Athyglisverðar minjar

Í dag bauðst gestum Læknaminjasafnsins á Seltjarnarnesi að skoða Nesstofu undir leiðsögn minjavarðar. Settumst við hjónin á Orminn bláa og héldum á staðinn.

Safnvörðurinn gerði ágæta grein fyrir væntanlegum framkvæmdum við Nesstofu, byggingu nýs hús handa Lækningaminjasafninu og varðveislu Nesstofu sjálfrar. Í máli sínu vék hún að því að nauðsynlegt væri að skilja á milli minjavenrdar og ferðaþjónustu. Nefndur var sem dæmi steinkofi eða bær, sem hlaðinn var í nánd við rústir af meintum bæ Herjólfs Bárðarsonar í Vestmannaeyjum. Engin dæmi hafa fundist um slíka steinkofa hér á landi. Í þetta fóru talsverðir fjármunir en rústirnar sjálfar liggja undir skemmdum því að ekki færst fé til að varðveita þær.

Nesstofa er afar merkilegt hús. Hún var byggð handa landlæknisembættinu árið 1763 og settist Bjarni Pálsson þar að. Hans naut ekki lengi við og tók þá tengdasonur hans, Sveinn Pálsson, við keflinu.

Á þessum tíma voru reist nokkur bindingsverkshús á Íslandi: viðeyjarstofa, fangahúsið sem nú hýsir forsætisráðherra, Nesstofa og Bessastaðastofa. Einnig má nefna Viðeyjar- og Landakirkju. Nesstofa er fyrir ýmissa hluta sakir langbest varðveitt.

Uppbygging safnareits í Nesi á Seltjarnarnesi verður vafalítið til að styrkja útivistarsvæðið sem þar er og ættu svæðið og safnið að geta hlúð hvort að öðru. Á þessu svæði verður hægt að rannsaka og kynna starfshætti og aðstæður fyrri alda og nálgast jafnframt þau verkefni sem nútíminn fæst við.

Miðaldir Íslandssögunnar virtust ekki svo fjarri á sokkabandsárum mínum. Síðan er eins og holskeflur hafi riðið yfir og sópað ýmsu með sér. Þróunin hefur orðið hröð og fortíðin fjarlagæist nú hraðar en áður. Þess vegna er það vel að menn beri metnað til að gera vel við Nesstofu og huga að sögu lækninga hér á landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband