Færsluflokkur: Ferðalög

Dagar myrkurs á Austurlandi

Í gær brugðum við undir okkur betri fætinum og héldum austur á Egilsstaði. Með okkur hjónum var í för Hringur Árnason, grunnskólanemi, sonarsonur Elínar, en þau Hringur og Elín eiga nú bæði vetrarfrí. Ætlunin var og er að njóta daga myrkurs á Austurlandi en þar er margt í boði handa börnum og fullorðnum.
Eftir að hafa komið okkur fyrir á Hótel Héraði, þar sem Hringur fékk einkaherbergi, samtengt okkar, var haldið í skoðunarferð um þorpið og síðan farið að njóta pizzuhlaðborðs með rjómaís í eftirrétt. Var þar margt um manninn á öllum aldri.
Að máltíð lokinni fórum við á dagskrá um Sigfús Sigfússon, þjóðsagnasafnara, prýðisvel gerða dagskrá.
Í dag ætlum við á Seyðisfjörð og e.t.v. víðar að kynna okkur mannlífið og látum væntanlega sjá okkur í afturgöngunni þar í kaupstaðnum í kvöld.


Jarðdvergar og aðrar huldar vættir hjálpa ferðaþjónustubændum

Það ber vott um minnkandi gengi útvarps að því er ekki helgaður sérstakur liður í bloggumræðu Morgunblaðsins og því skrifa ég þennan pistil undir þessum flokki.

Undanfarna laugardagsmorgna hafa verið á dagskrá rásar 1 hjá Ríkisútvarpinu þættir um sitthvað sem athyglisvert má telja í ýmsum landshlutum. Þættirnir hafa verið ærið misjafnir, allt frá því að vera næstum þrautleiðinlegir til þess að vera undur skemmtilegir.

Einn slíkur þáttur var á dagskrá í morgun. Um hann sá Guðrún Jónsdóttir í Borgarnesi. Fjallaði hann um ýmislegt sem ferðamenn gætu haft gaman af á Vesturlandi. Samtölin í þættinum voru einkar lifandi og fátt eitt mætti benda á sem betur mætti fara. Það er svo lítilvægt að hér verður þess ekki sérstaklega getið.

Samtalið við húsfreyjuna á Hraunsnefi var einkar skemmtilegt. Þar greindi hún okkur hlustendum frá samvinnu þeirra hjóna við jarðdverga og aðrar landvættir sem halda til á jörðinni.

Ég hef löngum verið býsna hjátrúarfullur og tel næsta víst að ég væri skyggn, ef ég væri ekki blindur. Faðir minn var skyggn og greindi stundum frá ótrúlegum hlutum sem síðar komu á daginn að áttu við rök að styðjast, svo sem eins og andláti manna, en hann hafði þá séð svip þeirra bregða fyrir. Mér er því eðlilegt að líta á það sem sjálfsagðan hlut að fólk viti af ýmsu í kringum sig sem ekki er öllum gefið að sjá. Hitt er sjaldgæfara að fólk tjái sig í Ríkisútvarpinu um jarðdverga, álfa og fleira sem nauðsynlegt sé að hafa samvinnu við til þess að atvinnureksturinn gangi upp. Um þetta spjölluðu þær Guðrún og Hraunsnefshúsfreyjan eins og ekkert væri eðlilegra.

Guðrún Jónsdóttir hefur haft umsjón með laufskálaþáttum undanfarin ár og hef ég hlýtt á þá marga. Hún hefur haft einstakt lag á því að laða fram eðlilegar samræður og virðist jafnan hafa áhuga á viðmælendum sínum. Ég hef ekki fyrr heyrt hana gera samsetta þætti eins og útvarpað er í morgun.

Hlustendur Rásar 1 myndu vafalítið fagna fleiri þáttum frá þessum prýðilega dagskrárgerðarmanni.

Ég ákvað að hringja til hennar eða senda henni tölvupóst til þess að þakka fyrir þennan skemmtilega þátt. Þá fór í verra. Á borgarnessvæðinu eru 5 Guðrúnar Jónsdætur og alls eru þær 250 á Íslandi. Ekki nennti ég að fletta gegnum allan listann, en ég þóttist vita að ég fyndi þá réttu ef ég liti eftir kennitölunni. Ég held nefnilega að ég hafi hitt hana þegar hún var unglingur hjá afa sínum og ömmu, en þau urðu góðkunningjar mínir eftir Eyjagosið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband