Um síðustu jól sendi Helgi frá sér nýja bók, Kóngur kemur. Sögusviðið er Reykjavík sumarið 1874 þegar Kristján konungur IX kom hingað til lands að heilsa upp á þegna sína í tilefni 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Stúlka finnst myrt og síðar kemur í ljós að nýfæddu barni hennar hefur einnig verið fyrirkomið. Stúlkan reynist hafa veriðsýkt af sárasótt og hverfist talsverður hluti frásagnarinnar um þann þátt.
Fljótlega finnst morðingi feðginanna, en faðerni barnsins er haldið leyndu þar til 15 árum síðar að sögumaður, sem höfundur lætur segja söguna frá upphafi til enda, fær að vita hið sanna í málinu.
Helgi virðist hafa rannsakað ítarlega heimildir um bæjarbraginn í Reykjavík á þessum árum og fléttar lýsingum á atburðum, sem urðu við konungskomuna, listilega saman við skáldskap sinn. Ýmsar persónur úr bæjarlífinu birtast mönnum ljóslifandi og ýjað er að ýmsum orðrómi sem gekk manna á milli um sitthvað sem ekki var haft hátt um.
Höfundur hefur jafna leyfi til þess að skálda í eyðurnar og búa jafnvel til nýjan raunveruleika fjarri því sem hefur sennilega nokkru sinni gerst þótt nafnkenndir einstaklingar eigi í hlut. Í lokin bólar þó á því að höfundur skjóti yfir markið og skáldfákurinn hlaupi með hann í gönur. Þannig ýjar heimildarmaður sögumannsins að því að aðrar ástæður hafi legið að baki því að Jón Sigurðsson lét ekki sjá sig hér á landi árið 1874 og gengur sá söguburður þvert á kenningar flestra fræðimanna um þetta atriði.
Það skal ítrekað að bók þessi er skemmtileg og vel samin. Málfarið er blendingur nútíma íslensku og þess máls sem talað var á meðal almúga og menntafólks í Reykjavík. Lærðir menn sletta þýsku, dönsku, frönsku og latínu og Jón Sigurðsson jafnvel grísku. Höfundur gætir þess þó að þýða sletturnar því að íslenskur almúgi skilur ekki latínu nú á dögum fremur en árið 1874. Einna helst skortir á að Helgi láti lærða menn gera mun á tvítölu og fleirtölu, en það mætti endurskoða, verði bókin gefin út öðru sinni.
Endir bókarinnar þykir mér þó í ógeðfelldara lagi. Að vísu reynir Helgi að draga úr broddinum með því að gera þann, sem þá er fjallað um, mannlegri með því að láta lesendur skynja samúð hans og sorg vegna þess sem varð.
Engin ástæða er til að ýta undir persónudýrkun og sennilega eru Íslendingar flestir yfir það hafnir að líta á Jón Sigurðsson og Fjölnismenn gagnrýnislaust. Höfundi til afsökunar verður sjálfsagt að telja fram þær staðreyndir að fjöldi gagna styður sumt af því sem hefði getað gerst þótt raunveruleikinn hafi sjálfsagt verið annar.
Niðurstaða mín er sú að þrátt fyrir fremur ógeðfelldan endi hvet ég fólk til að lesa bókina og njóta hennar. Dæmi svo hver og einn. Skáldskapurinn lýtur sínum eigin lögmálum.
Gagnrýni um bókina Kóngur kemur birtist fyrst á þessari síðu 14. þessa mánaðar. Ég kaus að endurskoða pistilinn eftir ábendingar sem ég fékk í tölvupósti. Þá hafa höfundar þeirra tveggja athugasemda, sem birtust um þessa færslu, orðið sammála um að þær verði einnig fjarlægðar.
arnthor.helgason@simnet.is
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkar: Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | 14.6.2010 | 21:24 (breytt 16.6.2010 kl. 17:22) | Facebook
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Arnþór.
Á titilsíðu "Þegar kóngur kom" segir "skáldsaga". Ég tel lesendur almennt hafa þroska til að greina milli skáldskapar og sagnfræðilegra sanninda. Þú telur það bersýnilega ekki.
Þú talar um að það sé ekki afsakanlegt (nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sem þú virðist hvorki koma auga á né hafa kynnt þér til hlítar) að skrifa slíka bók. Þetta er í fyrsta skipti, sem ég heyri þetta viðhorf til skáldskapar í langan tíma. Síðast man ég eftir því, þegar tiltekinn hópur taldi Salman Rushdie eiga að biðjast afsökunar á meðförum efnis í "Söngvum Satans". Í báðum tilvikum, mínu og Rushdie, sýnist mér það stafa af því að hróflað er við tilbeiðslu.
Ég held að ég þurfi ekki að afsaka neitt við að skrifa skáldsögu. Gagnvart hverjum ætti ég að afsaka? JS? Þér? Þjóðinni? Mér þykir miður, ef sagan fellur þér ekki í geð (sbr. notkun þína á orðinu "ógeðfelldur"), en ég tel mig ekki þurfa að afsaka skáldskap. Þetta er ekki fræðirit, eins og ég held að flestir læsir menn geri sér grein fyrir.
Það var ekki ætlun mín að hrinda einum eða neinum af stalli. Afrek JS eru þess eðlis að þau verða ekki af honum tekin og ég met hann fyrir þau, vafalítið ekki síður en þú. En ég er andvígur sagnfræðilegri eða þjóðernissinnaðri dýrlingadýrkun og tel hana beinlínis hættulega, af því að hún er oft gagnrýnislaus. Markmið mitt var einfaldlega að bjóða upp á mögulegan annan vinkil eð annað sjónarhorn Íslandssögunnar. Ég held að ég hrindi engum af stalli, en hugsanlega "afhelga" Sóma Íslands, sverð og skjöld og veiti honum meiri "mennsku" en hann hefur oft notið.
Í því samhengi vil ég að benda þér á nýlegan ritdóm Páls Valssonar um bókina í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar. Þar sýnir hann þann skilning á bókinni allri og bókarlokum, sem ég hefði talið eðlilegan hjá hinum almenna lesanda - þ.e. þeim sem kann að greina á milli sagnfræði og skáldskapar.
Ég vil enn fremur benda á að sú afstaða, sem birtist í skáldskap, þarf ekki að vera sú sem höfundur aðhyllist. Á sínum tíma skrifaði ég 2 skáldsögur um rómverska skáldið Catúllus. Í söguþræðinum fylgdi ég þeirri umdeildu skoðun að ástkona Catúllusar, Lesbía, hafi verið rómverska hefðarkonan Clódía Metelli, þrátt fyrir að ég sé mjög efins um að það geti staðist fræðilega séð, eftir að hafa kynnt mér margvíslegar heimildir nokkuð rækilega. Hvers vegna geng ég í berhögg við eigin fræðilega skoðun í Rómarskáldsögum mínum? Af því að það gaf betra söguefni fyrir skáldsögu.
Í henni Ameríku fóru þeir að merkja hljómdiska, sem innihéldu grófar lýsingar á ofbeldi eða klámi. Er virkilega svo komið á Íslandi að merkja þarf skáldsögur sérstaklega með merkimiða, t.d. "Þjóðernissinnar! Bók þessi gæti innihaldið efni, sem gengur í berhögg við ímynd ykkar af þjóðhetjum"?
Með vinsemd og virðingu (en án afsökunar),
Helgi Ingólfson
Helgi Ingólfsson (IP-tala skráð) 15.6.2010 kl. 11:13
sæll, Helgi. Þakka þér snarpa vörn. Ég ætlast ekki til að þú biðjist afsökunar og hvet lesendur eindregið til að lesa þessa skemmtilegu bók. Ég tek fram að ritdómur minn er ekki fræðilegs eðlis heldur þankar sem settir eru fram vegna þess hvernig hlutirnir eru settir í samhengi. Það kann að vera að rétt sé að birta ákveðið sjónarhorn í skáldsögum sem byggt er á slúðri og það er þá alfarið á ábyrgð höfundarins. Ég vona að þú líkir mér ekki oftar við hatursmenn Salmans Rushdi. Þa sem þið Salman aðhöfðust er tvennt ólíkt og þrátt fyrir allt er ég einn af aðdáendum þínum hvort sem þú trúir því. Gangi þér allt í haginn.
Virðingarfyllst og án afsökunar, Arnþór Helgason
Arnþór Helgason, 15.6.2010 kl. 17:22