Meistaraverk Áskels Mássonar

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn svissneska hljómsveitarstjórans Baldurs Brönnimanns í kvöld, 20. febrúar, voru ógleymanlegir, áhrifaríkir og skemmtilegir.

Þeir hófust með einu stórfenglegasta tónverki, sem íslenskt tónskáld hefur samið að undanförnu, Slagverkskonsert eftir Áskel Másson. Flutningurinn var fumlaus hjá hljómsveit og einleikaranum, Colin Currie. Konsertinn hófst með ástríðuþrunginni tónaflækju en síðan skiptust á skin og skúrir, gleði, íhugun, fyndni og tröllsháttur auk blíðlyndis og einurðar - allt þetta orkaði á hugann eins og fjölbreytt landslag. Fögnuður áheyrenda var enda mikill.

Eftir hlé var flutt tónverkið First Essay eftir Samuel Barber, samið árið 1938 og í beinu framhaldi án klapps Doctor Atomic Symphony eftir John Adams. Nokkuð fannst mér upphaf ritgerðar Samuels ástríðuþrungið en þessi stutta hugleiðing er áhrifamikil og leiðir hugann að ýmsu sem varð á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar. Verk Johns Adams er í raun svíta úr samnefndri óperu sem fjallar um sálarstríð þeirra sem stóðu að smíði fyrstu kjarnorkusprengjunnar. Dýpt þessa smáskammtaverks er svo mikil að það verður vart flutt við annað er bestu hljómburðaraðstæður. John Adams hefur samið nokkrar athyglisverðar óperur um atburði 20. aldar. Einna þekktust er óperan "Nixon í Kína", en Sinfóníuhljómsveitin hefur flutt stuttan þátt úr henni, "Formaðurinn dansar".

Hjalti Rögnvaldsson hafði eftir Halldóri Blöndal að hann hefði vart heyrt glæsilegra íslenskt verk að undanförnu. Þessi orð Halldórs og hrifning okkar hjónanna og Hjalta ásamt almennu lofi áheyrenda leiða hugann að þeirri staðreynd að fá íslensk tónskáld virðast eiga upp á pallborðið hjá Sinfóníuhljómsveitinni. Í raun ætti hljómsveitin að flytja eitt verk eigi sjaldnar en á einna tónleika fresti. Nú má telja þau tónskáld á fingrum annarrar handar sem flutt eru eftir tónverk á vegum hljómsveitarinnar á hverjum vetri.

Undirritaður spurði Misti Þorkelsdóttur hvernig henni hefði þótt konsert Áskels Mássonar. Lauk hún miklu lofsorði á verkið og urðum við sammála um að konsertinn væri hinn áskelskasti og langt umfram það.

Öllum aðstandendum eru fluttar einlægar hamingjuóskir og þá ekki síst Áskatli Mássyni sem hefur enn einu sinni sannað að hann er á meðal fremstu slagverkstónskálda heims.

Þeim sem hafa hug á að lesa nánar um tónleikana skal bent á síðu Sinfóníuhljómsveitarinnar

http://www.sinfonia.is/tonleikar/nr/2163


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband