Þeyst um á Orminum bláa

Tveggja mana hjólið, Ormurinn blái, sem varð 7 ára í okkar eigu í vetur og er af Thorn Discovery gerð, hefur sjaldan farið í viðgerð. Einu sinni var skipt um afturkrans á hjólinu og auðvitað hefur verið skipt um dekk.

Í morgun komu þeir í hafragraut, Kolbeinn tumi á 14. mánuði og Árni, faðir hans á 40. ári. Þar sem veðrið var gott var Ormurinn blái dregin úr hýði sínu, settur á hann barnastóll og lagt af stað. Varð þá Ormurinn blái að þriggja manna hjóli.

Árni átti erindum að gegna austur í Borgartúni. Var ákveðið að halda þangað og velja leið við hæfi því að farmurinn eða farþeginn er ómetanlegt dýrmæti. Hjóluðum við sem leið lá eftir Ægisíðustígnum, þeim hluta hans sem er einungis ætlaður hjólreiðamönnum. Fórum við fram úr ungri stúlku sem vék fyrir okkur til vinstri handar. Við gáfum í og þeystum áfram þar til komið var að mótum stígsins og Suðurgötu. Var þá slegið af og haldið um háskólahverfið út á Hringbraut og þaðan eftir Snorrabrautinni og endað í Borgartúni.

Þá vorum við komnir svo austarlega að ákveðið var að líta við í Erninum, en við Ragnar Þór Ingólfsson, reiðhjólasérfræðingur og uppreisnarmaður innan VR, hövðum rætt saman um endurnýjun ýmiss búnaðar hjólsins. Er ekki að orðlengja að við fundum Örninn, hittum Ragnar og skildum Orminn eftir. Héldum við síðan til sama lands með leigubíl, útbúnum barnastóli.

Kolbeinn litli Tumi var himinlifandi yfir ferðinni. Átökin voru nokkur og fékk undirritaður hlaupasting.

Greinilegt er að ég þarf að þjálfa mig betur er ég ætla að hjóla austur í Vík í mýrdal á hausti komanda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband