Færsluflokkur: Ferðalög

Ferðamönnum fjölgar í Tíbet

 

Um þessar mundir eru 5 ár síðan lokið var við að leggja járnbraut alla leið til Lhasa, höfuðborgar Tíbets. China Radio International hefur fjallað um málið frá ýmsum hliðum. Þar á meðal er þessi pistill.

Gamli og nýi tíminn mætast

 


Byltingarkennd GPS-tækni í þágu blindra og sjónskertra

Í dag kom út útgáfa 4,6 af forritinu Mobile Speak (Farsímatali) sem spænska hugbúnaðarfyrirtækið Code Factory framleiðir. Mobile Speak er hugbúnaður sem birtir upplýsingar í farsímum með tali, stækkuðu letri eða blindraletri, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Hugbúnaðurinn var þýddur á íslensku fyrir 6 árum og hefur verið unnið að þýðingu viðbóta æ síðan.

Þessi nýja útgáfa Mobile Speak er merkileg fyrir þær sakir að hún gerir Ovi-kortin frá Nokia aðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Flest mikilvægustu atriðin, sem í boði eru, hafa verið gerð aðgengileg. Hægt er að leita að ýmsum þjónustuflokkum s.s. veitingastöðum, samgöngumannvirkjum, verslunum o.s.frv. Hver og einn getur sett inn sína uppáhaldsstaði, leitað að fyrirtækjum, húsnúmerum o.s.frv. Þá er bæði göngu- og akstursleiðsögn í forritinu. Röddin, sem Nokia býður, er enn ekki á íslensku og er því framburður sumra nafnanna dálítið undarlegur: Sudurlandsbrát. En íslenska talið, sem birtir þær upplýsingar sem notandinn sér á skjánum, vegur upp á móti þessu því að þar eru allar upplýsingar lesnar á íslensku og framburður götuheitanna eðlilegur.

Fyrir rúmum tveimur mánuðum var mér boðið að vera með í alþjóðlegum reynsluhópi sem prófaði Ovi-kortin og ýmislegt annað. Árangurinn hefur verið undraverður. Ég hef nýtt mér leiðsögnina á ferðum mínum með strætisvögnum og hef jafnan getað fylgst með því hvar ég er staddur hverju sinni. Á göngu minni til og frá vinnustað hef ég öðru hverju þurft að átta mig á því hvar ég væriog ekki bregst búnaðurinn. Þó verður að gjalda vara við að treysta honum í blindni. Í gærkvöld gerði ég eftirfarandi tilraun:

Ég ákvað að leita að húsinu nr. 54 við Sörlaskjól, en húsbondinn á því heimili, Flosi Kristjánsson, er einn þeirra sem lýst hefur áhuga sínum á þessum GPS-tilraunum sem ég hef gert að undanförnu. Þegar ég nálgaðist húsið kom í ljós að forritið gaf upp allt aðra fjarlægð en við hjónin töldum að væri rétt. Virtist sem staðsetning hússins ruglaði eitthvað kerfið í ríminu, hverju sem það er að kenna.

Fleir annmarka gæti ég nefnt, en þar er ekki við blindrahugbúnaðinn að sakast heldur ónákvæmni skráninga í gagnagrunninum. En víða á höfuðborgarsvæðinu er skráningin svo nákvæm að vart skeikar nema nokkrum metrum. Þá er auðvelt að treysta á búnaðinn og fylgjast með því yfir hvaða götur er farið. Aðeins þarf að styðja á einn hnapp og les þá Farsímatalið upp heiti þeirrar götu sem farið er yfir. Menn geta einnig horft í kringum sig með stýripinna símans og kannað hvaða gata liggur til hægri eða vinstri, þegar komið er að gatnamótum.

Á því er ekki nokkur vafi að þessi búnaður á eftir að nýtast mörgu blindu og sjónskertu fólki hér á landi og auka að mun sjálfstæði þess og öryggi. Ég tel þetta með því merkasta sem ég hef séð á þeim 36-40 árum sem ég hef fylgst með hjálpartækjum blindra og sjónskertra.

Að lokum skal þess getið að hugbúnaðinum fylgir einnig litaskynjari. Þá er myndavél símans beint að því sem skoða á og tekin mynd. Greinir hugbúnaðurinn þá frá lit ess sem myndað var. Einnig er hægt að athuga birtustig.

Þeim, sem hafa áhuga á að kynna sér þessa tækni, er bent á skjalið „find your way with Mobile speak 4.6 sem fylgir þessari færslu.

Örtækni hefur umboð fyrir Mobile speak.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gönguleiðsögnin í Nokiasímunum

Nú er skammt þess að bíða að ný útgáfa talhugbúnaðarins frá Code-factory, sem notaður er í farsíma hér á landi og talar íslensku, komi á markað. Prófanir hafa gengið vonum framar og lofa góðu.

Tvenns konar leiðsögn er þar fyrir gangandi vegfarendur. Önnur leiðsögnin kallast "bein lína (kannski bein leið)" og hin "Gatnaleiðsögn" (þýðing mín á direct line and Streets). Við stuttar prófanir hefur komið í ljós að fyrri leiðsögnir gefur fremur takmarkaðar leiðbeiningar. Þó er sagt hvar beygja skuli og fjarlægðin að áfangastað er gefin upp. Sé hins vegar gatnaleiðsögninni fylgt fást ítarlegar upplýsingar.

Í dag gekk ég frá Nóatúni 17 að Hlemmi og vildi leiðsögutæki símans að ég héldi mig vinstra megin á gangstéttinni. Ég held að gangstéttin þar sé ekki jafnsamfelld og að norðanverðu við Laugaveginn og hlýddi ég því ekki.

Það verður mikil framför þegar þessi hugbúnaðarbreyting kemur á markaðinn hér, en hún er einn liður þess að rjúfa einangrun blindra og örva þá til þess að fara ferða sinna á eigin spýtur.

Nánar verður fjallað um þennan hugbúnað þegar hann kemur á markaðinn.


OVI-kortin brátt aðgengileg blindu og sjónskertu fólki

Í dag hófst alþjóðleg prófun nýrrar tilraunaútgáfu farsímatalforritsins Mobile Speak sem gerir blindu og sjónskertu fólki kleift að nýta sér kosti OVI-kortanna. Hægt er nú að velja á milli aksturs- og gönguleiðsagnar.Vegna breytinga sem voru nýlega gerðar á kortunum hefur ekki náðst að fylgja þeim eftir, en fyrstu prófanir lofa góðu.

Ég prófaði forritið í kvöld. Birti það upplýsingar um húsnúmer og götur sem farið var yfir og vegalengdina að áfangastað. Að vísu eru enn nokkrir hnökrar á leit og lestri, en upphafið lofar góðu.


GPS-leiðsögnin fer batnandi

Í dag var hafist handa við að reyna alþjóðlega tilraunaútgáfu talgervilsforrits fyrir farsíma sem þýðir betur ýmsa þætti OVI-kortanna frá Nokia. Nú er gefinn kostur á aksturs- og leiðsögn á ýmsum tungumálum og skilst mér að senn sé íslenska væntanleg.

Ég prófaði gönguleiðsögnina í kvöld. Hún lofar góðu. Nöfn gatna sem farið er yfir birtast og hægt er að fá ýmsar aðrar upplýsingar svo sem húsnúmer o.s.frv. Nokkrir hnökrar eru þó á lestrinum en það stendur væntanlega til bóta. Þetta er einungis fyrsta tilraunaútgáfan og miðað við upphafið lofar framhaldið góðu.Lesendur bloggsins fá væntanlega að fylgjast með helstu tíðindum af þessum vettvangi.

Til mín hringdi einn lesandi þessa bloggs fyrir nokkru og vildi vita hvers vegna ekkert heyrðist frá blindu eða sjónskertu fólki um þessa tækninýjung sem talsvert hefur verið ritað um hér í sumar. Ég kann engin svör við þessari spurningu, veit ekki einu sinni hvort þessi hópur les yfirleitt bloggsíður. Ég þekki að vísu örfáa einstaklinga í hópi blindra og sjónskertra sem hafa gaman af Hljóðblogginu en engan sem lítur inn á þetta blogg nema ef vera skyldi Gísli Helgason og Birkir Rúnar Gunnarsson. Hins vegar hefur verið ánægjulegt hversu margir einstaklingar, tæknilega sinnaðir, hafa birt athugasemdir á þessu bloggi um hvað eina sem snertir tækniframfarir í þágu blinra og sjónskertra.


Í strætó með GPS-OVI að vopni

Í morgun átti ég erindi upp í Hamrahlíð 17 að kaupa mér vökvaskynjara. Hann er lítið tæki sem sett er á ílát. Þrír teinar skaga ofan í ílátið. Þegar vökvi snertir þá pípir tækið og titrar og eykst hraðinn eftir því sem hellt er meiri vökva í ílátið. Tilgangur minn með þessum kaupum var að hlífa fingurgómunum við heitu vatni, en þannig mæli ég yfirleitt magn vökva sem ég helli í ílát.

Nú þekki ég allvel leið strætisvagnsins upp í Hamrahlíð og sló því inn Hamrahlíð 17 í leit OVI-kortsins. Síðan stillti ég á leiðsögn og tók næsta vagn nr. 13.

Vitaskuld fór vagninn ekki þær leiðir sem leiðsögubúnaðurinn lagði til. Ég fylgdist með tímanum. Þó lá við að ég færi framhjá biðstöðinni við MH. Tækið skipaði mér tvisvar að taka U-beygju eftir að strætisvagnastjórinn skirrðist við að beygja inn í Stakkahlíð, en allt fór þetta vel að lokum. Ég hafði svo sem vellt fyrir mér áður en ferði hófst að rétt væri að skrá annað heimilisfang, t.d. Hamrahlíð 10 sem er heimilisfang Menntaskólans við Hamrahlíð.

Ég lauk erindum mínum og heppnaðist að taka næsta vagn út á Nes. Síðasti hluti þeirrar leiðar var ágætur. Eftir að komið var inn á Meistaravelli kom leiðsögubúnaði Nokia og bílstjóranum (sem auðvitað vissi ekkert um tilraunina) ágætlega saman. Þegar 300 metrar voru eftir að áfangastaðnum hringdi ég bjöllunni og rétt áður en vagninn nam staðar tilkynnti búnaðurinn að ég væri kominn í höfn.

Greinilegt er að þessi búnaður getur komið að nokkrum notum ef réttar upplýsingar eru skráðar. Vissulega væri það mikill kostur ef tækið birti með tali heiti þeirra gatna sem ekið er um. Þar sem Nokia-kerfið er ekki að öllu leyti aðgengilegt er erfitt að rjúfa leiðsögnina til þess að athuga hvar menn eru staddir hverju sinni enda er óvíst að kerfið veiti slíkar upplýsingar.

Það væri skemmtileg lausn að fá hnitakerfi leiða Strrætós og setja það inn í Loadstone-forritið sem ég fjallaði um í síðustu færslu. Hugsanlega finnst miklu betri lausn á þessu. En tilgangurinn með þessum skrifum mínum og tilraunum hlýtur að vera sá að auka lífsgæði þeirra sem eru blindir eða sjónskertir.


Leiðarsteinn - skemmtileg tilraun með GPS

Ég hef dálítið fjallað um GPS-tæknina og þá staðreynd að hún gæti verið blindu og sjónskertu fólki notadrjúg ef rétt væri að málum staðið.

Fyrir nokkrum árum hófust tilraunir með GPS-kerfi sem kallast Loadstone. Tilgangur hönnuðanna var að búa til einfalt kerfi sem gæti aðstoðað blint og sjónskert fólk við að komast á milli staða. Kerfi þetta hefur nú verið í þróun í u.þ.b. 6 ár og notendur þess skipta tugum þúsunda í öllum heimsálfum. sums staðar hafa verið gerð ítarleg kort af svæðum sem eru sérstaklega miðuð við þarfir gangandi vegfarenda.

Upphaflega var gengið út frá því að farsímar, einkum Nokia símar, væru tengdir GPS-tækjum og endurómuðu með talgervli upplýsingar sem byggðu á boðum frá tækjunum (fjarlægð að stað, stefnu o.s.frv).nú hefur Nokia komið GPS-tækjum fyrir í nýjustu símunum og tengjast þau ágætlega Loadstone-forritinu sem nemur staðsetningar frá þeim.

Gallinn á gjöf Njarðar er sá að kortin, sem Nokia býður notendum farsíma sinna, nýtast ekki með Loadstone-forritinu heldur verða notendur að skrá inn þá punkta sem þeir þurfa að nota.

Í dag gerði ég eftirfarandi tilraun:

Ég hélt út fyrir hússins dyr og út á gangstéttina norðaustan við Tjarnarból 14. Ég kveikti á leiðsögutæki farsímans, virkjaði Loadston og beið þar til sambandnáðist milli Loadstone og GPS-tækis símans. Þá kom í ljós að tækið náði sambandi við 11 gervitungl. Ég studdi svo á ferninginn á lyklaborði símans. Þá var ég beðinn um nafnið á punktinum og var það auðsótt. Síðan var punkturinn vistaður og lagt af stað.

Þegar komi var að umferðarljósunum yfir Nesveginn skammt frá Eiðistorgi var aftur numið staðar og nýr punktur skráður.

Þriðja og síðasta punktinn skráði ég síðan við innganginn að þjónustumiðstöðinni við Eiðistorg. Punktarnir voru svo vistaðir undir einu heiti.

Síðar gerði ég nokkrar tilraunir. Ég gekk út að Tjarnarstíg sem er í austur frá Tjarnarbóli 14, sneri við og opnaði skrána með leiðsögupunktunum. Skömmu eftir að ég lagði af stað gaf tækið upp metrafjöldann að Tjarnarbóli 14. Þegar um 15 metrar voru eftir að innganginum gaf það frá sér hljóð og reyndist staðsetningin rétt. Þá var haldið áfram í áttina að umferðarljósunum og gerði tækið einnig viðvart um þau í tæka tíð.

Þessi tilraun var endurtekin og virtist skeika nokkrum metrum um nákvæmnina. Eitt er þó víst. Þetta forrit flýtir talsvert fyrir því að fólk komist á áfangastað og forritið bendir fólki í hvaða átt skuli haldið.

Þegar gengið er um göngustíga þar sem fátt er um kennileiti get ég ímyndað mér að Loadstone-forriti gæti nýst blindu fólki allvel. Með því að merkja ákveðna punkta ætti fólk að geta komist leiðar sinnar. Hægt er að fylgjast með næstu leiðarmerkjum eða kennileitum með því að styðja á örvalyklana á farsímanum. Helst þurfa menn að hafa símann hangandi um hálsinn til þess að heyra talið eða nota lítil heyrnartól sem skerða umhverfishlustun.

Hugsanlega verður hægt í framtíðinni að tengja saman þetta forrit og OVI-forritin og væri það mikill akkur hönnuðum, notendum og framleiðendum farsíma. Aðrar lausnir hafa einnig verið þróaðar handa blindu fólki en þessi er sennilega sú einfaldasta. Með þessum hætti geta menn fylgst með viðkomustöðvum strætisvagna o.s.frv og jafnvel merkt biðstöðvar þeirra á stöðum eins og Hlemmi.

Ég tel ástæðu til að blindrafélagið og Þekkingarmiðstöðin kanni hvort og hvernig þetta forrit eða önnur geti aukið sjálfstæði blindra og sjónskertra og aukið lífsgæði þeirra. Væri ekki tilvalið að virkja einhverja sem atvinnulausir eru til þess að Skrá ýmsar leiðir og gefa þær út? sérstakur gagnagrunnur hefur verið stofnaður sem hýsir leiðasöfn fjölmargra landa. Þá er afar einfalt að þýða forritið á íslensku og getur það hver sá gert sem kann dálítið á tölvu, skilur ensku og skrifar þokkalega íslensku.

Ég hvet lesendur, hvort sem þeir eru blindir eða sjáandi, til þess að skrifa athugasemdir og koma með hugmyndir um þessi GPS-mál. Hér á landi er of lítil umræða um ýmis framfaramál sem tengjast málefnum smáhópa og neytendurnir sjálfir eru þar sjaldan virkir. Látið því heyra í ykkur.


GPs-leiðsögnin í Nokia 6710 Navigator gerði sitt gagn

Veðrið er yndislegt. Í morgun hélt ég út á Seltjarnarnes að hlusta eftir kríum. Á leiðinni hitti ég fyrrum vinnufélaga hjá Ásbirni Ólafssyni ásamt konuhans og töfðum við hvert annað drykklanga stund.

Upphaflega ætlaði ég að ganga umhverfis nesið en stytti leiðina og sneri aftur áleiðis heim þegar ég var kominn út undir golfvöll. Þá ákvað ég að setja GPS-leiðsögnina á í símanum og valdið leiðina "Tjarnarból 14 v. Nesveg". Mér var sagt að ganga u.þ.b. 1 km og beygja þá til hægri. Ég hélt að þetta væri lengra, enhvað um það, ég lagði af stað. Leiðsögutækið þagði og ákvað ég því að athuga þegar ég kom að vegamótum Suðurstrandar og Nesvegar hvort staðsetningin væri ekki rétt. Svo reyndist vera.

Það tók mig dálítinn tíma að átta mig á hvaða fjallabaksleiðir ég ætti að nota til þess að fá leiðsögnina í gang aftur, en dálítið vantar á að talgervillinn í símanum lesi allt. En það tókst. Ég lagði því af stað aftur og ákvað að hefjast handa skammt frá Skerjabrautinni. Þá sagði forritið mér að taka U-beygju eftir 100 m og gerði ég það, sneri við þar sem ég var staddur og sneri svo aftur við þegar forritið sagði mér að beygja. Auðvitað tekur forritið mið af gatnakerfinu. Skömmu eftir að ég hafði snúið við tilkynnti forritið að verið væri að endurreikna leiðina.

Nú gekk ég í áttina að Tjarnarbóli 14 v. Nesveg og beið spenntur. Ég kom að bakinnganginum og hélt áfram. Þá tilkynnti forritið að ég væri kominn á áfangastað. Einungis munaði einum metra og getur svo sem verið að ég hafi staðið þar þegar ég skráði þennan leiðarpunkt.

Niðurstaðan er sú að tækið geti komið að notum við að finna tiltekna staði þrátt fyrir að akstursleiðsögnin sé notuð. Sýnist mér að ég geti t.d. merkt inn hliðarreynar frá göngustígnum yfir Norðurströndina, en það hefur valdið mér nokkrum vandræðum að hitta á þær.

Vafalaust gæti ég haft enn frekari not af þessu GPS-tæki ef hugbúnaðurinn frá MobileSpeak læsi valmyndirnar betur. Ekkert á að vera því til fyrirstöðu að bæta þar úr. Mér er tjáð að kortið af Íslandi, sem Nokia notar, sé frá fyrirtækinu Navtech, en Navtech hefur átt í samvinnu við hugbúnaðarframleiðendur sem hafa unnið að leiðarlausnum fyrir blinda.

Nú þarf ég einungis að hitta á einhvern tæknifróðan GPS-notanda til þess að skrá ítarlega hvað talgervillinn les og hvað ekki.


Nokia 6710 Navigator og notagildi hans fyrir blint fólk

Á ferð okkar Elínar umhverfis landið um daginn gerði ég nokkrar tilraunir með Nokia 6710 farsíma og GPS-kerfið sem fylgir símanum. Síminn er með spænskum hugbúnaði sem kallast Mobilespeak (Farsímatal) og birtir hann upplýsingar um flest sem birtist á skjá símans og unnt er að þýða með texta. Röddin er Snorri sem Felix Bergsson léði framleiðanda talgervilsins.

Síminn virtist leiðbeina okkur ágætlega þegar við vorum akandi og skipaði okkur skilmerkilega að beygja á réttum stöðum. Hins vegar virtist mér hann ekki staðfesta að við værum komin á áfangastað - á þó eftir að gera fleiri tilraunir.

Þegar merkt er inn leið getur maður valið hvort hún er ekin eða gengin. Þegar akstur er valinn leiðbeinir enskumælandi rödd notandanum, en síminn þegir þunnu hljóði ef síminn er beðinn að velja gönguleið. Hann gefur þó hljóðmerki með vissu millibili, sennilega við gatnamót og á 200 m fresti.

Í tilraun sem ég gerði í kvöld kom í ljós óhagræði þess að hlusta á skilaboð símans í heyrnartólum. Þótt þau séu freur lítil trufla þau umhverfisheyrnina. Augljóst er því að aðrar aðferðir verur að velja, t.d. hátalara símans

Það vekur jafnan athygli hér á Seltjarnarnesi þegar ég fæst við ýmiss konar tæknibrölt, einkum ef ég er einn míns liðs. Þannig var mér boðin aðstoð áðan því að vegfaranda þótti augljóst að ég væri að villast.

Þótt síminn hafi ýmsa annmarka og enn eigi eftir að vinna talsvert aðgengisstarf segir hann þó nöfn þeirra gatna sem gengið er meðfram, ef stutt er á staðfestingarhnappinn og getur það í sjálfu sér komið sér vel. Hins vegar gabbaði ég símann með eftirfarandi tilraun:

Ég gekk frá suðurströnd 3 og skráði inn Tjarnarból 14. Eftir að ég hafði valið að aka þangað tilkynnti röddin mér að ég ætti eftir u.þ.b. 400 metra. Síðan komu einhverjar furðuleiðbeiningar sem ég tók ekki mark á og endurreiknaði þá síminn stefnuna. Þá var mér sagt að 200 metrar væru eftir og var þá sagt að beytja til hægri og síðan enn til hægri. Ég ákvað hins vegar að stytta mér leið af Nesveginum inn á Tjarnarból og fór á milli húsanna Tjarnarbóls 12 og 14. Símaskrattinn sagði ekki eitt einata orð og heldur ekki þegar ég kom í hlaðið.

Ég á eftir að gera nokkrar tilraunir með símann áður en endanleg niðurstaða verður fengin. Þetta liggur þó fyrir:

GPS-leiðsögn er tæplega nógu nákvæm til þess að blint fólk geti nýtt sér hana til fullnustu. Hugsanlega getur hún þó orðið að liði. Þá er skylt að geta þess að síminn gleypir í sig straum á meðan þessi búnaður er notaður.

Ýmis atriði í símanum á eftir að gera aðgengileg. T.d. þarf að gera lista yfir ýmis atriði s.s. veitinga- skemmti- og gististaði aðgengilegri. Nú þarf að kalla á upplýsingar um hvern stað, hlusta á þær, færa sig síðan aftur í meginlistann, færa bendilinn um eitt skref, stiðjá á staðfestingarhnappinn, velja upplýsingar o.s.frv.


Ánægjuleg ferð

Föstudaginn 2. þessa mánaðar lögðum við Elín land undir fót og héldum austur að Flúðum. Nágranni okkar hafði áður hjálpað henni að setja festinguna fyrir Orminn bláa á bílinn og síðan lyfti hann með henni hjólinu.

Á Flúðum leigðum við bústað af Kennarafélagi Íslands og vorum þar fram á fimmtudagskvöldið 8. júlí.

Okkur til mikillar ánægju voru Árni og Elfa með litlu piltana hjá okkur í tvær nætur og Unnur vinkona okkar heimsótti okkur líka. Við Árni hjóluðum frá Flúðum að Hvítárdal og aftur heim á leið á innan við klukkustund og er það allsæmilegt miðað við að ég er ekki sérstaklega vel á mig kominn. Síðan hjóluðum við Elín að Skaftholti sem er um 28 km leið og aftur heim á leið samdægurs. Við héldum tæplega 18 km meðalhraða og þótti okkur það harla gott. Daginn eftir var Hrunahringurinn farinn.

Við nutum menningar í ríkum mæli. Sóttum við tónleika í Skálholti bæði á sunnudag og í gærkvöld. Hafa sunnudagshljómleikunum þegar verið gerð skil á blogginu.

Á leiðinni til Reykjavíkur komum við hjónin við á sunnlenska bókakaffinu og hittum son Bjarna Harðarsonar. Ætli hann sé þá ekki einnig sonur Elínar Gunnlaugsdóttur? Prýðis piltur. Stóðst ég ekki mátið eftir gott kaffi og lék lag mitt „Hugsað til Grikklands frá vorinu 1967“. Það hef ég hvergi leikið nema heima hjá mér frá því að við tvíburarnir fluttum það á seinni ferð okkar með Magnúsi Sigurðssyni, skólastjóra, árið 1967 þegar við bræður og móðir okkar fórum austan úr Öræfum austur og norður um og enduðum á Patreksfirði. Var safnað fé handa Hjálparsjóði æskudólks. Hvar skyldi sá sjóður nú niður kominn?

Magnús Bergsson var einnig á Flúðum með eiginkonu og syni. Áttum við ánægjuleg samskipti. Kom okkur saman um að erfitt væri orðið að finna kyrra staði á Íslandi sem ekki væru mengaðir af vélarhljóðum nútímans.

Dvölin á flúðum skilaði af sér nokkrum hljóðritum sem eru á http://hljod.blog.is. Eru það einkum vindurinn, regnið og fuglarnir sem leika þar stærstu hlutverkin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband