Harmsaga - nýtt útvarpsleikrit

Dagskrá Rásar eitt var fjölbreytt í dag. Hér verður fjallað um tvennt:

Það er jafnan með nokkurri tilhlökkun að ég sest niður og hlusta á ný útvarpsleikrit. Í dag var Harmsaga eftir Mikael Torfason frumflutt. Leiknum stýrði Sveinbjörn Birgisson, Hallvarður Ásgeirsson samdi tónlist og Ragnar gunnarsson hljóðritaði.

Söguþráðurinn var togstreita milli hjóna, sem vissu vart hvað hitt vildi og voru tvístígandi um þá ákvörðun að slíta hjónabandinu. Í leikritinu komu við sögu börn, en þau voru túlkuð með leikhljóðum með sama hætti og ýmiss konar búnaður er nýttur á leiksviði til þess að túlka margs konar fyrirbæri mannlífsins.

Flest var vel gert í þessu leikriti. Stundum var hljóðmyndin svo þröng, þegar samband hjónanna var náið, að víðómið nýttist ekki. Þarna hefði þurft að skapa umhverfi með einhvers konar þruski svo að menn fengju á tilfinninguna að fólkið væri statt í íbúð.

Í leikritinu koma fyrir samfarir og voru þær leiknar á sannfærandi hátt. Maðurinn svalaði sér á skömmum tíma og konan virtist einnig fá fullnægingu. Þó kann að vera að hún hafi látið sem svo væri. Leikmyndin (hljóðmyndin) var ekki sannfærandi. Ekkert rúmfatahljóð heyrðist og afstaða hjónanna skilaði sér illa.

Það er með ólíkindum hvað íslenskum rithöfundum þykir skemmtilegt að skrifa sóðalegan, enskuskotinn og illa saminn texta, en því miður bar mjög á því í leiknum. Ef til vill er það svo að gömul og gild blótsyrði séu að fara forgörðum í málinu og flest eða allt meiki sens eða sé andskotans fokking ..... Hitt er þó verra að ekki sé lengur hægt að skrifa á kjarnyrtu máli án þess að allt vaði í sóðaskap. Fyrir það fær Mikael Torfason falleinkun og leikritið í heild aðeins þrjár stjörnur.

Kl. 16:05 var þáttur Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur, Úr tónlistarlífinu, á dagskrá. Birt var hljóðrit af tónleikum Víkings Heiðars Ólafssonar til minningar um kanadíska slaghörpuleikarann Glenn Gould. Efnisskráin var einstaklega vel saman sett og viðtöl við Glenn Gould, sem skotið var inn á milli ásamt hljóðritum af leik hans, gerðu dagskrána stórmerka. Auk þess er jafnan unun að hlusta á kynningar Arndísar, en þær eru fluttar á fága-an hátt og fögru máli.

Víkingur Heiðar túlkar það sem hann leikur einatt með afar sérstæðum hætti. Þannig endaði fyrsta verkið á stuttum samhljómi og var eins og hann hefði rokið frá hljóðfærinu. Auðvitað var ekki svo. Víkingur veldur ekki vonbrigðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband