Dómgreindur ráðherra

Enn einu sinni hefur kærunefnd jafnréttismála komist að raun um að ráðherra vinstri stjórnarinnar hafi brotið jafnréttislög.

Ívilnandi ákvæði í lögum, sem ætlað er að rétta hlut þeirra, sem taldir eru standa höllum fæti í þjóðfélaginu, eiga sér nokkurra áratuga sögu. Sjaldnast hefur verið farið eftir þeim, þar sem engin viðurlög liggja við broti á þeim og stjórnvöld eru undantekningalaust sá aðilinn, sem brýtur þessi lög.

Sjaldan eða aldrei hefur tekist að rétta hlut þeirra fáu einstaklinga sem hafa kært ráðningu ófatlaðra í störf sem hinir fötluðu voru fullfærir um að valda og hið sama virðist eiga við um konur. Eitt sinn var kært vegna brota á lögum um endurhæfingu, en þar sagði að þeir, sem notið hefðu endurhæfingar og væru jafnhæfir öðrum einstaklingum til starfans, skyldu "að öðru jöfnu" ráðnir. Fatlaður einstaklingur leitaði árið 1979 til þekkts lögmanns og bað hann að höfða mál á hendur opinberri stofnun vegna ráðningar í fulltrúastarf, sem hann hafði sótt um, en verið hafnað. Lögmaðurinn komst að þeirri niðurstöðu að orðin "að öðru jöfnu" yllu því að málatilbúnaður teldist ónýtur. Hann ritaði hins vegar stjórnendum stofnunarinnar og óskaði eftir því að hlutur hins fatlaða umsækjanda yrði réttur. Svo varð ekki. Tveimur áratugum síðar sótti þessi sami einstaklingur um starf hjá þessari stofnun. Þá trúði starfsmannastjórinn kunningja sínum fyrir því að þessi einstaklingur kæmi aldrei inn fyrir dyr stofnunarinnar sem fastur starfsmaður, því að hann hefði eitt sinn höfðað mál á hendur stjórnendum hennar. Þannig er þetta því miður í íslensku samfélagi. Leiti fatlað fólk eða konur réttar síns gegn kerfinu eru slíkar sakir geymdar en ekki gleymdar. Margir hafa því heykst á að standa á rétti sínum af ótta við að fá ekki starf við sitt hæfi.

Hvert misréttismálið rekur nú annað hjá stjórnvöldum, þar sem konur eiga í hlut. Stundum hafa karlmenn verið teknir fram yfir þær, þótt þær séu taldar hæfari og í önnur skipti eru konurnar jafnvel taldar of hæfar. Ráðherrar bregðast jafnvel ókvæða við, séu þeir spurðir í þaula og kunna jafnvel ekki við orðbragð fréttamanna. Hvenær skyldi almenningur fá nóg af dómgreindarskorti ráðherranna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

ER ekki komin tími á að þessi mál séu ekki í höndum stjórnmálamanna. Hvert hérað getur auglýst eftir sýslumanni og ætti hann aðeins að sitja í 4 ár. það er hægt að hafa sama hátt og ameríkanar gera að hver og einn býður sig fram og sannar sig sjálfur hvort sem það er karl eða kona. Kjósendur ráða. Endurframboð eftir 4 ár þá byrjar ballið áfram svo menn verða að standa sigþ

Valdimar Samúelsson, 30.8.2012 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband