Færsluflokkur: Mannréttindi

Mogginn hefur vinninginn

Mér telst svo til að ég hafi verið með einum eða öðrum hætti áskrifandi Morgunblaðsins síðan netútgáfan hófst. Eftir árið 2000 voru gerðar ráðstafanir til þess að lestur blaðsins yrði auðveldari þeim sem nýta sér skjálesara og er sú útgáfa nefnd "Auðlesin".

Eins og komið hefur fram er ég einnig áskrifandi DV og Fréttablaðið glugga ég stundum í. Við lestur þessara blaða þarf ég að notast við pdf-sniðið sem er flestum tiltölulega auðvelt. Gallinn er sá að þar er ekki hægt að fara milli greina og greinaflokka eins og hjá Morgunblaðinu.

Aðgengi að mbl.is er á við það besta sem gengur og gerist að erlendum blöðum. Að vísu mætti ýmislegt bæta í þeim efnum og hefur ábendingum iðulega verið tekið vel.

Ef bornar eru saman netútgáfur blaðanna hefur Morgublaðið vinninginn.


Capacent með óaðgengilega heimasíðu

Í morgun fór ég inn á heimasíðu Capacent til þess að athuga hvort einhver störf, sem henta mér, stæðu til boða.

Sá ég þá að auglýst var ný heimasíða fyrirtækisins. Við nánari athugun reyndist hún að mestu leyti óaðgengileg. Enginn texti var við krækjurnar heldur einungis myndir.

Í ljósi þess sem fram kom í athugasemdum vegna fyrri skrifa á þessari síðu er ljóst að sum hugbúnaðarhús hér á landi virðast ekki þekkja hugtakið "Aðgengi".

Ég hef átt ánægjuleg samskipti við starfsfólk Capacent á undanförnum árum. Nokkrum sinnum hef ég komist í atvinnuviðtöl fyrir tilstilli þess en ekki fengið fast starf. Að vísu hélt ég að mér hefði hlotnast ssölumannsstarf í sumar vegna auglýsingar á mbl.is. Það hefur þó dregist úr hömlu og verð ég því enn að láta skrá mig atvinnulausan.

Vonandi bæta þeir Capacent-menn úr þeim vanköntum sem eru á nýrri heimasíðu fyrirtækisins.


Brotið gegn upplýsingastefnu stjórnvalda - hugsanlegt staðgreiðsluverkfall

Kjartan Sverrisson skrifar þarfa athugasemd við síðustu bloggfærslu mína og bendir á að ekkert alvöruhugbúnaðarhús láti frá sér fara vef án þess að hann uppfylli aðgengi 1 eins og það er skilgreint af Sjá. Það er athyglisvert að lesa þessa athugasemd frá Kjartani í ljósi þess að ENGINN forystumaður samtaka fatlaðra hefur séð ástæðu til þess að hafna athugasemdum mínum eða taka undir þær.

Ég átti hlut að máli þegar þessi skilgreining sem notuð er við vottun aðgengis að heimasíðum var gerð. Ég hef síðan tekið þátt í að votta heimasíður með því að athuga tiltekin atriði sem þurfa að vera aðgengileg áður en síðurnar eru vottaðar. Þetta hef ég gert mér til mikillar ánægju.

Aðgengi að heimasíðum fyrirtækja og stofnana hér á landi er skárra en víða annars staðar og er það vel. Þótt útlit vefsíðna opinberra stofnana fylgi yfirleitt aðgengisstöðlum vantar mikið á að einstakir hlutar þeirra uppfylli þessi skilyrði. Verða hér nefnd nokkur dæmi:

Tryggingamiðstöðöin er eina fyrirtækið sem ég veit um að hafi gert eyðublöð sín aðgengileg þeim sem nota skjálesara. Þau voru sérstaklega hönnuð og notendur hafðir með í ráðum.

Fyrir nokkru var notendum skjálesara gert kleift að telja fram á vefnum og var það framför. Aðrir hlutar úttfyllingaforma ríkisskattstjóra eru ekki vel aðgengilegir. Það slampast með virðisaukaskattinn vegna þess hversu reitirnir eru fáir. En þegar kemur að staðgreiðslu skatta vandast málið. Starfsmaður embættisins hefur viðurkennt fyrir mér að sá hluti versins sé óaðgengilegur. Ríkisskattstjóri sagði mér í samtali að fjárskortur hamlaði. Sannleikurinn er sá að starfsmenn embættisins hafa haft 3 ár í hið minnsta til þess að lagfæra aðgengið og ekkert hefur miðað. Nú horfir til mikils niðurskurðar´hjá embætti ríkisskattstjóra og óttast skúli Eggert Þórðarson að úrbætur geti dregist á langinn. Þetta eru hins vegar ódýrar úrbætur og vel getur verið að skipta þurfi um verkefnisstjóra til þess að úrbæturnar gangi eftir.

Tryggingastofnun ríkisins lét gera talsverðar breytingar á vef stofnunarinnar á síðasta ári og voru þær flestar til mikilla bóta. Eyðublöðin hafa alls ekki verið hönnuð með þarfir sjónskerts fólks í huga. Haustið 2005 var talið að þessu yrði hrint í framkvæmd um leið og ný vefsíða sæi dagsins ljós. Það hefur enn ekki orðið.

Í janúar 2007 skrifaði ég forstjóra Vinnumálastofnunar og vakti athygli á óaðgengilegum eyðublöðum. Þakkaði hann mér fyrir ábendingarnar. Lítið sem ekkert hefur breyst síðan. Nú lætur hann ekki svo lítið að svara fyrirspurnum og starfsmenn stofnunarinnar þverskallast við öllum tillögum um breytingar.

Ég held því statt og stöðugt fram að með framferði sínu leggi forstöðumenn þessara stofnana stein í götu þeirra sem reyna að bjarga sér sjálfir og þurfa að gera það. Mér væri skapi næst að fara í greiðsluverkfall opinberra gjalda og neita að greiða önnur gjöld en þau sem ég get greitt sjálfur. Tæknin er til sem þarf til að útfylla eyðublöð og það er tiltölulega einfalt að breyta forminu þótt vefur sé ekki endurhannaður frá grunni. Fari svo að ég hætti að greiða opinber gjöld væri fróðlegt að láta reyna á það fyrir dómi hvor beri ábyrgðina, ég eða sú stofnun sem hefur lagt stein í götu mína og annarra sem svipað er ástatt um. Hverfi ég hins vegar frá því og reyni að greiða þessi gjöld með því að fá einhvern til aðstoðar, sem þiggur e.t.v. laun fyrir, hver á þá að greiða kostnaðinn? Sá sem uppfyllir ekki skyldur sínar eða hinn sem reynir að standa í skilum og þarf að greiða aðstoðarmanni til þess að inna slík skil af hendi?

Það er ótrúlegt að enginn stjórnarþingmaður skuli taka þetta mál upp og engum virðist detta í hug að setja þurfi löggjöf hér á landi sem tryggi upplýsingaaðgengi fatlaðra. Það er ekki nóg að fága yfirborðið heldur verður verður að vanda undirlagið.


Sýnd veiði en ekki gefin

Það er ótrúlegt að fylgjast með uppátækjum Google-leitarvélaginnar. Mikilvirkari og gagnlegri leitarvél verður vart fundin. Hefur hún leyst margan vanda þótt hún hafi jafnframt valdið vandræðum. Hvoru tveggja fékk ég að kynnast þegar ég starfaði við blaðamennsku á Morgunblaðinu.

Að undanförnu hef ég leitað að fræðigreinum um nokkur álitamál í hljóðritunartækni, einkum atriðum sem fjalla um viðtalstækni. Á leitarvef Google birtast m.a. útdrættir úr fræðiritum um þessi mál.

Galli virðist þó á gjöf Njarðar. Einungis eru myndir af bókasíðunum sem vitnað er í en skjálesarar geta ekki lesið.

Á vegum Landsbókasafns Íslands hefur að hluta verið ráðin bót á þessu vandamáli. En ýmsar villur fylgja með sem ekki voru leiðréttar þegar blöðin eða tímaritin voru skimuð inn. Þessi leið hefur þó opnað ýmsar upplýsingar sem ómetanlegt er að geta gluggað í.

Nú vona ég að bandarísku blindrasamtökin láti hendur standa fram úr ermum og beiti sér fyrir því að aðgengi verði bætt að þeim gríðarlega bókakosti sem Google býður aðgang að - annaðhvort til skoðunar eða kaups.

Hér á landi er nær ekkert fjallað um upplýsingaaðgengi á heimasíðum samtaka fatlaðra og er það miður. Metnaðarleysi forystufólksins ríður hreinlega ekki við einteyming.


Reykjavíkurborg sniðgengur staðla um aðgengi að vefsíðum

Þótt ég búi á Seltjarnarnesi hef ég áhuga áþví sem í boði verður á menningarnótt. Ég fór því inn á heimasíðu Reykjavíkurborgar og fann þar hlekk á síðu menningarnætur.

Útlitið var svipað og í fyrra, en mér var þásagt að úr því yrði bætt í ár. Notað er svokallað flash-skjal ef ég kann að nefna það rétt sem gerir notendum skjálesara óhægt um vik að skoða síðurnar.

Opinberar stofnanir hegða sér sumar hverjar eins og sjónskert fólk eigi ekki rétt á að afla sér þeirra upplýsinga sem í boði eru. Þó verður að taka fram að flestar vefsíður þeirra eru til fyrirmyndar, en nokkur leið dæmi eru um hið gagnstæða. Þannig hefur lítið þokast hjá ríkisskattstjóra og umsjonarmenn menningarnætur eru enn við sama heygarðshornið. Ef til vill er vonlítið að berjast gegn margnum einkum þegar samtök fatlaðra eins og Blindrafélagið og Öryrkjagbandalag Íslands virðast láta sig þessi mál litlu skipta. A.m.k. hef ég lítið séð af áberandi efni á heimasíðum þeirra um aðgengismál.

Dropinn holar steininn og því mun undirritaður ótrauður halda baráttu sinni fyrir bættu upplýsingaaðgengi áfram.


Þjónum alþýðunni

Nú er liðinn hálfur mánuður frá því að ég skrifaði embætti ríkisskattstjóra og vakti athygli á óaðgengiilegri vefsíðu þar sem fólk getur innt af hendi staðgreiðslu skatta. Þar sem ekkert svar hefur borist hyggst ég leita á fund hans og sýna honum hvernig er í pottinn búið gagnvart blindu eða sjónskertu fólki.

Í raun væri það kjörið upplýsingaverkefni fyrir blind eða sjónskert ungmenni að fara svona upplýsingaherferð til þess að sýna hverju hægt er að áorka með tölvutækninni og hvað geti staðið í vegi fyrir því að fólk sem sér ekki fótum sínum forráð fái þrifist í tölvuumhveri nútímans. Ríkið greiðir fyrir rándýran búnað sem á að auðvelda blindu fólki aðgengi að tölvum. Opinberir atvinnuveitendur og forystumenn einkafyrirtækja vita hins vegar ekki hvað auðvelt er að ryðja ýmsum hindrunum úr vegi. Kannski ætti ég að taka þetta að mér á eigin spýtur í sumar og hefja trúboðsleiðangur. Ég gæti verið með falinn hljóðnema eða myndavél og gert sjónvarpskvikmynd um efnið. Hér með óska ég eftir samstarfsaðila til nokkurra mánaða.


Frumvarpið um kosningalögin leiðir til málshöfðunar

Allar líkur eru á að samþykkt óbreytts frumvarps um lög um kosningar til Alþingis leiði til málshöfðunar. Samkvæmt ákvæðum samningsins ber mér skylda til þess að vekja athygli á þessum atriðum. Hér að neðan eru því talin upp nokkur ákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sérstök athygli er vakin á 29. gr. samningsins. Samninginn í heild má nálgast á vefslóðinni

http://www.blind.is/fraedin/sattmali-um-rettindi-fatlads-folks/nr/837

Fleiri atriði mætti nefna en hér verður einungis stiklað á stóru.

4. gr. 1. liður

c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðra við alla stefnumótun og áætlanagerð,

d) að láta hjá líða að aðhafast nokkuð það sem fer í bága við samning þennan og sjá til þess að opinber yfirvöld og

stofnanir vinni í samræmi við ákvæði hans,

3. Aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna

að ákvarðanatöku um málefni fatlaðra, hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaða, þ.m.t. fötluð börn, með

milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þeirra hönd.

Sjá 9. gr. um aðgengi, 12. gr. um jafna réttarstöðu, 21. gr. Tjáningar- og skoðanafrelsi og aðgangur að upplýsingum.

Sérstök athygli er vakin á 29. gr.

29. gr. Þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi.

Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra og skulu

jafnframt:

a) tryggja að fötluðum sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með

beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa eftir frjálsu vali, þ.m.t. rétt og tækifæri til þess að kjósa og vera kosnir, meðal

annars með því: i. að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og

auðskilin og auðnotuð,

ii. að vernda rétt fatlaðra til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum

án þvingana með hótunum og til þess að bjóða sig fram í kosningum, að gegna embættum með virkum hætti og

að sinna öllum opinberum störfum á öllum stigum stjórnsýslu, jafnframt því að greiða fyrir notkun hjálpartækja og

nýrrar tækni þar sem við á,

iii. að fatlaðir geti látið vilja sinn óþvingað í ljós sem kjósendur og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn

krefur og að ósk fatlaðra, að þeir njóti aðstoðar einstaklinga að eigin vali við að greiða atkvæði,

b) vinna ötullega að mótun umhverfis þar sem fatlaðir geta tekið virkan og fullan þátt í opinberri starfsemi, án

mismununar og til jafns við aðra, og hvetja til þátttöku þeirra í opinberri starfsemi, meðal annars: i. þátttöku í

starfsemi frjálsra félagasamtaka og samtaka, sem láta sig málefni almennings varða og stjórnmálalíf viðkomandi

lands, og í störfum og stjórn stjórnmálaflokka,

ii. því að mynda og gerast aðilar að samtökum fatlaðra til þess að rödd fatlaðra heyrist á alþjóðavettvangi, heima fyrir

á landsvísu og innan landsvæða og sveitarfélaga.

Augljóst má vera af lestri 29. greinarinnar að nú þegar er pottur brotinn í þessum efnum. Ástandið versnar að mun verði frumvarp stjórnarflokkanna samþykkt óbreytt. Þar með brýtur þessi starfsstjórn sem ætlar að stuðla að mannréttindum og jöfnuði að því að útiloka hópa fólks frá því að njóta jafnréttis í samfélaginu.

Hér með skora ég á Alþingi Íslendinga að fara að ákvæðum samningsins og fresta málinu.

Vanda skal til verka hverra.


Kosningafrumvarpið - afturför í mannréttindum

Í dag hef ég sent Alþingi meðfylgjandi umsögn um kosningafrumvarpið. Þannig er frá frumvarpinu gengið að þeir sem eru verulega sjónskertir, blindir eða lesblindir geta ekki neytt réttar síns. Umsögnin fer hér á eftir.

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum.

Ég undirritaður hef farið ítarlega yfir frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til alþingis, samanber þskj. 622 — 368. mál.

Að óbreyttu er hætt við að frumvarpið skerði réttindi þeirra kjósenda sem eru blindir eða sjónskertir. Til þess að tryggja réttindi þessa hóps og aðgengi að þeim upplýsingum sem birtar eru á kjörseðli, er nauðsynlegt að huga að ákveðnum, tæknilegum atriðum. Lagt er til að málinu verði frestað og leitað leiða í samráði við samtök fatlaðra til þess að tryggja áður greindan rétt.

Að öðrum kosti er lagt til að á eftir orðinu “listabókstöfum” í 47. gr. 1. mgr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 með síðari breytingum bætist við orðin “og tölustöfum”. Þar með er gert ráð fyrir að blint fólk geti nýtt sér stimpla til þess að skrá röð frambjóðenda á þann lista sem atkvæðið hlýtur og sama hátt og bókstaf listans.

Jafnframt telur undirritaður nauðsynlegt að breyta 81. gr. laganna til samræmis við auknar heimildir sem felast í frumvarpinu, samanber 7. gr. frumvarpsins sem fjallar um breytingar á 82. gr. laganna. Þá þarf einnig að breyta skilgreiningum á spjaldi með blindraletri sem tilskilið er samkvæmt lokamálsgrein 81. gr, samanber tillögu við 47. gr. og ákvæði 82. gr. laganna.

Að lokum skal bent á að blindu, lesblindu eða sjónskertu fólki er í raun gert ókleift að nýta sér rétt sinn til þess að endurraða frambjóðendum á óröðuðum listum miðað við núgildandi lög og samkvæmt ákvæðum frumvarpsins verður þar engin breyting á. Kjörseðlar með nöfnum frambjóðenda eru hvorki með blindraletri eða með öðrum hætti þannig útbúnir að þessir hópar geti kynnt sér þessar upplýsingar.

Það má því vera enn ljósara en áður að fyrirhugaðar breytingar, sem lagðar eru til samkvæmt frumvarpinu, svara einungis að takmörkuðu leyti þeirri kröfu að tryggt verði aðgengi allra hópa að upplýsingasamfélaginu. Íslendingum gefst nú einstakt tækifæri til að verða í fararbroddi um framfarir í þessum málum og sjá til þess að ákvæði sáttmála SÞ um réttindi fatlaðra verði um leið virt.

Virðingarfyllst,

Arnþór Helgason

fv. formaður og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands

og varaformaður Blindrafélagsins


Bréf á blindraletri sent til félags- og tryggingamálaráðuneytisins

Í gær barst mér bréf frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu þar sem greint var frá skipan nýs forstjóra Þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, en ég var einn umsækjenda. Þar sem ég tel skipun hins nýja forstjóra orka tvímælis hef ég sent ráðuneytinu bréf í morgun og er það fyrsti liður í þeirri viðleitni minni að leita réttar míns í þessu máli. Bréfið er skrifað á blindraletri.


Slæmt aðgengi að sumum undirsíðum ríkisskattstjóra

Nokkuð hefur verið unnið að því að bæta aðgengi að heimasíðum ríkisskattstjóra, www.rsk.is. Þar má geta að erfitt er að fylla út eyðublöð og í vefskilum vantar talsvert á að þeir, sem nýta sér vefskil, geti innt þau af hendi. Þess vegna var meðfylgjandi bréf sent í morgun.

Ég undirritaður er að reyna að basla dálítið sem verktaki. Ég hef því virkjað aftur vsk-númer og hugðist standa skil á staðgreiðslu gegnum netið. Talsvert vantar á að þjónustusíðurnar á vefskilum séu að öllu leyti aðgengilegar blindu eða sjónskertu fólki sem reiðir sig á sérstaka skjálesara. Það gengur fremur vel að greiða virðisaukaskattinn enda er það form heldur einfalt. Þegar kemur að útfyllingu vegna staðgreiðslu skatta vandast heldur málið því að erfitt er að finna íhvaða reit upplýsingar eiga að lenda. Ég vænti þess að bót verði ráðin á þessum ágöllum hið fyrsta. Óaðgengilegar heimasíður eru heimatilbúinn vandi sem hindra nokkurn hóp fólks í að njóta almennra mannréttinda og hasla sér völl í nútímasamfélagi sem byggir á upplýsingatækni. Virðingarfyllst, Arnþór Helgason ***************************************************** Arnþór Helgason, Tjarnarbóli 14, 170 Seltjarnarnesi. Símar: 5611703, 8973766 Netfang: arnthor.helgason@simnet.is Pistlar: http://arnthor.helgason.blog.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband