Færsluflokkur: Mannréttindi
Enn á ný er fólk hvatt í fjölmiðlum til að kynna sér vefinn. Ég hugðist vera snemma á ferðinni og opnaði hann áðan. Viti menn! Ennþá sama óaðgengilega kerfið og í fyrra.
Því var viðburðastjóra Reykjavíkur, talsmanni Gagarins, Blindrafélaginu, Öryrkjabandalaginu o.fl. sent bréf þar sem vakin var athygli á því að vefurinn væri einungis aðgengilegur sumum en ekki öllum. Sérstök athygli var vakin á vanda þeirra sem nota skjálesara og ef til vill lenda fleiri í vandræðum með vefinn.
Mannréttindi | 14.8.2010 | 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þetta safn eða setur er hin merkasta stofnun og þar ber margt fyrir augu og eyru. Þó er þannig til þess stofnað að ámælisvert verður að telja. Tekið var til notkunar íbúðar- og verslunarhús hins merka kaupmanns, sigurðar Pálmasonar, en húsið var byggt ef ég man rétt árið 1926. Aðgengi hreyfihamlaðra er ekkert og ýmislegt stórvarasamt við húsið. Þar má nefna stiga sem liggur niður á jarðhæð hússins. Þar eru flest öryggisatriði vanvirt.
Í gær áttum við leið framhjá Draugasetrinu á Stokkseyri. Gamalt hús hefur verið dubbað upp fyrir starfsemina og upp að safninu liggja brött þrep. Öldruð kona, sem með okkur var, hætti sér upp þrepin og inn á safnið. Á eftir lýsti hún kvíða sínum fyrir því að þurfa að paufast niður þessi bröttu þrep.
Á árum áður voru stundum veitt norræn aðgengisverðlaun. Ef til vill eru þau veitt enn. Sumarið 2002 var ákveðið að veita norrænum söfnum aðgengisverðlaun. Var rætt um að hafa ein aðalverðlaun og síðan 4 eða 5 aukaverðlaun sem deildust á milli safna á öðrum Norðurlöndum en því sem hlyti aðalverðlaunin. Undirritaður, sem var fulltrúi Íslands í verðlaunanefndinni, fékk því til leiðar komið að einungis yrðu veitt ein verðlaun. Rökstuðningurinn var sá að ekkert safn á Íslandi uppfyllti skilyrði aukaverðlauna.
Í tengslum við þessa vinnu var haft samband við forráðamenn nokkurra safna. Einn þeirra brást ævareiður við ábendingum um skort á aðgengi og taldi að athugasemdirnar yrðu hugsanlega til þess að draga úr áhuga manna á úrbótum. Þjóðminjavörður brást hins vegar þannig við að Öryrkjabandalag Íslands var kallað til samráðs. Leiddi það til þess að aðgengisnefnd bandalagsins var stofnuð. Ef til vill starfar hún enn og átti nefndin hlut að máli þegar unnið var að aðgengismálum safnsins.
Þegar hugað er að varðveislu gamalla húsa þarf að finna þeim annað hlutverk en að gera þau að söfnum. Verði ákveðið að gera húsin hæf til notkunar sem almenningssöfn verður að veita fé til þess að gera þau aðgengileg. Það er hægt með ýmsum hætti og eru fjölmörg dæmi um slíkar breytingar á Norðurlöndum og víðs vegar um Evrópu.
Ég hef áður minnst á Galdrasafnið á Ströndum og háan þröskuld sem þar er á milli húshluta. Þegar spurt var um ástæðuna fyrir þröskuldinum var undirrituðum tjáð að brotinn hefði verið niður veggur milli tveggja sambyggðra húsa og þröskuldurinn væri til minja um að þarna hefði eitt sinn verið heill og órofinn veggur.
Íslendingar eru eftirbátar flestra menningarþjóða í Erópu á þessum sviðum og í Bandaríkjunum er vafasamt að söfn eins og Selasafnið, Galdrasafnið og Draugasetrið fengju starfsleyfi. Því væri rétt að hyggja að úrbótum áður en stofnuð verða fleiri söfn. Jafnframt þarf að herða mjög skilyrði þess að héraðs- eða einkasöfn fái styrki og eitt þeirra skilyrða ætti að vera afdráttarlaus krafa um aðgengi allra en ekki einungis sumra.
Mannréttindi | 5.8.2010 | 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrir nokkrum árum sótti daufblind kona á Akranesi um leiðsöguhund. Hún fékk samþykki allra eigenda fjölbýlishússins þar sem hún býr og má ætla að stjórn húsfélagsins hafi bókað það í fundargerðabækur sínar.
Konan fékk ekki úthlutað hundi í það skipti en fyrir skömmu fékk hún leiðsöguhund. Voru þau þjálfuð til að vinna saman og virtist flest ganga að óskum.
En þá kom babb í bátinn. Einhver eða einhverjir settu sig upp á móti því að leiðsöguhundur kæmi í húsið, nauðsynlegt hjálpartæki til þess að létta mjög sjóndapurri konu og heyrnarskertri lífsbaráttuna. Stjórn húsfélagsins neitar að standa við gerða samninga og konunni hefur verið tjáð að hún hefði átt að þinglýsa samningnum. Henni er jafnframt gert að flytja úr húsinu fyrir 1. nóvember.
Það einkennilegasta í málinu er þó að enginn vill tjá sig um hvers vegna konan fái ekki að hafa hundinn í húsinu. Hvort er réttur hennar meiri en þeirra sem neita að samþykkja tilvist hundsins í þessu húsi? Hvers vegna greinir fólk ekki frá ástæðum þess að það vilji ekki leiðsöguhund í húsinu, skepnu sem er betur tamin en flestir íbúra hér á landi?
Og miskunnarleysið er enn meira. Fyrir skömmu var þessari sömu konu boðið út að borða og hafði hún hundinn með sér. Henni var vísað á dyr. Hvarvetna í Evrópu er blindu fólki heimilt að hafa með sér leiðsöguhunda á veitingastaði og í opinber samgöngutæki. Íslendingar eru mörgum áratugum á eftir í þessu sem ýmsu öðru sem snertir almenn mannréttindi. Hér gildir að hver traðki á öðrum svo fremi sem það sé ekki bannað. Réttur hins sterka ræður ríkjum.
Er þetta samfélagið á Akranesi í raun?
Mannréttindi | 14.7.2010 | 15:41 (breytt kl. 15:56) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um síðustu mánaðamót fengu 16.000 manns greiddar atvinnuleysisbætur. Þar af voru um 700 öryrkjar eða tæp 4,5% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá. Ég veit ekki hversu margir öryrkjar eru nú skráðir á Íslendi en nær er mér að halda að um sé að ræða um 5% öryrkja sem fengu bæturnar. Það merkir ekki að atvinnuástand sé betra með öryrkjum en öðrum landsmönnum heldur fremur hitt að atvinnuþátttaka öryrkja sé minni en þeirra sem eru ófatlaðir. Niðurstaðan er því sú að talan 700 öryrkjar bendi í raun til þess að atvinnuleysi sé mun meira á meðal öryrkja en þeirra sem hafa óskerta vinnugetu
Þessar tölur sýna, sem er gleðilegt, að ýmsir öryrkjar hafa leitað réttar síns og sótt um atvinnuleysisbætur. Þess var að litlu getið í fréttum Ríkisútvarpsins að atvinnuleysisbætur skerði bætur almannatrygginga og að bætur almannatrygginga skerði atvinnuleysisbætur. Það er því varasamt að halda því fram að um misnotkun sé að ræða. Atvinnutekjur skerða bætur almannatrygginga eftir ákveðnum reglum sem ekki verða skýrðar hér. Hið sama á við um atvinnuleysisbætur og í greiðsluáætlun Tryggingastofnunar ríkisins er beinlínis gert ráð fyrir að öryrkjar áætli atvinnuleysisbætur sínar.
Sá munur er á atvinnuleysisbótum og bótum almannatrygginga að hinar fyrr nefndur eru stundarfyrirbæri í lífi flestra en tryggingabætur eru ævikjör margra. Ástæða þess að öryrkjar fá atvinnuleysisbætur er sú að þeir hafa leitað eftir atvinnu á almennum markaði og er það vel.
Verði öryrkjar sviptir þeim rétti að njóta réttinda vegna atvinnuleysis til jafns við þá sem eru fullvinnufærir verður enn höggvið í sama knérunn. Öryrkjar hafa þegar verið látnir afsala sér vísitölutengingu bótanna eða hafa réttara sagt verið sviptir henni. Öryrkjabandalag Íslands hefur ekki samningsrétt og stjórnvöld hafa sjaldan hlustað á röksemdir þess þegar ákveðið hefur verið að níðast á öryrkjum í þágu ófatlaðs fólks. Sú ríkisstjórn, sem nú situr, virðist því miður engin undantekning.
Flestir öryrkjar eru væntanlega stoltir af því að hafa lagt sinn skerf til þess að leysa greiðsluvanda ríkisins. En þá ber stjórnvöldum að vinna almennan rétt þeirra.
Örorku fylgir jafnan kostnaður og tími er til kominn að ráðamenn átti sig á því. Engir öryrkjar vinna á fréttastofu Ríkisútvarpsins og þar á bæ virðast menn ófróðir um þessi mál.
Ætli heyrist ekkert í þeim fáu öryrkjum sem sitja nú á alþingi? Hvernig stendur á því að enginn þeirra ræðir málefni lífeyrisþega í óundirbúnum fyrirspurnum? Er það vegna þess að einhverjir þeirra eru í stjórnarliðinu? Spyr sá sem ekki veit.
Mannréttindi | 10.2.2010 | 20:18 (breytt 12.2.2010 kl. 08:47) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Adam var ekki lengi í Paradís. Vefurinn reyndist ekki í lagi þótt nýlegur væri. Því var eftirfarandi bréf sent:
Ágæti viðtakandi.
Ég hef að mestu verið atvinnulaus undanfarin 4 ár, en í haust tókst ég á hendur talsverða verktöku.
Ég hugsaði mér að senda inn skilagrein vegna tímabilsins frá 05.01.2009-30.11.2009. Ég komst svo langt að byrja að fylla út skilagreinina á vef launagreiðanda en þá vandaðist málið.Vefurinn er ekki aðgengilegur þeim sem nota skjálesara. Talgervillinn les ekki heiti þeirra reita sem fylla þarf út í. Nöfn þeirra birtast á einu svæði og útilokað er að greina hvaða reitur á við hverju sinni.
Embætti ríkisskattstjóra hefur nýlega breytt sínum vef vegna ábendinga undirritaðs og er nú hægt að sinna erindum á vefnum þótt notandinn sé blindur.
Ég vona að þessu verði kippt í lag hið bráðasta, enda stríðir skortur á aðgengi gegn upplýsingastefnu stjórnvalda.
Að flestu leyti er heimasíðan nothæf. Ég mæli þó eindregið með því að sérfræðingur um aðgengi frá Sjá ehf berði beðinn að taka út síðuna og koma með ábendingar. En á meðan mælist ég til að aðgengiskröfur veðri uppfylltar á vef launagreiðenda.
Með von um skjót svör,
virðingarfyllst,
Arnþór Helgason
Mannréttindi | 28.12.2009 | 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar lífeyrissjóðakerfinu varkomið á fót var hugsunin m.a. sú að efla hag lífeyrisþega og skapa þeim viðunandi lífskjör. Þar með voru almannatryggingar viðurkenndar sem sá grunnþáttur sem bæta mætti við með eigin framlagi.
Eðli málsins samkvæmt skerðast bætur almannatrygginga vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þetta getur ekki verkað á hinn veginn þannig að tryggingar almannakerfisins skerði greiðslur úr lífeyrissjóðum. Þannig er Hæstiréttur farinn að snúa lögum við í landinu.
Þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson kúguðu Alþingi til þess að samþykkja hefndarráðstafanir gegn öryrkjum í kjölfar dóms Hæstaréttar árið 2000 var öllum ljóst að tvennt hafði gerst: ríkisstjórnin ætlaði ekki að fara að dómi réttarins og hugðist ganga þannig frá málum að sigur Öryrkjabandalagsins yrði einungis hálfur en ekki allur. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks afnam þessi ólög.
Forsætisráðherra á nú þegar að sýna af sér þann skörungsskap að láta breyta lögum um almannatryggingar þannig að annað eins og þetta - vanþekking hæstaréttardómaranna - geti ekki haft áhrif á framkvæmd laganna.
Ég hugðist kynna mér hvaða dómarar hefðu dæmt í þessu máli, en mér bauð í grun að sumir þeirra hefðu e.t.v. átt að víkja sæti í málinu vegna pólitískra tengsla sinna við Sjálfstæðisflokkinn, en dómsmálaráðherrar þess flokks hafa séð um að skipa flesta dómara Hæstaréttar frá því að lýðvedi var stofnað hér á landi. Mér lánaðist ekki að leita að viðeigandi upplýsingum á síðu réttarins. Hvorki gekk að fylla út leitarskilyrðin né skrifa einhverjar tölur sem birtust á skjánum. Síða Hæstaréttar er óaðgengileg sjónskertu og blindu fólki.
Ef núverandi ríkisstjórn eða sú fyrri hefðu nú haft manndóm í sér til þess að setja lög um aðgengi heimasíðna svipuð þeim sem gilda í Bandaríkjunum hefði mér við unnt að höfða mál á hendur Hæstarétti fyrir óaðgengilega heimasíðu. Hver veit nema ég leiti styrks hjá Öryrkjabandalaginu til slíkrar málshöfðunar. Mér hefur jafnan verið meinilla við að láta leyna mig upplýsingum og tel Hæstarétt brjóta öll siðferðislögmál með því hvernig gengið er frá heimasíðu réttarins. Hvað skyldi sjónskertum þingmanni Samfylkingarinnar finnast?
Mannréttindi | 18.12.2009 | 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hinn 10. þessa mánaðar fékk ég bréf frá Einari Val Kristinssyni, starfsmanni embættisins, þar sem greint var frá því að tilteknar breytingar hefðu verið gerðar á vefsvæðinu og væru þær ekki endanlegar.
Í kvöld gengum við hjónin úr skugga um að vefsvæðið sé aðgengilegt og reynist nú engum vandkvæmum bundið að standa skil á opinberum gjöldum. Er sem fargi af mér létt og mér ekki boðlegt framar að vanrækja að greiða opinber gjöld mín.
Ég hef þegar svarað bréfi Einars Vals og beðist afsökunar á að ef til vill hafi ég farið fram úr sjálfum mér, en af einhverjum ástæðum áttaði ég mig ekki á þeim breytingum sem gerðar höfðu verið.
Ríkisskattstjóra ber lof fyrir allskjót viðbrögð í þesu máli.
Mannréttindi | 12.11.2009 | 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðsumars átti ég vinsamlegt samtal við Skúla Eggert Þórðarson, sem kvartaði undan fjárskorti sem væri væntanlega vaxandi innan embættisins. Hann hét þó að taka málið föstum tökum.
enn hefur ekkert gerst. Það munu nú sennilega tvö ár síðan ég vakti athygli umsjónarmanna rsk.is á þessu ófremdarástandi og það hafa fleiri gert. Ég hef því skrifað ríkisskattstjóra eftirfarandi tölvuskeyti.
Sennilega er kominn tími til að stofna ný samtök fatlaðra, Aðgengisfélagið og sækja um aðild að Öryrkjabandalagi Íslands.
Ágæti Skúli Eggert.
Ég þakka þér ánægjulegt samtal og fróðlegt sem við áttum um aðgengi að vef embættis þíns nú síðsumars.
Málum mínum er enn þannig komið að ég hef ekki fengið starf sem launamaður. Ég sótti því um sölu áskrifta hjá viðskiptablaðinu og er þar nú sem verktaki. Að vísu finnst mér ég kasta sérþekkingu minni á glæ með því að vinna með algerum byrjendum á vinnumarkaði, en hvað gera menn ekki þegar engra annarra kosta er völ. Viðmótið á þessum vinnustað er gott og mér líður þar prýðilega innan um það unga fólk sem leggur sig allt fram við sölumennskuna.
Nú þarf ég að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og enn hefur ekkert gerst í bættu aðgengi þess hluta vefsins sem ætlaður er til þessara nota.
Ég sé mér ekki annað fært úr þessu en vekja athygli umboðsmanns Alþingis á því hvernig ríkisskattstjóri leggur í raun stein í götu þeirra sjónskertu einstaklinga sem vilja og þurfa að bjarga sér sjálfir. Ég vildi mjög gjarnan láta reyna á það, jafn vel fyrir dómstólum, hvor okkar yrði ábyrgur ef ég stæði ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þess að vefurinn er ekki aðgengilegur.
Ég vænti skjótra svara og aðgerða frá þér og embætti þínu.
Með vinsemd og virðingu,
Arnþór Helgason ***************************************************** Arnþór Helgason, Tjarnarbóli 14, 170 Seltjarnarnesi. Símar: 5611703, 8973766 Netfang: arnthor.helgason@simnet.is Pistlar: http://arnthor.helgason.blog.is
Mannréttindi | 9.11.2009 | 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ágæti viðtakandi.
Ég hef meira og minna verið í atvinuleit undanfarin ár. Ég var svo heppinn að fá starf sem sumarstarfsmaður á Morgunblaðinu sumrin 2007 og 2008 og var það dýrmæt starfsreynsla.
Morgunblaðið nýttist mér framan af sem dýrmæt uppspretta við atvinnuleit. Nú bregður hins vegar svo við að einungis eru birtar myndir af auglýsingum á mbl.is. Reynist því þeim, sem eru blindir eða sjónskertir og nota skjálesara ókleift að lesa auglýsingarnar.
Vonandi verður þetta fært í fyrra horf þannig að texti birtist með myndunum.
Virðingarfyllst,
<Þ
fv. formaður og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands
Mannréttindi | 13.10.2009 | 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hugði mér gott til glóðarinnar og ákvað að forvitnast um vissa hluti. En viti menn. Vefsafnið uppfyllir ekki lágmarkskröfur um aðgengi. Hægt er að leita að vefsíðum. Þegar listi yfir færslurnar birtist kemur í ljós að skjálesarar lesa ekki tenglana í töflunni sem sýnir hinar ýmsu færslur.
Það virðist mikill misbrestur á að gætt sé að aðgengi þegar opinberar síður eru endurnýjaðar. Ég hef því sent ýmsum yfirmönnum Landsbókasafnsins meðfylgjandi bréf:
Ágæti viðtakandi.
Viðleitni Landsbókasafns Háskólabókasafns til að veita almenningi sem mestar og besta upplýsingar er til mikillar fyrirmyndar.
Við hönnun hins nýja vefsafns hefur ekki verið gætt að aðgengi þeirra sem nota skjálesara. Hægt er að fletta upp á vefsíðum. Listinn sem þá birtist er óaðgengilegur. Tenglarnir virka alls ekki og því er þessi þjónusta gagnslaus þeim sem eru blindir eða sjónskertir.
Þetta stríðir gegn upplýsingastefnu stjórnvalda og verður þess því vænst að úr verði bætt hið fyrsta.
Virðingarfyllst,
Arnþór Helgason
Mannréttindi | 2.10.2009 | 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.4.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 18
- Frá upphafi: 319934
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar