Göldrum líkast:)

Í gær fór ég til vinnu minnar með strætisvagni eins og undanfarinn mánuð, en ég vinn um þessar mundir í hlutasarfi hjá Lýðræðissetrinu. Heyrði ég þá ekki betur en mágkona mín, Herdís Hallvarðsdóttir, læsi upp biðstöðvar vagnsins.

Ég hringdi til hennar í gær eftir vinnu og spurði hvort hún hefði farið á námskeið hjá Hávörðuskóla í Bretlandi þar sem hinn mikli galdramaður, Harrí Potter, stundaði nám. Kvað hún svo verið hafa. Hún hefur náð þvílíkri leikni í tilflutningi að hún getur verið á mörgum stöðum í senn. Þannig ferðast Herdís nú með sífellt fleiri vögnum og les fyrir farþega upp biðstöðvarnar. Einnig sinnir hún rekstri fyrirtækis þeirra hjóna, heimilisstörfum og öðru sem að höndum ber.

Það er afar mikils virði þegar fyrirtæki eins og Strætó tekur í notkun nýjustu tækni og galdra. Það hefur verið ýmsum kappsmál í þrjá áratugi að heiti biðstöðvanna verði lesin og nú hefur Herdís leyst málið. Forráðamenn Strætós halda því að vísu fram að þarna ráði GPS-tæknin einhverju, en því trúir ekki nokkur maður með viti. Ég get komið með eina sönnun sem hrekur þessa fullyrðingu. Tilkynningar um næstu biðstöð hefjast á orðunum "Næsta stopp er". Hér er greinilega um ensk áhrif að ræða sem gleymst hefur að þýða á íslensku þegar galdraþulan var þýdd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Kannski hefði Herdís allteins mátt segja viðkomustaður eða biðstöð eins og stopp. Samt held ég án þess að hafa prófað sjálfur að fyrir þá sem eru hálf- heyrnarlausir sé stopp aðgengilegasta orðið.

Sigurður Hreiðar, 7.10.2010 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband