Samtök betlara á Íslandi?

Á morgun verður háð hið árlega Reykjavíkurhlaup. Keppt er í ýmsum flokkum, svo sem maraþoni, hálfmaraþoni og ýmiss konar skemmtiskokki. Þetta er mikill atburður sem fjöldi fólks tekur þátt í. Enn fleiri eru þeir sem fylgjast með og hvetja menn til dáða.

Fjölmargir hlaupa til styrktar tilteknu málefni, einstaklingi eða samtökum. Flest félög fatlaðra eiga sér þar stuðningsmenn.

Af einhverjum ástæðum eru hagsmunafélög fatlaðra svo sem Blindrafélagið, Félag heyrnarlausra, Sjálfsbjörg o.s.frv. Flokkuð sem góðgerðarsamtök af skipuleggjendum hlaupsins. Skýringin er sögð sú að það sé vænlegra til árangurs.

Varla verður því trúað að Efling, Alþýðusamband Íslands, BSRB og önnur samtök launafólks verði talin til góðgerðarfélaga.

Í þessari skilgreiningu er fólgin ótrúleg lítilsvirðing í garð fatlaðs fólks sem erfitt er að sætta sig við. Með þessari skilgreiningu eru jafnframt leiddar líkur að því að barátta þessara félaga sé undir góðvild almennings komin – að Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp séu heildarsamtök betlara.

Formenn þessara samtaka, sem hvorugur er fatlaður, eiga að grípa til aðgerða til þess að breyta þessum viðhorfum. Hagsmunasamtök fatlaðra eiga ekki að ljá meintri aumingagæsku stuðning sinn með því að bendla þau við góðgerðarsamtök. Þau eru hagsmuna- og baráttusamtök.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband