Heggur sá er hlífa skyldi

Að undanförnu hefur orðið talsverð umræða á meðal lífeyrisþega um hinar miklu tekjutengingar sem teknar hafa verið upp í almannatryggingakerfinu. Frítekjumark vegna fjármagnstekna og annarra tekna hefur að mestu verið afnumið, boðaðar hækkanir bóta almannatrygginga afnumdar og þannig mætti lengi telja.

Margir lífeyrisþegar líta á þessar miklu skerðingar og tekjutengingar sem beina skattlagningu. Þeir hafa flestir greitt skatta af þeim fjármunum sem þeir hafa trúað bönkunum fyrir og telja því ómaklega að sér vegið.

Þetta er í annað sinn á jafnmörgum áratugum sem vinstri flokkar taka þátt í því að skerða hlut lífeyrisþega. Þegar Viðeyjarstjórnin tók við völdum árið 1991 brustu á miklar skerðingar. Fyrirvaralaust var reglugerð um þátttöku hins opinbera í lyfjakostnaði breytt og bitnaði það hart á hópum eins og geðsjúklingum. Öryrkjabandalag Íslands brást þannig við að leggja til að skipaður yrði samráðshópur og fékk því áorkað að sumar af þessum breytingum voru afturkallaðar. Þáverandi heilbrigðis- og trygginggaráðherra reyndi í vanmætti sínum að vísu að etja formanni Öryrkjabandalagsins og Sjálfsbjargar hvorum gegn öðrum. Sú tilraun mistókst og endaði með snörpum orðaskiptum formanns ÖBÍ og ráðherrans sem fóru þannig að á komst gott talsamband.

Á þessum tíma fékk Alþýðubandalagið heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið og síðar tók Framsóknarflokkurinn við því. Báðir þessir flokkar fóru í flestu eftir því sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi. Einungis Jóhanna Sigurðardóttir sat við sinn keip og sagði af sér ráðherraembætti þegar henni varð nóg boðið vegna skerðinganna.

Nú lendir Jóhanna í þeirri stöðu að vera forsætisráðherra í ríkisstjórn sem verður að takast á við afleiðingar óstjórnar sem að mestu leyti má kenna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki þótt Samfylkingin beri vissulega nokkra ábyrgð. Vart er hægt að bera ástandið í þjóðfélaginu saman við það sem gerðist árið 1991. Sameiginlegt er þó að ráðist er að þeim sem jafnan eru taldir geta axlað auknar byrðar, öryrkjum og ellilífeyrisþegum.

Í ræðu, sem Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, flutti á aðalfundi Öryrkjabandalagsins á laugardaginn var, kom fram að stjórnvöld bindi talsverðar vonir við að auknar greiðslur úr lífeyrissjóðakerfinu dragi úr greiðslum hins opinbera til almannatrygginga. Þetta er viðurkennt og þess vegna var stofnað til lífeyrissjóðanna að þeir bættu kjör fólks og drægju jafnframt úr greiðslum hins opinbera. En ríkisstjórnin hefur farið offari í skerðingum og afnámi laga um tryggingabætur. Þessar aðgerðir bitna harðast á þeim sem minnstar tekjur hafa.

Það eru fleiri en skuldum vafðir eyðsluseggir sem þurfa á aðstoð að halda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband