María Sveinka?

Íslenskan breytist nú ört. Ein ástæðan er sú að erlend áhrif hrannast upp, enskan glymur í eyrum, fólk les minna en áður og svo mætti lengi telja. Nú er svo komið að jólasveinar og annað fjallahyski hefur smitast af þeirri óværu sem hrjáir íslenska tungu. Jólasveinar segja ókei og eru að sögn Vestfirðinga á dæjett, hvað sem það nú merkir.

Orðið sveinn hefur verið notað um unga karlmenn eða drengi, en meyjar um stúlkur. Að vísu var rætt um að höfðingjar hefðu með sér sveina hér á árum áður og fór yfirleitt annað orð af þeim að þeir væru "hreinir sveinar". Þá hefur einnig verið rætt um lærisveina og lærimeyjar, námsmeyjar og -sveina, iðnsveina o.s.frv.

Í fréttum undanfarið hefur borið á því að systur jólasveinanna, þær Leiðindaskjóða, bóla og hvað þær heita nú allar, séu kallaðar jólasveinkur. Væri ekki réttara að tala um jólastelpur eða jólameyjar? Skyldi fara svo að María mey yrði Maja sveinka í næstu þýðingu Nýja testamentisins?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband