Hvers eiga aldraðir að gjalda?

Því verður vart á móti mælt, að fatlað fólk hefur það nú að mörgu leyti betra, þrátt fyrir ýmsa óáran í þjóðfélaginu, en á tímum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem var of lengi við völd. Þrátt fyrir allt hefur tekist að verja þennan lágtekjuhóp áföllum og skattheimtan er ekki jafnskefjalaus og áður.

Það skýtur hins vegar skökku við, hvernig farið er með aldraða. Þar skerðast lífeyrisgreiðslur frá almannatryggingum hjá flestum vegna hverar krónu, sem kemur úr lífeyrissjóðum. Þrátt fyrir ókosti ríkisstjórnarinnar, sem nefnd varhér áðan, datt mönnum ekki þetta í hug.

Landssamtök aldraðra hafa ítrekað mótmælt þessum órétti. En fleiri mótmæla. Hestamenn mótmæla of háum fasteignargjöldum á hesthús og hyggjast jafnvel efna til hópreiðar um stofnbrautir Reykjavíkur og hefta þannig umferð. Vel gæti ég trúað að til slíkra mótmæla yrði efnt.

Fyrir 25 árum vildu samtökin Frjálsir vegfarendur efna til svipaðra mótmæla gangandi og hjólandi vegfarenda og virtist nokkur hugur í mönnum. Voru menn sammála að aðstaða gangandi fólks væri slæm í Reykjavík og verst fyrir þá, sem ferðuðust um í hjólastól. Var því ákveðið að leita eftir þátttöku Sjálfsbjargar, landsambands fatlaðra, í aðgerðinni. En Sjálfsbjörg þorði ekki. Blindrafélagið var reiðubúið, en það þótti ekki nægilega fjölmennt.

Nú þurfa samtök aldraðra að sýna kjark og efna til rækilegra mótmæla vegna skertra kjara. Friðsöm mótmæli er hægt að hafa í frammi þannig að athygli veki. Hér á þessum síðum verður ekki lagt á ráðin um það, hvernig staðið skuli að slíkum mótmælum, en hugmyndinni er eigi að síður komið á framfæri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband