Fjölskipa stjórnvald - valdaleysi forsætisráðherra

Ríkisstjórn Íslands er fjölskipað stjórnvald. Það hefur bæði kosti og ókosti. Boðvald forsætisráðherra er minna en vera skyldi og einatt er útilokað að ráðast gegn ýmsum vandræðum sem þjaka stjórnina.
Nýjustu dæmin eru einleikur fyrrum dómsmálaráðherra vegna skipunar landsréttar og vangeta núverandi forsætisráðherra í máli sjávarútvegsráðherra.
Þessi staða veldur því að erfitt er að taka á ýmsu og mætti nefna mörg dæmi.

öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp fengu að kynnast þessu í upphafi 10. árugar síðustu aldar.
Hin mikilhæfa stjórnmálakona, Jóhanna sigurðardóttir var þá orðin félagsmálaráðherra og stýrði m.a. málefnum fatlaðra af mikilli og stundum óþarflega mikilli röggsemi. Þetta varð til þess að upp úr sauð á milli hennnar og samtakanna.
Ég lagði til að við fengjum Steingrím Hermannsson í hádegissnarl hjá Öryrkjabandalaginu. Á borðum voru meinhollar samlokur og jógúrt. Steingrímur lýsti þegar ánægju sinni með þessi matföng og gladdist yfir því að ekki skyldi þröngvað upp á sig steik.
Við kærðum fyrir honum þau vandræði sem við áttum í vegna skapsmuna félagsmálaráðherrans og taldi hann litlar líkur á því að hann gæti áorkað einhverju í þessu máli. Meginröksemdin var sú að ríkisstjórnin væri fjölskipað stjórnvald.
Ég benti honum á að hann væri í forystu stjórnarinnar og gæti því hlutast til um að samkomulag næðist. Helgi Seljan, fyrrum þingmaður tók undir þessi sjónarmið og urðu málalokin þau að Steingrímur boðaði til fundar í stjórnarráðinu og tókust sættir milli Jóhönnu og samtakanna.

Nú eru menn í miklum vanda. Íhaldið sér um sína og engu hefur tekist að þoka í málefnum fatlaðra og eldri borgara. Þrátt yrir vilja vinstri grænna koma þeir litlu sem engu í gegn í þessum málaflokkum. Kunningsskapurinn ræður.

Um svipað leyti og áður nefndur fundur var haldinn sótti elsti bróðir minn um forstöðumannsstarf á vinnustað fatlaðra í Vestmannaeyjum. Yfirmaður svæðisstjórnar hafði samband við mig og bað mig að gefa umsögn um bróður minn. Ég sagðist ekki vera fær um það vegna skyldleika.
"Þú getur þó að minnsta kosti sagt mér hvort hann kunni eitthvað til verka", svaraði maðurinn.
Ég svaraði því til að hann væri mjög lagtækur, menntaður vélstjóri og hefði lagt drög að ýmsu sem vinnustaðurinn hefði búið til.
Hann fékk ekki starfið þar sem hann væri of skyldur formanni Öryrkjabandalagsins.

Nokkru síðar var mér tjáð að bróðurdóttir mín hefði sótt um starf á vegum svæðisstjórnar og fékk hún það ekki því að hún væri skyld sama formanni.
Þarna bitnuðu venslin á saklausu fólki.

Í máli sjávarútvegsráðherra er svipuð staða að öðru leyti en því að hann efast ekki um hæfni sína til þess að taka á málum vinar síns og skólabróður.
Þetta mál eitrar andrúmsloftið kringum ríkisstjórnina og ýtir undir alþjóðlegt álit annarra þjóða um spillt þjóðfélag á Íslandi. Almenningur ber ekki ábyrgð á spillingunni heldur tapsárir ráðherrar sem þekkja ekki sinn vitjunartíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég álít að ríkisstjórnin sé einmitt ekki fjölskipað stjórnvald, heldur séu ráðherrarnir einráðir í þeim málum sem undir þá heyra. Annars væri sennilega hægt að fara fram á atkvæðagreiðslu um málefnin sem eru til umræðu hverju sinni. En kannski er þetta bara orðhengilsháttur.

Sæmundur Bjarnason, 7.12.2019 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband