Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eiga öryrkjar baráttusamtök?

Um þessar mundir eru 25 ár liðin síðan stjórnvöld ákváðu að skerða framkvæmdasjóð fatlaðra um 64 milljónir króna, úr 160 milljónum í 96 milljónir. Nýr formaður hafði þá nýlega tekið við hjá Öryrkjabandalagi Íslands og svo stóð einnig á hjá Landssamtökunum Þroskahjálp.

Þessi tvö samtök brugðust hart við og settu af stað svokallað byltingarráð. Efnt var til funda með stjórnmálamönnum og farið á alla vinnustaði fatlaðra til þess að stappa í fólk stálinu. Mikil stemmning náðist og var haldin vaka á Hótel Borg, þar sem menn báru saman bækur sínar. Steingrímur Hermannsson tók síðan við kröfum samtakanna á Austurvelli og í loftinu lá framboð, mun betur og alvarlegar hugsað en nokkru sinni fyrr og síðar af þessum samtökum. Svo fór að Alþigi hvarf að hluta frá þessari skerðingu.

Nú ætlar ríkisstjórnin enn að skerða hlut öryrkja og aldraðra ásamt bótum til handa atvinnulausu fólki. Ekki stendur til að hækka bætur til jafns við laun á almennum markaði. Þetta er þekkt aðferð íslenskra stjórnvalda allra tíma og hefur iðulega leitt til þess að fatlað fólk hefur festst í harðari fátækragildru eftir því sem árin hafa liðið.

Nú heyrist fyrst og fremst frá Alþýðusambandinu, en frá samtökum fatlaðra heyrast einungis veiklulegar bókanir og fatlaðir forystumenn þeirra treystast ekki til þess að ganga fram fyrir skjöldu og verja hag umbjóðenda sinna.

Þarf forysta samtakanna ekki að hugsa sinn gang?


Huang Nubo og Ögmundur Jónasson

Þegar sendinefnd Kínversk-íslenska menningarfélagsins var á ferð um Kína í lok októbermánaðar fór ekki hjá því að áhuga Huang Nobo á að fjárfesta hér á landi bæri á góma. Þegar stærð Grímsstaða var borin við sambærilega stærð landsvæðis í Kína, 27.000 ferkílómetra, urðu sumir hugsi.

Íslenskt viðskiptaumhverfi og hugsunarháttur virðist vanþróað og hér á landi er sem engin þekking sé á því hvernig megi komast hjá því að búa til nær óleysanlega hnúta, sem upp koma í samskiptum Íslendinga og annarra þjóða. Það vekur athygli að ekki hafi verið reynt að beina fjárfestingu Huangs Nubo í aðra farvegi og vekur það óneitanlega spurningar um ráðgjafa hans. Það virðist ljóst að Samfylkingin beri nokkra ábyrgð í þessu máli, þegar skoðað er hverjir voru í fylgd með Huang Nubo, þegar hann kom fyrst að Grímsstöðum.

Þá vekur athygli sá eintrjáningsháttur, sem innanríkisráðherra virðist hafa haft í þessu máli. Algert sambandsleysi virðist hafa verið millum hans og iðnaðar- og viðskiptaráðherra og engin tilraun gerð til samráðs. Undirrituðum var bent á fyrir nokkru, að hugsanlega hefði mátt beina þessum umræðum í þá átt að Huang Nubo hefði fengið land Grímsstaða til leigu í nokkra áratugi. Slíkt hefur tíðkast hér á landi og ætti að falla mönnum betur í geð en kaup á jafnstórri landspildu og um er að ræða. Íslendingar þurfa á erlendu fjármagni að halda til þess að byggja upp atvinnuvegi með öðrum hætti en álver og annan meingandi iðnað. Því er nauðsynlegt að slíta ekki alla strengi, sem tengja Huang Nubo við Ísland. Þessi fjárfestir hefur sýnt með óyggjandi hætti, að hann standi við orð sín, samanber Kínversk-íslenska menningarsjóðinn, sem hann hefur fjármagnað.

Það er rétt hjá Huang Nubo að rétt sé að kínverskir fjárfestar kynni sér pólitískt umhverfi í þeim löndum sem þeir hyggjast eiga samskipti við. Þetta umhverfi hefðu ráðgjafar hans á Íslandi átt að kynna honum, en þeir virðast hafa brugðist honum.

Innanríkisráðherrann hefur einnig brugðist. Nú er að vita hvort ekki verði hægt að finna annan flöt á þessu máli þegar menn hafa dregið djúpt andann. Til þess þarf samráð en ekki einstrengingslegan hugsunarhátt manna sem skortir þor. Verkefni eins og samstarfið við Huang Nubo, væri skólabókardæmi um það hvers innviðir íslenska stjórnkerfisins séu megnugir, báðum aðilum til hagsbóta.


Rangur starfsvettvangur

 

Í Pressunni í dag er greint frá því að vagnstjóri nokkur hjá Strætó hafi lagt fram kæru á hendur yfirmönnum fyrirtækisins vegna þeirrar ákvörðunar að setja staðsetningarbúnað í vagnana.

Í sömu frétt segir að strætisvagnabílstjórar hati kvenmannsröddina sem lesi nöfn biðstöðva.

http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Innlent/vagnstjorar-hata-kvenmannsroddina-talar-hatt-med-ding-dong-hljom---kippa-henni-ur-sambandi

Nokkuð bar á því að sögn starfsmanna Strætó, sem ég ræddi við, að bílstjórar hefðu aftengt raddbúnaðinn og vegna kvartana frá notendum raddbúnaðarins, voru lyklar að tækjaskápum vagnanna teknir af bílstjórunum.

Kvörtun þessa vagnstjóra opinberar þá dapurlegu staðreynd að jafnan eru þeir menn til, sem vilja leggja stein í götu þeirra sem reyna þrátt fyrir fötlun eða aldur, að lifa eðlilegu lífi. Slíkir menn ættu að taka eitthvað annað að sér en þjónustustörf eins og akstur strætisvagna.

Sú ákvörðun að setja leiðsagnakerfi í strætisvagna höfuðborgarsvæðisins, ber vitni um jákvætt hugarfar núverandi stjórnenda, sem vilja umfram allt auka þjónustu við farþegana. Þessi búnaður gerir nokkrum hópi fólks kleift að notfæra sér vagnana, en án hans gætu menn það ekki. Leiðsögubúnaðurinn rýfur einangrun hópsins oog eykur sjálfstæði hans. Ég dreg stórlega í efa að röddin í leiðsögubúnaðinum trufli jafnmikið og viðtækin, sem sumir bílstjórar hafa í gangi og varpa yfir farþega svo háværri tónlist að orðaskil í leiðsögutækjunum verða ekki greind.


Fréttastofa Ríkisútvarpsins - málpípa andófsafla

Fréttastofu Ríkisútvarpsins hefur iðulega verið ábótavant þegar um erlendar fréttir er að ræða. Þýðingar eru ómarkvissar og fáfræði fréttamanna almenn um ýmislegt sem varðar stjórnkerfi og landshagi fjölmennra ríkja austan hafs og vestan.

Þá ber einatt á því að andstyggð fréttamanna hlaupi með þá í gönur. Þannig var Dagblað alþýðunnar í morgun kallað "málpípa kínverskra stjórnvalda.

sá, sem það gerði, er margreyndur fréttamaður, en hefur iðulega orðið á að láta andstyggð sína á kínverskum stjórnvöldum hlaupa með sig í gönur. Jafngildishlaðið orðalag og þetta sæmir ekki fréttastofu Ríkisútvarpsins. Verður e.t.v næst upp á teningnum að nefna Morgunblaðið málpípu soðningaríhaldsins?


Aldrað fólk fórni sér

Einatt hefur verið vitnað í aldraðan fjárfesti á þessum síðum, þegar eitthvað hefur verið á döfinni, sem skiptir máli í fjármálaheimi Íslendinga. Hefur honum einatt ratast satt orð á munn, enda maðurinn spámannlega vaxinn og margreyndur í lífsins ólgusjó.

Í dag háðum við kappræður um niðurskurðinn sem framinn er á Landspítalanum. Vorum við sammála um að viturlegt væri að leggja Sogn niður, enda húsnæðið niðurnítt og mun betri aðstaða á Kleppi, þótt hann sé í Reykjavík. Þykir okkur málflutningur þingmanna sunnlendinga með ólíkindum í því máli og minnum á að Sunnlendingar geta engu síður sótt vinnu suður en Reykvíkingar austur.

Ritstjóri síðunnar taldi að nú væri svo komið að ríkið yrði að skera við nögl framlög til svokallaðra einkarekinna háskóla í stað þess að taka sífellt af þeim, sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, sjúklingum og öldruðu fólki. Fjárfestirinn fullyrti þá að fara mætti sérkennilega leið til þess að forða líknardeildinni á Landakoti frá því að verða lögð niður. Setti hann upp eftirfarandi dæmi:

,,Maður nokkur, sem er rúmlega áttræður, er farinn að heilsu og þykir erfitt að þreyja þorrann. Nafn hans verður ekki nefnt hér, en hann er upphafsmaður tillögunnar. Lyfin, sem hann notar til þess að halda í sér líftórunni, kosta hið opinbera 6 milljónir á ári. Ef leitað yrði til 8-9 slíkra einstaklinga og þeim gefinn kostur á að fórna sér fyrir málstaðinn, er hann þess fullviss, að flestir brygðust vel við."

Að lokum kvaðst hinn aldraði fjárfestir veita samþykki sitt fyrir því að tillaga sjúklingsins yrði birt á þessum síðum.


forstjóri Bankasýslu ríikisins las ekki heima

Allir hafa sína kosti og þá hefur núverandi forstjóri Bankasýslu ríkisins.

Sumir hafa talið honum til gildis að hafa verið aðstoðarmaður fyrrum ráðherra iðnaðar- og orkumála. Þegar betur er að gáð er ekki víst að sú skoðun standist. Á meðaan hann var aðstoðarmaður, voru orkufyrirtækin einkavædd vegna þess, eftir því sem haldið var fram, að ákveði samningsns um EES gerðu ráð fyrir því. Síðar kom í ljós við nánari athugun að frá þeim ákvæðum voru gild undankomuákvæði sem hvorki þáverandi ráðherra né aðstoðarmaður virtust hafa hugmynd um, og af því súpa landsmenn nú seyðið.

Skyldi brennt barn forðast eldinn?


Jákvæð viðhorf hjá ríkisskattstjóra

Fyrir þremur árum var á þessum síðum greint frá samskiptum mínum við embætti ríkisskattstjóra, en þeim lauk með talssverðum endurbótum á vefnum. Átti ég einkar ánægjulegt samstarf við einn af starfsmönnum embættisins, Einar Val Kristinsson auk ríkisskattstjóra sjálfs, Eggerts Skúla Þórðarsonar.

Eftir að rafræn skilríki komu til sögunnar og voru virkjuð á vef ríkisskattstjóra, varð öll vinnsla auðveldari. Í gær kom í ljós, sem ég hafði reyndar vitað, að svokallaðan alt-texta vantaði við hnapp, sem styðja þarf á til þess að virkja rafræn skilríki. Skjálesarinn las einhverja stafarunu sem í raun sagði fátt um hvað hnappurinn snerist. Því rifjaði ég upp bréfaskipti okkar Einars Vals og sendi honum línu. Viti menn. Svar barst um hæl þar sem mér var þökkuð ábendingin og sagt að textinn væri kominn.

Í dag leit ég inn á heimasíðuna, enda stendur nú til að gera skil á opinberum gujöldum. Hnappurinn var á sínum stað með textanum "Innskráning með rafrænum skilríkjum". Þetta er til hreinnar fyrirmyndar og lýsir vel góðri þjónustulund.

Svona eiga sýslumenn að vera, eins og Skugga-Sveinn mælti hér um árið. og "þjóna alþýðunni" eins og Mao formaður vildi

Gott aðgengi að vefnum sparar bæði fé og fyrirhöfn. Fróðlegt væri að vita hvort einhverjir, sem eru blindir eða svo skjónskertir að þeir þurfa á stækkuðu letri eða blindraletri að halda, nýti sér þær leiðir sem opinberir þjónustuvefir hafa opnað með rafrænum skilríkjum og aðgengilegum vefsíðum.


Fjárlög virðast öðrum lögum æðri

Enn á að grípa til sömu úrræðanna; skerða mest hjá þeim sem minnst hafa handa á milli og höggva þannig enn og aftur í sama knérunn.

Frá því að ég fór að taka þátt í hagsmunabaráttu fatlaðra innan Öryrkjabandalags Íslands fyrir bráðum 30 árum hefur ætíð hið sama snúið upp á teningnum. Þegar talið er að syrti í álinn er dregið af öldruðu fólki og öryrkjum. Þótt samtök fatlaðra geri samninga við ríkisstjórnina eru þeir ævinlega sviknir þegar á hólminn er komið. Þar virðist engin undantekning á. Sjálfstæðisflokkur, alþýðubandalag, Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylkingin og jafnvel Vinstri grænir, allir eru þessir flokkar undir sömu sök seldir.

Þótt þí megi halda fram að kjör öryrkja séu sennilega skárri nú en þau urðu verst á valdatíma þeirra Davíðs, Jóns Baldvins og Halldórs, nær þó engri átt að ætla að reiða enn og aftur til höggs gegn öldruðu fólki og öryrkjum. Ef skattleggja á bankana, er ekki nema réttmætt að allur sá skattur, sem af því hlýst, renni óskiptur til velferðarmála.

Er ekki kominn tími til að samtök fatlaðra leggi fram tillögur að fjárlögum ríkisins, þar sem tekið verði mið af raunverulegum þörfum? Hið sama gætu samtök aldraðra gert.


Breytingar á Viðskiptablaðinu

Nokkrar sviptingar virðast hafa orðið á Viðskiptablaðinu að undanförnu. Söludeild blaðsins hefur verið lögð niður og verkefnin færð til annars fyrirtækis úti í bæ. Í fyrrahaust var söluþóknun sölumanna lækkuð um þriðjung þrátt fyrir góðan árangur deildarinnar.

Þá berast einnig þau tíðindi að Þórður Snær Júlíusson og Magnús Halldórsson, sem komu til viðskiptablaðsins um svipað leyti og Björgvin Guðmundsson, sem síðar varð ritstjóri, hafi nú báðir ráðið sig til 365 miðla. Þar með hverfa þeir blaðamenn af vettvangi sem voru helsta fjöðurin sem sölumenn blaðsins skreyttu sig með og drógu að kaupendur.


Brjálaði maðurinn með blindrastafinn

Föstudaginn 16. þessa mánaðar verður haldi ráðstefnan Hjómum til framtíðar. Verður þar rætt hvernig megi auka hljólreiðar í Reykjavík. Ekki veitir af, því að aðstaða gangandi og hjólandi vegfarenda hefur farið versnandi að undanförnu nema þar, sem lagbðir hafa verið sérstakir hjólreiðastígar.

 

Árangursrík endurhæfing

 

Árið 1978 var ég svo heppinn að komast í endurhæfingu í borginni Torquay í Devonskíri á Bretlandi. Lærði ég þar m.a fyrir tilstilli Elínborgar Lárusdóttur, blindraráðgjafa. að komast leiðar minnar með því að nota hvíta stafinn, eitt helsta hjálpartæki blindra. Þegar ég kom heim hófst ég handa við að læra ýmsar leiðir og reyndist móðir mín, Guðrún Stefánsdóttir, mér einstaklega velí þeirri viðleitni. Einnig reyndist Emil Bóasson ásamt öðrum mér mikil hjálparhella.

 

Á næstu árum fór ég víða um borgina á eigin spýtur og lenti í margvíslegum ævintýrum. Naut ég þess að ögra sjálfum mér og umhverfinu og takast á við þann vanda sem fylgir því að fara gangandi um borgina á eigin spýtur og án annarrar aðstoðar en þeirrar, sem reyndist nauðsynleg.

 

Versnandi aðstaða

 

Um nokkurra ára skeið dró úr gönguferðum mínum, enda voru þá annir miklar og aðstæður breyttar. Eftir a ég missti fasta atvinnu í ársbyrjun 2006 hófust gönguferðirnar á ný. Þá komst ég að því að aðgengi blindra og sjónskertra að Reykjavíkurborg hefur stórversnað og samtök fatlaðra virðast hafa sofnað á verðinum nema þeirra, sem ferðast um í hjólastól. Þeir hafa vakað á ferðunum og stundum troðið á rétti annarra. Verða hér rakin nokkur dæmi um hættur, sem hafa verið búnar til í umferðinni.

 

1.    Svokallaðar zebrabrautir eru nær horfnar úr borginni. Gangandi og hjólandi vegfarendum er nú iðulega beint yfir götur á gangbrautum sem eru á gatnamótum. Því fylgir einatt stórhætta og sums staðar eiga gangandi vegfarendur þar engan rétt.

2.    Gatnamót eru nú með meiri sveigju en áður og er oft erfitt sjónskertu eða blindu fólki að taka rétta stefnu yfir gangbrautir.

3.    Sums staðar á gatnamótum eru svo kölluð beygjuljós. Þegar umferð hefur stöðvast á aðalbraut virðist þeim, sem ætla að beygja inn í hliðargötur, gefið veiðileyfi á gangandi vegfarendur í dálitla stund. Skapar þetta stórhættu og er í raun banatilræði við þá sem eru sjónskertir eða blindir.

4.    Víða hefur gangbrautum verið breytt þannig, þar sem götur eru í breiðara lagi, að gangandi eða hjólandi vegfarendur geta ekki farið beint af augum yfir göturnar. Sveigja verður til hliðar á umferðareyjunni til þess að komast leiðar sinnar. Er þetta erfitt hjólandi vegfarendum )t.d. þeim sem eru á tveggja manna hjóli) og gerir blindu fólki nær útilokað að fara yfir á réttum stöðum. Þessar brautir eru í raun sem ófær stórfljót.

5.    Víða í borginni finnst ekki lengur neinn munur á götum og gangstéttum og lenda því blindir vegfarendur iðulega úti á götu án þess að átta sig á því. Laugavegurinn er glöggt dæmi um slíkt.

6.    Borgaryfirvöld hafa markað örstutt svæði nærri umferðarljósum og víðar með rauðum steinum. Áferð þeirra er svo svipuð nánasta umhverfi að blindur maður með hvítan staf tekur ekki eftir neinu.

7.    Í þeim mannvirkjum, sem tekin hafa verið í notkun að undanförnu, er ekkert tillit tekið til blindra eða sjónskertra. Arkitektar virðast enga hugmynd hafa um merkingar, heppilega litasamsetningu, leiðarlínur o.s.frv. Háskólatorgið, Háskólinn í Reykjavík og Höfðatorg eru glöggt dæmi um slíkt. Þá er Ingólfstorg beinlínis stórhættuleg slysagildra.

8.    Engar merkingar eru í námunda við biðstaði strætisvagna sem auðvelda blindu fólki að finna þær.

9.    Víða eru margs konar stólpar og hindranir sem valda fólki meiðslum og margs kyns óþægindum.

10.  Ekkert, bókstaflega ekkert, var gert til þess að auðvelda blindu eða sjónskertu fólki umferð um Hlemm og aðrar samgöngumiðstöðvar. Þegar breytingar voru hannaðar var látið sem þessi hópur væri ekki til.

 

Þótt félagsþjónusta í Reykjavík sé e.t.v. skárri en víðast hvar verður því ekki neitað að borgin er þannig skipulögð að unnið er markvisst að einangrun þessa hóps. Tökum sem dæmi hús Blindrafélagsins við Hamrahlíð 17. Þangað er að vísu hægt að komast með einum strætisvagni. Sá, sem hyggst fara gangandi þaðan á eigin spýtur í norður, er hins vegar ofurseldur Miklubrautinni vegna breytinga, sem gerðar voru á gönguleiðinn á mótum Miklubrautar og Stakkahlíðar. Nú er ekki lengur hægt að fara beint yfir Miklubrautina heldur verður að sveigja til hliðar til þess að halda áfram. Þannig var blint fólk útilokað frá því að nýta þessa gönguleið og þjónustumiðstöð blindra um leið einangruð.

 

Ástandið er litlu skárra í sumum nágrannasveitarfélögum Reykjavíkurborgar. Nú er nauðsynlegt að menn taki saman höndum og vinni markvisst að breytingum á þessu sviði og búi til borg og kaupstaði, sem ætluð sé öllum en ekki sumum. Myndum nú þrýstihópa þeirra sem eiga undir högg að sækja í umferðinni. Oft var þörf, en nú er nauðsyn.

  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband