Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Heimasíða menningarnætur

Hver skyldi hafa hannað heimasíðu menningarnætur?

Hún er nú einhver óaðgengilegasta síða sem ég hef lengi skyggnst inn á. Ætti skilið að fá skammarverðlaun allra tíma á Íslandi.

Það virðist útilokað að ferðast um hana með lyklaborðinu og allar aðgengiskröfur þverbrotnar.

Ég vona að höfundurinn gefi sig fram og útskýri hvað hann meinti með þessari hönnun.

Mig undrar að engin samtök fatlaðra hafi látið í sér heyra. Ætli ég verði ekki bráðum að stofna nýtt blindrafélag.


Guðmundur Magnússon og aðgengi að upplýsingum

Í dag hringdi ég til Guðmundar Magnússonar, blaðamanns, rithöfundar og sagnfræðings. Spurði ég hann um tiltekið atriði sem tengist máli sem hann hefur rannsakað. Ekki hafði hann rekist á það sem ég leitaði að en bauðst til að fletta því upp einhvers staðar eins og hann orðaði það.

Ég velti fyrir mér hvern ég gæti beðið að leita að upplýsingum um mál þetta í tímaritum hér á landi. Eins og menn vita hafa Morgunblaðið, Þjóðviljinn, Dagur og ýmis tímarit verið skráð hjá Landsbókasafni Íslands þannig að hægt er að leita eftir tilteknum orðum og birtast þá upplýsingar um hvar þau er að finna. Gallinn er hins vegar sá að ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að lesa greinarnar á vefnum með skjálesurum. Því ræður sjálfsagt nauðsyn þess að þjappa efninu saman í jpg-skjöl eða eitthvað þess háttar.

Jæja, þar sem ég velti þessu fyrir mér hringdi síminn og Guðmundur var með alveg nýjar upplýsingar sem gerbreyttu stöðunni.

Verð ég honum ævinlega þakklátur fyrir aðstoðina sem fólst einmitt í því að hann fletti upp í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum og fleiri blöðum og fann það sem við vissum hvorugur um en höfðum þó leitt líkur að með hyggjuviti okkar og þekkingu. En líkur eruekki hið sama og staðreyndir.

Það fennir ótrúlega fljótt yfir ýmislegt í menningu okkar Íslendinga. Spyrjið því ömmur ykkar og afa hvenær þau fengu fyrst tómata, brögðuðu banana, kíví, kalkún, Prins Póló, sáu fyrst ferðaútvarpstæki, fengu fyrsta segulbandstækið, fyrstu tölvuna o.s.frv. Því meira sem við spyrjum þeim mun fróðari verðum við. Ég minnist þess oft þegar þeir ræddu eitt sinn saman, faðir minn og séra Þorsteinn Lúther Jónsson. Sagðist séra Þorsteinn oft rita hjá sér ýmislegt smálegt um tilurð þessa og hins.


Lausnin á sólskinsvanda fartölvueigenda

Svokallaðir heitir reitir eru vinsælir. Nú er orðið heitt á Austurvelli og bráðum verður heitt á öllu Seltjarnarnesi.

Að undanförnu hefur ýmsa langað út í sólskinið með fartölvuna sína. Sumir hafa jafnvel reynt það.

Þá hefur komið upp sá vandi að fólk sér ekki á skjáinn fyrir sólinni.

Menn hafa gerst svo djarfir að spyrja mig um lausn þessa vanda og þykir mér vissulega vænt um traustið sem fólk ber til mín. É

Ég las einhverju sinni að til væru eins konar skjágleraugu sem fólk gæti sett á sig. Sé svo, er mér spurn hvort þau fáist hér á landi. Þar með væri sólskinstölvuvandinn leystur.


Aðgengi að Open Office forritunum

Um daginn sendi ég fyrirspurn til Dolphin Computer Access um aðgengi blindra og sjónskertra að Open Office forritunum. Ekki stóð á svari. Þessi forrit eru þróuð til þess að nýtast með JAVA og þess vegna hefur þurft að gera sérstakar ráðstafanir til þess að þau verði aðgengileg fyrir Supernova skjálesarann.

Með bréfinu fylgdu tvær skrár sem þarf að tengja við Supernova og hef ég þegar gert það. Einnig var með tjáð hvað gera þurfi til þess að hala niður JAVA-skrám sem þarf að virkja til þess að allt verki nú eins og til er ætlast.< Þá var ég beðinn að prófa hugbúnaðinn á næstu vikum og senda skýrslu til framleiðenda.P>

Það vafðist hins vegar fyrir mér að hala niður skránum og þarf ég mér seigari tölvumann til aðstoðar. Huga að því um eða eftir helgi, en þetta lofar góðu.


Árangursríkt tölvunámskeið

Einn helsti viskubrunnur minn í tölvumálum hefur löngum verið doktor Emil Bóasson. Við háðum marga hildina með BBC-tölvum í gamla daga og tókst einu sinni að tengja blindraleturstölvu og BBC þannig að hægt var að lesa það sem skrifað var í ritil tölvunnar. Þetta var árið 1984. Við gleymdum hins vegar að skrá hjá okkur hvernig við fórum að því og þrátt fyrir vinnu sem stóð langt frameftir óttu (hófumst handa eftir kvöldmat) tókst okkur þetta hvorki fyrr né síðar.

Síðar fór Emil í Apple-tölvurnar en ég í PC-umhverfið. Hann hefur oft liðsinntmér með ýmisletg stórt og smátt og í gær var ein þessara stóru stunda. Þá komst ég að því hve góður kennari hann er.

Við skæpumst stundum á milli Íslands og Bandaríkjanna og í gær spurði ég hann hvernig ég ætti að reikna út útgjöld íbúða í fjöleignarhúsi út frá ólíkum forsendum. Tók hann mig í tæplega tveggja stunda námskeið í Exel-reiknivanginum. Ég var með reiknivanginn opinn og talgervil og allt gekk þetta eins og í sögu. Ég gerði nokkur mistök og var e.t.v. dálítið seinn í vöfum en þetta tókst.

Í kvöld gerði ég svo aðra atrennu og prófaði aðgengi Openoffice-forritanna. Talsvert vantar upp á að þau séu aðgengileg fyrir þann skjálesara sem ég hef, þ.e. Supernova frá Dolphin Computers. Nokkrir flýtilyklar virka en ekki felligluggar eins og file, insert, edit o.s.frv. Það þykir mér heldur aumt og einhverju hafa þeir Openoffice-menn gleymt. Þó má vera að lausnin finnist einhvers staðar annars staðar en þar sem ég hef leitað.

Leitið og þér munuð finna.

Knýið á og fyrir yður um upplokið verða.

Hugmyndirnar koma frá fjöldanum.


Skór úr sultu og bollar úr matarafgöngum

Mig dreymir stundum ótrúlega drauma. Sumir eru fyrir daglátum en aðrir sjálfsagt bundnir því sem ég hef fengist við daginn áður.

Í nótt dreymdi mig að ég hitti Guðrúnu Hannesdóttur, forstöðumann Starfsþjálfunar fatlaðra til margra ára. Við vorum á tæknisýningu. Ég hafði orð á því við hana að við þyrftum að stofna talgervilshóp eins og í gamla daga og nú ætti markmiðið að vera að fá framleidda talgervla í alls konar tæki sem gætu þá talað íslensku. Tók hún því vel.

Hún sýndi mér undurlétta skó sem voru gerðir úr sultuafgöngum. Sagði hún svo gott að ganga á þeim að sér fyndist hún líða áfram.

Þá sýndi hún mér bolla og könnur sem gerðar voru úr alls kyns matarafgöngum og pappír. Voru þeir léttir og áferðin afar skemmtileg. Bollarnir voru ýmislega mótaðir og var ég ekki viss um að þeir hentuðu allir vel til að drekka úr þeim. En margt var þarna um skemmtilega og vel hannaða gripi.

Nú kann ég þó það í efnafræði að ég veit að sultuskór myndu væntanlega leysast upp í bleytu. En ætli væri ekki hægt að finna einhver hersluefni til þess að halda skónum saman? Hins sama ber að spyrja um bollana.

Draumar eru ekki ætíð skynsamlegir. Þó eru dæmi þess að fólk hafi dreymt lausnir tæknilegra vandamála eða þær hafi birst því í draumi. Þannig var með Singer þann sem fann upp saumavélina.


Tíðindi úr fílabeinsturninum og grátklökkur lestur á mbl.is

Össur Skarphéðinsson, samfylkingarþingmaður og ráðherra, skrifaði skemmtilega og skondna grein í Morgunblaðið í dag þar sem honum fannst Morgunblaðsritstjórinn hafa verið vondur við Samfylkinguna. Varla get ég sagt að ritstjórinn hafi verið verri við þann flokk en borgarstjórnarfokk Sjálfstæðisflokksins. Ég vona heitt og innilega að Mogginn geti staðið fast á sínu og veitt hvaða stjórnmálaflokki sem er aðhald. Til að mynda var snilldarlegur pistill Kolbrúnar Bergþórsdóttur um daginn þar sem hún fagnaði sumarleyfi þingmana Frjálslynda flokksins sem hafa látið sig hafa það að ástunda einhvern lágkúrulegasta áróður gegn útlendingum í þessu landi sem lengi hefr heyrst. Jaðrar hann á stundum við hreinan nasisma.

Í dag, eftir að hafa lesið grein Össurar, ákvað ég að athuga hvað væri á seiði úti í hinum stóra heimi og fór á mbl.is. Sá ég þar litla klausu um að nú væri hægt að fá lesnar fréttir á vefnum eð Vefþulunni sem fyrirtækið Hexia hefur þróað.

Auðvitað mátti ég til að prófa þessa vefþulu og félagi minn gerði það einnig. Niðurstaðan varð þessi:

Þessi talgervill Hexíu er alls ekki fullgerður. Kvenmannsröddin les brostnum málrómi það sem menn vilja hlusta á. Hrynjandin er í litlu samræmi við setningaskipan íslenskrar tungu.

Þótt talgervillinn Snorri sé að sumu leyti gallagripur er hrynjandin betri. Það stafar af því að grunnur hans var lagður af notendum sem hlustuðu á forföður hans á 10. áratugnum. Eigendur Hexíu höfðu hins vegar ekki fyrir því að leita til neinna notenda.

Ég bíð nú eftir að fá talgervilinn til prófunar með Supernova-forritinu. Lesturinn er að vísu furðuskír. Ég efast hins vegar um að sú, sem ljáði talgervlinum rödd sína, yrði hrifin ef hún heyrði sjálfa sig lesa fréttirnar á mbl.is grátklökkri röddu.

En hvað sem öðru líður þá eiga umsjónarmenn mbl.is þakkir skyldar fyrir þetta framtak og væri fróðlegt að fylgjast með því hverjir nota þennan talgervil til þess að hlusta á fréttir. Mbl.is er enn án efa einhver framsæknasti fjölmiðill landsins.


Daglegt amstur og sumarið

Ég hef tvisvar fundið angan af ilmreyr í sumar. Í fyrrakvöld brugðum við hjónin okkur upp á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi og önduðum að okkur þessum unaðslega ilmi. Enn fórum við á stúfana í kvöld með sænskri vinkonu okkar og héldum út í Elliðaárhólma. Þar var einnig ilmur af reyrgresi. Heldur fundust mér köld 11 stigin sem mælirinn sýndi.

Í vinnunni var annasamt í dag. Ég kom saman viðtali, en heldur fannst mér textinn óþjáll. Lít betur á þetta á morgun.

Ég á ævinlega í nokkrum vandræðum með CCI-kerfið. Í dag tókst mér að búa til snið fyrir grein en fann það síðan ekki aftur. Það var þó í kerfinu og það tókst að opna það svo að ég gat límt textann inn.

Það er ákaflega skemmtilegt að vinna í ritvinnslukerfi Morgunblaðsins og sjá hvernig greinarnar verða til. Flestar aðgerðir er hægt að fremja með lyklaborðinu. Það veldur mér einna mestum erfiðleikum að skjálesarinn er ekki með sérstakar stýriskrár fyrir gagnagrunn kerfisins, en ég hef fundið nokkrar skrár sem verka allvel. Nú verður senn kynnt svokallað skriftamál fyrir dolphin-hugbúnaðinn og það ætti að auðvelda margt.

Ég hef orðið var við stóraukna umferð um bloggsíðurnar hjá mér. Það vekur bæði undrun og gleði. Jafnframt er það viss áskorun á að halda áfram þessu kvöldspjalli um allt og ekki neitt en stundum um hitt og þetta.


Tölvuraunir

Ég er aftur byrjaður á Morgunblaðinu og líður þar jafnvel og í fyrra, enda vinnustaðurinn einstakur. Flest hefur gengið vel nema samskipti mín við Internet Explorer. Í dag keyrði svo um þverbak að ég neyddist til að eyða öllum stillingum í Supernova skjálesaranum. Viti menn! Allt small í lag. Þá rifjaðist upp fyrir mér að þetta þurfti ég að gera öðru hverjuru í fyrra.


Bjarbvætturinn Birgir Finnsson

Ég hef getið þess áður á þessum síðum að ég sé í alþjóðlegum þróunarhópi Dolphin Access Computers, en fyrirtækið þróar hugbúnað handa blindu og sjónskertu fólki. Okkur berast í hverri viku eða nær vikulega nýjar tilraunaútgáfur skjálesarans Supernova sem okkur ber að prófa með ýmsum hætti.

Í gær kom nýjasta tilraunaútgáfan af Supernova 9,2 og setti ég hana upp. Ég ákvað að láta hana skrifa yfir fyrri útgáfu og vonaði að hún væri svo vel heppnuð að ég gæti notað hana án þess að hafa útgáfu 9,01 uppi við. En Adam var ekki lengi í Paradís.

Þegar til kom voru nokkrir hnökrar á útgáfunni sem ég þurfti að prófa rækilega. Má þar m.a. nefna að ekki tókst að fara á milli atriða í Moggablogginu með tab-lyklinum.

Þá hvarf talgervillinn sem er í Utility Manager sem fylgir með Windows XP. Það var slæmt því að ég þarf stundum að slökkva á blindrahugbúnaðinum, einkum ef ég nota fartölvuna til þess að hljóðrita og hef USB-hljóðkort tengt. Einnig nýtist þessi talgervill ef þarf að skipta um skjálesara.

Ég ákvað að ef til vill væri einfaldast að endurheimta þennan talgervil, sem talar eins og amerísk fyllibytta, með því að færa tölvustillingarnar fram um eina viku. Þá fyrst fór allt í vitleysu.

Supernova ræsti sig ekki upp eins og ég bjóst við. Það var þó enn verra að mér tókst ekki að hreinsa hugbúnaðinn allan út úr vélinni og varð að fá frænda minn, Birgi Finnsson, í heimsókn með ofurútþurrkunarforrit til þess að annast þetta.

Okkur tókst að setja upp skjálesarann og talgervilinn en rekillinn sem stjórnar aðgangi forritsins að talgervlum afritaðist ekki. Fangaráðið var því að setja upp tilraunaútgáfu að nýju og þá fylgdi aðgangsforritið með.

Þannig endaði þessi skemmtilegi dagur sem fór annars í að ganga í Heiðmörkinni með minni góðu eiginkonu, fara á umhverfissýninguna í Perlunni og synda síðan í sundlaug Seltirninga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband