Minnisstæðir tónleikar Philipps Glass og meðleikara

Það var allmerkileg reynsla að hlýða á Philipp Glasss ásamt meðleikurum sínum, þeim Maki Namekawa og Víkingi Heiðari Ólafssyni, flytja 20 etýður tónskáldsins.

 

Verkin eru dæmi um "smáskrefatónlist" sem átti blómaskeið sitt fram á 9. áratuginn. Þrátt fyrir hæga framvindu verkanna og hljómmálsins er eitthvað seiðandi við tónlistina og maður sogaðist einhvern veginn inn í hana. Í verkunum brá fyrir einföldum undirleik með svo flóknu ívafi að sumir hefðu getað haldið að stundum væri leikið þríhent eða fjórhent.

 

Það kom í ljós að aldurinn er farinn að segja til sín hjá tónskáldinu. Villur voru óvenju margar og einhvern veginn fannst mér honum mistakast á stundum að beisla hljómflæðið með notkun pedalanna. En meðleikarar hans bættu það svo sannarlega upp. Þau fóru bæði á kostum og túlkuðu bæði með sannfærandi hætti tilfinningar þær sem leyndust í verkunum.

 

Þegar upp er staðið verður ályktunin sú að etýðurnar séu alls ekki einhæf verk heldur listrænn tónvefur, þar sem efniviðurinn er margslunginn og vandlega spunninn. Úr þessum efnivið einfaldleikans verða til óbrotgjörn listaverk.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband