Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hörpuljósin stjörnubliki líkust

Eitt af því, sem okkur Elínu, eiginkonu mína og sjónarfulltrúa bloggsíðunnar, langaði til að fylgjast með á menningarnótt, var "afhjúpun" Hörpu og hrifumst við af ræðu Sigrúnar Hjálmtýsdóttur. Þaðan, sem við stóðum úti í Örfirisey, sást ljósaskreyting hjúpsins ekki.

Í gærkvöld, eftir að myrkt var orðið, héldum við út í náttmyrkrið og nutum góðviðrisins. Haldið var að Hörpu. Þar gaf á að líta. Framhlið hússins var upplýst, ekki allur hjúpurinn. Ljósin voru mild en ekki ágeng - stjörnubliki líkust, eins og Elín orðaði það. Var það samdóma álit okkar að Ólafur Elíasson vissi mætavel hvað hann gerði. Ágeng skrautlýsing hefði verið í æpandi ósamræmi við flest sem tíðkast hér á landi og jafnvel spillt miðborgarmyndinni.

Þótt Harpa sé ekki yfir gagnrýni hafin nær ekki nokkurri átt að lýsa áhrifum hússins á þá sem hafa einungis séð það á sjónvarpsskjá eða hlýtt á útsendingarnar í sjónvarpi. Þegar vígslutónleikunum var sjónvarpað 13. maí síðastliðinn var þeim einnig útvarpað. Við völdum þann kost að hlýða á útsendingu útvarpsins, en þá varð ekki samræmi millum varahreyfinga þeirra sem töluðu í útvarpið og sáust á skjánum því að nokkur tímamismunur var á útsendingunni. Hljóðgæði sjónvarpsútsendingar voru hins vegar í lakara lagi og hafa vafalítið spillt ánægju margra sem hlökkuðu til að njóta tóngæðanna. Þekktur söngvari orðaði það svo, þegar við ræddum málið, að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með húsið. Þau lágu í því, þegar eftir var spurt, að hljómburðurinn hefði ekki skilað sér í sjónvarpinu.

Þannig var það með afhjúpn glerhjúpsins. Auglýsingaskrumið bar fegurðarskynið ofurliði.


Varðhundur á Alþingi

Á Alþingi Íslendinga, eins og á mörgum þjóðþingum öðrum, skipast menn í flokka eftir hagsmunagæslu. Soðningaríhaldið hefur nær óskiptan stuðning Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarmenn voru eitt sinn að mestu hagsmunagæslumenn bænda, sjómenn eiga sína fulltrúa og svona mætti lengi telja.

Nú hefur Þráinn Bertelsson skorið sig úr og gerst varðhundur kvikmyndaiðnaðarins. Hann ætlar að setja fjárlögin í gíslingu, verði ekki fundin lausn á vanda Kvikmyndaskóla Íslands.

Það hefur áður verið á það minnst í þessum pistlum að óeðlilegt verði að telja að stofnaðir séu einkaskólar sem ávísi mestum hluta kostnaðarins af rekstri sínum á ríkissjóð Íslands. Upp í hugann koma nöfn eins og Menntaskólinn Hraðbraut, þar sem eigendur greiða sér aðr þrátt fyrir tap, sjálfstæðu háskólarnir, en ríkið fjármagnar að mestu eða öllu leyti laun kennara, en skólagjöld eru þar mun hærri en í ríkisreknu háskólunum og nú síðast Kvikmyndaskóli Íslands.

Það er þakkarvert að kvikmyndaiðnaðurinn hafi eignast sinn eigin varðhund, sem smyglaði sér inn í almennan stjórnmálaflokk á þeirri forsendu að hann væri að þjóna fjöldanum. Dæmi Þráins Bertelssonar sýnir svo að ekki verður um villst, að breyta verður um baráttuaðferðir hér á landi. Einstakir hópar verða að taka sig til, ganga í stjórnmálaflokka eða stofna nýja flokka og bjóða fram með það markmið eitt að stuðla að framgangi eigin áhugamála. Þá fyrst líður Íslendingum vel þegar glundroðinn verður sem mestur. Nýjasti varðhundurinn á Alþingi er glöggt dæmi þess.


Vígslubiskupskosningavitleysan

 

Enn á að kjósa til vígslubiskups í Skálholti og er það víst í þriðja sinn sem það er reynt. Þar sem tbveir frambjóðendur fengu jafnmörg atkvæði í annarri umferð var varpað hlutkesti um þá og leiddi það til þess að narr þeirra verður ekki í framboði.  Þessar kosningar leiða væntanlega til þess að kirkjunnar menn og aðrar stofnanir samfélagsins, sem reiða sig á kosningar, endurskoði þær aðferðir sem viðhafðar hafa verið fram að þessu, því að hægt hefði verið að fá fram úrslit með  einni umferð í stað þriggja.

 

Hrakfalla saga atkvæðagreiðslna

 

Frá því að íslenska fjármálakerfið hrundi árið 2008 hefur talsverð umræða orðið um það manna á meðal hvernig haga beri kosningum. Þrátt fyrir áhuga á umbótum hefur hvert óhappið rekið annað. Má þar nefna kosningu til stjórnlagaþings, ákvörðun Alþingis um það hverjir skyldu ákærðir fyrir Landsdómi og nú síðast kjör vígslubiskups í Skálholti.

Stjórnvöld virðast ekki hafa áttað sig á því að unnt er að greiða þremur eða fleiri kostum atkvæði á þann hátt að ekki þurfi að kjósa oftar en einu sinni, fái enginn meirihluta atkvæða í fyrstu umferð. Full ástæða er til að stofnanir samfélagsins og félög skoði með hvaða hætti sé hægt að einfalda kosningu og atkvæðagreiðslu þannig að menn geti tjáð vilja sinn og tilteknir kostir verði ekki afgreiddir fyrirfram. Til þess hentar aðferð sem nefnist raðval og lýst er í bókinni „Lýðræði með raðvali og sjóðvali" eftir Björn S. Stefánsson.

 

Raðval

 

Björn Stefánsson hefur lengi rannsakað aðferðir sem nýta megi til þess að auðvelda mönnum að komast að niðurstöðu með atkvæðagreiðslu. Þróaði hann þessa aðferð og hefur hún reynst tiltölulega auðveld í framkvæmd. Sá ávinningur fæst með því að beita henni að úrslit fást þótt þrír eða fleiri kostir séu í boði.

            Sem dæmi má nefna kosningu þar sem fjórir eru í framboði. Kjósendur geta þá raðað þeim að vild. Sá sem kjósandi vill greiða eindregið brautargengi fær þá þrjú stig og svo koll af kolli þannig að sá sem kjósandi vill síst fær þá ekkert stig.

            Samanlagður stigafjöldi ræður úrslitum. Þá er ekki víst að sá, sem flestir velja í fyrsta sæti, nái kjöri, því að annar maður getur fengið það mörg stig í annað sæti að þau ríði baggamuninn. Þannig eru nokkrar líkur til að úrslitin verði með öðrum hætti, sé einungis ein kosning viðhöfð í stað tveggja þar sem í seinna skipti verði kosið um tvo efstu frambjóðendurna. Kosningar, þar sem krafist er tveggja atkvæðagreiðslna, þegar enginn frambjóðandi nær meirihluta, gefa þar að auki ekki alls kostar rétta mynd af vilja kjósenda þar sem þeir fá yfirleitt aðeins að velja einn kost hverju sinni og það getur haft afdrifarík áhrif á framhaldið.

            Raðval hentar einnig afar vel þegar afgreiða þarf mál með atkvæðagreiðslu og þrjú eða fleiri afbrigði eru í boði. Á það hefur verið bent að raðval kunni að draga úr valdi fundarstjóra ef hann þarf að úrskurða um röð eða vægi breytingartillagna, svo að eitt dæmi sé nefnt. Ef raðvali er beitt verða slíkir úrskurðir óþarfir. Öll afbrigði eru jafnrétthá og vilji manna verður ljós þegar stigin hafa verið gerð upp.

            Nokkur reynsla er af raðvali hér á landi. Þegar menn hafa nýtt sér kosti þessarar aðferðar hefur hún reynst auðveld í framkvæmd og almenningur hefur ekki átt í neinum vandræðum með að tileinka sér hana.

Með raðvali er hægt að leggja ýmis álitamál í dóm kjósenda með öðrum hætti en tíðkast hér á landi þar sem tveimur kostum er yfirleitt stillt upp hvorum gegn öðrum.

Með raðvali aukast enn fremur líkurnar á því að sá, sem flestir sætta sig við, verði valinn.

            Þá er rétt að geta þess að lokum að raðval er þess eðlis að auðvelt er að móta skýrar reglur um notkun aðferðarinnar innan stjórnkerfisins, sveitarfélaga og samtaka. Aðferðin greiðir ótvírætt fyrir lausn mála og dregur úr hættunni á flokkadráttum.

            Frekari upplýsingar eru á síðunni http://abcd.is/.


Ferðamönnum fjölgar í Tíbet

 

Um þessar mundir eru 5 ár síðan lokið var við að leggja járnbraut alla leið til Lhasa, höfuðborgar Tíbets. China Radio International hefur fjallað um málið frá ýmsum hliðum. Þar á meðal er þessi pistill.

Gamli og nýi tíminn mætast

 


Viðvörun

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann telur mikil líkindi með umræðunni um fjármál Evrópusambandsins nú og hér á landi árið 2007. Telur hann að verði brugðist við nú þegar megi forða Íslandi frá stórtjóni vegna þeirra áfalla sem virðast á döfinni innan Evróðusambandsins og í Bandaríkjunum. Telur hann m.a. landinu til gildis hagstætt gengi krónunnar og þá staðreynd að Íslendingar séu með fríverslunarsamninga við flest ríki heims, en samt láti erlendar fjárfestingar á sér standa.

            Sigmundur víkur að fjárhagsvanda ríkissjóðs Íslands og þeirri staðreynd að illa hafi gengið að fá hjól atvinnulífsins til að snúast. Í lok greinarinnar segir Sigmundur:

            „Hægt er að snúa þróuninni við og það þarf að gerast hratt því að þegar fjármálakrísan hefst aftur fyrir alvöru í Evrópusambandslöndunum, og líklega í Bandaríkjunum, getur staða okkar orðið mjög erfið.

Leysa þarf úr skuldamálunum með almennum og skýrum reglum. Einfalda þarf skattkerfið og taka upp lagasetningu og skattkerfi sem hvetur til fjárfestingar og atvinnusköpunar. Hefja þarf umhverfisvæna orkusköpun.

Ef búið verður að ganga frá skuldamálunum og setja af stað stór fjárfestingarverkefni áður en evru- og ríkisskuldakrísan fer úr böndunum verðum við í stakk búin til að sigla í gegnum fjárhagslegt óveður, annars stöndum við frammi fyrir mikilli hættu."

Ýmsir deila þessum áhyggjum með formanni Framsóknarflokksins. Þótt hann nefni ekki einstakar ráðstafanir sem grípa þar til er þó deginum ljósara að óveðursskýin hrannast upp. Sigmundur nefnir einnig í grein sinni þá staðreynd að ekki hefur tekist á undanförnum árum að innheimta um 127 milljarða í skatta, sem flestir eru vörsluskattar og geri það stöðu ríkissjóðs enn verri.

Grein Sigmundar vekur, þótt stutt sé, óneitanlega ugg í brjósti margra og veldur um leið áhyggjum af feigðarflani Samfylkingarinnar í faðm Evrópusambandsins, með Vinstri græna í togi. Í raun er staða landsmála þannig um þessar mundir að gjörbreyta verður um stjórnarstefnu. Einleik Samfylkingarinnar verður að ljúka og stokka verður stjórnina upp. Þar er Framsóknarflokkurinn sennilega ekki versti kosturinn.

Slóðina á grein Sigmundar er að finna hér fyrir neðan.

Grein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar

 

S

 


Ísland nær óþekkjanlegt frá árinu 1865

 

Þingvellir eru gjörbreyttir frá árinu 1865, segir Hörður Geirsson, sem nú fer um landið og tekur ljósmyndir af stöðum sem ljósmyndaðir voru hér á landi eftir árið 1865. Hann segist hvergi hafa rekist á óbreytt umhverfi á ferðum sínum. Versta telur hann þó „eyðilegginguna" á Djúpavogi þar sem hann segir að gamla hafnarstæðið hafi verið eyðilagt.

Hörður beitir sams konar ljósmyndatækni og notuð var í árdaga ljósmyndanna. Hann tekur myndir á glerplötur, framkallar þær sjálfur og lakkar. Ljósmyndavélin er frá 1880, bandarísk, en linsan er frönsk frá árinu 1864.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Hörð á slóðinni

http://www.hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1179112/

 


Söluprang þjónustufulltrúa Aríonbanka

 

Frá bankahruninu fyrir hart nær þremur árum hefur margt verið rætt og ritað um siðferði stjórnenda íslensku bankanna. Fer ýmsum sögum af því hvort það hafi breyst.

            Siðferði í viðskiptum mótast mjög af stjórnendum. Fæstir almennir starfsmenn fá risið undir því að fara aðrar leiðir en stjórnendur segja fyrir um. Þótt einhverjum kunni að reynast það erfitt eru þeir þó vafalaust fleiri sem láta fljóta með straumnum. Fæstir eiga sér aðra kosti, vilji þeir halda atvinnu sinni. Í kverinu, sem fólk lærir áður en það er tekið í kristinna manna tölur, er því gert skylt að virða atvinnuveitendur og hlýða þeim, enda geta fæst fyrirtæki þrifist án hlýðni starfsmannanna.

 

Saga frá janúar 2008

Þann 15. janúar árið 2008 hringdi til mín starfsmaður Glitnis og sagðist hafa áhyggjur af því hvernig fjármunir móður minnar væru ávaxtaðir. Kom mér nokkuð á óvart að almennur starfsmaður skyldi hnýsast í hennar mál en lét það afskiptalaust. Starfsmaðurinn hvatti mig eindregið til þess að fjárfesta í ýmsum hlutabréfasjóðum eða einstökum fyrirtækjum sem hann taldi upp að minni ósk og fór með þuluna um að sagan sýndi að vextir af hlutabréfum væru að jafnaði helmingi hærri en vextir almennra hlutabréfa. Ég benti honum á að þetta væri bandarísk hagspeki sem ætti við þar í landi, en hér væru menn ekki vanir slíkum viðskiptum. Íslendingar væru hávaxtafíklar og skildu ekkert annað en háa vexti. Benti ég honum einnig á að gengi bréfa í fyrirtækjunum, sem hann hefði nefnt,  færi nú lækkandi. Endir samtalsins varð sá að ég sagðist bera þetta undir fleiri í fjölskyldunni, en hann svaraði því til að hann hefði einungis viljað gera mér persónulegan greiða þar sem góð tengsl væru á milli mín og föður síns.

Niðurstaða samráðsins varð sú að ekki skyldi hreyft við fjármunum móður okkar og voru þeir látnir standa óhreyfðir á bankabók.

 

Siðleysið endurtekur sig hjá Aríonbanka

Fyrir nokkru lá leið okkar hjóna í eitt af útibúum Aríonbanka, en konan mín átti þar erindi. Ég beið á meðan hún talaði við þjónustufulltrúann (ekki sölumann), en að nokkrum tíma liðnum kom hún og sótti mig. Vildi hún að ég hlustaði á tilboð fulltrúans.

            Ungi maðurinn, sem sat á bak við borðið, spurði þá sömu spurningarinnar, sem hann hafði spurt konuna áður, hvort við vildum ekki fá tilboð í tryggingar frá „öðrum fyrirtækjum". Algengt væri að tryggingafélög hækkuðu heimilistryggingar og aðrar tryggingar ef menn gættu ekki að sér. Spurðum við þá hvort bankinn tæki að sér að útvega tilboð frá mörgum fyrirtækjum. Svo var ekki. Einungis væri um tilboð frá VÍS að ræða, en það væri samstarfsaðili bankans.

            Okkur var báðum misboðið. Ræða piltsins var röng og fullyrðingarnar ósannar. Einungis átti að koma okkur í viðskipti við eitt tryggingafélag sem var þar að auki samstarfsaðili bankans. Hvort telst þetta þjónusta eða prang?

            Piltinum var gerð grein fyrir því að við hygðumst ekki skipta um tryggingafélag vegna atbeina bankans og öll rök hnigju að því að leitað yrði annað en til VÍS, ef af því yrði að við skiptum um tryggingafélag. Mótmæltum við síðan athæfi piltsins og rökfærslum. Varð fremur fátt um kveðjur.

 

Ábyrgð stjórnenda

Ábyrgð stjórnenda er mikil. Þeim ber að innræta starfsfólki góða starfshætti. Þeim ber einnig að skilja muninn á þjónustu og prangi. En í lokin hlýt ég að spyrja eftirfarandi spurninga:

  • 1 Í hverju er samstarf Aríonbanka og VÍS fólgið?
  • 2 Tækju þjónustufulltrúar Aríonbanka að sér að útvega okkur tilboð frá öðrum tryggingafyrirtækjum, ef eftir yrði leitað?
  • 3 Hvar liggja mörkin á milli þjónustu og sölustarfsemi?
  • 4 Fá almennir starfsmenn umbun fyrir hvern þann viðskiptavin sem þeim tekst að lokka í viðskipti við VÍS?
  • 5 Hvað um annað launahvetjandi athæfi starfsmanna bankans? Geta viðskiptavinir yfirleitt treyst ráðleggingum kornungs fólks sem hefur sáralitla reynslu af viðskiptum og almennum fjármálum?
  • 6 Hvaða skilyrði þarf fólk að uppfylla til þess að geta orðið þjónustufulltrúar hjá Aríonbanka?

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort stjórnendur bankans sjái ástæðu til þess að svara spurningum þessum á blogginu.

 

 


Góður drengur kvaddur

Í dag verður borinn til grafar Arnór Pétursson, margreyndur og ötull baráttumaður um málefni fatlaðra. Örlögin haga því svo að ég kemst ekki að jarðarför hans og tími vannst ekki til að senda inn minningargrein um hann. Því verða nokkur minningarorð birt á þessum stað.

Þegar hvörf verða í lífi manna bregðast þeir við með ýmsum hætti. Sumir breyta um stefnu, aðrir leggja árar í bát og til eru þeir sem halda óbreyttri stefnu. Sú leið endar einatt með skipbroti. Arnór vissi sem sjómaður að hvort tveggja þurfti að gera - breyta um stefnu og halda á önnur mið.

Arnór einhenti sér í baráttu fatlaðra undir eins að endurhæfingu lokinni. Hann var einn þeirra sem stofnuðu Íþróttasamband fatlaðra og formaður Sjálfsbjargar, landsambands fatlaðra, var hann um skeið. Hann sat í aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands um árabil og var þar ötull liðsmaður.

Arnór kom víðar við ef málefni fatlaðra voru á dagskrá. Þegar reynt var að koma þessum málefnum á framfæri á vettvangi stjórnmálaflokka eða annarra samtaka var hann ódeigur liðsmaður. Sem starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins reyndist hann fjölmörgu fólki vel og var óspar á góð ráð. Hann hvatti fólk iðulega til þess að leita réttar síns og aðstoðaði það í hvívetna.

Með Arnóri Péturssyni er genginn góður drengur á vit hins ókunna. Við, sem eftir sitjum á þessari jarðarkringlu, söknum góðs vinar og þökkum allt hans óeigingjarna starf í þágu þess málstaðar sem við helguðum okkur. Fjölskyldu Arnórs sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Arnþór Helgason


Bilið vex millum alþýðu og yfirvalda

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, er mikill ræðuskörungur og hefur einwstakt lag á að finna réttum orðum stað á réttum tíma. Við hjónin ætluðum að hlýða prédíkun hans í morgun, en svo varð ekki.

Undanfarin ár höfum við verið viðstödd athöfn á Austurvelli þann 17. júní og haldið þaðan í Dómkirkjuna í Reykjavík að hlýða messu. Í morgun brá svo við, að lögregluþjónar stöðvuðu okkur og greindu frá því að kirkjan væri einungis opin öðrum en almenningi.

Þegar svo er komið að höfuðkirkja landsins er einungis opin boðsgestum á þjóðhátíðardegi landsins, er hæpið að hægt sé að tala um þjóðkirkju. Skiptir þá engu hvort þeir, sem ætla sér að hlýða messu séu utan eður innan þjóðkirkjunnar. Kirkja, sem hýsir einungis valda boðsgesti, er ekki framar kirkja almennings heldur yfirvaldanna.


mbl.is Biður þjóðina að horfa fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talandi GPS kemur til hjálpar

Nokkrum sinnum hefur verið fjallað um hið nýja leiðsögukerfi hjá Strætó og þá staðreynd að það er of lágt stillt í mörgum vögnum. Að sögn verkefnisstjóra fyrirtækisins er nú unnið að lagfæringum kerfisins. Að undanförnu hef ég ferðast með vögnum 11, 13 og 15 að jafnaði og enn hitti ég á vagna þar sem nær ekkert heyrist í kerfinu.

Á þriðjudaginn var fór ég vestur á Seltjarnarnes með leið 11 og greindist ekki hvað sagt var í kerfinu. Ég þekki hins vegar leiðina allvel og kom þetta ekki að sök.

Í morgun tók ég leið 15 frá Bíldshöfða vestur á Meistaravelli. Hafði ég ekki farið þessa leið áður og hugsaði nú gott til glóðarinnar - leiðsögukerfið ætti að duga. Svo var ekki. Ekki heyrðust orðaskil í kerfinu ena endrum og eins, þegar vagninn nam staðar og enginn sagði orð. Þá mátti með herkjum greina hvað sagt var.

Ég hef áður greint frá tilraunum mínum með talandi GPS-tæki í farsíma og í morgun kom þessi búnaður svo sannarlega að góðum notum. Með því að stilla tækið á leiðsögn las það öðru hverju upplýsingar um staðsetninguna, nógu nákvæmar til þess að ég vissi hvar ég væri staddur hverju sinni.

Það virðist ganga ótrúlega seint að hækka styrkinn í leiðsögukerfinu hjá Strætó og þar sem það er hæst stillt má það ekki lægra vera. Ég hef haldið því fram í samskiptum mínum við starfsmenn fyrirtækisins að í raun komist þetta ekki í lag fyrr en neytendur verða fengnir í lið með þeim sem stilla kerfið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband