Færsluflokkur: Fjármál

Vindhöggið, Bjarni og peningamarkaððsbréfin

Einhvern veginn líst mér sem fréttaflutningur um sölu Bjarna Benediktssonar á sjóðsbréfunum sé eins og hvert annað upphlaup.
Þeir sem fylgdust með  aðdraganda hrunsins haustið 2008 muna að opnað var fyrir viðskipti í peningamarkaðssjóðunum nokkru áður en Glitnir var yfirtekinn að fullu. Mörg okkar vissu að ýmsir seldu bréf með talsverðu tapi og komu fjármunum síðum annars staðar fyrir. Vitneskja er meira að segja fyrir hendi um að sumir viðskiptamenn bankans voru aðvaraðir og þeim bent á að losa sig við bréfin.
Ég þekki einstaklinga sem gerðu þetta ekki og töpuðu talsverðu fé.
Fyrirtæki, sem annaðist hluta af séreignasparnaði, hafði fjárfest í sjóði 9 án þess að ég hefði hugmynd um það fyrr en ári síðar að uppgjör barst. Ég tapaði því nokkrum þúsundum.
Ég held að umræðan hér á landi ætti að komast á hærra stig en stundarupphlaup þetta ber vitni um.
Fjármálabrask er fólgið í því að skara eld að eigin köku. Sumum finnst það siðlaust þótt það sé löglegt.
Fjölmiðlar ættu að forðast vindhögg. Þau eru engum til gagns.


Íslandsbanki markar nýja stefnu um aðgengi blindra og sjónskertra að banka-appi og annarri þjónustu

Um það leyti sem netbankar voru stofnaðir skömmu eftir aldamótin reið Íslandsbanki eða hvað sem hann hét þá á vaðið og setti sér metnaðarfulla aðgengisstefnu.
Þegar smáforrit fyrir Apple og Android-síma voru kynnt hér á landi fyrir tveimur árum var forrit Íslandsbanka gert að mestu aðgengilegt þeim sem eru blindir og sjónskertir.
Í desember síðastliðnum var appið eða smáforritið endurnýjað og þá hrundi aðgengi blindra snjallsímanotenda.
Eftir að bankanum bárust hörð mótmæli var tekið til óspilltra málanna vegna lagfæringa á aðgenginu. Það virtist snúnara en búist var við.
Valur Þór gunnarsson, þróunarstjóri Íslandsbanka, greindi frá þessu í viðtali við höfund síðunnar.

Sjá krækju hér fyrir neðan.
http://hljod.blog.is/users/df/hljod/files/zoom0014_lr.mp3

 


Útflutningur orku er hagkvæmari en sala hennar til álvera

Í dag kom Kjarninn út. Þar er grein eftir Gylfa Magnússon, fyrrum efnahags- og viðskiptaráðherra, þar sem hann fullyrðir að hæpið sé að olíuvinnsla muni borga sig hér við land. Nefnir hann til þess sannfærandi rök svo sem er nýja tækni til vinnslu olíu á landi, samdrátt í olíunotkun o.s.frv.

Þá er fullyrt í greininni að orkugeirinn geti skilað mun meiri arði með því að selja orkuna úr landi í stað þess að selja hana álverum.

Nú er ljóst að ekki er of mikið til að virkja sem hagkvæmt getur talist og leiddar voru að því líkur í Morgunblaðinu í grein sem nefnist "Kapallinn gengur ekki upp" að ýmislegt valdi því að jafnlangir sæstrengir og Íslendingar þurfa til útflutnings séu ekki hagkvæmir í rekstri. En Gylfi hefði þurft að styðja þessa fullyrðingu sína um útflutning orku. Hugsar hann sér að álverin verði lögð niður og sú orka, sem runnið hefur þangað, verði seld yfir Atlantsála? Er skýringin þá e.t.v. sú að Íslendingar hefðu þá betri stjórn á verðmynduninni?


Deilt og drottnað á annarra kostnað

Leiðari Morgunblaðsins í dag, 30. júlí 2014, er fyrir margra hluta sakir athyglisverður. Fjallar hann um samskipti Efrópusambandsins og Bandaríkjanna við Rússland Pútíns, þar sem Bandaríkjamenn beita refsingum, sem engu máli skipta og fá Evrópusambandið í lið með sér, sem gæti skaðast á þeim viðskiptum.

Bandaríkin fara víðar sínu fram, á yfirborðinu sem stórveldi en sums staðar sem leppríki. Síðasta dæmið er fylgispekt Bandarískra stjórnvalda við Ísraelsmenn.


Hér fyrir neðan er leiðari Morgunblaðsins.


Tvíbent vopn

Evrópuríkin urðu nú að láta undan þrýstingi Bandaríkjamanna


Bandaríkin eiga létt með að ákveða efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Rússlandi. Viðskipti þessara mestu kjarnorkuvelda veraldarinnar eru tiltölulega lítil. Öðru máli gegnir um lönd Evrópusambandsins. Viðskiptin eru mikil en snerta einstök lönd sambandsins mismikið. Það flækir málið enn. Evrópuríkin verða að taka hugsanleg viðbrögð Rússa með í sinn reikning. Bandaríkin eru einnig að mestu laus við þann þáttinn.

Rússneskur almenningur styður enn afstöðu og athafnir Pútíns forseta í Úkraínu og telur Vesturlönd koma ósæmilega fram við Rússa. Innlimun á Krímskaga þótti flestum Rússum sjálfsögð, ekki síst eftir að „löglega kjörnum“ forseta Úkraínu var bolað úr embætti með ólögmætum hætti að þeirra mati. Því mun Rússum þykja efnahagsþvinganirnar vera óeðlileg og fjandsamleg aðgerð gegn Rússlandi, sem eðlilegt sé að forseti þeirra bregðist við með þeim kostum sem hann hefur.

Á Vesturlöndum er hins vegar bent á að þegar efnahagsþvinganirnar byrji að bíta muni þær um leið bíta marga stuðningsmenn Pútíns af honum. Og þótt þekkt sé og rétt að efnahagsþvinganir séu eins og myllurnar frægu, þær mali hægt, þá eigi þær það líka sameiginlegt að á endanum mali þær vel. Versnandi kjör Rússa vegna þeirra muni æsa til andstöðu við Pútín. Vissulega muni þvinganirnar í upphafi hitta fáa Rússa fyrir, en þessir fáu eigi mikið undir sér í Kreml og þeir verði illa úti. Forsetinn geti því furðufljótt misst mikilvægan stuðning úr hópi „klíkubræðra“.

Eftirtektarvert er að markmiðin sem fylgja efnahagsþvingununum eru óljós. Sagt er að þær séu ákveðnar til að þvinga Pútín til að breyta um stefnu í málefnum Úkraínu. Ekki er til að mynda líklegt að uppgjöf Rússa á Krímskaga sé forsenda fyrir því að fallið verði frá þeim. Margir áhrifamiklir þýskir stjórnmálamenn hafa raunar lýst yfir ákveðnum skilningi á því að Rússar hafa sameinað hann Rússlandi á ný.

Margir leiðtogar Evrópuríkjanna voru bersýnilega ekki áfjáðir að ganga mikið lengra í efnahagsþvingunum. En árásin á farþegaflugvélina sópaði öllum öðrum kostum út af borðinu.


Nýi tíuþúsundkallinn

Blindratækni er m.a. í því fólgin að gera almenna hluti aðgengilega þeim sem eru blindir. Árið 1975 eða 76 varð snörp senna á milli Blindrafélagsins og Seðlabankans, þegar upplýst var að nýju seðlarnir, sem þá voru í undirbúningi, yrðu allir jafnlangir. Það tókst að fá almenningsálitið í lið með okkur og frá þessu var horfið. Aðalgjaldkeri bankans sagði síðar að hann botnaði ekkert í því hvernig mönnum hefði dottið annað eins í hug. Veit nokkur hvort einhver mismunur er á stærð nýja 10.000 kr seðilsins og 5.000 kr seðilsins?

Fjarar undan Hellisheiðavirkjun

Stundum kemur upp kvittur í samfélaginu sem fer hljótt, læðist með jörðu eins og dalalæða. fyrir nokkru barst það út um heimsbyggðina hér á landi, en fór hljótt, að jarðhitasvæðið á Hellisheiði stæðist ekki álag. Þeir sem greindu frá þessu, fóru með þennan sannleika eins og mannsmorð. Hægrimenn fussuðu, miðjumenn urðu efins en vinstrimenn trúðu þessu. Nú er komið í ljós að þetta er rétt.

Eitt sinn birtist pistill á þessum síðum um stækkun Hellisheiðarvirkjunar og þá firringu sem væri fólgin í því að nýta jarðhita eingöngu til raforkuframleiðslu, en sagt er að einungis nýtist 10-14% orkunnar í því sambandi. Höfundur pistilsins sætti talsverðu ámæli fyrir vanþekkingu og úrtölur. Þess skal getið að höfundur er hvorki jarðfræðingur né rafeindavirki, en hafði þessar staðreyndir úr ýmsum áttum.

Annað hefur komið á daginn og nú er ekki annað í vændum en blása Helguvíkurálverið endanlega af og hugsa sig tvisvar um áður en ráðist verður í frekari stórvirkjanir. Ívilnunin á Bakka er ekki fordæmisgefandi. Reyndar hneykslast margir á Ragnheiðu Elínu Árnadóttur fyrir að láta sér detta í hug að reyna megi slíkar ívilnanir handa Suðurnesjamönnum, en gleyma því um leið hverra þingmaður hún er og muna ekki heldur hvar fyrrverandi iðnaðarráðherra sat, þegar hann skrifaði undir Bakkasamningana. Eitt er víst. Ríkisstjórnin þarf að hugsa sig vandlega um á næstunni.


Enginn Íslendingur tapaði

Úrslitin í Ísbjargarmálinu urðu afdráttarlausari en margur hugði. Nú reynir á þroska Alþingismanna að þeir brigsli ekki hver öðrum um það sem á undan fór. Mestu skiptir að þeir, sem höfðu varann á í þessu máli fengu sínu framgegnt og þar átti forseti vor drúgan hlut að. Það þýðir þó ekki, eins og einhver blaðamaður spurði, að ósigur ESA sé um leið ósigur ríkisstjórnarinnar. Hverjir hefðu tapað, hefði dómurinn fallið á annan veg?

Til hamingju, allir Íslendingar!


mbl.is Eigum ekki að leita sökudólga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafræn skilríki og vandamál vegna vefvafra

fyrir nokkru fór að bera á vanda við að nota rafræn skilríki á debet-korti til þess að ná sambandi við banka og aðrar stofnanir.
Nú hefur keyrt svo um þverbak að ég næ hvorki sambandi með firefo 18x né Internetexplorer 9. Hins vegar verkar Googlechrome.
Þá kemur upp sá vandi að googleChrome les ekki alla hnappa eða táknmyndir, sem notaðar eru í bönkum og stend ég því uppi ráðafár. Starfsmenn Íslandsbanka kannast við þetta vandamál og starfsmaður Auðkennis, sem hefur umboð fyrir hugbúnaðinn sem notaður er, sagði mér að erfitt væri sænskum framleiðendum að fylgja eftir þróun netvafranna. Fyrir vikið er mér tjáð, tjáð, þegar ég reyni að komast inn, að skilríkið sé útrunnið eða ógilt. sumar stofnanir segja mig ekki hafa leyfi til að skyggnast inn á vfsíður og þurfi að leita samninga við rétthafa þeirra. Þá eru á öðrum heimasíðum gefnar leiðbeiningar um aðgerðir sem hægt er að grípa til í Windows Explorer. Þrátt fyrir ítarlega leit hef ég ekki fundið nein gögn sem eiga við vandamálið.

Ég taldi rafræn skilríki af hinu góða og ætla að halda því áfram um sinn. En þessi vandræði geta vissulega valdið fólki miklum töfum og jafnvel fjárhagstjóni.

Í kvöld sótti ég greiningarforrit frá auðkenni og gangsetti það. Greiningarforritið greindi enga bilun og fullyrti að skilríkið væri gilt. Því á ég enga sök í þessu máli heldur verð ég að leita réttar mínns hjá Auðkenni.


Rannsóknarblaðamaður óskast

Þegar Gunnlaugur Sigmundsson eignaðist Kögun fór það fjöllunum hærra að stjórnmála- og kunningjatengslin hefðu skipt meira máli en flest annað.

Hér skal ekki fullyrt hvort þetta var satt eða dylgjur einar. Umræðan er þannig hér á landi að einatt skortir mjög á að mál séu brotin til mergjar og sannleikurinn leiddur í ljós. Hitt þykjast þó fleiri vita að ekki skiluðu allar tekjur Gunnlaugs af viðskiptum sínum sér inn í íslenska samneyslu.


mbl.is „Fullt tilefni til þess að íhuga áfrýjun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söngblæstri útvarpað úr Hörpu

 

Í dag var útvarpað hljóðriti frá tónleikum, sem haldnir voru í Hörpu á vordögum undir heitinu „Ég veit þú kemur". Var þar vitnað til hins ágæta lags Oddgeirs Kristjánssonar við texta Ása í Bæ.

Á tónleikunum fluttu þau Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson, tveir af okkar fremstu dægurlagasöngvurum,  ýmsar söngperlur frá 6. og 7. áratugnum. Útsetningarnar voru eftir Hrafnkel Orra Egilsson, sem hefur getið sér gott orð fyrir útsetningar sínar á íslenskum dægurlögum, sem sinfóníuhljómsveit Íslands hefur flutt ásamt einsöngvurum við góðan orðstír.

 

Hrafnkell Orri Hitti ekki ævinlega í mark

 

Nú brá hins vegar svo við að Hrafnkatli brást nokkuð bogalistin í Oddgeirsútsetningunum. Svo virðist sem hann hafi ekki leitað í útgáfu sönglaga Oddgeirs, heldur tekið mið af útsetningum og breytingum, sem kunnur útsetjari gerði á síðustu öld. Þar með voru lögin að hluta til afskræmd eins og lagið „Heima", sem mörgum Eyjamönnum þykir vænt um.

Undirritaður ákvað að fara ekki á þessa tónleika í vor. Ástæðan var sú að hann hefur nokkrum sinnum hlýtt á tónleika í Eldborg þar sem farið hefur saman rafmögnuð tónlist og leikur órafmagnaðra hljóðfæra. Hefur áður verið fjallað um það á þessum síðum. Þar sem greinarhöfundur telur að mikið vanti á að hljóðstjórnendur Hörpu þekki hvernig eigi að vefa saman órafmagnaða tónlist og háspinnutónlist, ákvað hann að láta ekki ofbjóða dvínandi heyrn sinni heldur vænti hann þess að tónleikunum yrði útvarpað.

 

Blásið í hljóðnemann

 

auðvitað bar ekki á þessu í útsendingu ríkisútvarpsins, enda kunna hljóðmenn Ríkisútvarpsins vel sitt fag. Hitt var verra að Sigurður andaði um of í hljóðnemann svo að veruleg lýti voru að. Virðist augljóst að hann kunni ekki að beita hljóðnemanum og hafi hann of nærri sér.

Á Netinu er hægt að finna fjölda greina sem fjalla um notkun stefnuvirkra hljóðnema eins og þeirra, sem söngvarar og ræðumenn nota. Meðal annarra atriða er mönnum bent á að hafa hljóðnemann til hliðar við munninn og láta hann vísa að munnvikunum. Þannig er hægt að komast nærri hljóðnemanum en forðast um leið þennan blástur, sem lýtir svo mjög flutning margra söngvara og ræðumanna.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband