Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Tungutorg - merkilegt hjálpartæki

Á laugardaginn var opnaði Stefán Briem, eðlisfræðingur, vefsíðuna tungutorg.is. Þar birtist árangur rannsókna hans og hugbúnaðargerðar, en Stefán hefur um árabil unnið að því að útbúa hugbúnað sem þýðir á milli tungumála.

Hægt er að þýða texta á milli íslensku, ensku, dönsku og esperanto. Ekki er um bókmenntalegar þýðingar að ræða heldur er textinn hráþýddur og fá menn þá hugmynd um hvað hann fjallar.

Ég renndi nokkrum textum gegnum hugbúnaðinn, ef svo má að orði komast. Íslensku þýðingarnar skiluðu sér allsæmilega yfir á ensku. Í ljós kom að ýmis orð fundust ekki í orðasafninu og önnur voru misskilin. En hvernig má annað verða þegar um jafnflókið tungumál og íslensku er að ræða og blæbrigði málsins óteljandi.

Ég gerði einnig nokkrar tilraunir með þýðingar úr ensku á íslesku. Þar var um að ræða efni sem ég þekki sæmilega. Árangurinn var mun meiri en ég hélt og er víst að þessi aðferð getur ´stytt mörgum leið í starfi sínu.

Væntanlega heldur Stefán afram að þróa ýmsa þætti hugbúnaðarins svo sem orðasafn o.s.frv. Ástæða er til að óska honum hjartanlega til hamingju með störf sín. Árna ég honum velfarnaðar á þessum vettvangi sem öðrum.


Tónlistarspilarinn aðgengilegur og merkingar með blindraletri til fyrirmyndar í Hreyfingu

Ég hef að undanförnu vakið athygli þeirra Morgunblaðsmanna á að tónlistarspilarinn sé ekki aðgengilegur þeim sem nota skjálesara og hafa þeir að vanda tekið ábendingum mínum vel.

Í morgun fékk ég skeyti frá hönnuðum dolphin-hugbúnaðarins þar sem gefnar eru leiðbeiningar um hvernig eigi að gera svokallaða flash-spilara aðgengilega og nú´svínverkar það.

Annað gleðilegt atriði um aðgengi blindra. Á fimmtudaginn voru iðnaðarmenn að lagfæra stigann sem liggur frá búningsklefum Hreyfingar upp í afgreiðslu og þurfti ég því að nota lyftu fyrirtækisins. Þar er langbesta blindraletur sem ég hef séð í íslenskum lyftum auk þess sem tölustafir handa þeim sem sjá eru upphleyptir og mjög skýrir. Hið sama má segja um fataskápana. Á þeim eru upphleyptir tölustafir.


Hefur Síminn beðið ósigur?

Að undanförnu hefur verið greint frá því að vodafone hafi sett upp langdræga GSM-senda víða um land. Einu sinni var sagt að tæknilegar ástæður lægju til þess að langdrægni GSM-kerfisins væri takmörkuð við 25-30 km en nú hefur sýnt sig að nýir sendar, sem eru víst kínverskir, draga allt að 100 km.

Ég hafði samband við Vodafone um daginn og spurði hvort gerðir yrðu reikisamningar við Símann og fleiri fjarskiptafyrirtæki til þess að tryggja afnot viðskiptavina þeirra. Ekki var mönnum kunnugt um það þar á bæ.

Síminn hugðist koma upp öðru farsímakerfi á þeirri tíðni sem NMT-kerfið hefur notað til þessa. Skyldu þau áform nú ekki vera í uppnámi eftir að langdrægu GSM-sendarnir komu til sögunnar?

Getur verið að brátt verði Vodafone að sæta ýmsum úrskurðum vegna yfirburða sinna á langdrægnismarkaðinum?


Íslenskt tölvutal og viðmót

Í morgun birti Fréttablaðið í leiðara sínum þarfa ábendingu Steinunnar Stefánsdóttur um nauðsyn þess að viðmót tölva sé á íslensku og skal heils hugar undir hana tekið.

Fyrir nokkrum árum kenndi ég nokkrum einstaklingum að nota tölvur og beitti mér fyrir því innan Öryrkjabandalagsins að íslenskt viðmót yrði tekið upp á tölvum þar á bæ. Reynslan varð sú að nemendum gekk mum betur að tileinka sér hið íslenska viðmót og var það skoðun annarra sem önnuðust slíka kennslu.

Þýðing tölvuviðmóts er lagskipt. Þegar komið var undir yfirborðið brá svo við að flestar skipanir og textar voru á ensku. Þar vantaði talsvert á að íslenska viðmótið dygði og olli þetta ýmsum vandræðum og misskilningi. Þá bættist við að forrit, sem tilheyrðu ekki staðalbúnaði tölvunnar, voru iðulega á ensku. Þurfa menn því áfram að búa við hið enska umhverfi.

Steinunn víkur í leiðaranum að tölvutali þegar hún talar um að brátt aukist hlutur hins talaða máls í heimilistækjum. Því hefur verið spáð að sofni Íslendingar á verðinum í þessum efnum líði tungumálið innan skamms undir lok því að forsenda þess að tungumál þroskist og dafni sé sú að hægt sé að nýta það á öllum sviðum.

Fyrir nokkru stóðu Síminn, Hex og fleiri fyrirtæki að þróun íslenska talgervilsins Röggu og bundu ýmsir vonir við að hann yrði gerður aðgengilegur á einkatölvum. Þetta virtist forráðamönnum Símans hafa yfirsést og var í engu haft samband við þá notendur sem þurfa að nýta sér gervital í tölvum. Komu því fram ýmsir hnökrar á talgervlinum sem auðveldlegahefði mátt laga.

Þrátt fyrir að bent hafi verið á þetta í ýmsum fjölmiðlum hafa engin viðbrögð borist og yfirvöld láta þennan hóp algerlega afskiptalausan. Hann er þó fjölmennari en margir halda. Flestir, sem eiga erfitt með lestur, geta nýtt sér gervital í tölvum og það gerbreytir aðstöðu þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða lesblindir. Því er óskiljanlegt að forráðamenn Símans og samstarfsaðila hans hafi ekki beitt sér fyrir því að talgervillinn Ragga yrði gerð aðgengilegur almenningi. Hvað veldur? Spyr sá sem ekki veit.


Talandi blóðsykurmælar

Í kvöld fékk ég bandarískt fréttabréf um rafrænt aðgengi. Þar er lýst nokkrum blóðsykurmælum sem tala ensku og eru algerlega aðgengilegir þeim sem eru sjónlausir.

Hér á markaðinum hafa verið stórir mælar frá Beier. Þeir eru seinvirkir og tekur um eina mínútu að fá niðurstöður mælinga. Blóðsykurmælarnir, sem lýst er í þessu fréttabréfi, eru mun minni, tífalt hraðvirkari og mun ódýrari. Mig minnir að talandi mælir kosti hér á landi um 80.000 kr, en mælarnir, sem fjallað er um og eru frá Ungverjalandi og Taiwan, kosta um 80 Bandaríkjadali.

Hér að neðan er slóðin á fréttabréfið. Vinsamlegast látið sjóndapra og sykursjúka vini ykkar vita. Ekki skaðar að gera innflytjendum aðvart.

http://www.afb.org/accessworld


Vefur TM einhver aðgengilegasti vefur heims!

Í dag vottaði Sigrún Þorstensdóttir, aðgengisfræðingur, fyrir hönd fyrirtækisins Sjár ehf, að vefur Tm væri nú kominn með vottun III fyrir aðgengi og lengra verður tæplega gengið.

Það eru ljúfsárar tilfinningar sem bærast innra með mér þegar ég rifja upp fyrri vottun vefsins hinn 6. desember 2005, en ég hafði lítillega komið nálægt prófun vefsins. Í sumar veittist mér einnig sú ánægja að prófa nokkra hluti sem vefhönnuðir TM og Sigrún höfðu útbúið. Allt stóðst þetta ítrustu kröfur.

Einkafyfirtæki og opinberar stofnanir ættu að taka TM sér til fyrirmyndar. Það er dapurlegt að ræða við suma forráðamenn hálfopinberra fyrirtækja eða nýlega einkavæddra sem halda því blákalt fram að aðgengi sé ekki ofarlega á blaði í stefnu fyrirtækjanna, en það renna þó á þá tvær grímur þegar þeim er bent á upplýsingastefnu stjórnvalda. Vonandi hverfa þeir frá villu sinni.

Ég hvet lesendur þessa pistils til þess að skoða vefinn tm.is og njóta þess að flakka um hann. Ég hef áður lýst því á þessari síðu að ég hafi hug á að gerast viðskiptavinur TM og hef ekki horfið frá því. Það er svo gaman að fylla út þessi rafrænu eyðublöð og vita að maður stendur í því sambandi jafnfætis hverjum öðrum notanda. Oftast nær er fötlun fólgin í þeim hindrunum sem lagðar eru í götu fólks.

Til hamingju, Sigrún Þorsteinsdóttir og Tryggingamiðstöð með frábært verk.


Eru snertiskjáir framtíðin?

Í þættinum Cultureshock á BBC var í gær fjallað um nýjung sem Microsoft kynnir um þessar mundir. Um er að ræða byltingarkennda vinnslu myndrænna gagna og aðgerðir sem voru áður framdar með lyklaborði eða mús.

Gert er ráð fyrir að tölvuskjárinn verði flatur, eins konar borð og geti fólk flutt gögn sín fram og aftur með einni saman snertingunni. Taldi sérfræðingur, sem rætt var við, að brátt heyrðu lyklaborðin sögunni til. Benti hann m.a. á að snertiskjáir yrðu sífellt algengari á tölvum, tónhlöðum, farsímum o.s.frv.

Ekki ber að efa að þessi nýja snertitækni komi að notum á mörgum sviðum og ýti undir sköpunargleði fólks. Þá hljóta listamenn og hönnuðir að fagna þessari þróun.

Sérfræðingurinn benti einnig á aðra þróun sem mun ýta lyklaborðum að mestu út af markaðinum, en það er þróun hugbúnaðar sem gerir fólki kleift að eiga samskipti við tölvur með tali. Slíkur hugbúnaður er löngu kominn á markað fyrir flest menningarmál heims. Hér á landi hefur lítið gerst á þessu sviði undanfarið. Samtök fatlaðra hér á landi virðast ekki hafa burði til þess að ýta undir slíka þróun.

Þá má nefna búnað sem hreyfihamlað fólk getur nýtt sér til þess að stýra tölvum. Þá duga augnhreyfingarnar einar saman og fleira mætti nefna sem uppgötað hefur verið.

Evrópusamtök fatlaðra hafa bent á að snertiskjáir útiloki stóran hóp notenda frá því að geta nýtt sér tæknina. Víða hefur slíkum snertiskjám verið komið fyrir á opinberum stöðum þar sem kynningarefni er framreitt handa gestum. Þeir sem eru sjóndaprir eða með skerta hreyfigetu í höndum geta með engu móti nýtt sér þessa tækni. Fróðlegt verður að vita hvort samtök fatlaðra Bandaríkjamanna bregðist ekki við þessari þróun. Það var fyrir tilstilli bandarísku blindrasamtakanna að Microsoft neyddist til þess að huga a aðgengi fatlaðra að Microsoft-kerfinu.

Þegar Windows 95 kom á markaðinn lýsti ríkisútvarpið stýrikerfinu sem byltingarkenndri lausn. Ég laumaði inn athugasemd til fréttastofunnar um þær afleiðingar sem þessi þróun hefði fyrir blinda tölvunotendur og birti fréttastofan þessa athugasemd. Sannleikurinn var nefnilega sá að tækjaiðnaðurinn, sem hafði myndast um tölvuhjálpartæki blindra, riðaði til falls þegar Windows 95 kom á markaðinn.

Vonandi verður Microsoft á verði núna og fer ekki fram úr sjálfu sér.

Microsoft þverskallaðist ekki lengi við að sinna aðgengismálum. Nú er blint fólk mun betur sett í tölvumálum en áður vegna þeirra möguleika sem Windows býður mönnum. Fleiri atvinnuveitendur þyrftu að vita hvaða byltingu nútímatækni hefur valdið og getur haft í för með sér ef rétt viðhorf eru fyrir hendi. Þá fengi fatlað fólk kannski ekki svör við umsóknum sem hljóða þannig: "Því miður treystum við okkur ekki til að ráða þig ....."


Íslensk hljóðmynd á bandarískri heimasíðu

Um daginn fann ég þessa heimasíðu:

http://www.quietamerican.org/vacation.html

Á þessari síðu eru hundruð hljóðrita sem fólk hvaðanæva að hefur gert. Þeim er það sameiginlegt að vera u.þ.b. mínútu löng og vera hljóðrituð einhvers staðar á vettvangi. Hljóðritin eru ekki klippt heldur koma fyrir eins og þau hljómuðu í upphafi.

Ég sendi eiganda síðunnar nokkur hljóðrit og í morgun sá ég að hann hefur sett eitt þeirra á síðuna. Það var hljóðritað á svölunum á Tjarnarbóli 14 þann vindasama dag 16. september síðastliðinn og þar heyrist greinilega hvernig vindurinn feykir burtu laufinu af trjánum.

Ég er langt kominn með að útvega mér nýjan hljóðrita og í tengslum við það fann ég heimasíðuna. Hljóðritinn er kominn til landsins og verður senn leystur úr tolli.

Ég lagðist í umfangsmiklar rannsóknir til þess m.a. að sannreyna gæði þeirra hljóðnema sem ég ræð yfir. Ég á m.a. tvo víða Sennheiser ME-62 sem ég nota gjarnaan í viðtölum og einnig til umhverfishljóðritana. Eins og aðrir kondenser-hljóðnemar eru þeir dálítið viðkvæmir. Ég notaði þessa hljóðnema m.a. við gerð þáttarins "Helgaslysið við Faxasker 7. janúar 1950" en honum var útvarpað í ársbyrjun árið 2000. Þá gegndu þeir mikilvægu hlutverki við gerð þáttarins Hljóðhrærings sem ég útvarpaði í fyrravor. Hann verður næsta efni sem birt verður í bloggvarpi mínu.


Ný tilraunaútgáfa af Supernova

Þá er 3. betaútgáfan af Supernova komin. Slysalaust gekk að setja hana upp. Mér finnst ætíð dálítið kvíðvænlegt að setja upp þessi forrit og þurfa að eyða öllu sem snertir stjórnun talgervilsins úr vélinni.

Hvað er um að vera hjá Strætó?

Fyrir nokkrum árum tók ég þátt í að votta aðgengi að vef Strætó, en fyrirtækið lagði metnað sinn í að gera vefinn aðgengilegan.

Nú bregður svo við að vefnum hefur verið breytt og ekki hefur alls kostar verið hugað að aðgengi sjónskertra. Skulu nefnd dæmi:

Letur er of ljóst á síðunni, reitir ranglega skilgreindir, ekki eru notaðar fyrirsagnir /headings), notað er óskilgreint Flash, einn myndreitur er tómur, leiðarbókin eingöngu á pdf-sniði sem gerir nær ókleift að leita í henni o.s.frv. Áður var hægt að fá lýsingu á leiðarkerfinu með myndrænum hætti og hentaði það ýmsum vel. Einnig hafði verið vandlega forrituð tafla með leiðarlýsingum. Hvers vegna var þessu öllu hent út?.

Ef þetta er eftir öðru í þjónustu þessa fyrirtækis eiga menn tæplega von á góðu. Hvað segir stjórn fyrirtækisins um þetta? Ræður hún kannski ekki neinu?

Vottun heimasíðunnar er sjálfsagt fallin úr gildi enda skilst mér að ekkert vottunarmerki sé lengur á henni.

Ég ætlaði að senda Strætó kurteislega ábendingu um þetta vefslys. Þá þarf að staðfesta einhverja stafi sem birtast sem mynd á skjánum. Enn eitt dæmi um torveldað aðgengi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband