Leiðsögnin í Android-snjallsímum

Meðfylgjandi pistil birti ég á Fasbókinni í gærkvöld.

Í dag fór ég villur vegar og er ástæðulítið að hrósa sér af því. Ég hugðist koma mér heim úr Reykjavíkurakademíunni og nota gönguleiðsögnina í símanum. Hún vísaði mér á Álagranda, en hann liggur að hluta samsíða göngustíg sem liggur að Keilugranda, en þaðan er haldið inn í Frostaskjól. Eitthvað fór úrskeiðis hjá mér og rammvilltist ég. Ég kannaði öðru hverju hvar ég væri og fékk upp götuheitið. Að lokum vék sér að mér kona nokkur og ráðlagði mér að fara út á Meistaravelli. Eftir nokkrar leiðbeiningar og allnokkra villu rambaaði ég á götuna og fann strætisvagnaskýli við Fliðrugranda. Af einhverjum undarlegum ástæðum var mikil umferð mér á hægri hönd og velti ég fyrir mér hvort svona mikil umferð væri eftir Kaplaskjólsveginum. Þá kom strætisvagn og taldi ég að það væri leið 15. Hann stansaði hinum megin við götuna og beið ég dálitla stund. Þá kom það sem ég taldi vera leið 13 og spurði ég til öryggis hvort ekki væri um leið 13 að ræða. Þetta var þá leið 15 og leið 13 þá nýfarin vestur á Nes. Áttaði ég mig þá á heimsku minni og hefði betur hugsað mig nánar um, því að umferðin, sem ég heyrði í fjarska var auðvitað frá Hringbrautinni. Niðurstaðan er þessi eftir ævintýri dagsins: 1. Sennilega er rétt að útvega sér áttavita í tækið, en slíkur áttaviti er á Android-markaðinum. 2. Staðsetningarbúnaður farsímanna mætti vera nákvæmari og tilgreina húsnúmer og götuheiti. Reyndar er gert ráð fyrir því í búnaðinum, en skráningu virðist ábótavant eða rangur gagnagrunnur notaður. 3. Rökhugsunin þarf að vera í lagi. Það er svo sem ekkert óeðlilegt að blindur einstaklingur verði áttavilltur úr því að sjáandi fólk villist í litlu skyggni. Eftir á að hyggja hefði akstursleiðsögnin dugað að sumu leyti betur, því að hún tilgreinir fjarlægð frá áfangastað. Ég hugðist hins vega láta á það reyna hvort göngustígurinn, sem minnst var á hér að framan, væri skráður. Það verður gert innan skamms. Veðrið var hins vegar hlýtt og gott að vita af því að þrátt fyrir aldurinn hafi ég enn gaman af að spreyta mig á tilraunum með nýja tækni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband