Þögnin eftir Andrés Indriðason - vel heppnað leikrit



Útvarpsleikhúsið 20. jan 2013 | 13:00



Þögnin eftir Andrés Indriðason. Leikendur: Esther Talía
Casey og Ólafur Egill Egilsson. Leikstjóri: Erling Jóhannesson. Hljóðvinnsla:
Einar Sigurðsson.



Andrés Indriðason hefur verið iðinn við kolann í útvarpi undanfarna
5 áratugi. Leikrit hans eru orðin mörg, ærið misjöfn að gæðum eins og gengur.



Frumflutningur Þagnarinnar var vel heppnaður. Ekki var
auðheyrt hvernig leikurinn endaði. Þó var byggð upp ákveðin spenna sem leystist
loks úr læðingi, eins konar sprenging. Leikararnir skiluðu sínum hluta með
aðdáanlegum hætti - blekkingin, hefndarþorsti, auðmýking og heift skinu í gen
þar sem við átti.





Hljóðmynd og leikstjórn



Á þessum síðum hefur nokkrum sinnum verið fjallað um
hljóðmyndirnar í útvarpsleikritum. Yfirleitt eru þær allvel heppnaðar og svo
var að mestu um hljóðmyndina í Þögninni.



Í öðru atriði leiksins var brugðið upp mynd af persónunum
þar sem þær voru á leið yfir fjalllendi í bifreið. Vegurinn ósléttur og
glamraði í bílnum. Greinilegt var að glamrinu var bætt ofaná hljóðmyndina því
að í því var bergmál, sem átti ekki heima þar. Þá var ökumaðurinn til hægri í
myndinni.



Þegar ég hef rætt slík atriði við tæknimenn og áhugamenn um
útvarpshlustun hafa flestir haldið því fram að þeim finnist þeir sjá inn í bifreiðina
inn um framrúðuna. Mér finnst ævinlega að ég sitji í bílnum með sögupersónunum
og þá sé eðlilegt að bílstjórinn sé vinstra megin.



Í 3. Atriði leiksins urðu tæknimanni eða leikstjóra á
afdrifarík mistök. Þá heyrðist bíllinn koma í hlað og ekki var ljóst hvort um
sömu tegund hafi verið að ræða. Út steig bílstjórinn vinstra megin og farþeginn
hægra megin.



Að öðru leyti var hljóðmyndin fremur sannfærandi. Á
veröndinni var hljóðumhverfið næsta eðlilegt. Timburgólf og eins og húsveggur í
nánd.



Atriðin inni í sumarhúsinu voru vel heppnuð og skondið var
að hlusta á aðra sögupersónuna hrapa niður snarbrattan stiga.





Tímaskekkja



Í öðru atriði leiksins hafði bílstjórinn orð á að nú væri
veiðitíminn hafinn, enda var hann eins búinn og haldið skyldi til rjúpna. Því
skaut skökku við að heyra í hrossagauk, lómi og lóu þegar út úr bílnum var
komið.





Veðrið



Í leikritinu var þoka, niðdimm þoka. Ég hafði á
tilfinningunni að í þessari þykku þoku bærðist vart hár á höfði. En viti menn.
Stundum strauk gola blíðlega um hljóðnemann, einkum þann vinstri. Þá hefði
þokan ekki átt að vera svona dimm.





Niðurstaða



Leikritið er vel saminn og söguþráðurinn sannfærandi. Við
framsetningu efnis í útvarpi þurfa tæknimaður og leikstjóri að vera vel á verði
til þess að halda trúverðugleika hljóðmyndarinnar.



Höfundi verksins og Útvarpsleikhúsinu er óskað til hamingju
með afraksturinn.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband