendum, hljóðfæraleikörum sem hönnuðum og skipuleggjendum eru fluttar einlægar hamingjuóskir með hátíðina með von um að þjóðin fái meira að heyra á næstu árum.
Stjórnmál og samfélag | 22.6.2015 | 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Framsóknarflokkurinn, elsti stjórnmálaflokkur Íslands, er kominn með öldrunarheilkenni sem kemur æ oftar í ljós. Er hér um að ræða vænisýki og vott af ofsóknarbrjálæði sem birtist er síst skyldi.
Alkunnugt er hvernig Framsóknarmenn hafa fjallað um meintar ofsóknir á hendur sér í fjölmiðlum og um tíma var Fréttastofa Ríkisútvarpsins jafnvel lögð í einelti. Fyrir nokkru hafði einn þeirra orð á því að Kjarninn væri genginn í lið með Samfylkingunni og gengi nú erinda hennar gegn Ríkisstjórninni.
Í dag birti Ríkisútvarpið viðtal við gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra, þar sem hann taldi vafasamt að formaður BHM ynni af heilindum að kjarasamningum, enda væri hann fyrrum þingmaður og framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar.
undirrituðum varð ærið brugðið við þessa yfirlýsingu. Ætíð er það svo að einhverjir einfeldningar ganga erinda flokks síns á vetvangi félaga eða samtaka sem þeir starfa fyrir. Ég hygg þó að það sé fátítt á seinni árum að slíkt gerist. Samtök eins og ASÍ, BSRB, BHM og hin ýmsu stéttafélög í landinu eru með innan sinna raða fólk úr öllum flokkum og fylkingum. Lýðræðislegt kjör forystunnar ætti því að koma í veg fyrir að ákveðnir flokksgæðingar beittu hagsmunasamtökum í blóra við meginþorra félagsmanna.
Á tímabili voru tveir forystumenn samtaka Öryrkja, Öryrkjabandalags Íslandsog Sjálfsbjargar, í Framsóknarflokknum. Annar lést langt fyrir aldur fram en hinn sagði sig úr flokknum 1. desember 1998. Sjaldan held ég að þeir hafi verið vændir um að ganga erinda ákveðins flokks í kjarabaráttu fatlaðra. Hins vegar kom það sér einatt vel að þeir áttu greiðan aðgang að ríkisstjórnum sem sátu fram yfir 1990, en frá og með myndun Viðeyjarstjórnarinnar syrti heldur í álinn. Engu virtist breyta þótt þessir Framsóknarmenn hyrfu af vettvangi baráttunnar. Þótt annar þeirra birtist aftur um stundarsakir um síðustu aldamót skipti engu þótt hann stæði utan flokka. Hann vann að kjaramálum öryrkja af heilindum en þurfti þess í stað að þola óheilindi fyrrum flokksfélaga sinna sem sviku gefin loforð fyrir kosningarnar 2003 og Framsóknarmenn hafa ekki séð ástæðu til að efna þau síðar.
Framsóknarmenn eru ekki yfir gagnrýni hafnir og vafalaust ekki verkalýðshreyfingin heldur. En það má teljast nokkur einfeldningsháttur utanríkisráðherrans ef hann ímyndar sér að forystumenn samtaka launamanna gangi erinda einhvers flokks með það að markmiði að knésetja einhvern stjórnmálaflokk. Með slíkum ummælum blæs hann í glæðurnar og eykur enn á það ófriðarbál sem nú ríkir á vinnumarkaðinum.
Að tala er silfur, en þegja er gull, Sagði Helgi Benediktsson iðulega. Utanríkisráðherran ægi að velta þessu spakmæli fyrir sér áður en hann gefur út næsti yfirlýsingu.
Stjórnmál og samfélag | 7.6.2015 | 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Komið er upp alvarlegt aðgengisvandamál sem taka þarf á.
Nokkur ráðningafyrirtæki, kaupstaðir og stórfyrirtæki hafa keypt sérstakt ráðningakerfi af fyrirtækinu Tölvumiðlun. Við fyrstu sýn reynist kerfið vel uppbyggt og flest aðgengilegt. en þegar kemur að því að velja gögn, sem miðla á með atvinnuumsókn svo sem myndum og skjölum, vandast málið. Hið sama á við um vistun og sendingu umsóknarinnar. Skjálesarinn NVDA virðist ekki ráða við þetta, hvaða brögðum sem beitt er og les hann þó flest, ef aðgengisstaðlar eru virtir. Fyrst hélt undirritaður að vandinn væri eingöngu bundinn við vistunarhnappinn, en svo er ekki.
Eins og vakin var athygli á fyrir skömmu fer því fólki fjölgandi hér á landi sem komið er yfir sextugt og er vant tölvum. Flestir, sem eru sjóndaprir eða blindir, eru einmitt á aldrinum um og yfir sextugt. Þessi hópur hlýtur að krefjast sama aðgengis að upplýsingum og tölvukerfum sem hann hafði áður.
Fyrirtækinu Tölvumiðlun hefur nú verið skrifað öðru sinni og það hvatt til aðgerða. Fleiri þarf til svo að árangur náist. Jafnframt þyrfti Þekkingarmiðstöðin að prófa kerfið með þeim skjálesurum sem í boði eru og þingmenn verða að huga að löggjöf um upplýsingaaðgengi.
Þeim, sem eru blindir eða verulega sjónskertir og sækja um vinnu á almennum markaði hlýtur að hrjósa hugur við því að teljast eins konar gölluð vara. en gallinn er ekki í einstaklingnum heldur hugbúnaðinum sem virðist ekki réttilega hannaður og leggur því stein í götu þeirra sem vilja bjarga sér sjálfir.
Stjórnmál og samfélag | 8.5.2015 | 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sitthvað rekur á fjörur manns á vefnum.
Eitt af elstu hagsmunafélögum landsins heldur senn aðalfund sinn. Þótt ég sé ekki í þessu félagi ákvað ég að skoða hverjir biðu sig fram ti stjórnar, enda þekkti ég allvel til þar á bæ fyrir nokkrum árum. Varð ég þess var að félagsmenn, sem vinna á vegum þess, væru í framboði.
Á 9. og 10. áratug síðustu aldar komu upp alvarleg mál í félaginu þar sem menn sátu báðum megin við borðið, sem stjórnarmenn og launþegar. Leiddi það til þess að útilokað var að leysa ákveðin ágreiningsmál og urðu úr því mikil særindi. Íslendingar virðast seint ætla að skilja hvað það þýðir að blanda saman skyldum hagsmunum. Þótt þetta fólk sé í alla staði ágætir einstaklingar rekur fyrr eða síðar að því að hagsmunaárekstrar verði og það viti ekki í hvorn fótinn eigi að stíga.
Starfsfólk hagsmunafélaga þykist oft ekki hafa nægileg áhrif á stjórn þeirra. Þó hefur starfsfólkið betri aðgang að forystu þeirra en flestir félagsmenn. Iðulega er hlustað á röksemdir starfsfólksins Það er skárra að sitja öðrum megin borðsins en að hrekjast e.t.v. á brott með særindum og jafnvel skömm.
Stjórnmál og samfélag | 7.5.2015 | 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er ekki heiglum hent að semja einleik fyrir útvarp. Þótt "Og svo hætti hún að dansa" eftir Guðmund Ólafsson sé ekki að öllu leyti einleikur byggir verkið á hugsunum eins manns sem rifjar upp fortíð sína. Hugrenningatengslin, elliglöpin og samviska mynda þvílíka heild að hlustandinn getur vart hreyft legg eða lið - verður að fylgjast með framvindu verksins.
Leikstjórn og leikur voru til fyrirmyndar. Þó hefði "Gamli" stundum mátt vera nær hljóðnemanum. Vafalaust hefur leikstjórinn viljað að hlustendur gleymdu því ekki að þeir væru staddir í íbúðarhúsi þar sem gamall maður reikaði um með hugrenningar sínar, sem íþyngdu honum.
Það orkaði tvímælis, þegar brugðið var upp hljóðmynd úr strætisvagni, að það skyldi heyrast í leiðsögn vagnsins, nema gamli maðurinn hafi farið á eftirlaun frá Strætó um árið 2012. Ef til vill á leikurinn að gerast nær okkur í tíma en við héldum.
Full ástæða er til að óska höfundi, leikstjóra, leikurum og ekki síst Útvarpsleikhúsinu til hamingju með þetta prýðilega listaverk.
Stjórnmál og samfélag | 3.5.2015 | 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er rétt og skylt að greina frá því sem vel er gert.
Samskipti mín við Tryggingastofnun ríkisins, Vinnumálastofnun og atvinnumiðlanir hafa verið með ólíkindum að undanförnu. Tryggingastofnum brást skjótt við breytingum á tekjuáætlun, ábendingum um skort á apgengi hefur verið tekið vel og svona mætti lengi telja. Hið sama á við um fyrirtækið Tölvumiðlun, sem hannað hefur ráðningakerfi sem margir notast við. En þar er ákveðinn þröskuldur sem skjálesarar geta ekki yfirstigið.
Skilningur vex
Viðhorf til viðskiptamanna hafa tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Ber þar margt til: opnari samskipti með tilkomu Netsins, betri fræðsla starfsmanna og aukinn áhugi á að starfa að markmðum sem sett hafa verið. Þannig hafa starfsmenn Tryggingastofnunar gjarnan skráð hjá sér athugasemdir sem undirritaður hefur gert.
Ég hef áður minnst á það á opinberum vettvangi hversu knýjandi nauðsyn ber til að fjallað verði um upplýsingaaðgengi blindra og sjónskertra á opinberri ráðstefnu eins og þeirri sem Öryrkjabandalagið efndi til árið 2003. Einstaklingur, sem á sér í raun engan sérstakan bakhjarl, getur ekki að eigin frumkvæði blásið til slíks fundar, en það geta stór og fjölmenn samtök gert.
Alþingi brást
Alþingi hefur gersamlega brugðist í upplýsingaaðgengi fatlaðra. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar árin 2007-2013 og samræður við ónefnda þingmenn var málið þæft með þeirri þrætubókarlist sem sumir hafa lært af lögfræðingum og ekkert gerðist. Þó er löggjöf ýmissa nágrannaríkja okkar í þessum efnum lýsandi dæmi um það sem Íslendingar geta gert.
Námi ábótavant
Ég óttast að lítið sé fjallað um aðgengi þegar kennd er hugbúnaðargerð. Sem dæmi má nefna hið ágæta fyrirtæki Stokk sem hannar forrit í snjallsíma og spjaldtölvur. Þeir vissu fyrir skömmu lítið sem ekkert um hvað aðgengi var. Þeim hefur verið bent á annmarka í forritum sem Stokkur hefur hannað og ekkert bendir til að mark hafi verið tekið á þeim ábendingum. Hið sama á við um Símann og önnur fyrirtæki sem hanna snjallsímaforrit og nýjasta dæmið er Útsvars-smáforritið, þar sem skortir talsvert á aðgengi. Í raun og veru brýtur Ríkisútvarpið lög með því að auglýsa forritið í þáttum sínum.
Þessi vettvangur er e.t.v. ekki sá heppilegasti fyrir þessa umræðu og þeir eru ekki margir lesendur í netheimum sem hafa áhuga á þessum málaflokki og deila pistlum um þetta sérstaka málefni með vinum sínum. en þó verður leitast við að hamra járnið á meðan það er að hitna.
Stjórnmál og samfélag | 30.4.2015 | 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá er komið í ljós hver er höfundur leyniskýrslnanna sem Sigmundur Davíð fjallaði um á flokksþingi Framsóknarflokksins um daginn og sumir töldu ímyndun. Morgunblaðið birti um það ítarlega fréttaskýringu í dag.
Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Pólitískur óstöðugleiki, viðvaningsháttur stjórnvalda og völt staða seðlabankastjóra eru meðal umfjöllunarefna Einars Karls Haraldssonar almannatengils í skýrslum sem hann ritar fyrir kröfuhafa föllnu bankanna um þróun mála á Íslandi.
Skýrslurnar, eða fréttabréfin, eru á einfaldri ensku og er látið ógert að laga málfar og málvillur. Einar Karl vitnar reglulega í forystumenn ríkisstjórnarinnar og álitsgjafa til að bregða upp mynd af þróun mála. Það er algengt stef að vinna við afnám hafta gangi hægt og að deilt sé um heppilegustu leiðirnar.
Skýrslurnar sem Morgunblaðið hefur undir höndum eru frá 6. mars 2014 til 30. janúar á þessu ári.
Vitnað í heimildarmenn á þingi
Í þeirri fyrstu, sem er númer 54 og dagsett 6. mars 2014, vitnar Einar Karl í heimildarmenn á Alþingi.
Miðað við það sem ég heyri úr þinginu var ekki mikið að græða á viðræðufundi sérfræðingahópsins með fulltrúum þingflokkanna. Það kom ekkert nýtt fram í greiningunni en framsetning gagna var þó ef til vill eitthvað frábrugðin. Hvað veldur þessari tregðu við að setja hlutina á borðið? Ástæðan er sögð sú að ríkisstjórnin óttist að með því að gera það muni hún svipta hulunni af áætlun sinni og taktík eða skorti á þessu tvennu, sé raunin sú að enn séu uppi ólík sjónarmið innan ríkisstjórnarinnar um hvernig nálgast eigi málið, skrifar Einar Karl en hér er lauslega þýtt úr ensku.
Athygli vekur að í skýrslu númer 52, dagsettri 16. mars, skrifar Einar Karl að Ísland hafi verið lítillækkað í samningaviðræðum um makríl [e. humiliation of Iceland], með því að Ísland hafi verið undanskilið í viðræðum ESB, Noregs og Færeyja. Málið vitni um vaxandi einangrun Íslands í alþjóðamálum.
Í næstu skýrslu, númer 53, dagsettri 29. mars, skrifar Einar Karl að íslensk stjórnvöld séu ekki tilbúin til aðgerða til afnáms hafta.
Í sömu skýrslu fjallar hann um sex messíasa í ráðgjafanefnd sem skipuð var af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra hinn 27. nóvember 2013. Í skýrslu númer 55, dagsettri 12. apríl 2014, skrifar hann að heimalningar í nefndinni [e. homegrown experts] séu þekktir fylgismenn gjaldþrotaleiðar. Þeir hafi séð um kynningu á niðurstöðum hópsins. Sérfræðingar með meiri alþjóðlega reynslu hafi hins vegar gufað upp, að formanni hópsins, Sigurbirni Þorkelssyni meðtöldum. Sá hafi verið settur af [e. decapitated]. Með honum í hópnum voru Eiríkur Svavarsson, Jón H. Egilsson, Jón B. Jónsson, Ragnar Árnason og Reimar Pétursson. Benedikt Árnason og Benedikt Gíslason unnu með þeim.
Gagnrýnendur komnir í stjórn
Þá skrifar Einar Karl á sama stað að höfundar nýs Fjármálastöðugleika Seðlabankans styðji ekki gjaldþrotaleiðina. Því næst vitnar Einar Karl í grein Jóhannesar Rúnars Jóhannessonar, hæstaréttarlögmanns og starfsmanns skilanefndar Kaupþings, og aðvörunarorð hans um gjaldþrotaleiðina. Það skorti á opinbera stefnu um framtíðareignarhald Arion banka. Hann hefur auðvitað á réttu að standa að stjórnvöld og Seðlabankinn fara í kringum þetta mál eins og kettir í kringum heitan graut, skrifar Einar Karl sem kvaðst greina tækifæri í því að forsætisráðherra og flokkur hans hefðu misst einokun sína, eða því sem næst, á umræðu um skuldamál og tillögur um lausnir í skuldamálum. Það hafi komið honum á óvart að skrif Jóhannesar Rúnars skyldu ekki vera gagnrýnd. Skýringin kunni að vera sú að líklegir gagnrýnendur séu nú uppteknir við að stjórna ríkinu.
Í sömu skýrslu skrifar Einar Karl að óþreyju gæti meðal innlendra aðila. Ný snjóhengja sé að myndast af krónum í eigu innlendra aðila á borð við lífeyrissjóðina.
Í skýrslu númer 56, dagsettri 3. maí 2014, skrifar Einar Karl að augljóst sé að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi misst vald til sjálfstæðra ákvarðana. Það sé almennt álitið ólíklegt að hann bjóði sig fram til 5 ára í viðbót. Sú spá var röng.
Á sama stað vitnar Einar Karl í leiðara Kjarnans 1. maí í fyrra um að samstaða sé meðal heimildarmanna ritsins um að fara gjaldþrotaleiðina.
Svo skrifar hann að önnur mynd komi fram þegar rætt sé við heimildarmenn sem standa nærri ríkisstjórninni. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sé alfarið á móti gjaldþrotaleiðinni. Það sama megi segja um hagfræðinga í áðurnefndri ráðgjafanefnd.
Ríkisstjórnin geti splundrast
Sumir innanbúðarmenn í ríkisstjórninni eru þeirrar skoðunar að þrálæti varðandi gjaldþrotaleiðina geti leitt til þess að ríkisstjórnin liðist í sundur, skrifar Einar Karl.
Á sama stað segir af fundi Sigmundar Davíðs og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, í Hollandi, sem lítið hafi farið fyrir [e. silent diplomacy]. Vekur sú greining athygli því sagt var frá fundinum í fjölmiðlum.
Í skýrslu númer 60, dagsettri 7. júní 2014, vitnar Einar Karl í ræðu Bjarna Benediktssonar á fundi hjá Fjármálaeftirlitinu. Þar hafi komið fram að nefnd um afnám hafta yrði stofnuð og að erlendir sérfræðingar yrðu fengnir til ráðgjafar. Skrifar Einar Karl að líta megi á þá miklu breytingu á ferlinu sem Bjarni hafi boðað sem aðeins enn annað skref hjá ríkisstjórninni í þeirri leikáætlun hennar að fresta ákvörðunum þar til kröfuhafar gefa eftir.
Hálfum mánuði síðar, í skýrslu 62, dagsettri 21. júní 2014, skrifar Einar Karl að fyrstu skref Bjarna í haftaferlinu hafi verið viðvaningsleg.
Í skýrslu númer 63, dagsettri 24. júlí 2014, skrifar Einar Karl að eftir að hafa varið ári í að gæla við heimatilbúnar lausnir hafi íslensk stjórnvöld ráðið hóp alþjóðlegra ráðgjafa til að aðstoða við ferlið að lyfta fjármagnshöftum. Umgjörð ríkisstjórnarinnar líkist orðið mjög skipulagningu ráðgjafar við kröfuhafa.
Í síðustu skýrslunni sem Morgunblaðið hefur undir höndum, sem er númer 74 og dagsett 30. janúar, segir Einar Karl það skoðun sína að uppsetning starfshóps um afnám hafta, m.a. með nýju fólki, bendi til að verið sé að undirbúa hið eina skot sem Íslandi muni leyfast í einvíginu framundan. Er þar vitnað til myndlíkingar seðlabankastjóra.
Ný þriggja flokka stjórn til umræðu
- Framsókn var sögð á leið úr stjórn Einar Karl telur í skýrslu númer 54, dagsettri 6. mars í fyrra, að augljóst sé að nýr ESB-flokkur frá hægri sé í undirbúningi. Bent hafi verið á að afhroð í sveitarstjórnarkosningum hafi leitt til skipta á stóli forsætisráðherra. Voru þá tæpir tveir mánuðir í sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí. Vísar Einar Karl til vangaveltna um að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, muni senn mynda ríkisstjórn með Bjartri framtíð og Samfylkingu. Einar Karl tekur þó fram að þingmenn telji þetta firru. Til upprifjunar spruttu deilur í febrúar í fyrravetur vegna þingsályktunartillögu um afturköllun ESB-umsóknarinnar. Var þá rætt um stjórnmálaaflið Viðreisn.
Hafi tapað ESB-umræðunni
Í skýrslu númer 52, dagsettri 16. mars 2014, skrifar Einar Karl að ríkisstjórnin hafi orðið undir í umræðunni um ESB-málið.
Í skýrslu númer 61, dagsettri 16. júní 2014, kemur ESB enn og aftur við sögu hjá Einari Karli þegar hann vitnar í orðróm um að fulltrúar ESB hafi lýst því yfir við EFTA-dómstólinn að verðtrygging neytendalána á Íslandi stangist á við tilskipanir og reglugerðir ESB. Sé það rétt gæti Ísland verið í djúpum skít, skrifar Einar Karl og getur þess að íslenska krónan sé óskiptanleg [e. unconvertible]. Þá skrifar hann að lesendur sínir geti fagnað; Már Guðmundsson hyggist aftur sækja um embætti seðlabankastjóra. Hann útskýrir ekki hvers vegna. Hafði Einar Karl áður skrifað í skýrslu númer 53, dagsettri 29. mars, að dómur EFTA-dómstólsins um verðtrygginguna gæti reynst koss dauðans fyrir íslensku krónuna. Sú hrakspá rættist ekki.
Stjórnmál og samfélag | 30.4.2015 | 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Sept. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | |
7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 |
14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 |
21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 |
28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.9.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 320316
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar