Liðnar ánægjustundir sumarsins

Í kvöld kvaddi ég samstarfsfólk mitt á Morgunblaðinu, en ég var ráðinn þangað sem blaðamaður í sumar um þriggja mánaða skeið.

Af ásettu ráði hef ég ekki skrifað um starf mitt hjá Morgunblaðinu í sumar, ekki vegna þess að mér hafi ekki liðið vel þar, heldur hins, að ég taldi óþægilegt stöðu minnar vegna að fjalla um vinnustaðinn. En nú, þegar störfum mínum er lokið þar í bili a.m.k. langar mig að reifa nokkuð starfsandann og fleira.

Mér fannst þegar ég hóf þar störf, sem ég væri að byrja að nýju á vinnumarkaðinum. Væntingarnar voru miklar og ég held að þeir Moggamenn hafi ekki verið alveg vissir í sinni sök gagnvart mér.

Það tók dálítinn tíma að læra á ritstjórnarkerfið og á endanum gat ég framið allar aðgerðir aðrar en að tengja myndir við skjöl. Ég er þó viss um að við hefðum fundið út úr því með dálítilli vinnu. En þetta gekk sem sagt upp að flestu eða öllu leyti. Ég fór og tók viðtöl við ýmsa og skrifaði greinar og smápistla. Ég skrifaði myndatexta, leitaði að myndum til notkunar við greinar um erlend efni og vann heimildargreinar upp úr tímaritum sem ég skimaði inn og af netinu. Ég kynntist allt öðrum og mannlegri stjórnunarháttum en ég hef áður þekkt. Hjálpsemi og samvinna var til fyrirmyndar og starfsandinn á sunnudagsblaðinu hreint frábær.

Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem blindur einstaklingur vinnur á dagblaði hér á landi. Erlendis er það ekki óþekkt að blint fólk starfi við blaðamennsku. Reyndar hefur það haslað sér völl á flestum sviðum fjölmiðlunar, blaðamennsku, við útvarp og sjónvarp. Hér hefur ekki mikið farið fyrir slíku enda þjóðin fámenn. Ég veit ekki til þess að nokkur blindur maður hafi verið fastráðinn við Ríkisútvarpið eða aðrar útvarps- og sjónvarpsstöðvar þótt þær væru kjörinn vettvangur fyrir þá úr þessum hópi sem hafa áhuga á slíkum störfum.

Morgunblaðið sýndi framsýni þegar ég var ráðinn. Fyrirgefið þótt ég segi þetta, en svona er það nú. Þessi fjölmiðill varð sá fyrsti til þess að ráða blint fólk til starfa um einhvern tíma allar götur síðan Ríkisútvarpið hratt af stað Eyjapistli forðum.

Ég vona að fleiri míniir líkar fylgi á eftir hjá íslenskum fjölmiðlum. Þá væri vel.

Eftir helgi hefst spennandi atvinnuleit sem ber vonandi árangur í fyllingu tímans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Arnþór!

 Ég klúðraði því að kveðja þig í kvöld, en mig langaði að þakka þér fyrir samvinnuna í sumar. Það var gaman að kynnast þér! Gangi þér sem allra best í atvinnuleitinni.

Arndís samstarfskona (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband