Færsluflokkur: Ferðalög

Hækkandi farvegur Skaftár veldur áhyggjum

Í dag var ég á ferð um Skaftárhrepp og hitti ýmsa að máli. Einn viðmælandi greindi frá ýmsum breytingum sem ættu sér nú stað í næsta nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Sagði hann að miklu jökulvatni væri nú veitt í skaftá og hækkaði farvegur hennar stöðugt sem þýðir um leið að hann grynnkar og minna borð verður fyrir báru í Skaftárhlaupum. Greindi hann m.a. frá því að í Skaftárhlaupinu í fyrra hefði hrönnin náð upp á brúarhandriðið.

Þessi viðmælandi taldi ákveðið andvaraleysi ríkja hjá hreppsyfirvöldum og vegagerðinni vegna þessa ástands em væri að skapast. Engar ráðstafanir virtust hafa verið gerðar til þess að bregðast við yfirvofandi flóðum og héldi fram sem horfði færi áin að flæmast um nágrennið eins og áður.


Endasleppar hjólreiðar

Við hjónin fórum hjólandi með Unni vinkonu okkar Alfréðsdóttur upp í Hlíðar í kvöld, en hún hjólaði til okkar eftir kvöldmat. Þegar við komum upp úr göngunum undir Bústaðaveginn fóru að heyrast högg einhvers staðar í Orminum bláa og varð brátt ljóst að þau komu úr afturhjólinu. Hófust miklar vangaveltur um hvað þetta gæti verið, gírarnir, því að slátturinn var mildur, hemlaklossarnir eða gjörðin væri farin að skekkjast.

Þegar við komum heim til Unnar voru höggin orðin háværari svo að nokkru nam. Þegar hjólinu var lyft sást að dekkið rakst á einum stað utan í hemlaklossana.

Við renndum okkur heim á leið og fann ég þá fyrir skekkju í afturhjólinu. Grunaði mig ekki að það sama endurtæki sig og fyrir tveimur árum. Þegar við áttum skammt ófarið að Tanngarði hvellsprakk.

Mér er óskiljanlegt hvers vegna dekk endast ekki lengur en þetta 700 km hjá okkur á tveggja manna hjólinu. Það er eins og þau nuddist í sundur eða eitthvað gerist þannig að þau byrja að gúlpa út. Við héldum að þetta væru vanstilltir hemlaklossar og fóru þeir viðgerðarmenn hjá Erninum ítarlega yfir þetta í fyrra.

Okkur brá við þennan hvell og snarhemluðum svo snögglega að Elín meiddist í hné, en hún hefur átt við óþægindi að stríða i því öðru hverju.

Hófst nú næsti þáttur ferðalagsns - sá að leita að sendibíl til að flytja Orminn bláa og okkur heim í háttinn. Engir sendibílstjórar voru á vakt eftir kl. 22 en klukkan var að nálgast miðnætti. Fangaráðið varð að hringja í Hreyfil og var okkur sendur stór farþegabíll. Með því að leggja niður aftursætin tókst að koma tveggja manna hjólinu þar fyrir.

Nú verður skipt um dekk á Orminum eftir helgi og sjálfsagt reynt að velja eitthvað gott og vandað. Annars eigum við Schwalbe hjólbarða sem er nær óslitinn og e.t.v. ráð að nota hann.


Ætli slímsveppur geti hjálpað Íslendingum ið almenningssamgöngur

Pétur Halldórsson greindi frá því í þættinum Vítt og breitt á rás eitt í morgun að japanskir vísindamenn við Sapporo-háskóla hefðu fyrir skömmu gert athyglisverða tilraun.

Kornflögum, sem eru uppáhaldsfæða slímsveppa, var raðað í svipað mynstur og útborgir Tókíó. Skilið var eftir autt svæði þar sem miðborgin var og ein slímsveppsfruma sett þar. Sveppurinn tók að teygja anga sína í allar áttir og eftir nokkrar klukkustundir hafði verið þróað fullkomið gangakerfi sem flutti næringu til miðstöðvarinnar.

Gangakerfið var svipað því mynstri sem lestakerfi Tókíóborgar byggir á. Í framhaldi af þessu hefur verið þróað ákveðið reiknilíkan sem vísindamenn halda að geti komið hönnuðum samgöngumannvirkja að gagni. Líkaninu er hægt að beita til þess að fylgjast með umferð og haga almenningssamgöngum eftir því hvernig hún liggur.


Fýlaskvaldrið í Arnarneshamri

Um þessar mundir hef ég með höndum stuttar hljóðmyndir eða pistla í þættinum Vítt og breitt á rás 1. Er pistlunum útvarpað upp úr kl. 07:15 á fimmtudögum.

Í morgun útvarpaði ég fýlaskvaldri sem ég hljóðritaði við Arnarneshamar, sem er á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Notaði ég Nagra Ares BB+ og tvo Sennheiser ME-62 hljóðnema sem eru mjög víðir. Með því að hafa um 1,5 metra á milli þeirra og láta þá vísa hvorn frá öðrum um 90-11¨gráður fæst mjög víð hljóðmynd. Hlekkurinn á pistilinn er http://dagskra.ruv.is/ras1/4499055/2009/09/24/0/


Ýmis leyndarmál Vestfjarða

Við hjónin höfum að undanförnu notið þess að ferðast um Vestfirði og skoða okkur þar um. Við höfum haft aðsetur í Súðavík og farið þaðan í leiðangra um svæðið. Unnur Alfreðsdóttir, vinkona okkar, var með okkur um skeið.

Í Súðavík er Raggagarður, unaðsreitur, hressingar- og skemmtigarður handa börnum og fullorðnum. Vilborg Arnarsdóttir hefur beitt sér fyrir gerð garðsins og hefur veg og vanda af stjórn garðsins ásamt ýmsum valinkunnum heiðursmönnum. Raggagarður er gott dæmi um það hverju eljusemi og áhugi geta áorkað. Garðurinn er gersemi á Vestfjörðum og í raun þjóðargarður sem vert er að veita athygli.

Þeim, sem hafa áhuga á að kynna sér sögu Raggagarðs, er bent á heimasíðuna www.raggagardur.is

Í Skötufirði hefur verið unnið að því að gera upp gamlan bæ, Litlabæ, sem hlaðinn er að mestu úr flögugrjóti, en algengt var þar um slóðir að bæir væru hlaðnir að mestu úr slíku grjóti. Þessi bær er nú einn eftir sem dæmi um þessa fornu byggingarlist. Ferðamönnum er eindregið ráðlagt að fara að Litlabæ og skoða þessar merku hleðslur.

Greinilegt er að Vestfirðir eru í sókn sem ferðamannasvæði. Þangað er margt að sækja sem fengur er að.


Hinn sérstaki hljómur

Nú er leikin lúðrasveitahljómlist í Ríkisútvarpinu í tilefni sautjándans. Ég á eina skemmtilega minningu um íslenska lúðrasveit á erlendri grundu.

Árið 1974 kom ég því til leiðar að Blindrafélaginu var boðið að senda fulltrúa til vikudvalar í þorpinu Boltenhagen við Eystrasalt, en þar áttu austurþýsku blindrasamtökin skemmtilegt sumarsetur. Var þar iðulega efnt til samstarfsfunda Norðurlanda og Austur-Þýskalands, en Dr. Dr. Helmut Pilasch, formaður þeirra, var mikill áhugamaður um slíka samvinnu og eins framsýnn og nokkur kommúnisti undir járnhæl Sovétríkjanna gat leyft sér að vera.

Ég fór tvisvar á fund í Boltenhagen. Árið 1985 var ég þar með móður minni. Sunnudagsmorgun nokkurn, í 2. viku júlímánaðar vorum við á baðströndinni og í fjarska var einhver með lítið útvarpstæki. Var verið að útvarpa hátíðartónleikum á Eystrasaltsvikunni í Rostock. Allt í einu heyrði ég einhvern mars sem ég kannaðist við. En ég kannaðist við fleira og sagði við móður mína að nú mætti hundur í hausin á mér heita ef þetta væri ekki Hornaflokkur Kópavogs.

Tveimur dögum síðar fórum við með lest til Kaupmannahafnar og á Kastrup-flugvelli hittum við félaga úr Hornaflokki Kópavogs. Kom þá í ljós að þeir höfðu verið í beinni útsendingu um kl. 10:30 tveimur dögum fyrr.

Björn Guðjónsson, hinn mæti stjórnandi hornaflokksins, vildi að ég gæfi sér skýringu á því hvernig stæði á því að ég hefði þekkt hljóminn í hornaflokknum. Ég gat enga skýringu gefið aðra en þá að hann hefði sinn sérstaka hljóm.

Annars á ég ýmsar minningar um sautjándann. Eftirminnilegasta atriðið er Suðurlandsskjálftinn árið 2000. Ekki get ég sagt að það hafi beinlínis verið vel heppnað atriði hjá skaparanum. En þegar verið er að móta jafnstórt fyrirbæri og heilt land hlýtur eitthvað undan að láta.


Þeyst um á Orminum bláa

Tveggja mana hjólið, Ormurinn blái, sem varð 7 ára í okkar eigu í vetur og er af Thorn Discovery gerð, hefur sjaldan farið í viðgerð. Einu sinni var skipt um afturkrans á hjólinu og auðvitað hefur verið skipt um dekk.

Í morgun komu þeir í hafragraut, Kolbeinn tumi á 14. mánuði og Árni, faðir hans á 40. ári. Þar sem veðrið var gott var Ormurinn blái dregin úr hýði sínu, settur á hann barnastóll og lagt af stað. Varð þá Ormurinn blái að þriggja manna hjóli.

Árni átti erindum að gegna austur í Borgartúni. Var ákveðið að halda þangað og velja leið við hæfi því að farmurinn eða farþeginn er ómetanlegt dýrmæti. Hjóluðum við sem leið lá eftir Ægisíðustígnum, þeim hluta hans sem er einungis ætlaður hjólreiðamönnum. Fórum við fram úr ungri stúlku sem vék fyrir okkur til vinstri handar. Við gáfum í og þeystum áfram þar til komið var að mótum stígsins og Suðurgötu. Var þá slegið af og haldið um háskólahverfið út á Hringbraut og þaðan eftir Snorrabrautinni og endað í Borgartúni.

Þá vorum við komnir svo austarlega að ákveðið var að líta við í Erninum, en við Ragnar Þór Ingólfsson, reiðhjólasérfræðingur og uppreisnarmaður innan VR, hövðum rætt saman um endurnýjun ýmiss búnaðar hjólsins. Er ekki að orðlengja að við fundum Örninn, hittum Ragnar og skildum Orminn eftir. Héldum við síðan til sama lands með leigubíl, útbúnum barnastóli.

Kolbeinn litli Tumi var himinlifandi yfir ferðinni. Átökin voru nokkur og fékk undirritaður hlaupasting.

Greinilegt er að ég þarf að þjálfa mig betur er ég ætla að hjóla austur í Vík í mýrdal á hausti komanda.


Hjólað frá Kaupmannahöfn til Berlínar

Í dag um kl. 13:45 verður útvarpað frásögn Sesselju Traustadóttur af ferð 16 manna hóps úr Íslenska fjallahjólaklúbbnum frá Kaupmannahöfn til Berlínar síðasta sumar. Útsendingin er í þættinum Vítt og breitt á Rás eitt.
Full ástæða er til að benda fólki á að skemmtilegt er að hjóla á Íslandi að sumarlagi. Það er mun skemmtilegra en að þjóta um landið á bifreið. Ilmurinn og hljóðin eru þess virði að þeirra sé notið.

Um morgunmat og góða þjónustu í Frankafurðu

Stundum er nauðsynlegt að sanna fyrir sjálfum sér að maður sé enn fær um að takast á við lífið og tilveruna og njóta þess sem að höndum ber.

Undanfarna daga hef ég öðru hverju reynt að blogga en án árangurs. Ég var í þráðlausu netsambandi á gistihúsi í Frankafurðu og þegar leikurinn stóð sem hæst í blogginu kom jafnan eitthvað fyrir.

Ég fór til Frankfurt á sýninguna Sight City þriðjudaginn 6. maí. allt gekk að óskum. Ungur Pólverji fylgdi mér út í vél og var hann bæði mæltur á íslensku og ensku, kaus þó fremur að nota enskuna.

Í Frankfurt tók á móti mér kona sem kom mér í leigubíl og á hótelið var ég kominn um kl. 13:30 að þýskum tíma. Þar tók ég til óspilltra málanna, hringdi nokkur símtöl vegna Kím og fleira og hófst síðan handa við grein sem ég vinn að.

Um 6-leytið var ég farinn að finna til svengdar og ákvað að hafast eitthvað að.

Ég reikaði fram úr herberginu og fann það sem ég taldi vera bar. Kom að mér ungur maður og spurði hvort ég væri að leita að matsalnum. Kvað ég svo vera og vísaði hann mér á borð.

Þá kom ung kona og las mér matseðilinn. Mig langaði hvorki í súpu, salaat, grænmeti né pasta svo að ég fékk mér vínarsnitsel með frönskum kartöflum og salati. Bað um vatn og brauð ásamt bjór.

Mér barst firnagott, nýbakað brauð í glerkörfu ásamt volgu og fremur vondu vatni og svo kom stór bjórkanna á borðið, mun stærri en ég hugði.

Síðan kom Vínarsnitselið og reyndist líka meiri máltíð en ég hugði.

Á eftir langaði mig í eftirrétt og fannst ísinn of sætur og búðingarnir líka. Ákvað að panta mér ostabakka og kaffi.

Fljótlega kom kaffið og kláraðist.

Þá kláraði ég bjórinn sem var ekki eins mikill og ég hugði en glasið stærra og þykkara.

Síðan kom miðaldra þýskumælandi Þjóðverji með ostabakkann, tveggja, þriggja eða góðan fjögurra manna skammt. Þetta var skár útilátið en ostabakkinn sem ég bauð Elínu hér um árið í Djúpinu þegar við vorum í tilhugalífinu enda hringdi ég til hennar til þess að segja henni þetta.

Ég réðst á ostana, jarðarberin og einhvern annan ávöxt ásamt firnum af góðu brauði, með hníf og gaffli. Dundaði mér við þetta og komst loks inn á herbergi í fylgd þjóns, stillti á íslenska útvarpið og nennti ekki að vinna meira að svo stöddu.

Gaf mér auka insúlínskammt. Eins gott að vélstjórnin sé í lagi.

Sagði þjóninum söguna af norska sendiherranum í Tsaire og handleggnum sem konan hafði ekki lyst á og sagðist ekki geta borðað meira. Hann hló reyndar þegar ég sagði honum að ostabakkinn hefði verið einum of stór.

Ætli ég þyngist ekki um 2 kg fyrir vikið?

Hvað ætti ég að fá mér í morgunmat á morgun? hugsaði ég um það leyti sem svefninn færðist yfir. Hálft kíló af brauði, tvo hrokafulla grautardiska, annan með hafragraut og hinn með jógúrt með morgunkorni? rúnstykki, kaffi, appelsínu og epli, súkkulaði köku, vínarbrauð og te?

Það ætti að nægja. Ef einhver finnur að því svara ég bara eins og Tóti í Berjanesi: "Ek má til. Fæðið er svo dýrt."

Ég var á fótum fyrir allar aldir á miðvikudagsmorgun og fór í morgunverð upp úr kl. 8. Tókst mér loks að vekja athygli þjóns sem vísaði mér á sæti. Sagðist ég vilja kaffi og rúnstykki með spægipylsu. Færði hann mér þrjú rúnstykki með osti og smábrauð að auki sem hann hafði smurt vandlega og bætt við á diskinn gúrkusneiðum og tómötum.

Ég réðst á þetta matarsafn og kom þá að mér fullorðin kona og vildi fá að vita hvaðan ég væri. Ég minnti sig svo á manninn sinn, en hann hefði verið blindur. Taldi hún að ég hefði hvergi nærri fengið nóg og spurði hvort ég vildi ekki jógúrt líka. Ég lét lítið yfir því en hún kvaðst þá útbúa handa mér dýrindis jógúrt með ávöxtum. Morgunmaturinn endaði á hrokafullum jógúrtdisk með alls kyns góðgæti.

Þessu fór fram næstu tvo morgna. Ég mætti kl. 8 í morgunmat á fimmtudag og kom þá blessuð manneskjan og sagðist hafa saknað mín. Sagði hún mér frá dauðastríði manns síns og því að hún væri sjálf komin með krabbamein og þyrfti að undirgangast aðgerð í næsta mánuði.

Í gær, föstudag, vaknaði ég seinna en ella, enda hafði ég verið á tæknisýningunni allan daginn og farið síðan í boði Papenmeiers á Jóhannesarfjall þar sem menn brugga ýmis dýrindisvín. Vorum við þar í vínsmökkun og afar fróðlegum fyrirlestri og síðan góðum kvöldverði.

Kl. 8:30 var barið að dyrum hjá mér og var þar þá þjónninn kominn og vildi vita hvort ég ætlaði ekki í morgunmat. Ég var þá að mæla blóðsykur og fór síðan með honum. Greinilegt var að hann og hin ágæta samstarfskona hans höfðu þá útbúið handa mér morgunmat, tvö rúnstykki, tómata og gúrkur og jógúrt, sem konan hafði blandað með alls kyns hnetum og vanillubúðingi. Namm!

Ég kvaddi svo þetta góða fólk og hélt af hótelinu um kl. 11:30.

Ég mun á næstunni skrifa hér á þessari bloggsíðu örlítið um tæknisýninguna eftir því sem úrvinnslu gagna vindur fram.

Mér finnst ég vera fullur af orku og þakklæti til Blindravinafélags Íslands sem styrkti mig til fararinnar og konu minnar elskulegrar sem hvatti mig eindregið.

Það er ómetanlegt að fá tækifæri til þess að ræða við fólk um ýmis álitamál sem koma upp og það gat ég gert í ríkum mæli þá daga sem ég dvaldist í Frankafurðu.


Bloggað á nútímaíslensku

Ég er að hafa áhyggjur af því hvernig málið er að breytast og ég get víst lítið gert til að hamla gegn þessum breytingum.

Ég var að skrifa dálítið um þessar breytingar um daginn og nú er ég að hafa áhyggjur af því að lítil börn eru ekki að skilja það sem ég er að segja. Ég er að halda að það sé vegna þess að ég er stundum að nota sagnbeygingar. En kannski á ég bara að nota nafnhátt allra sagna nema sagnarinnar að vera.

Við hjónin vorum ekki búin að fara til Vestmannaeyja í 5 ár. Um daginn vorum við að ákveða að gera eitthvað í málinu og á endanum vorum við bara að fara þangað öll fjölskyldan hér um bil. Við vorum að fara með Herjólfi á föstudagskvöld og vorum að dveljast í Eyjum fram á miðjan sunnudag en þá vorum við að fara aftur í land.

Það var (verður ekki komist hjá þátíðinni) dálítið merkilegt að fara inn í Dal og liggja þar undir fuglakvakinu. Þá var hljóðheimur bernskunnar að koma aftur til mín og ég var aðmuna hvernig allt var að hljóma þegar ég var lítill. Að öðru leyti er ekkert að segja sérstakt um dvölina nema við vorum að skemmta okkur vel og vorum að hjóla dálítið um eyjuna.

Hvernig tókst mér til? Svona ætla ég aldrei að skrifa framar!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband