Blinda konan og þjónninn - vel heppnað útvarpsleikverk

Útvarpsleikritið Blinda konan og þjónninn eftir Sigurð Pálsson, í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, er um margt snilldar vel gert verk. Tónlist Hildar Ingveldar Guðnadóttur og hljóðstjórn Einars Sigurðssonar spilltu ekki fyrir því.
Hljóðmyndin var yfirleitt sannfærandi og leikur höfundarins, Ólafíu Hrannar Jónsdóttur og Vals Freys Einarssonnar nær lýtalaus. Sennilega hefði mátt beita ákveðinni hljóðnemabrellu til þess að láta það heppnast betur þegar drukkna blinda konan hrundi í gólfið. Ýmsir hlusta á útvarpsleikritin með heyrnartólum og þar hefði þetta notið sín einkar vel.
Sigurður Pálsson leikur sér einkar vel að þeirri hugmynd að skapa persónur í leikriti og gera hlustendur óþyrmilega vara við endurskoðun og breytingar á handritinu. Að lokum fer svo að hann gefst hreinlega upp og allt er þurrkað út.
Útvarpsleikhússtjórinn hefur iðulega kynnt leikrit og ferst það vel úr hendi. Til nokkurra lýta finnst mér þegar sagt er: "Útvarpsleikhúsið flytur Blinda konan og þjónninn". Hvers vegna er ekki sagt "Útvarpsleikhúsið flytur Blindu konuna og þjóninn?" Þeir sem kunna íslensku vita að hér er þolfall á ferðinni og hvert nefnifallið og þar með heiti verksins er. Útvarpsleikhúsið ætti að hafa þetta í huga við framleiðslu næstu verka.
Öllum aðstandendum leikverksins er óskað til hamingju með þessa skemmtilegu leikfléttu sem gladdi eyru hlustenda í dag. Árið 2015 byrjar svo sannarlega vel hjá Útvarpsleikhúsinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband