Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Arnþór Helgason
Baráttan um kjörin
Ræða flutt í Seltjarnarneskirkju
Á degi verkalýðsins 1. Maí 2016
Góðir áheyrendur,
Ég þakka þann heiður að fá að ávarpa söfnuðinn hér í dag á alþjóðadegi verkalýðsins. Ég hef fyrir löngu gert mér grein fyrir því hversu athyglisvert starf er unnið hér innan vébanda Seltjarnarneskirkju. Einn af kostum þess er opin umræða án fordóma, enda skulum vér eigi dæma svo að vér verðum eigi sjálf dæmd.
Allir leiðtogar, hvort sem um er að ræða siðfræðinga og friðarsinna, einvalda eða byltingarmenn, hafa skilið eftir sig orðskviði og spakmæli. Má þar nefna Salómon konung, Búdda, Konfúsíus, Jesúm krist og Mao Zedong, sem sagði m.a. að lífið væri barátta. Hans skoðun á baráttunni var umbylting þjóðfélagsins og þótt margt hafi mistekist stendur þó annað upp úr. Gagnvart þeim, sem ég fjalla um í dag, hefur lífið verið og er enn barátta.
Ævi mín hefur að mestu leyti verið helguð baráttu fyrir auknum réttindum fatlaðra, fyrst á vegum Blindrafélagsins og síðar á vettvangi Öryrkjabandalags Íslands. Þessi ferill tók skjótan endi fyrir 10 árum og síðan hef ég haldið mig til hlés frá þeim vettvangi.
Á æskuheimili mínu var barátta verkalýðsins oft til umræðu. Margt af vinafólki foreldra minna tilheyrði verkalýðsstéttinni og ég varð aldrei var við að fólk væri dregið í dilka eftir stétt eða stöðu.
Í störfum fyrir Blindrafélagið og Öryrkjabandalag Íslands kynntist ég ýmsu fólki úr öllum flokkum sem vildi þessum málstað vel. Ég nefni nokkra einstaklinga:
Magnús Kjartansson jók kaupmátt örorkulífeyris er hann settist í stól heilbrigðisráðherra árið 1971. Vilhjálmur Hjálmarsson varð til þess að veita brautargengi þeirri hugmynd að fjármagna stöðu félagsráðgjafa fyrir Blindrafélagið og ríkti einhugur í fjárlaganefnd Alþingis þegar sú tillaga kom fram, en Vilhjálmur var fjölskylduvinur og þekkti okkur tvíburanna.
Þegar hljóðbókaþjónusta hófst hér á landi með samstarfi Blindrafélagsins og Borgarbókasafnsins barst fljótlega beiðni um að saga Sjálfstæðisflokksins yrði lesin og tóku það að sér höfundar greina í bókinni. Þar á meðal var Geir Hallgrímsson, þáverandi forsætisráðherra. Hann varð mjög hrifinn af þessu framtaki Blindrafélagsins og Borgarbókasafnsins og furðaði sig á tregðu stjórnvalda við að ljá málinu lið. Síðan var hann dyggur stuðningsmaður þess.
Ekki má gleyma manni eins og Oddi Ólafssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi, sem var fyrsti formaður Öryrkjabandalags Íslands auk þess sem hann gegndi formennsku í Hússjóði þess og lyfti grettistaki í málefnum fatlaðra. Baráttukonurnar voru einnig margar: Rósa Guðmundsdóttir, formaður Blindrafélagsins um skeið, Ólöf Ríkarðsdóttir, sem vann lengst á vegum Sjálfsbjargar, Ásta B. Þorsteinsdóttir, formaður Þroskahjálpar og fleiri. Þá er Jóhann Pétur Sveinsson ógleymanlegur þeim sem honum kynntust.
Um síðustu jól kom út bókin Þegar siðmenningin fór fjandans til eftir sagnfræðinginn Gunnar Þór Bjarnason. Í bókinni er brugðið upp mynd af fyrri heimsstyrjöldinni út frá sjónarhóli Íslendinga, en það var í raun öðru sinni sem Íslendingar lentu í hringiðu evrópskra stríðsátaka, þótt þeir væru á jaðri þeirra. Við sluppum að vísu við hernám en urðum að sæta afarkostum breskra yfirvalda. Mjög kreppti þá að íbúum þessa lands.
Óhætt er að halda því fram að þær breytingar sem urðu í kjölfar verslunarfrelsis árið 1855 og stjórnarskrárinnar 1874 hafi markað upphafsskeið breytinga og framfara hér á landi. Kaupstaðir efldust, atvinnuvegum fjölgaði og kjör fóru batnandi.
Gögn sýna að hagvöxtur var áberandi mikill hér á landi frá því um 1890 fram að 1915, en þá hófst eitthvert lengsta kreppuskeið síðustu áratuga lengra og verra en heimskreppan 1930 og hið marg umtalaða hrun árið 2008. Þá kreppti mjög að atvinnuvegum landsins. Útflutningur minnkaði, erfiðara varð að afla varnings frá útlöndum, fiskveiðar drógust saman og verðfall varð á afurðum landsmanna. Þetta olli miklum búsifjum hjá fjölda fólks.
Um þetta leyti áttuðu ýmsir sig á að nauðsynlegt væri að grípa til einhverra ráða til þess að bæta kjör þeirra sem bjuggu í raun við sult og seyru og fóru þar konur fremstar í flokki. Um svipað leyti tóku verkalýðsfélög mjög að eflast og Alþýðusamband Íslands var stofnað fyrir réttri öld. Þannig varð stéttabaráttan skipulögð á Íslandi og hefur í raun staðið æ síðan. Fyrsti maí hefur verið haldinn hátíðlegur frá árinu 1923 og sett svip sinn á þjóðlífið.
Móðir mín, sem stóð fyrir fjölmennu heimili í Vestmannaeyjum, minntist þess að eitt sinn á fyrsta maí var hún ásamt tveimur vinnukonum önnum kafin við að gera hreint, þegar kröfugangan fór framhjá niður Skólaveginn. Forystumenn verkamanna voru vinir þeirra hjóna og sagðist hún hafa skammast sín. Gaf hún stúlkunum og sjálfri sér frí og gætti þess ævinlega síðan að dagur verkalýðsins væri haldinn hátíðlegur.
Árið 1936 voru í fyrsta sinn sett lög um alþýðutryggingar hér á landi og voru þau undanfari þeirra trygginga sem almenningur nýtur nú, en það var ekki fyrr en um 1970 að fólki var gert skylt að greiða í lífeyrissjóði.
Þegar ég kynntist málefnum fatlaðra og hóf þátttöku í félagsmálastörfum árið 1969 var þetta bláfátækur hópur. Blint fólk vann þá einkum við bursta- eða körfugerð, en víða á landsbyggðinni unnu blindir karlmenn við netaviðgerðir og konur stunduðu hannyrðir. Örorkulífeyririnn var ofurlítill. Á því varð ekki breyting fyrr en árið 1971, þegar Magnús Kjartansson varð heilbrigðisráðherra eins og fyrr var getið. Þá hækkuðu bætur umtalsvert.
Þegar kom fram á 8. Áratug síðustu aldar urðu ýmsar aðstæður til þess að til varð öflugur hópur fatlaðs fólks sem beitti sér af alefli fyrir bættum kjörum. Má það rekja til aukinnar menntunar og erlendra strauma sem bárust hingað til lands. Upp úr 1980 var farið að huga að endurmenntun og þjálfun fólks sem hafði slasast, annaðhvort í umferðinni eða vegna vinnu sinnar. Mestum sigri var náð í þeim málum er Öryrkjabandalaginu tókst með aðstoð Rauðakrossins og Stjórnunarfélags Íslands að koma á fót Starfsþjálfun fatlaðra sem nú kallast Hringsjá. Er þessi markverða stofnun frumkvöðull í öllu því endurmenntunarstarfi sem fer nú fram um allt land og hefur skilað sér m.a. í því að þátttaka fatlaðra í atvinnulífinu og við nám hefur stóreflst.
Níundi áratugurinn var í raun eitt allsherjar framfaraskeið. Má nefna að þá hófst undirbúningur að lögum þeim sem kölluð hafa verið lög um málefni fatlaðra. Framkvæmdasjóður fatlaðra var settur á fjárlög og þurfti iðulega að berjast harðri baráttu til þess að vernda hann fyrir niðurskurði stjórnvalda. Varð frægt í desember 1986 þegar Öryrkjabandalaginu ásamt Þroskahjálp tókst að hrinda verulegum niðurskurði í málaflokknum.
Þessi hægfara sigurganga hélt áfram fram á 10. áratuginn. Segja má að þá hafi orðið fallaskil þegar Viðeyjarstjórnin tók við völdum. Þá rofnaði samband Öryrkjabandalagsins við stjórnvöld að mestu leyti. Forsætisráðherra gaf aldrei kost á neinu samráði og mikill niðurskurður hófst. Farið var að krefja fólk um gjöld fyrir ýmsa þjónustu svo sem á heilsugæslu, sjúkrahúsum og vegna nauðsynlegra lyfja. Eitt af því allraversta var tekjutenging örorkulífeyris við tekjur maka og bitnaði það einna helst á fötluðum konum í hjónabandi. Þá háði Öryrkjabandalagið harðvítuga baráttu undir stjórn Garðars Sverrissonar sem endaði með því að bandalagið vann mál gegn ríkinu. Ríkisstjórnin hefndi sín að vísu með því að skilja nokkrar tekjutengingar eftir vegna tekna maka. Síðar brutu stjórnvöld ýmis loforð sem gefin höfðu verið og ásókn sumra stjórnmálaflokka eftir yfirráðum í samtökum fatlaðra hófst. Þá voru núverandi stjórnarflokkar við völd. Nú þegar ríkisstjórn þessara flokka situr enn á valdastóli eru samtök fatlaðra varla virt viðlits þótt innan vébanda þeirra séu rúm 30.00 manns.
Þessi saga er íslenskum stjórnmálaflokkum til lítils sóma og hefur skilið eftir djúp sár.
Nú er svo komið að Ísland getur vart talist á meðal þeirra ríkja sem sækjast eftir að kenna sig við norræna velferðarkerfið. Á árunum 2000-2008 fóru í raun lífskjör fatlaðra og aldraðra versnandi þrátt fyrir áfangasigra Öryrkjabandalagsins, því að bæturnar héldu ekki í við hækkandi verðlag. Á sama tíma tók græðgin völdin á meðal þeirra sem mest höfðu. Fjármunum var skotið undan skatti og skiluðu sér ekki til almannaneyslunnar. Hefur því verið haldið fram að í íslenska hagkerfið vanti nú allt að þúsund milljörðum króna.
Lærdómurinn, sem dreginn verður af sögunni, hlýtur að vera sá að margur verður af aurum api og sést ekki fyrir í ásókn sinni eftir auði.
Nú þegar horft er til kosninga hlýtur von manna að verða sú að Íslendingar læri að lifa saman í þeirri sátt að samkomulag náist um að tryggja fötluðu fólki og öldruðu viðunandi kjör. Það skilar sér reyndar að mestu leyti aftur í Ríkissjóð vegna meiri neyslu. Íslendingar þurfa jafnframt að huga að lífsgildum sínum í náinni framtíð vegna þeirra breytinga sem eru að verða á samfélaginu.
Nú er svo komið að Íslendingum er hætt að fjölga nægilega mikið til þess að haldið verði í horfinu og fjöldi fólks af ólíku þjóðerni flytur hingað. Úr því sprettur vonandi íslensk framtíðarfjölmenning íslenskri þjóð og nýjum Íslendingum til aukins velfarnaðar.
Lokaorð mín verða tilvitnun í tvo spekinga, sem orðuðu samfélagssáttmálann svo á 6. öld fyrir Krist og á dögum hans, en Konfúsíus sagði: Það sem þér viljið eigi að aðrir gjöri yður skuluð þér og þeim eigi gjöra, Því skulum vil halda glöð á vit hins ókomna í anda Krists, gjöra öðrum það sem við viljum þiggja af þeim og þjóna alþýðunni af öllu hjarta eins og Mao Zedong lagði til, enda erum við öll eða höfum verið hluti íslenskrar alþýðu.
Stjórnmál og samfélag | 1.5.2016 | 12:56 (breytt kl. 21:46) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Enn færist fjör í forsetaleikinn. Í gær voru það stakhendur Höllu Oddnýjar Magnúsdóttur og nú bætist við hræðslan við þekkinguna.
Fyrrum ráðherra sagði mér í dag að þau hjónin hefðu rætt sín á milli í gær að sennilega hefði hræðsla við væntanlegt framboð Guðna Th. Jóhannesar ráðið mestu um að Ólafur Ragnar Grímsson ákvað að gefa á ný kost á sér, enda hefði Guðni söguna á valdi sér og yrði því sem forseti í kjörstöðu til þess að nýta sér hið liðna þegar taka þyrfti afdrifaríkar ákvarðanir. Einnig er sagt að almannatengill nokkur sé sömu skoðunar.
Stjórnmál og samfélag | 20.4.2016 | 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Samfylkingin virðist gersamlega heillum horfin. Á meðan gengið er í skrokk á öllum þeim sem hafa átt viðskipti við skattaskjól veigra forystumenn Samfylkingarinnar sér við að skýra hverjir eiga húsnæðið sem flokkurinn leigir við Hallveigarstíg. Miðað við það sem er á undan gengið í íslenskum stjórnmálum hljóta menn að ætla að hér sé pottur brotinn. Eina skýringin sem gæti verið haldbær er sú að einhverjir góðhjartaðir húseigendur, sem styðja flokkinn, veiti henni ókeypis húsnæði en kunni ekki við að opinbera gæsku sína. Þó er flest sem bendir til að svo sé ekki. Á meðan Samfylkingin stundar þetta laumuspil heldur fylgið áfram að hrynja af flokknum.
Stjórnmál og samfélag | 16.4.2016 | 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dagblað alþýðunnar, sem Íslendingar hafa aldrei kallað Alþýðublaðið, greinir frá því í dag (á morgun, þriðjudaginn 12. apríl) að kínverskum vísindamönnum hafi tekist að búa til sólarrafhlöður sem framleiða rafmagn á sólríkum dögum sem í rigningu.
Rafhlöðurnar eru húðaðar með grafími sem hefur ofurleiðni. Í regnvatninu eru ýmis efni sem mynda rafhleðslu. Enn eru þó þessar rafhlöður ekki samkeppnishæfar við aðrar sólarrafhlöður, en vísindamennirnir halda því fram að hér sé um enn eitt skrefið að ræða í fjölbreyttum orkugjöfum sem eru vistvænir.
Hér er frétt blaðsins.
Stjórnmál og samfélag | 11.4.2016 | 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Enn eina ferðina fer umræðan hér á landi út um víðan völl. Þingmaður stjórnarandstöðunnar kallar forsætisráðherra og eiginkonu hans ónefnum, flestir aðrir eru varkárari en flokksbræður forsætisráðherrans verja hann í blindni án nokkurra raka.
Forsætisráðherran bregst við nákvæmlega eins og þeir, sem saklausir eru af öllum ávirðingum, bregðast ekki við - veitir ríkisfjölmiðlum ekki viðtöl. Það bendir til ákveðins tvískinnungs eða slæmrar samvisku. Hann virðir Alþingi ekki einu sinni viðlits.
Hverjum, sem lendir í þeirri stöðu á opinberum vettvangi vegna aðgerða eða aðgerðaleysis sjálfs sín og tengdra aðila, ber að gera hreint fyrir sínum dyrum án svigurmæla um aðra og aðrar ríkisstjórnir. Forsætisráðherra ber því skilyrðislaust að svara þeim spurningum sem þing og fjölmiðlar vilja leggja fyrir hann. Forystumenn Framsóknarflokksins þurfa jafnframt að gera upp við sig hvort þeir ætla að standa hjá eða taka þátt í að leysa þann vanda sem upp er kominn.
Það kemur óneitanlega á óvart að þessari umræðu skyldi ekki skjóta fyrr upp á yfirborðið vegna þess að fjölmargir vissu hvernig fjármálum þeirra hjóna væri háttað í megindráttum. Undirrituðum þótti furðulegt, þegar litið var á skráðar upplýsingar um þingmenn, að hvergi væri þessara fjármuna getið, jafnvel þótt þeir væru séreign eiginkonu forsætisráðherrans.
Þórun elísabet bogadóttir skrifar leiðara um þetta mál á vef Kjarnans í gær, miðvikudaginn 23. mars. Þar bendir hún á að áhugi fjölmiðla á málinu bendi til heilbrigðrar rannsóknablaðamennsku en eigi ekkert skylt við herferð gegn einum eða öðrum. Þetta ætti forsætisráðherra að hafa í huga og takast á við hinn siðferðislega hluta málsins og hið sama ættu þingmenn Framsóknarflokksins að gera.
Þingmenn ættu síðan að gæta tungu sinnar og hætta að kalla menn ónefnum. Þingmenn eins og ónefndur einstaklingur úr röðum Vinstri grænna spilla yfirleitt þeirri umræðu sem þeir nálgast.
Stjórnmál og samfélag | 24.3.2016 | 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í morgun: Fréttir af frelsun kvenna sem haldið var í ánauð manns frá Srilanka austur í Vík í mýrdal.
Þessir útlendingar! hafa sjálfsagt ýmsir hugsað:
Í Speglinum í kvöld: Fjöldi fólks frá Austur-Evrópu vinnur hér í byggingavinnu á vegum verktaka sem hlunnfara þá um laun og skrá þá ekki.
Þvílíkur óþverraskapur!
Íslendingar virðast verar þrælahaldarar af versta tagi og hika ekki við að svíkjast undan skyldum við samfélagið. Síðan ætlast þeir til sömu þjónustu og þeir sem hafa ævinlega hafa greitt skatta og skyldur!
Hvers vegna eru nöfn þessara verktaka ekki gerð opinber?
Mér er enn minnisstætt samtal sem ég átti einu sinni við ónefndan mann sem kominn var á eftirlaun. Eiginkona hans, sem var 28 árum yngri, hafði lent í alvarlegu vinnuslysi og var ekki lengur vinnufær. Hún var austan úr Asíu.
"Hvað á ég að gera við hana? Ég get ekki séð fylrir henni!" öskraði hann í símann.
Þegar ég innti hann eftir lífeyrisréttindum voru þau enginn. Hann hafði "alltaf unnið svart".
Hann hafði sem sagt efni á því að fá hingað austræna konu til þess að drýgja tekjurnar og hélt að hann gæti hent henni eins og hverju öðru rusli þegar hún gat ekki framar aflað honum og sjálfri sér viðurværis!
Ég gæti skrifað miklu meira um það hvernig íslenskir karlmenn, einatt í góðum efnum, haga sér gagnvart fötluðum eiginkonum sínum. Dæmi eru þess að slíkir eiginmenn ætlist til þess að konurnar sjái alfarið um rekstur heimilisins með þeim örorkulífeyri sem þær fá.
Á hina hliðina gæti ég einnig skrifað fjölda greina um fatlaða eiginmenn sem njóta góðs af hjónabandi við ófatlaðar konur þar sem ríkir ást og eindrægni.
Og svo eru þeir sem styðja fatlaðar eiginkonur sínar með ráðum og dáð á öllum sviðum.
Þessir svörtu sauðir setja hins vegar smánarblett á Íslendinga. Græðgin er þeirra aðalsmerki og þar eru karlmenn í miklum meirihluta.
Stjórnmál og samfélag | 19.2.2016 | 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þetta eru skoðanir sem margir hafa deilt að undanförnu - ólík hagkerfi þvinguð undir einn og sama hatt. Leiðari Morgunblaðsins fylgir hér á eftir.
Furðulegrar blindu gætir á Íslandi gagnvart Evrópusambandinu hjá stuðningsmönnum þess. Af einhverjum ástæðum veigra þeir sér við því að horfa á veikleika og vandræði ESB og láta eins og ekkert sé þótt hrikti í stoðum þess.
Fjárfestirinn George Soros ræðir stöðu Evrópusambandsins í viðtali, sem birtist í blaðinu New York Review of Books í vikunni, og segir að það sé á barmi hruns. Þar er hann spurður hver hafi verið grunngildin að baki stofnun Evrópusambandsins. Ég hef alltaf litið á Evrópusambandið sem holdgerving grunngilda opins samfélags. Fyrir aldarfjórðungi, þegar ég fór fyrst að láta að mér kveða á svæðinu voru Sovétríkin í dvala og Evrópusambandið á uppleið. Og það er áhugavert að hvort tveggja má kalla ævintýraleiðangur í alþjóðlegri stjórnsýslu. Sovétríkin reyndu að sameina öreiga heimsins og ESB reyndi að þróa líkan fyrir svæðisbundinn samruna byggðan á grunngildum opins samfélags.
Næst er Soros beðinn að bera stöðuna þá við stöðuna nú.
Í stað Sovétríkjanna er komið Rússland sem ryður sér til rúms á ný og í Evrópusambandinu ráða öfl þjóðernishyggju ríkjum. Opna samfélagið sem bæði Merkel og ég trúum á vegna okkar eigin sögu og umbótasinnarnir í Úkraínu vilja ganga í vegna þeirra persónulegu sögu er í raun ekki til. Evrópusambandið átti að vera sjálfviljugt samband jafningja, en evrukreppan hefur breytt því í samband milli skuldara og lánardrottna þar sem skuldararnir eiga í vandræðum með að uppfylla skuldbindingar sínar og lánardrottnarnir setja skilyrðin sem skuldararnir þurfa að uppfylla. Sambandið er hvorki sjálfviljugt né jafnt. Fólksflutningakreppan hefur opnað nýjar gjár. Þess vegna er sjálf framtíð ESB í hættu.
Soros segir að rangt hafi verið staðið að málum frá upphafi þegar fjármálakreppan brast á í Grikklandi. Evrópusambandið hafi komið til bjargar undir forustu Þýskalands, en lagt á allt of háa vexti fyrir lánin, sem upp á var boðið. Það gerði að verkum að Grikkir gátu ekki staðið undir skuldum sínum. Síðan endurtók [ESB] mistökin í síðustu samningum, Evrópusambandið vildi refsa Alexis Tsipras forsætisráðherra og sérstaklega fyrrverandi fjármálaráðherra hans, Yanis Varoufakis, á sama tíma og ekki var um annað að ræða en að koma í veg fyrir grískt greiðslufall. Fyrir vikið þröngvaði ESB fram kröfum, sem munu ýta Grikkjum inn í dýpri kreppu.
Soros er spurður hvort Grikkland sé áhugaverður kostur fyrir einkafjárfesta.
Ekki á meðan landið er hluti af evrusvæðinu, svarar Soros. Ólíklegt er að landið muni nokkurn tímann blómstra með evruna vegna þess að gengið er of hátt til að það verði samkeppnishæft.
Það er athyglisvert að lesa um sýn þessa umsvifamikla fjárfestis á ESB og er vert í því samhengi að rifja upp orð hagfræðingsins Pauls Krugmans í blaðinu Tímamótum, sem Morgunblaðið gaf út í samvinnu við The New York Times um áramótin. Þar segir Krugman að millistéttin í Evrópu hafi verið svipt valdi, ekki valdefld. Óttinn við aðra efnahagskreppu, kvíði vegna skulda, hafa verið notuð eins og sleggjur til að rústa þær stofnanir sem áður fyrr reyndust brjóstvörn gegn öfgakenndum ójöfnuði, segir hann. Þetta ferli hefur verið gríðarlega ólýðræðislegt. Tæknikratar hafa ákveðið stefnuna í Evrópu og þeir hafa enga hugmynd um hvað þeir eigi að gera fyrir utan að rústa vald vinnandi fólks.
Nokkru síðar heldur nóbelshagfræðingurinn áfram og segir ólíklegt að rótgróin lýðræðisríki ákveði að lýsa því yfir að nú séu þau það ekki lengur. Líkurnar á að þau hætti að vera lýðræðisríki í framkvæmd eru allt aðrar þá á ég við stöðu þar sem tiltölulega fámennur hópur óligarka fær að skilgreina kvarða leyfilegrar umræðu, hvaða stefna fær að vera á borðinu, hvað telst gjaldgengt og ábyrgt, segir Krugman. Evrópa er að verða samfélag ríkja sem eru lýðræðisleg að forminu til, en í auknum mæli ólýðræðisleg í því hvernig þau eru í raun rekin.
Þau vandamál, sem þessir tveir menn benda á, eru ekki lítilfjörleg. Þau lúta að grundvallaratriðum og verða ekki leyst með því að horfa fram hjá þeim.
Stjórnmál og samfélag | 28.1.2016 | 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hljómleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld undir stjórn Daníels Raiiskin, þar sem fjórir ungir einleikarar léku með hljómsveitinni, voru í einu orði sagt vel heppnaðir. Einleikararnir voru
Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, sópran, Sigríður Hjördís Indriðadóttir, flautuleikari, Jónas Á. Ásgeirsson, harmonikuleikari og Ragnar Jónsson, sellóleikari.
Rödd Heiðdísar Hönnu hefur náð undraverðum þroska. Hún er áferðarfögur og er því spáð að hún eigi eftir að heyrast oft hér á landi og hérlendis. Túlkun hennar var með ágætum.
Flutningur Sigríðar Hjördísar Indriðadóttur á flautukonserti Karls Nielsen var einstaklega vel heppnaður, túlkunin bæði fáguð og skemmtileg. Tónninn var lýtalaus.
Þá var undur skemmtilegt að heyra Jónas Á. Ásgeirsson flytja konsert fyrir harmoniku og strengjasveit. Lipurð piltsins er einstök og túlkunin fram úr skarandi.
Í lokin flutti Ragnar Jónsson sellókonsert Elgars með stakri prýði. Seinasti hluti fyrsta þáttar var hreinlega leikinn af unaðslegri snilld. Tónn Ragnars er fágaður og hann leggur greinilega metnað í mikla fágun flutnings síns. Hið sama má segja um hin ungmennin þrjú.
Við hjónin fórum heim hamingjusöm og stolt af starfi því sem unnið er hér á landi á sviði tónlistar.
Ekki þarf að taka fram að Eldborg var þétt setin og fögnuðu áheyrendum flytjendum innilega.
Nánar um dagskrána hér:
http://www.sinfonia.is/tonleikar/2016/1/14/nr/2870
Þessu unga fólki er óskað alls hins besta og færðar einlægar þakkir fyrir heillandi flutning.
Stjórnmál og samfélag | 14.1.2016 | 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útvarpsleikhúsið flytur nú leikritið "Leifur óheppni" eftir þær Maríu Reindal og Ragnheiði Guðmundsdóttur með tónlist Einars Sigurðssonar, sem einnig annast hljóðvinnslu. María leikstýrir. Leikritið er á dagskrá Rásar eitt kl. 15:00 næstu daga.
Eftir jólakvöldið í gær var hlustað á 1. þáttinn og á annan þátt áðan. Óhætt er að mæla með þessu leikverki handa allri fjölskyldunni og ekki síst börnum.
Leikritið fjallar um styttuna af Leifi heppna skammt frá Hallgrímskirkju og ótrúlega hluti sem þar gerast.
Foreldrar eru eindregið hvattir til að benda börnum sínum á þessa frábæru skemmtan. Leikritið er að finna í Sarpi Ríkisútvarpsins en ætti einnig að vera á Krakkarúv.
Hér á eftir kemur örstuttur dómur um tæknihlið leiksins.
Margt er þar firnavel gert. Það kemur á óvart að fjarlæg bifreiðahljóð virðast koma fyrir aftan hlustandann ef notuð eru heyrnartól og er það skemmtileg tilviljun.
Hins vegar er útihljóðmyndin að sumu leyti misheppnuð. Þannig er sjávarhljóðið áberandi í nágrenni Hörpu, en þar heyrist sárasjaldan neitt öldugjálfur. Hið sama er að segja um hljóðið frá Skólavörðuholtinu og garðinum við Listasafn Einars Jónssonar. Þar er sjávarniður of áberandi. Ef til vill á þetta að vera vindurinn. Til þess benda örlitlar gælur golunnar við hljóðnemann og er þýðlegt á það að hlýða með vinstra eyranu.
Á móti kemur að hljóðmyndin, sem lýsir örtröð ferðamanna og setningu ráðstefnu um norðurljósin er stórskemmtileg. Þá er þess vandlega gætt að skilja á milli hljóðrýis skólaganga og kennslustofa. Þrátt fyrir það sem áður var sagt er ástæða til að óska Einari Sigurðssyni til hamingju mel hljóðmyndina.
Leikstjórnin er að flestu leyti til fyrirmyndar og ætlar undirritaður að halda áfram að ganga í barndóm, enda vill hann ekki missa af því sem eftir er.
Stjórnmál og samfélag | 25.12.2015 | 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í Morgunpósti Kjarnans fær Vigdís Hauksdóttir þessa kveðju:
"igdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, lét hafa eftir sér þau ummæli á dögunum, að nauðsynlegt væri að kafa ofan í það, hvers vegna hér á landi væru muni fleiri öryrkjar en á hinum Norðurlöndunum.
Vigdís sagði að öryrkjar hér á landi væru um 9 prósent af vinnubæru fólki en á hinum Norðurlöndunum væru hlutföllin 2,2 til 2,3 prósent.
Engin gögn styðja fullyrðingu Vigdísar, heldur þvert á móti sýna þær samantektir, sem Vinnumálastofnun lagði fyrir fjárlaganefnd, og sýnd voru í frétt RÚV, að tölurnar sem Vigdís talaði um áttu sér enga stoð í raunveruleikanum.
Vigdís ætti að sjá sóma sinn í því að biðjast afsökunar á þessum rangindum sem hún hélt fram, og venja sig við það framvegis."
Stjórnmál og samfélag | 21.12.2015 | 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 28
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 20
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar