"Lítið er geð guma" - endurtekin mannréttindabrot

Magnús Thoroddsen hefur iðulega vakið athygli fyrir skoðanir sínar á kvótakerfinu. Í dag birtist þessi grein í Morgunblaðinu.

form redirect=yes


Forsíða | Innlent | Erlent | Íþróttir | Tækni & vísindi | Veröld/Fólk | Viðskipti | Fasteignir | Atvinna | Gagnasafn | Blað dagsins | Bloggið

Föstudaginn 17. ágúst, 2012 - Aðsent efni
Hneykslanleg ákvörðun
Eftir Magnús Thoroddsen
Magnús Thoroddsen
Magnús Thoroddsen
Eftir Magnús Thoroddsen: "Þessi ákvörðun mannréttindanefndarinnar er óskiljanleg með öllu. Ég þurfti að láta segja mér hana þrisvar, eins og Njáli forðum. Varð ég fyrst undrandi en síðar hneykslaður."

Hinn 24. október 2007 úrskurðaði Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í kærumáli sjómannanna, Erlings Sveins Haraldssonar og Arnar Snævars Sveinssonar, gegn Íslenzka ríkinu út af kvótakerfi laganna um stjórn fiskveiða. Í þessum úrskurði taldi meirihluti Mannréttindanefndarinnar kvótakerfið brjóta gegn 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (Nr. 10, 28. ágúst 1979), er kveður á um jafnrétti allra manna. Kvótakerfið væri ósanngjarnt í eðli sínu, þar sem menn, er vildu stunda sjó, en hefðu ekki kvóta, þyrftu að kaupa hann af þeim, sem fengið hefðu veiðiheimildir úthlutaðar frá ríkinu. Sanngirnin er nefnilega gildasti þáttur jafnréttisins, sem einnig er varið í 65. gr. Stjórnarskrár hins íslenzka lýðveldis nr. 33, 17. júní 1944, með síðari breytingum.
Í úrskurði sínum mælti Mannréttindanefndin svo fyrir, að íslenzka ríkið skyldi greiða þeim Erlingi og Erni skaðabætur og endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið á þann hátt, að það fullnægði ákvæðum 26. gr. Alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnrétti allra manna. Skyldi þessu fullnægt innan 6 mánaða.
Að gengnum þessum úrskurði, sendi þáverandi sjávarútvegsráðherra mannréttindanefndinni bréf, dags. 6. júní 2008, þar sem fram kom, að íslenzka ríkið mundi ekki greiða kærendunum skaðabætur né heldur teldi íslenzka ríkið sig vera í aðstöðu til að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu umsvifalaust, en boðaði, að tilmæli mannréttindanefndarinnar yrðu höfð til hliðsjónar við heildstæða endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Í febrúar 2009 mun nýskipaður sjávarútvegsráðherra hafa áréttað við mannréttindanefndina, að íslenzka ríkisstjórnin hafi ákveðið að styrkja mannréttindaþátt stjórnarskrárinnar og festa í sessi, að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar, en tók að öðru leyti undir afstöðu fyrrverandi sjárútvegsráðherra.
Nú eru liðin tæp 5 ár frá því að mannréttindanefndin úrskurðaði í máli þessu með ofangreindum hætti. Enn þverskallast íslenzka ríkið við að greiða kærendum skaðabætur, og enn hefir íslenzka ríkisstjórnin ekki lagt fram frumvarp til stjórnskipunarlaga um það, að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar. Hins vegar hefir núverandi sjávarútvegsráðherra, á síðasta þingi, lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um fiskveiðistjórnun, þar sem hann hefir bætt gráu ofan á svart með því að festa í sessi, í að minnsta kosti 20 ár, forréttindi þeirra kvótagreifa, sem nú njóta þeirra. Þetta er ennþá alvarlegra mannréttindabrot, en samkvæmt núgildandi lögum, þar sem veiðiheimildum er nú aðeins úthlutað til eins árs í senn.
En þrátt fyrir allt þetta, þ. e. fullkomnar vanefndir íslenzka ríkisins á úrskurði mannréttindanefndarinnar frá 24. október 2007, hefir hið ótrúlega gerzt. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefir í bréfi, dags. 29. maí 2012, til fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf tilkynnt, að hún hafi ákveðið að loka málinu í ljósi þess, að stjórnvöld hafi brugðizt með ásættanlegum hætti, að hluta til, við tilmælum mannréttindanefndarinnar. (Á ensku: „The Committee decided, in light of the measures taken so far by the State party to give effect to the Committee's Views, not to examine the case any further under the follow-up procedure, with a note of a partly satisfactory implementation of its recommendation.“)
Þessi ákvörðun mannréttindanefndarinnar er óskiljanleg með öllu. Ég þurfti að láta segja mér hana þrisvar, eins og Njáli forðum. Varð ég fyrst undrandi en síðar hneykslaður. Ákvörðun þessi stríðir gegn siðfræði, lögfræði, rökfræði og grunnreglum réttarfars. Gegn siðfræði vegna þess, að nefndin hafði í úrskurði sínum slegið því föstu, að kvótakerfið væri ósanngjarnt, en sanngirni er grundvallaratriði í siðfræði. Gegn lögfræði, þar eð nefndin hafði túlkað jafnréttisákvæði 26. gr. Mannréttindasáttmálans lögfræðilega á þann veg, að kvótakerfið bryti gegn því. Gegn rökfræði með því að loka kærumálinu án þess að fullnægt væri úrskurði mannréttindanefndarinnar, nema síður sé. Óljósar yfirlýsingar íslenzkra stjórnvalda um það, að þau muni hafa tilmæli nefndarinnar til hliðsjónar við heildstæða endurskoðun fiskveiðikerfisins eru marklausar, þar sem þær segja ekkert til um það í hverju sú endurskoðun verði fólgin, né hvenær hún eigi að fara fram. Dómstóll eða annar úrskurðaraðili vísar ekki máli frá, þótt stefndi, sem vanefnt hefir dómkröfurnar, gefi yfirlýsingu um það, að hann muni fullnægja kröfum stefnanda hugsanlega einhvern tímann í framtíðinni. Því brýtur þessi ákvörðun einnig í bága við grundvallarreglur réttarfars.
Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Ísland er aðili að, skuldbindur sérhvert aðildarríki sig til, að maður, sem brotið hefir verið á, skuli fá raunhæfar úrbætur, enda þótt brotið hafi verið framið af mönnum, sem fara með stjórnvald. Mannréttindanefndin hefir úrskurðað um þetta. Það á að greiða kærendum skaðabætur og það á að breyta íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu á þann veg, að það fullnægi ákvæðum 26. Sáttmálans um jafnrétti allra manna. Íslenzka ríkið hefir gert hvorugt. Samt sem áður lætur Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þetta yfir sig ganga: „Lítið er geð guma“. Með þeirri ákvörðun að loka þessu kærumáli hefir Mannréttindanefndin lyppast niður og svert orðstír sinn með smánarlegum hætti. Bretar myndu segja: „Soiled their fame with shame.“
Höfundur er fyrrverandi hæstaréttarlögmaður.
Facebook
til baka Til baka
prenta Prenta grein
leit Leita í gagnasafni mbl.is
© Höfundaréttur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband