Ádrepa Styrmis í garð þingmanna

Í pistli sínum, Af innlendum vettvangi, sem birtist í síðasta Sunnudagsmogga, vekur Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, athygli á að tvær skýrslur hafi legið fyrir alþingi um æskilega endurskoðun laga um Landsdóm.

Í ljósi þess sem gerðist í gær tel ég rétt að birta pistilinn hér að neðan. Ljóst er að eitthvað er að og mikil brotalöm á starfsháttum þingsins. Þótt ævinlega hljóti svo að verða að afgreiðsla þingsins verði pólitísk, eiga atburðir gærdagsins eftir að hafa ýmsar afleiðingar. Nú skiptir mestu að menn láti ekki reiðina ná undirtökum. Sá reiði tapar jafnan.

Það sem af er umræðum um skýrslu þingmannanefndarinnar og tillögur hennar um að ákæra nokkra fyrrverandi ráðherra fyrir landsdómi hefur þingmönnum ekki tekizt vel til. Í þessum umræðum er allt í einni og sömu grautarskál, umræður um það, hvort lögin frá 1905 eru nothæf og umræður um efni málsins, þ.e. hvort ráðherrarnir fyrrverandi hafi gerzt brotlegir við lög um ráðherraábyrgð. Til viðbótar koma svo pólitísk spjótalög.

Þetta eru ekki góð vinnubrögð. Forsenda þess, að þingið geti tekizt á við spurninguna um ráðherraábyrgð er auðvitað sú, að sæmileg samstaða sé til staðar um málsmeðferðina sjálfa. Fyrir einu ári, í september 2009, skilaði vinnuhópur þriggja sérfræðinga, sem forsætisnefnd Alþingis hafði skipað í júní 2008 skýrslu, en vinnuhópurinn átti að fara yfir „núgildandi lagareglur um eftirlit þingsins með handhöfum framkvæmdarvalds og leggja mat á hvort breytinga sé þörf“.

Vinnuhópurinn, sem starfaði undir forystu Bryndísar Hlöðversdóttur, skilaði gagnmerkri skýrslu og efni hennar snýr beint að umræðuefni líðandi stundar. Í desember 2009 bar Arndís Soffía Sigurðardóttir fram fyrirspurn til forseta Alþingis, þar sem m.a. sagði:

„Telur forseti og forsætisnefnd ástæðu til að hefja almenna endurskoðun laga um landsdóm, nr. 3/1963 og laga um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, við þær aðstæður, sem nú eru?“

Í svari forseta Alþingis segir m.a.:

„Í áðurnefndri skýrslu vinnuhóps forsætisnefndar komu fram nokkrar ábendingar um atriði í lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm, sem ástæða þykir til að endurskoða. Áður er getið ábendingar um skipan landsdóms. Að auki er talið nauðsynlegt að endurskoða ákvæði laga um ráðherraábyrgð með tilliti til kröfunnar um skýrleika refsiheimilda. Þar er einkum vísað til 10. gr. laganna þar sem fjallað er um brot þar sem ráðherra „misbeitir stórlega valdi sínu“ án þess að fara beinlínis út fyrir embættistakmörk sín samkvæmt lögum eða „stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu“ án þess að framkvæmdin sé sérstaklega bönnuð í lögum... Tillaga hefur komið fram um að skipa nefnd, sem verði falið að endurskoða löggjöf á þessu sviði og semja drög að frumvörpum. Ætla yrði þeirri vinnu nokkurn tíma... Þó að þessi undirbúningur hæfist fljótlega mundu tillögur að öllum líkindum ekki koma til afgreiðslu fyrr en þau mál, sem nú eru efst á baugi yrðu yfirstaðin.“

Og loks segir í svari forseta Alþingis:

„Komi til þess að það reyni á lög um ráðherraábyrgð og landsdóm áður en þeim yrði breytt verður að ætla að fyrirmæli þeirra verði túlkuð til samræmis við kröfur 69. gr. stjórnarskrárinnar um lögbundnar refsiheimildir og 70. gr. um réttláta meðferð fyrir dómi. Með breytingum, sem gerðar voru á lögum um landsdóm með lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála, hefur enn fremur verið tryggt að meðferð mála út af embættisbroti ráðherra taki nú í meginatriðum mið af almennum kröfum til málsmeðferðar í sakamálum.“

Þegar forseti vísar í svari sínu til skýrleika refsiheimilda er m.a. vísað til skýrslu nefndar á vegum forsætisráðuneytis frá 1999 þar sem vakin er athygli á óljósu orðalagi 10. gr. ráðherraábyrgðarlaga, sem talið er nauðsynlegt að breyta. Það liggja sem sagt fyrir skýrslur frá árunum 1999 og 2009 um nauðsyn breytinga og endurskoðunar á lögum um landsdóm og ráðherraábyrgð og athygli er vakin á málinu á Alþingi í desember 2009. Samt sem áður er niðurstaða Alþingis sú að víkja þeim ítrekuðu ábendingum til hliðar og vinna málið áfram á grundvelli 100 ára gamalla laga.

Hvers vegna var ekki sett vinna af stað strax í september 2009 við að undirbúa nauðsynlegar breytingar á lögum? Í skýrslu vinnuhóps Bryndísar Hlöðversdóttur eru allar upplýsingar fyrir hendi, sem til þarf m.a. ítarleg umfjöllun um þróun þessara mála í Danmörku og Noregi og efnislegar tillögur um breytingar á lögum hér.

Ég er þeirrar skoðunar að fyrrverandi ráðherrar hljóti að standa við þá ábyrgð, sem þeir öxluðu, þegar vegsemdin var þeirra. En þrennt þarf að gerast áður en Alþingi getur snúið sér að þeirri spurningu, hvort yfirleitt sé tilefni til að ákæra þá fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð. Í fyrsta lagi verður löggjöfin um þá málsmeðferð að vera á þann veg, að hafið sé yfir allan efa, að réttarstaða þeirra sé ótvíræð og að fullu virt.

Í öðru lagi er grundvallaratriði að þeir einstaklingar sem hér eiga hlut að máli fái tækifæri til að skýra sín sjónarmið og gera þingi og þjóð grein fyrir því hvernig þau álitaefni, sem um er að ræða horfa við þeim. Ekkert þeirra hefur nokkru sinni talað til þjóðarinnar og haft uppi nokkra opinbera málsvörn. Þau hafa gefið skýrslu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis og þau hafa sent þingmannanefndinni bréf. Þau eiga rétt á að því að þeim verði tryggður vettvangur til þess að lýsa sínum sjónarmiðum og viðhorfum. Það er t.d. hægt að gera með því að ráðherrarnir fyrrverandi svari fyrirspurnum þingnefndar á fundi sem yrði sjónvarpað þannig að málsvörn þeirra og málstaður næði til þjóðarinnar allrar.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að þingmenn ræði efnislega ástæður hrunsins og ákæruefni á hendur fyrrverandi ráðherrum, sem þeir hafa ekki gert að nokkru ráði til þessa. Þá gefst þeim, sem sátu á Alþingi fyrir kosningar 2009 og sitja þar enn tækifæri til að útskýra hvers vegna þeir sjálfir hreyfðu engum viðvörunarorðum, en þögðu þess í stað þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar frá árslokum 2005 um að ekki væri allt með felldu í íslenzka bankakerfinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband