Afdrifarík mistök eða siðblinda

Þegar atkvæðagreiðslunni um Landsdóm lauk á Alþingi fyrir viku áttuðu margir sig á því sem var einna alvarlegast í málinu. Það var ekki sú ákvörðun að kæra Geir H. Haarde, heldur sú firra að fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn hans skyldu taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Þá var og augljóst að sumir þeirra voru algerlega vanhæfir vegna tengsla við þá sem talið var að sækja ætti fyrir Landsdómi.

Með þessu framferði sýndi meirihluti Alþingis hversu seint han skilur kall tímans um að brotið sé á bak aftur tengslanetið sem hefur verið ofið í íslensku samfélagi. Þegar litið er á afgreiðslu Alþingis og afgreiðslu bankanna í málum sumra skuldara, sem fá fyrirgreiðslu og afslátt á skuldum á meðan aðrir eru látnir engjast eða gerðir gjaldþrota, kemur ósjálfrátt í hug uppbygging valdakerfisins á Sturlungaöld. Þá var samfélagið gegnsýrt af spillingu yfirstéttarinnar og fátt virðist hafa lagast á síðustu tímum.

Ég hef nýlokið við að lesa ævisögu Guðna Þórðarsonar í Sunnu. Þar er m.a. fjallað um gríðarleg bolabrögð sem frændi minn, sem var þá seðlabankastjóri, hinn mesti ágætismaður en ráðríkur eins og sumir frændur hans, tók þátt í að beita fyrirtæki Guðna til þess að vernda hagsmuni tveggja valdablokka íslensks samfélags, sem þoldu enga samkeppni og Guðni gerir því skóna að einn ráðherra viðreisnarstjórnarinnar, annar ágætismaður og röggsamur kaupfélagsstjóri, hafi jafnvel borið ljúgvitni fyrir dómi til þess að firra sig sök. Brá hann fyrir sig rembingi þess sem veit að hann hefur vondan málstað að verja. Að vísu hefur ýmislegt lagast og sömu aðferðum er ekki beitt í jafnríkum mæli og áur. En kunningjasamfélagið, vensl, vinatengsl og hvers kyns fyrirgreiðsla þeim sem þóknanlegir eru þeim, sem ráða hverju sinni, gegnsýra enn allt samfélagið.

Nú er rætt um það manna á meðal að fjöldi flokksmanna Samfylkingarinnar sé óánægður með ráðherra sína og þingmenn og hvernig þeir stóðu að málum á Alþingi. Einnig heyrist innan úr hefbúðum Sjálfstæðisflokksins að þar telji ýmsir að flokksforystan hafi látið teyma sig á asnaeyrunum í þessum efnum og að mikil óánægja sé með afstöðu ónefndra þingmanna vegna spillingarmála sem þeim tengjast. Eitt er víst. Ýmsir hafa að undanförnu dæmt sig til pólitísks dauða og yrði kosið nú má vænta pólitísks sólarlags hjá ýmsum þeirra sem sitja á Alþingi.

En tekur þá eitthvað skárra við?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er það?

Emil (IP-tala skráð) 5.10.2010 kl. 01:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband