Undirbýr Samfylkingin pólitískt sjálfsmorð í Reykjavík?

Launahækkun fjögurra varaborgarfulltrúa á illa við í því árferði sem nú dynur á launþegum og er ekki í samræmi við þær aðgerðir sem borgarstjórnarmeirihlutinn verður að grípa til. Ekki hefur heyrst að aðrir fái hærri laun til þess að koma til móts við vaxandi útgjöld vegna aukins orkukostnaðar. Að vísu er íbúum höfuðborgarsvæðisins engin vorkunn að greiða sanngjarnt verð fyrir orkuna fremur en öðrum landsmönnum.

Urgur er nú orðinn talsverður á meðal ýmissa Samfylkingarmanna vegna samstarfsins við Besta flokkinn. Haldnir hafa verið fundir þar sem lagt hefur verið á ráðin um hvernig megi hnekkja þessu samstarfi og vitað er að Sjálfstæðismenn eru heldur ekki aðgerðalausir. Er jafnvel talið að þess sé skammt að bíða að Besti flokkurinn lendi í minnihluta í borgarstjórn. Leggur borgarstjórinn drjúgum lóð sín á vogarskálarnar með tiltækjum sínum.

Þeir borgarfulltrúar sem hvíslað hafa um málefni borgarinnar að undanförnu ræða opinskátt um kjánaskapp borgarstjórans sem ríði vart við einteyming. Enginn heldur því fram að maðurinn sé ekki hinn vænsti maður, en hann er talinn skorta flest til forystu. Haft er í flimtingum að borgarstjórinn hafi sagt fátt eða ekkert þegar rætt var um fjárhagsáætlun Reykjavíkur, en að loknum einum fundinum sagðist hann vera að velta fyrir sér breytingum á kaffistofu Ráðhússins. Er það vel að einhver taki eftir smáatriðunum enda er heildin afrakstur smæðarinnar.

Flestir heimildarmenn bloggsins eru á einu máli um að pólitískri framtíð Dags B Eggertssonar sé stefnt í voða með aðgerðarleysi hans og óbeinni þátttöku í margvíslegum uppátækjum borgarfulltrúa Besta flokksins sem mælast misjafnlega fyrir. Þá þykir það lýsandi fyrir raunverulegan áhuga borgarfulltrúanna (úr hvaða flokki sem þeir eru) að fáir eða engir þeirra létu sjá sig á fundi um fátækt sem haldinn var í Ráðhúsinu fyrir hálfum mánuði.

Launahækkun fjögurra varaborgarfulltrúa er lýsandi dæmi um þann pólitíska hráskinnaleik sem ástundaður er í skjóli meirihlutavaldsins. Ísland hefur ekkert breyst. Nýja Ísland hefur enn ekki litið dagsins ljós enda er Dagur í felum að sögn sumra samflokksmanna hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Samfylkingin er "sjálfdauð" - eða andvana fædd !!!

Sigurður Sigurðsson, 21.9.2010 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband