Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Í þessu var mér boðið að láta mér falla vel við síðuna "Burt með ríkisstjórnina".
Nú er ég í talsverðum vanda því að óvíst er hvað tekur við. Ég viðurkenni fúslega að mér ofbýður ýmis siðblinda sem ráðherrar eru haldnir, svo sem launahækkanir langt aftur í tímann og talnaleikur sem til þess er fallinn að blekkja fólk.
Vissulega geri ég mér grein fyrir að framlög til lífeyrismála fatlaðra og aldraðra hafa hækkað að krónutölu, en þetta eru samt þeir hópar sem yfirleitt er fyrst níðst á þegar þarf að hagræða í ríkisfjármálum.
Þá geri ég mér einnig grein fyrir að aldraðir og öryrkjar eiga erfitt uppdráttar þar sem verkfallsrétturinn er enginn.
Þetta eru engin ný sannindi. Á þetta var bent þegar árið 1986 og þá var í fyrsta sinn ámálgað framboð á vegum fatlaðra. En núverandi forysta þykist hafa fundið upp þennan sannleika og vitnar aldrei til fortíðarinnar.
Um jólaleytið 1986 tókst að mestu að hrinda árás þáverandi ríkisstjórnar á Framkvæmdasjóð fatlaðra, en til þess þurfti mikla baráttu stórfund á Hótel Borg og Austurvelli, atfylgi allra fjölmiðla og persónuleg samtöl við ráðherra. Er ekkert slíkt fyrir hendi lengur? Er Öryrkjabandalag Íslands alveg máttlaust í höndunum á ófötluðum formanni? Hvernig stendur á að fatlað fólk í forystusveit Öryrkjabandalagsins er ekki áberandi lengur?
En aftur að upphafi málsins: Þeir, sem eru á örorkulífeyri einum saman lepja dauðann úr skel. Þeir eiga ekki aðgang að lífeyrissjóðum. Þegar þetta fatlaða fólk verður 67 ára er það svipt aldurstengdri örorkuuppbót. Það er eitt dæmið um svikin sem Framsóknarflokkurinn lét sér sæma eftir orrahríðina vegna öryrkjadómsins árið 2000, en samkomulag tókst um aldurstengdu örorkuuppbótina í mars 2003.
Skilið aldurstengdu örorkuuppbótinni til þeirra sem eiga rétt á henni og hækkið örorkulífeyrinn í samræmi við launahækkanir í landinu. Annað er brot á lögum um almannatryggingar.
Stjórnmál og samfélag | 10.12.2015 | 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það eru mikil gleðitíðindi að sýknudómur skyldi falla í héraðsdómi Reykjavíkur í þessu máli. Miðað við þær forsendur sem lagt var upp með var vart ásættanlegt að fara fram á sakfellingu. Vonandi unir ríkissaksóknari dóminum og áfrýjar ekki. Ástu Kristínu eru fluttar árnaðaróskir.
Stjórnmál og samfélag | 9.12.2015 | 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nokkur umræða hefur orðið á samfélagsmiðlum um orð forseta Íslands um hryðjuverkamenn og Schengen. Ýmsir hafa slitið þau úr öllu sambandi og einna verstur varð áfellisdómur Baldurs Þórhallssonar sem sneri flestu á hvolf samkvæmt eigin sannfæringu og hélt því fram í útvarpsviðtali að forsetinn væri orðinn sundrungarafl á meðal þjóðarinnar.
Ég fjallaði í athugasemd á Facebook um Íslamdsþáttinn, en lét Schengen eiga sig. Ég benti á þá staðreynda að Islam er sprottið upp úr sýrlensku kirkjunni og er gyðingdómur sameiginlegt upphaf kristni og Islam, sem urðu í raun ekki sérstök trúarbrögð fyrr en á 10. öld og sums staðar í Evrópu ekki fyrr en um 1100 og jafnvel síðar. Í þeirri athugasemd kom jafnframt fram að líkur bendi til þess að Múhameð spámaður hafi aldrei verið til heldur sé vitnað til spámannstitilsins Mohammad, sem þýðir hinn blessaði á Arameísku, sem var móðurmál Krists og á því tungumáli er eitt af heitum Guðs Allah.
Framsóknarmaðurinn Halldór Ásgrímsson er sagður hafa þrýst mjög á að Íslendingar gengju í Schengen-samstarfið og er sagður jafnvel hafa hótað Davíð Oddssyni stjórnarslitum ef ekkert yrði af því.
Ýmisleg í Schengensamstarfi Íslendinga hefur farið eftir því sem Bjarni heitinn Einarsson, fyrrum bæjarstjóri á Akureyri spáði á flokksþingi Framsóknarmanna árið 1996, en þá kom í ljós að í utanríkisnefnd flokksins höfðu einungis þrír fulltrúar lesið samninginn í heild sinni - Við Bjarni og Siv Friðleifsdóttir. Formaður nefndarinnar hafði einungis fengið kynningu á samningnum, eins og hann orðaði það.
Morgunblaðið tekur þetta mál upp í leiðara í morgun og birtir útdrátt úr grein fyrrum forstjóra Interpol. Fer leiðarinn hér á eftir.
"Evrópa býður hryðjuverkamenn velkomna, er fyrirsögn greinar eftir Ronald K. Noble, sem var forstjóri Interpol frá árinu 2000 til 2014. Umfjöllun hans er sláandi, ekki aðeins vegna þess sem hann segir, heldur einnig vegna þess starfs sem Noble gegndi þar til fyrir skömmu. Orð hans fá annað og meira vægi fyrir vikið og verða ekki afgreidd með því að hann hafi ekki þekkingu eða skilning á umfjöllunarefninu.
Noble segir að opin landamæri Evrópu, sem geri mönnum kleift að ferðast á milli 26 landa án vegabréfaeftirlits eða landamæravörslu, sé í raun alþjóðlegt vegabréfalaust svæði þar sem hryðjuverkamenn geta framið árásir á meginlandi Evrópu og komist undan. Þetta segir hann augljósasta lærdóminn af skelfilegu hryðjuverkaárásunum í París á dögunum, en jafnframt þann sem bjóði upp á einfalda lausn: Það ætti að leggja til hliðar hin opnu landamæri, og hvert og eitt af þátttökuríkjunum ætti tafarlaust að bera öll vegabréf kerfisbundið saman við gagnagrunn um stolin og glötuð vegabréf sem alþjóðlegu lögreglusamtökin Interpol halda úti. Noble segir ekkert ríkjanna hafa skimað vegabréfin í aðdraganda nýjustu árásanna, og segir svo: Þetta er líkt því að hengja upp skilti þar sem hryðjuverkamenn eru boðnir velkomnir til Evrópu. Og þeir hafa þegið þetta heimboð.
Noble bendir á að Bretar, sem hafi byrjað að bera vegabréf saman við gagnagrunn Interpol í kjölfar hryðjuverkaárásanna 2005, skoði nú um 150 milljón vegabréf á ári, meira en öll hin ríki Evrópusambandsins samanlagt, og finni þannig meira en 10.000 einstaklinga á ári sem séu að reyna að komast inn í landið.
Í gagnagrunni Interpol séu yfir 45 milljón vegabréf og skilríki sem hafi týnst eða verið stolið og Bandaríkin, sem hafi forystu um landamæravörslu í heiminum, beri meira en 300 milljónir gagna árlega saman við gagnagrunn Interpol. Bandaríkin eru öruggari fyrir vikið, segir Noble, sem bendir á að opin landamæri án viðeigandi eftirlits með skilríkjum séu vatn á myllu hryðjuverkamanna. Það er einfaldlega óábyrgt að kanna ekki gaumgæfilega öll vegabréf eða kanna auðkenni við landamæri á tímum alþjóðlegrar hryðjuverkaógnar, segir Noble, og bætir við að löng reynsla hans segi honum að það sé mun líklegra að hryðjuverkamönnum takist að fremja ódæðisverk sín ef ríki kanna ekki almennilega skilríki þeirra sem fara yfir landamæri þeirra.
Hér á landi hafa umræður um Schengen verið á villigötum og byggst á þeirri tálsýn að ytri landamæri svæðisins séu varin. Nú er komið í ljós með óyggjandi hætti að svo hefur ekki verið og litlar líkur á að svo verði nokkurn tímann, í það minnsta ekki í náinni framtíð.
Þá hefur því verið haldið fram að aðild að Schengen sé forsenda þess að geta haldið uppi nauðsynlegu eftirliti með glæpamönnum, en það hafa því miður reynst öfugmæli. Og eins og fram kemur í skrifum fyrrverandi forstjóra Interpol er aðgangur að gagnabanka þeirrar alþjóðlegu löggæslustofnunar fjarri því að vera háður því skilyrði að ríki séu í Schengen-samstarfinu.
Áköfustu áhugamenn um sífellt aukinn samruna innan Evrópusambandsins mega ekki heyra á það minnst að fallið sé frá mislukkuðu Schengen-samstarfinu, enda telja þeir samstarfið mikilvægt skref í átt að markmiðinu um evrópskt stórríki sem er öllu öðru heilagra. Slíkir menn hafa stigið fram og kvartað sáran undan umræðunni um Schengen hér á landi, meðal annars vel ígrunduðum varnaðarorðum forseta Íslands.
Engan þarf að undra að þeir sem taka engum rökum þegar kemur að þróuninni innan Evrópusambandsins eða aðildarumsókn Íslands að sambandinu skuli einnig þráast við í tengslum við Schengen-umræðuna nú. Erfiðara er að sjá hvers vegna þeir sem ekki sjá Evrópusambandið sem upphaf og endi alls vilja verja þetta misheppnaða og hættulega landamærasamstarf."
Stjórnmál og samfélag | 24.11.2015 | 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sú vitundarvakning sem nú er að verða í loftslagsmálum er lofsverð. Hún hlýtur að leiða til þess að notkun rafmagns aukist mjög á næstu árum. Munar þar mestu um samgöngur - opinberar sem einkabíla, fiskimjölsverksmiðjur, skipaflotann o.fl. Nú þegar hagkvæmustu orkukostirnir hafa verið virkjaðir er mörgum ofarlega í huga hvort Íslendingar eigi næga orku handa sjálfum sér. Sumir vilja leggja sæstreng til Skotlands til þess að selja Bretum agnarsmátt brot þeirrar hreinu orku sem þeir þurfa en talsverðan hlut af orku okkar.
Nú má búast við á næstu árum að orkunotkun fari vaxandi á næturnar þegar bifreiðareigendur fara að hlaða farkosti sína svo að þeir verði nothæfir morguninn eftir.
Er ekki kominn tími til að Íslendingar hugsi um eigin hag í orkumálum í stað þess að einblína eingöngu á hagsmuni erlendra stórfyrirtækja? Verður það ekki okkar stærsti skerfur til varðveislu andrúmsloftsins?
![]() |
103 skrifuðu undir yfirlýsingu í Höfða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 16.11.2015 | 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Síðustu dagar Kjarvals, sem Útvarpsleikhúsið flutti í dag, eftir Mikael Torfason er meistaraverk á allan hátt. Leikur, leik- og hljóðstjórn voru með miklum ágætum og nálgunin sannfærandi.
Um leið og hlustað var rifjuðust ýmsar sögur upp af Kjarval, svo sem sú að Jónas frá Hriflu vildi sæma hann riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á afmæli hans 1935, en aðrir mótmæltu og sögðu að hann gæti átt það til að hengja hana aftan á sig og ganga með hana um Austurvöll - og svo vandræðagangurinn þegar hann var loksins sæmdur fálkaorðunni og neitaði að taka við henni. Tekinn var af öllum viðstöddum þagnareiður nema Hjálmtý Péturssyni sem sagði söguna. Jóhannes Kjarval var sjálfstætt ólíkindatól sem lét þjóðarandann aldrei segja sér fyrir verkum.
Þau ár sem Kjarval dvaldi á Landakoti og síðar Borgarspítalanum fóru einnig af honum sögur. Og þegar hann lést var eins og hluti þjóðarsálarinnar hefði dáið með honum. Til hamingju með þetta góða höfundarverk, Mikael Torfason og aðrir aðstandendur.
Stjórnmál og samfélag | 15.11.2015 | 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þessi pistill var skrifaður á meðan á útvarpsprédíkun stóð.
Um þessar mundir flytur séra Hjörtur Magni Jóhannsson útvarpsprédíkun úr Fríkirkjunni við Tjörnina. Hún er full af stóryrðum í garð Þjóðkirkjunnar og flokkast í raun undir hatursáróður eins og dunið hefur á eyrum hlustenda þegar presturinn tekur til máls í útvarpi.
Þótt Þjóðkirkjan sé ekki til fyrirmyndar að öllu leyti er þó engin ástæða til að ausa hana auri og svívirða starfsmenn hennar eins og séra Hjörtur Magni gerir í prédíkun sinni með því að líkja kirkjunni við levíta eða presta Gyðinga á dögum krists.
Vafalaust er það fjárskorturinn sem rekur hann til þessarar ókristilegu prédíkunar. Úr því að söfnuðurinn, sem klauf sig úr Þjóðkirkjunni, hefur ekki lengur áhuga á að leggja tíund a af eigum sínum til stofnunarinnar, er þá nokkuð annað en að leggja söfnuðinn niður? Þá gæti séra Hjörtur Magni stofnað sinn einkasöfnuð þar sem hann gæti prédíkað í friði um hatur sitt og andstyggð á Þjóðkirkjunni.
Í raun fer það að verða tímaskekkja að útvarpsmessur séu á dagskrá ríkisfjölmiðils. Í tæknivæddu samfélagi nútímans ætti hverri kirkju að vera í lófa lagið að senda út messur sínar á netinu. Þá gætu hlustendur valið messu til að hlusta á í stað þess að njóta eða þurfa að þola ræður eins og þá sem prestur Fríkirkjunnar við Tjörnina hefur flutt í dag.
Séra Hjörtur Magni ætti að breyta um stíl og hætta að ofsækja fjendur sína. Ræður hann skyldu vera lausnamiðaðar í stað þess að byggja á andstyggð og hatri eins og halda mætti að byggi innra með honum.
Stjórnmál og samfélag | 15.11.2015 | 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri vor Seltirninga, tvínónar iðulega ekki við það sem hún tekur sér fyrir hendur.
Í dag voru skoðaðar aðstæður báðum megin Eiðistorgs og inni á torginu sjálfur. Í hópnum voru auk undirritaðs áður nefnd Ásgerður Halldórsdóttir, Gísli Hermannsson, framkvæmdastjóri umhverfissviðs bæjarins, Vala Jóna Garðarsdóttir og Rannveig Traustadóttir frá Þekkingar- og þjónustumiðstöð Blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga.
Ákveðið hefur verið að fjarlægja steina af gangstétt austan við torgið auk steina og tilhöggvins grjóts sem er vestan við torgið sjálft og hinum megin Suðurstrandar, en þar liggja tilhöggnir steinar ofan á gangstéttinni. Þá verður komið fyrir hljóðbúnaði í gangbrautarljósum.
Einnig er gert ráð fyrir framkvæmdum sem eiga að hindra að óhöpp verði við stigana upp á aðra hæð torgsins og hugmyndir eru um leiðarlínur til þess að auðvelda umverð u torgið.
Vonandi takast þessar aðgerðir vel og verða fyrirmynd öðrum bæjarfélögum.
Starfsmenn Þekkingarmiðstöðvarinnar höfðu orð á hversu ánægjulegt hefði verið að hitta bæjarstjórann, sem gerði ráð fyrir lausn vandans í stað þess sem ekki væri unnt að hrinda í framkvæmd.
Ef til vill er hér dæmigerður stíll kvenna á ferðinni? Vandamál eru til þess að þau verði leyst.
Stjórnmál og samfélag | 19.10.2015 | 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Héraðsdómur Reykjavíkur er oftar en ekki býsna glámskyggn á málsatvik. Það sýndi sig í málum Öryrkjabandalagsins gegn stjórnvöldum um síðustu aldamót og nú upphefur dómurinn fjárlög framar mannréttindum. Fyrir 30 árum stóð svo á að einstaklingur fékk ekki ávísun á lyf sem vitað var að stórbætti heilsu hans. Þá dugðu samskipti við tryggingayfirlækni áður en allt fór í hnút. Neitun nauðsynlegrar meðferðar í máli því sem hér er á dagskrá, er ein staðreynd þess hvernig er að fara fyrir íslenska heilbrigðiskerfinu. Verður það ef til vill svo að efna þurfi til söfnunar svo að lifrarbólgusjúklingar fái leyfi til að lifa lengur á Íslandi?
![]() |
Segir niðurstöðuna dauðadóm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 18.9.2015 | 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leikritið Sek eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur er áhrifamikið verk. Ástríðum er vel lýst án mikilla átaka. Verkið líður fram í sérstakri hrynjandi. Nokkuð er um klifanir sem eiga væntanlega að leggja áherslu á andrúmsloftið og þann viðbjóð sem viðgekkst.
Einangrunin og þögnin eru yfirþyrmandi og einsemdin þrungin örvæntingu.
Allir aðstandendur leiksins eiga lof skilið fyrir frammistöðu sína og túlkun: Höfundurinn, leikstjórinn, hljóðfæraleikarar, tónskáld og ekki síðst hljóðmaðurinn.
Tvisvar í verkinu þótti mér þó örla á smávægilegum mistökum. Barn biður föður sinn að kenna sér að rota og gera að sel. Undir eru hljóð úr fjörunni, kríugarg og brimalda. Í tali barns og föður er of mikill herbergishljómur.
Ég hlustaði á netinu til að forðast fm-bylgjusuðið og verður að hrósa Ríkisútvarpinu fyrir að hafa lagfært útsendinguna.
Sjálfsagt er að gefa þessu verki 5 stjörnur.
Stjórnmál og samfélag | 13.9.2015 | 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lýðveldisins, flytur jafnan athyglisverðar ræður við upphaf þings. Ræðan í dag skar sig ekki úr að þessu leyti.
Greinilegt er að forseti vor man Evrópusambandinu Icesave-málið og óar við hugmyndum um samruna Íslendinga við þetta ómanneskjulega fjölþjóðavald.
Einnig skildi hann fólk eftir í óvissu um það hvort hann hyggist sitja áfram á forsetastóli. Hann orðaði það sem svo að um síðustu þingsetningarræðu væri að ræða samkvæmt þessu umboði.
![]() |
Varar við breytingum á stjórnarskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 8.9.2015 | 11:59 (breytt 13.9.2015 kl. 14:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Sept. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | |
7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 |
14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 |
21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 |
28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.9.): 2
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 320315
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar