Konungsbók Eddukvæða eftir Arnald Indriðason

Við hjónin lásum okkur til skemmtunar Konungsbók Eddukvæða eftir Arnald Indriðason. Eins og við mátti búast hefur Arnaldur kynnt sér sögu Konungsbókarinnar ´vandlega og fléttar ýmsa þræði saman sem úr verður skemmtileg heild, engu síðri en bestu skjalasögur samtímans.

Tveimur, nafnkunnum Íslendingum síðustu aldar bregður fyrir í sögunni, Halldóri Laxness og Indriða G. Þorsteinssyni, rithöfundi og föður Arnaldar, en bókin er tileinkuð minningu hans. Arlandur minnist á fundi Valdimars, prófessorsins og blaðamanns frá Íslandi sem staddur var á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn í októberlok 1955 og fylgdist með fréttaskeytunum um Nobelsverðlaun Halldórs. Blaðamaðurinn var nýkominn frá Kína, en um þetta leyti (árið 1955) fór Indriði einmitt í boði kínverskra yfirvalda þangað austur. Er þessi skýrskotun skemmtileg.

Þrátt fyrir að þráðurinn utanum Konungsbók sé skemmtilega spunninn verður höfundi þó nokkrum sinnum á í messunni. Eitthvert neyðarlegasta atriðið og það sem einna verst er samið (ekki skrifað), er frásögnin af sundi þeirra Valdimars og prófessorsins í land skammt frá Gedser, er þeir þurftu að stökkva í sjóinn til þess að trillusjómaður, sem smyglaði þeim áleiðis, yrði ekki handsamaður. Sjómaðurinn varp á eftir þeim skinnfrakka prófessorsins og var hann nær þurr þegar þeir komu að landi nokkru síðar. Enn furðulegra er þó að prófessorinn, sem var haltur vegna berkla, sem hann fékk ungur að árum, hélt staf sínum. Hvernig í fjáranum fór hann að því?

Þrátt fyrir þessa missmíð og nokkrar fleiri, sem sýna, að höfundur hefur sennilega komist í tímaþröng, er Konungsbók skemmtileg aflestrar og alls ekki á meðal þess sísta sem ég hef lesið eftir Arnald. Þegar é vann við að yfirfæra bækur á blindraletur fyrir Blindrabókasafn Íslands komu nokkrar bækur Arnaldar í minn hlut. Mér fundust þær svo skemmtilegar að ég eyddi býsnamiklum tíma í að lesa þær yfir og leiðrétta villur, sem fram komu í tölvuskimuninni. Þannig urðu afköstin mun meiri en ella, því að ég vann stundum langt fram á kvöld. Þannig var það með Konungsbók. Hún hélt okkur hjónum föngnum þrátt fyrir þessar smávægilegu missmíðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband