Leikreglurnar og samböndin

Flestir virðast sammála um að skort hafi leikreglur um meðhöndlun fjár og þær aðferðir sem beitt var til þess að fjármagnseigendur gætu skarað eld að eigin köku. Fyrir hálfu öðru ári birti ég á blogginu grein um sölu hlutabréfa Bjarna Ármannssonar í Glitni, en hann hagnaðist umtalsvert á kaupunum vegna verðfalls daginn eftir. Vakti pistill þessi mikla athygli og var birtur í öðrum miðlum.

Í gær birti Andrés Magnússon, læknir, athyglisverða grein í Morgunblaðinu sem nefnist “Bjarni Ármannsson og Almenni lífeyrissjóðurinn”. Fer hún hér að neðan óstytt. Vangaveltur Andrésar eru þess virði að menn ættu að kynna sér þær. Fróðlegt verður að sjá hvort þeim fullyrðingum, sem hér koma fram, verður svarað.

„CARRY trade“ er nafn á ákveðinni tegund viðskipta. Þetta hugtak er ekki mikið kynnt í íslenskum fjármálablöðum, samt er Ísland, miðað við höfðatölu, lang-, langstærsta „Carry trade“-landið í heiminum.

Ástæða þess að fjölmiðlarnir kynna okkur Íslendingum ekki þetta hugtak er að „Carry trade“ hefur á sér slæmt orð. „Carry trade“ gefur af sér, að því er virðist, gífurlegan hagnað í fyrstu, en endar svo alltaf í gjaldþroti og hörmungum. Þetta vita allir fjármálamenn. „Carry trade“ fer þannig fram að tekin eru lán í löndum með nánast enga vexti, t.d. í Japan, og flutt til hávaxtalanda eins og Íslands. Mikil þensla og skuldsetning verður í landinu. Hið mikla fjármagn sem streymir til landsins gerir það að verkum að verð á hlutabréfum og húseignum hækkar, þótt þetta séu að mestu leyti sömu eignirnar og voru fyrir. Um síðir gerist það í hinu skuldsetna landi þar sem peningunum hefur verið dælt inn að gengið tekur að falla um leið og gengið styrkist í lánveitendalandinu. (Sjá outube.com/watch?

v=JjglR2KYz5o&feature=related)

Fjármagnið er sogað tilbaka út úr landinu, lánin falla, samtímis hefur orðið verðfall á eignunum, þær duga ekki á móti skuldunum, ægilegar hörmungar ganga yfir landið. Þetta gerist reglulega, þó sérstaklega í löndum þar sem lítil reynsla er af bankamálum.

En nú fer ég að koma að efninu. Hið stórkostlega við bankaviðskipti í dag er að það er hægt að græða á tapinu líka. Þegar staða bankanna er orðin vonlaus er til dæmis hægt að framkalla gengisfellingu til þess að fá gengishagnað líkt og íslensku bankarnir hafa gert undanfarið ár. Annað sem hægt er að gera í andlátsferlinu er að taka svokallaða skortstöðu gegn hávaxtagjaldmiðlinum. Veðjað er á að gengið muni falla. Vandamálið er að þegar andlátsferlið er tiltölulega langt komið, eins og hjá íslensku bönkunum að undanförnu, þá er allur heimurinn sannfærður um að gengið muni falla og allir vilja taka skortstöðu gegn hávaxtagjaldmiðlinum. En ekki er hægt að taka

skortstöðu gegn krónunni nema einhver mótaðili finnist sem er tilbúinn til að veðja jafnmiklu á móti að gengi krónunnar muni styrkjast. Vogunarsjóðir stóðu í biðröðum eftir að fá að taka skortstöðu gegn krónunni, en enginn heilvita Íslendingur sem átti peninginn sjálfur vildi veðja á móti, að gengið myndi styrkjast, þegar búið var að spá að bankarnir myndu lenda í kröggum. En íslensku bankana vantaði sárlega skortstöðugróða, eða umboðslaun fyrir að miðla skortstöðusamningi (það eru íslensku bankarnir sem taka út og miðla skortstöðum gegn Íslandi). Eina færa leiðin til þess að finna

fjármagn til þess að veðja á móti (þ.e. að krónan myndi styrkjast) væri að véla út almannafé til þess.

Víkur nú sögunni annað. Maður er nefndur Bjarni Ármannsson. Hann er fjármálamaður og sérhæfir sig í að sölsa undir sig almannafé. Þegar hann var bankastjóri Íslandsbanka tókst honum að ná til sín persónulega miklum auðæfum. Næst tókst honum að ná til sín geysimiklu almannafé úr fæðingarorlofssjóði. Síðan varð hann höfuðpaurinn í mesta hneykslismáli seinni ára sem leiddi til falls borgarstjórnar Reykjavíkur, nefnilega REI-málinu. Þar tókst honum næstum því að ná til sín orkuauðlindum þjóðarinnar með einokunarsamningum. En spillingin komst í hámæli og þjóðin vissi ekki betur en að Bjarni væri fluttur utan. En, nei. Þorsteinn Már Baldvinsson og Lárus Welding laumuðu Bjarna inn í Almenna lífeyrissjóðinn; settu minkinn mitt í langstærsta hænsnabúið. Meðan Bjarni hefur verið í stjórn lífeyrissjóðsins hefur einmitt verið tekin skortstaða með gengishækkun íslensku krónunnar. Það þýðir að allur gengishagnaður af hinni geigvænlegu gengisfellingu undanfarinna vikna rennur ekki til lífeyrissjóðanna heldur til bankans. Ef Almenni lífeyrissjóðurinn á einn milljarð dala þá hefði sjóðurinn þar átt 60 milljarða íslenska króna virði fyrir ári. Eftir gengisfellinguna núna þá

ætti sjóðurinn að eiga í krafti þessa milljarðs dollara 110 milljarða íslenskra króna. En nú er búið að búa svo um hnútana að lífeyrissjóðurinn á bara áfram 60 milljarða en bankinn (eða e.t.v. kaupandi hans af skortstöðunni) hefur fengið 50 milljarða gengishagnaðinn. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að atburðir liðinna daga eru meðvitað framkallaðir. Þess ber að geta að skortstaða gegn íslensku krónunni hefði stuðlað að áhættudreifingu, þá hefðu verðmætabreytingarnar á íslensku og erlendu eignunum hreyfst í gagnstæðar áttir, en skortstaða með styrkingu íslensku krónunnar magnar hreyfingarnar í sömu átt fyrir íslenskar og erlendar eignir. Það er því ekki áhættudreifing og í raun ólöglegt fyrir lífeyrissjóði.

Kæri lesandi. Sagt er að framtíð Íslands sé björt, við eigum bæði orkuauðlindir og auðlindir í hafinu. Hins vegar gleymist að við eigum ekki lengur fiskinn, og nýlega tókst næstum því að stela orkuauðlindunum. Vegna þess að siðferðisþreki þjóðarinnar er ábótavant og skoðanamyndun stýrt af fjölmiðlum í eigu auðmanna, þá munum við ekki bera gæfu til þess að nýta auðlindirnar til

almannaheilla líkt og Norðmönnum hefur tekist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband