Bannlisti Pútíns og gáfuðu kjánarnir á Íslandi

Þegar þjóðkjörnum forseta Úkraínu hafði verið steypt í vetur flýtti íslenski utanríkisráðherrann sér til Kænugarðs til þess að styðja ný stjórnvöld. Sú spurning vaknaði í hugum margra hver hefði stýrt þessari för og hver hinn raunverulegi tilgangur hefði verið. Voru það gömlu hernámssinnarnir sem réðu þar?

Ekki skulu bornar brigður á vafasamar embættisfærslur þessa fyrrverandi forseta, en hitt er annað, að Íslendingar þurfa að velta því rækilega fyrir sér hvernig stórveldið Ísland hagar sér í samskiptum á alþjóða vettvangi – ekki hvort Íslendingar dugi jafnan betur þeim er betur meina heldur hinu, hvert eðli atburða er og í hverra þágu barist er.

Undirrituðum er ekki kunnugt um að Íslendingar hafi sett viðskiptahömlur á Rússa um leið og Evrópusambandið, Noregur og fleiri ríki. Þess vegna er undarlega spurt, hvers vegna Íslendingar séu ekki á bannlista Pútíns. Gáfur stjórnmálamanna geta orðið svo yfirþyrmandi miklar að úr verða heimskulegar vangaveltur og taka fréttamenn glaðir þátt í þessum hráskinnaleik. Þótt Íslendingar hafi tekið afstöðu með núverandi stjórnvöldum í Kænugarði þýðir það ekki sjálfkrafa innflutningsbann á íslenskar afurðir. Íslendingar hafa gert viðskiptasamninga við ýmis ríki sem hafa aðrar áherslur en þeir og hafa þó viðskiptin gengið ágætlega. Greinilegt er að þessari umræðu stjórna illa upplýstir gáfaðir kjánar. Menn geta svo sem velt því yrir sér hvaða afleiðingar viðskiptabann Rússa hefði á íslenskan efnahag, en að spyrja hvers vegna Ísland sé ekki á bannlista Pútíns er út í hött.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnþór Helgason

Ólafur Egilsson, fyrrum sendiherra í Sovétríkjunum skrifar á fésbókinni athugasemd við þennan pistil:

„Þeir sem muna að stuðningur Íslands við endurheimt Eystrasaltsríkjanna á sjálfstæði sínu raskaði ekki viðskiptunum við Sovétríkin þurfa ekki að verða hvumsa yfir að Úkraínumálið hafi ekki slík áhrif.“ -

Arnþór Helgason, 9.8.2014 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband