Skemmtilegt hljóðrit

Ríkisútvarpið, sem verður áttrætt á þessu ári, skartaði sínu fegursta eftir áramótaávarp forsetans og útvarpaði klarinettukonsert Jóns Ásgeirssonar, sem hann samdi handa Einari Jóhannessyni.

Ég hef fylgst með tónlistariðkun Jóns frá því á 7. áratugnum. Þá var hann með þjóðlagaþætti á kvöldvökum útvarpsins og kynnti þá m.a. lagið Krummi krunkar úti sem fór sigurför um landið á örskotshraða.

Klarinettukonsert Jóns Ásgeirssonar á ættir að rekja til þeirrar þróunar sem ég varð fyrst var við í tónverkinu Þjóðvísu sem m.a. var flutt á norrænni tónlistarhátíð árið 1967. Fullmótuð birtist þessi tónnsköpun í óperunni Þrymskviðu sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu árið 1974. Skyldust Þrymskviðu eru konsertarhans fyrir trompet, horn og nú síðast klarinett. Þetta gengur jafnvel svo langt að Jón notar heilu stefin sem birtust í Þrymskviðu og fornum dönsum. Má þar m.a. nefna upphaf þriðja þáttar óperunnar þar sem Þrymur syngur glaðhlakkalega og lofar eigið ágæti.

Þótt Jón moði þannig úr eigin stefjum og þjóðlögum verður það einhvern veginn ekki leiðigjarnt. En stíllinn er augljós.

Ríkisútvarpið ætti að gera tónlist íslenskra tónskálda aðgengilega. Með nútíma verslunartækni ætti að vera hægt að selja áhugasömu fólki mp3-afrit tónverka og sönglaga og hjálpa tónelsku fólki að eignast þannig safn íslenskra tónlistar sem ekki hefur verið gefin út á hljómdiskum.

Jón Ásgeirsson er ekki dauður úr öllum æðum og vænta má fleiri konserta úr hendi hans. Ég hlakka til að heyra hvað þeir bera í brunni sér.

Gleðilegt ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband