Þýðingar í sjónvarpi

Það gladdi marga þegar Björgúlfur Guðmundsson ákvað að styrkja Ríkissjónvarpið til þess að framleiða leikið, íslenskt sjónvarpsefni. Ekki veitir af. Sennilega á Ríkissjónvarpið meiri þátt í því en flestar aðrar stofnanir að eyðileggja málvitund fólks. Enskan bylur á eyrum landsmanna í tíma og ótíma. Þá má vænta þess að nýju, íslensku þættirnir endurspegli íslenskan veruleika og vonandi njóta þeir vinsælda.

Nú stendur yfir sýning seinni myndarinnar um októberbyltinguna í Rússlandi. Myndin er frönsk. Þulurinn les á ensku en viðmælendur í myndinni mæla á rússnesku og frönsku. Ég skil hvorugt málið og textinn rennur svo hratt yfir skjáinn að flestum er ókleift að lesa hann upphátt. Ég skil enskuna sæmilega en samhengið vantar í frásögnina vegna þess að ég skil ekki athugasemdir viðmælandanna. Allt efnið er textað. Hvað ætli margir fari á mis við texta við myndirnar? Ég gæti ímyndað mér að það væri um fimmtungur áhorfenda.

Nú er sú tækni fyrir hendi að útvarpa á sérstakri hlóðrás lýsingum á myndum sem sjónvarpað er eða lestri texta sem settur er við myndirnar. Gaman væri að vita hvort eitthvað slíkt sé í bígerð hjá ríkissjónvarpinu. Okkur vantar annan Björgúlf til þess að styrkja Ríkissjónvarpið til þess að láta lesa textann við myndir og sjá jafnframt til þess að íslenskir þættir séu túlkaðir á táknmál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband