Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Jafnvel mannvistarleifar frá Steinöld

Páll Theodórsson er svo sannarlega vel að þessum titli kominn.

Vilhjálmur Eyjólfsson á Hnausum í Meðalllandi hefur greint frá því að við bæinn séu mannvistarleifar sem eru jafnvel frá steinöld. Byggir hann það á nálægum jarðlögum.

Það væri svo sannarlega ómaksins vert að jarðfræðingar og aðrir áhugamenn um sögu landsins skoðuðu þessar minjar. Sagt er að þær hafi látið nokkuð á sjá á undanförnum árum.


mbl.is Páll Theódórsson Eldhugi Kópavogs 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýfundin kvikmund um Akureyri eftir Evu Braun, ástkonu Hitlers

Nýlega fannst óklippt myndefni úr fórum Evu Braun, ástkonu Hitlers, frá því er hún kom hingað til lands með þýsku skemmtiferðaskipi árið 1939. Áður hafa verið kunnar kvikmyndir hennar frá Vestmannaeyjum og Reykjavík, en nú er komið í ljós talsvert myndefni frá Akureyri, en þangað kom hún 17. júlí árið 1939.

Heimildamaður bloggsins mun greina nánar frá þessum kvikmyndafundi í akureyrskum fjölmiðlum í næstu viku.


Ævisaga Lárusar Pálssonar - stórbrotið listaverk

Í morgun lauk ég við að lesa Ævisögu Lárusar Pálssonar, leikara og leikstjóra, sem Þorvaldur Kristinsson tók saman. Lárus Pálsson hefur mér lengi verið hugstæður. Sem barn hreifst ég af upplestri hans og leik í Ríkisútvarpinu. Þá voru leikrit á laugardagskvöldum og voru það ævinlega hátíðarstundir. Minnist ég þess þegar leikritið Mýs og menn var flutt í upphafi 7. áratugarins hversu djúpt það snart mig og jafnaldra mína. Helgi Guðmundsson, bróðursonur minn, hélt upp á afmæli sitt um þetta leyti og var haldið mikið sunnudagsboð hjá móðurdans. Við strákarnir vorum þetta 9-10 ára gamlir og töluðum talsvert um leikritið.

Ég minnist þess einnig þegar Lárus las Heljarslóðarorrustu Benedikts Gröndals í Ríkisútvarpið veturinn 1966 og fór þar á kostum. Pabbi hafði ævinlega haldið upp á Heljarslóðarorrustu og kynnti okkur tvíburunum nokkra kafla verksins. Hlökkuðum við því mikið til lestrarins og urðum svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum.

Ég minnist einnig flutnings Lárusar á kvæðum Jónasar Hallgrímssonar um svipað leyti og þar kom þjáningin svo átakanlega fram, einnig í síðustu smásögunni sem hann las. Þá var reyndar orðið á allra orði að alvarleg veikindi hrjáðu þennan ástsæla leikara.

Sumarið 1967 vorum við tvíburarnir ásamt móður okkar, Guðrúnu Stefánsdóttur og Magnúsi Sigurðssyni, skólastjóra Hlíðaskóla, á ferð um landið að safna fé fyrir Hjálparsjóð æskufólks. Þá varð á vegi okkar leikhópur Þjóðleikhússins sem var að taka saman þar sem við áttum að skemmta um kvöldið. Hlýddu leikararnir á leik okkar af því lítillæti og fordómaleysi sem einkennir góða listamenn og kynntu sig síðan fyrir okkur. Ég minnist einkum tveggja manna, Baldvins Halldórssonar og Lárusar Pálssonar. Baldvin kannaðist ég vel við úr ríkisútvarpinu, en hann lék oft í sakamálaleikritum helstu skúrkana og fannst mér að hann hlyti að vera vafasamur náungi. En í stað þess var þetta mildur maður og bauð af sér hinn besta þokka. Við Baldvin kynntumst betur síðar og áttum jafnan skemmtileg samskipti.

Hinn leikarinn var Lárus Pálsson. Ég skynjaði að þar fór maður sem gekk ekki heill til skóga, viðkvæmnislegur og þjáður. Annað skynjaði ég, en það var ást leikaranna á þessum mikilhæfa snillingi. Eftir að Lárus hvarf á braut tóku þau tal saman nokkrir leikarar, móðir mín og Magnús. Barst þá heilsa Lárusar í tal og var umhyggja leikaranna þá auðheyrð.

Þorvaldur Kristinsson hefur náð snilldartökum á efni sínu. Auk þess að vera merk heimild um ævi og störf Lárusar Pálssonar er bókin þarft innlegg í sögu íslenskrar leiklistar. Höfundur fer varfærnum höndum um efnið en skirrist aldrei að taka afstöðu til efnisins eins og góðum fræðimanni sæmir.

Einkar fróðlegt þótti mér að lesa um stofnun Þjóðleikhússins og þá baráttu sem Lárus og aðrir hámenntaðir listamenn þurftu að heyja til þess að standa á rétti sínum og listrænum metnaði. Jafnframt gerir höfundur ágæta grein fyrir metnaðarleysi og fáfræði pólitískra yfirvalda.

Jón Viðar Jónsson, leikhúsfræðingur, benti mér á það í spjalli fyrir nokkru, hversu djúpum rótum menntun fyrstu íslensku leikaranna stóð í sígildum bókmenntum og sögu Vesturlanda. Margir þeirra þekktu vel helstu bókmenntaverk nágrannaþjóða okkar, voru vel heima í klassískum fræðum eins og latínu og grísku og framsögn þeirra var vönduð, enda voru þeir flestir orðsins menn.

Þorvaldur Kristinsson hefur unnið þarft verk með gerð ævisögu Lárusar Pálssonar og eru honum hér með færðar alúðar þakkir. Það var kominn tími til að þessum merka listamanni yrði reistur óbrotgjarn minnisvarði.


Rannsóknir á starfsemi heilans

Nú er að hefjast í BBC þriggja þátta röð um rannsóknir á starfsemi heilans. Viðmælendur virðast sammála um að áratugir líði þar til menn hafi skilið til fulls ýmsa eiginleika sem heilinn, þetta hlaupkennda líffæri, býr yfir.

Í gær var fjallað um ýmsa kvilla sem þjáð geta fólk vegna brenglunar á starfsemi heilans. Stundum er um meðfædda galla að ræða en oftar stafar brenglunin af skaða eða áfalli sem heilinn hefur orðið fyrir.

Sumt af því sem nefnt var, virtist við fyrstu heyrn hlálegt en við nánari hugsun var það grafalvarlegt. Nefnd skulu dæmi:

Maður nokkur fékk heilablóðfall. Hann fylltist eftir það sérstakri ástríðu sem fólst í því að mála ketti. Nú er húsið hans alþakið málverkum í hólf og gólf og hann viðurkennir að um einkennilega sérvisku sé að ræða. Hann hefur heldur ekkert tímaskyn. 10 mínútur og 12 klukkustundir virðast jafnlangur tími.

Kona ein, ung að árum, þekkir ekki andlit fólks. Hún getur lært að kannast við þá sem hún umgengst mest, en vinnufélaga sína og ýmsa ættingja þekkir hún ekki í sjón.

Ein heilabilunin felst í því að menn ráða ekki gerðum annarrar handar sinnar. Jafnvel fremur höndin ýmis óhæfuverk. Þegar eigandi handarinnar áttar sig á því hvað er á seiði grípur hann einatt til örþrifaráða og reynir að hindra höndina í því að fremja óhæfina. Kemur þá iðulega til átaka milli handa mannsins og fylgir því iðulega hávært rifrildi hans við höndina sem svarar auðvitað engu.


Verðskulduð viðurkenning

Örnólfur Thorlacius er einstakur fræðari og heiðursmaður. Hann hefur ekki einungis lagt sig í líma við að fræða almenning heldur hefur hann einnig skemmt fólki með þýðingum sínum og umfjöllun um hvers kyns efni sem eru á mörkum skemmtunar og vísinda. Fyrst man ég eftir að hafa heyrt Örnólf í útvarpi þegar hann las vísindaskáldsögu um mikið ský sem nálgaðist jörðina. Í sögunni var fjallað um viðbrögð mannkynsins og lýst margs konar tækni sem menn héldu að myndi þróast. Skýið var í raun gríðarlega umfangsmikil vitsmunavera sem jarðarbúar þurftu að ná sambandi við og það tókst.

Örnólfur hefur sýnt og sannað að hægt er að beita íslenskri tungu til að fjalla um hvað eina sem fjallað er um. Nýyrði sem hann hefur smíðað eru bæði þjál og auðskilin. Verðskuldar hann því svo sannarlega þennan heiður.

Enn heldur Örnólfur áfram að fræða fólk og skemmta með visku sinni og fróðleik. Haldi hann því sem lengst áfram.


mbl.is Örnólfur Thorlacius fær viðurkenningu fyrir vísindastörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harðfiskbitar með súkkulaðihúð

Eftirfarandi barst frá Emil Bóassyni í morgun og er þetta birt með leyfi hans.

"Las af mikilli ánægju greinarkornið um súkkulaði í mogga. Þykir rétt að fræða þig um að sumarið 1973 ákvað faðir minn að kanna hvort hægt væri að bæta við nýjungum í matargerð. Var það einkum hugað að harðfiski og nýlegum fiski grálúðu sem við höfðum þá reykt um nokkurt skeið.

Emil var við annan mann falið að annast tilraunir. Voru þær fremur einfaldar enda rannsóknarmennirnir einfaldir í hugsun að því er Emil segir. "Reyndum að bæta lit í grálúðuna áður en hún var reykt. Græni liturinn þótti slæmur og minna fremur á skemmdan mat en góðan. Var horfið frá frekari tilraunum á þá vegu.

Þá snérum við okkur að harðfiskbitum. Þar var reynt að súkkulaðihúða harðfiskbita með Síríus suðusúkkulaði. Var það mál þeirra er smökkuðu að einkar illa hefði verið farið með góðan fisk og gott súkkulaði. Tilraunum lauk þar með.Semsagt rétt um þrjátíu og fimm ár frá því horfið var frá því að súkkulaði húða harðfisk."

Ég þakka Emil fyrir þessar mikilvægu upplýsingar sem eru verðugt framlag til safns um matvælasögu Íslands.


Rjómaís, ísrjómi og ískrem

Í dag birti Morgunblaðið dálitla samantekt um rjómaís á Íslandi. Ekki er vitað til að ritað hafi verið um sögu ísáts á Íslandi, en það er fullástæða til að fylgja þessu máli eitthvað eftir.

Í greininni er sagt að sögusagnir séu um að framleiddur hafi verið ís eða ísblanda á Korpúlfsstaðabúinu sem seld hafi verið í verslanir í Reykjavík og var þetta haft eftir ónefndum heimildarmanni. Leiða má líkur að því að þetta geti verið rétt enda voru danskir mjólkurfræðingar ráðgjafar um uppsetningu mjólkurframleiðslunnar og höfðu umsjón með framliðslu búsins, en ísgerð þróaðist einmitt í kringum mjólkuriðnaðinn í Danmörrku og fleiri löndum.

Í ágætri bók Birgis Sigurðssonar um Korpúlfsstaði sem kom út árið 1994, er greint frá tækjakosti mjólkurbúsins, m.a. á bls. 108-109. Í bókinni er sérstaklega getið um tæki til ískremgerðar en jafnframt sagt að ekki sé vitað til þess að það hafi nokkru sinni verið framleitt á Korpúlsstaðabúinu.

Það væri full ástæða til þess að einhver legðist í frekari rannsóknir á sögu íssins hér á landi og græfi upp heimildir um mjólkur- eða rjómaís á fyrri tíð. Ís er orðinn óaðskiljanlegur hluti íslenskrar matarmenningar og á það einkar vel við enda búum vér á Íslandi, erum Íslendingar og ísætur.


Guðmundur Magnússon og aðgengi að upplýsingum

Í dag hringdi ég til Guðmundar Magnússonar, blaðamanns, rithöfundar og sagnfræðings. Spurði ég hann um tiltekið atriði sem tengist máli sem hann hefur rannsakað. Ekki hafði hann rekist á það sem ég leitaði að en bauðst til að fletta því upp einhvers staðar eins og hann orðaði það.

Ég velti fyrir mér hvern ég gæti beðið að leita að upplýsingum um mál þetta í tímaritum hér á landi. Eins og menn vita hafa Morgunblaðið, Þjóðviljinn, Dagur og ýmis tímarit verið skráð hjá Landsbókasafni Íslands þannig að hægt er að leita eftir tilteknum orðum og birtast þá upplýsingar um hvar þau er að finna. Gallinn er hins vegar sá að ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að lesa greinarnar á vefnum með skjálesurum. Því ræður sjálfsagt nauðsyn þess að þjappa efninu saman í jpg-skjöl eða eitthvað þess háttar.

Jæja, þar sem ég velti þessu fyrir mér hringdi síminn og Guðmundur var með alveg nýjar upplýsingar sem gerbreyttu stöðunni.

Verð ég honum ævinlega þakklátur fyrir aðstoðina sem fólst einmitt í því að hann fletti upp í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum og fleiri blöðum og fann það sem við vissum hvorugur um en höfðum þó leitt líkur að með hyggjuviti okkar og þekkingu. En líkur eruekki hið sama og staðreyndir.

Það fennir ótrúlega fljótt yfir ýmislegt í menningu okkar Íslendinga. Spyrjið því ömmur ykkar og afa hvenær þau fengu fyrst tómata, brögðuðu banana, kíví, kalkún, Prins Póló, sáu fyrst ferðaútvarpstæki, fengu fyrsta segulbandstækið, fyrstu tölvuna o.s.frv. Því meira sem við spyrjum þeim mun fróðari verðum við. Ég minnist þess oft þegar þeir ræddu eitt sinn saman, faðir minn og séra Þorsteinn Lúther Jónsson. Sagðist séra Þorsteinn oft rita hjá sér ýmislegt smálegt um tilurð þessa og hins.


Kynblendingar á meðal máva

Páll Steingrímsson, núverandi kvikmyndagerðarmaður, kenndi náttúrufræði þegar ég sótti nám við Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja fyrir rúmum fjórum áratugum. Hann hafði mikinn áhuga á mávum og sagði okkur m.a. frá hugsanlegri kynblöndun silfur- og hvítmáva sem hann lagði til að yrðu kallaðir silfurhvítmávar eða hvítasilfursmávar.

Ég rakst á fróðlega frétt á www.rannis.is þar sem greint er frá því að nú sé þriggja ára rannsókn á kynblöndun þessara máva lokið. Snæbjörn Pálsson, dósent við líffræðiskor Háskóla Íslands, stýrði rannsókninni í samvinnu við Agnar Ingólfsson, prófessor við sömu skor. Freydís Vigfúsdóttir vann við verkefnið sem hluta af meistaranámi sínu.

Fyrir þremur áratugum hafði Agnar birt greinar um hugsanlega kynblöndun en hugmyndum hans var mótmælt.

Í áðurnefndri grein kemur fram að tilgáta Agnars var rétt.

Skyldi Páll Steingrímsson hafa áttað sig á þessu af hyggjuviti sínu? Ekki kæmi það mér á óvart jafnglöggur og hann er.


Fara umhverfissinnar villir vega?

Mér brá þegar ég hlustaði á ríkisútvarp allra landsmanna í hádeginu. Þar var því haldið fram að evrópskir vísindamenn hefðu komist að því að eldsneyti, sem unnið er úr Maís og Repju, mengaði meira en jarðeldsneyti.

Nú fer því fjærri að ég sé vísindamaður. Þó get ég ekki neitað því að stundum velti ég því fyrir mér hvort ekki yrði einhver mengun af því að breyta gróðrinum í eldsneyti. Mig skorti þekkingu til þess að átta mig á því hvar slíkt mengunarferli hæfist og endaði. En nú virðist sem sagt komið í ljós að mannkynið verði að finna sér aðrar orkulindir en jarðargróðurinn. Þar með eru foknar út í veður og vind vonir Íslendinga um að verða útflytjendur eldsneytis.

Einhver umræða hlýtur að verða í kjölfar þessarar fréttar og menn hljóta að endurskoða allar áætlanir um gróðureldsneyti á bifreiðar.

Annars var örlítið ljós í myrkrinu. Þegar gróðureldsneyti brennur verður m.a. til hláturgas. Hlátur lengir lífið og því má vænta þess að menn lifi mun lengur og verði miklu hamingjusamari en áður ef haldið verður áfram að framleiða þetta eldsneyti.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband