Í strætó með GPS-OVI að vopni

Í morgun átti ég erindi upp í Hamrahlíð 17 að kaupa mér vökvaskynjara. Hann er lítið tæki sem sett er á ílát. Þrír teinar skaga ofan í ílátið. Þegar vökvi snertir þá pípir tækið og titrar og eykst hraðinn eftir því sem hellt er meiri vökva í ílátið. Tilgangur minn með þessum kaupum var að hlífa fingurgómunum við heitu vatni, en þannig mæli ég yfirleitt magn vökva sem ég helli í ílát.

Nú þekki ég allvel leið strætisvagnsins upp í Hamrahlíð og sló því inn Hamrahlíð 17 í leit OVI-kortsins. Síðan stillti ég á leiðsögn og tók næsta vagn nr. 13.

Vitaskuld fór vagninn ekki þær leiðir sem leiðsögubúnaðurinn lagði til. Ég fylgdist með tímanum. Þó lá við að ég færi framhjá biðstöðinni við MH. Tækið skipaði mér tvisvar að taka U-beygju eftir að strætisvagnastjórinn skirrðist við að beygja inn í Stakkahlíð, en allt fór þetta vel að lokum. Ég hafði svo sem vellt fyrir mér áður en ferði hófst að rétt væri að skrá annað heimilisfang, t.d. Hamrahlíð 10 sem er heimilisfang Menntaskólans við Hamrahlíð.

Ég lauk erindum mínum og heppnaðist að taka næsta vagn út á Nes. Síðasti hluti þeirrar leiðar var ágætur. Eftir að komið var inn á Meistaravelli kom leiðsögubúnaði Nokia og bílstjóranum (sem auðvitað vissi ekkert um tilraunina) ágætlega saman. Þegar 300 metrar voru eftir að áfangastaðnum hringdi ég bjöllunni og rétt áður en vagninn nam staðar tilkynnti búnaðurinn að ég væri kominn í höfn.

Greinilegt er að þessi búnaður getur komið að nokkrum notum ef réttar upplýsingar eru skráðar. Vissulega væri það mikill kostur ef tækið birti með tali heiti þeirra gatna sem ekið er um. Þar sem Nokia-kerfið er ekki að öllu leyti aðgengilegt er erfitt að rjúfa leiðsögnina til þess að athuga hvar menn eru staddir hverju sinni enda er óvíst að kerfið veiti slíkar upplýsingar.

Það væri skemmtileg lausn að fá hnitakerfi leiða Strrætós og setja það inn í Loadstone-forritið sem ég fjallaði um í síðustu færslu. Hugsanlega finnst miklu betri lausn á þessu. En tilgangurinn með þessum skrifum mínum og tilraunum hlýtur að vera sá að auka lífsgæði þeirra sem eru blindir eða sjónskertir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband