Fulltrúi soðningaríhaldsins veldur uppnámi

Í þeirri hörðu kjaradeilu, sem nú er háð af launamönnum þessa lands, var Kristján Loftsson, formaður stjórnar HB-Granda, bæði fáfróður og hrokafullur í útvarpsviðtali sem tekið var við hann í fyrradag. Ýmsir hljóta að velda því fyrir sér hvað maður með svipuð viðhorf og þekkingu á högum starfsmanna sé að gera í stóli stjórnarformanns. Sé það rétt að formaður stjórnar Granda gegni vart öðrum skyldum en þeim að sitja einn stjórnarfund á mánuði eð tímagjald hans hærra en þekkst hefur. Hann þyrfti einungis að sitja 10 stjórnarfundi á ári til þess að missa allan rétt til ellilífeyris!

Kristján veit hvorki hver grunnlaun starfsfólksins eru né kaupauki (bónus). En skuldin er ekki eingöngu hans. Í raun er rétt að skella allri skuldinni á þá fulltrúa sem sóttu aðalfund Granda og virðast algerlega úr tengslum við þann hluta almennings sem bera eina minnst úr bítum.

 

Vel rekið fyrirtæki en vinnuníðingar?

Heimildir herma að hagnaður Granda hafi numið 5,7 milljörðum króna og að hjá fyrirtækinu starfi um 500 manns. Það þýðir að hver starfsmaður skilar 10 milljörðum í hreinan arð. Hluthafar fengu 2,7 milljarða í sinn hlut og þar af lífeyrissjóðir um 30% eða rúmar 800 miljónir. Hefðu hluthafar afsalað sér helmingi arðsins eða ekki nema fjórðungi hefði verið grundvöllur fyrir því að ganga að kröfum verkalýðsfélaganna – ef kröfur skyldi kalla. Í stað þess slær Kristján Loftsson höfðinu við steininn og þykist ekki vita neitt en endar útvarpsviðtal með heimskulegri gamansögu. Samtök atvinnulífsins vara við hækkunum í fiskvinnslu. Hvers vegna geta norsk og færeysk fiskvinnslufyrirtæki greitt umtalsvert hærri laun en hér á landi og þó skilað hagnaði?

 

Hvað gerir Morgunblaðið?

Mogginn birti fréttir í morgun af mótmælum gegn hækkun launa stjórnarmanna í Granda, en þess sáust engin merki í leiðurum blaðsins að ritstjórum þætti nokkuð fyrir þessum hækkunum. Er það vegna eignarhaldsins á blaðinu?

Sá mæti maður, Sigurður Einarsson, forstjóri Ísfélags Vestmannaeyja, kvartaði eitt sinn undan því við tvo blaðamenn, sem heimsóttu hann, að ritstjóri bæjarblaðsins Frétta í Vestmannaeyjum væri einnat ósanngjarn í garð útgerðarmanna, sem ættu flestir hlut í blaðinu. Hann var þá spurður hvort blaðið skilaði hagnaði og játti hann því. „Þá er það ráð mitt,“ svaraði annar þeirra, „að þið gerið ekkert í málinu. Ef þið farið að skipta ykkur af ritstjórn blaðsins er það dauðadæmt.“ Sigurður þagði örlitla stund og sagði síðan: „Já, þetta er sennilega rétt hjá þér.“

Það er ekki víst að núverandi eigandi Morgunblaðsins hyggist skipta sér af ritstjórum þess með sama hætti og Jón Ásgeir af ritstjórum Fréttablaðsins. En Morgunblaðið, sem kallar sig stundum blað allra landsmanna, verður að reka af sér þann orðróm að ritstjórarnir séu í vasa soðningaríhaldsins. Verða ofurlaun og umframhækkanir stjórnenda Granda og annarra fyrirtækja efni næsta Reykjavíkurbréfs eða verður látið nægja að jagast vegna áhuga bankamanna á ofurverðlaunum vegna ímyndaðrar samkeppni og ofurábyrgðar?

 


Versnandi aðgengi að vefsíðum og máttleysi Öryrkjabandalagsins

Svo virðist sem aðgengi að opinberum vefsíðum fari versnandi hér á landi. Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu um að heimasíður skuli aðgengilegar í samræmi við aukið upplýsingaaðgengi virðist sem fleiri og fleiri fyrirtæki og stofnanir gleymi þessum þætti.
Í lögum um Ríkisútvarpið er kveðið skýrt á um að leitað skuli tæknilegra lausna til að bæta aðgengi blindra og sjónskertra. Það gleymist iðulega þegar vefur Ríkisútvarpsins er uppfærður og iðulega er ekki hafist handa við að bæta aðgengið fyrr en einhver kvartar.
Síðasta dæmið sem ég hef rekist á er síða Vinnumálastofnunar. Þar getur einstaklingur, sem notar skjálesara, ekki lokið skráningum. Hafi skráningarskjalið verið vistað til bráðabirgða finnur skjálesarinn enga leið til að opna það. Ýmislegt fleira mætti nefna þessari síðu til foráttu, enda sjást engin dæmi þess að hún hafi verið vottuð af til þess bærum aðilum.
Það var sorglegt að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna skyldi ekki hafa döngun í sér til þess að setja eða a.m.k. reyna að fá samþykkt lög um upplýsingaaðgengi.
Eitt sinn dáðist vinur Davíðs Oddssonar að því að Davíð hefði þaggað niður í Öryrkjabandalagi Íslands um leið og hann fór í Seðlabankann. Þegar þessu var andæft sagði vinurinn: "Jú, takið eftir að enginn tekur lengur mark á Öryrkjabandalaginu því að við sáum um að planta réttum manni á réttan stað á réttum tíma."
Nú er þessi rétti maður löngu hættur, en einhvern veginn virðist Öryrkjabandalag Íslands vera hálflömuð stofnun sem má sín lítils og formaðurinn ekki einu sinni úr hópi fatlaðra. Að minnsta kosti hefur upplýsingaaðgengið alveg horfið af metnaðarlista bandalagsins. Hvað segja félög eins og Blindrafélagið, Félag heyrnarlausra og Félag lesblindra við þessari þróun?
Að lokum: Er þetta viðeigandi yfirlýsing á vefsíðu Öryrkjabandalagsins? "...fatlað fólk á rétt á viðeigandi lífskjörum..." Hvaða lífskjör eru viðeigandi fötluðu fólki?
 


Snilldarverk í Útvarpsleikhúsinu um páskana

Útvarpsleikhúsið hóf í dag að flytja leikgerð bókarinnar Elsku Míó minn eftir Astrid Lindgren í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns.
Það er skemmst frá því að segja að útvarpsgerðin er frábær. Einar Sigurðsson sá um tækni og Kolbrún Halldórsdóttir leikstýrði. Hljóðheimurinn var að mestu sannfærandi. Þó hefði mátt breyta öðru hverju hófataki hestsins sem Míó reið, t.d. þegar hann þaut yfir brúna. Rafhljóð, sem mynduðu dulúð verksins, voru hæfileg og náttúruhljóðin vel af hendi leyst.
Þá er ástæða til að hrósa börnunum sem taka þátt í flutningnum og Þórhalli Sigurðssyni sem lék brunninn af stakri snilld.
Í lokakynningunni varð leikstjóra á. "Útvarpsleikhúsið flutti Elsku Míó minn eftir Astrid Lindgren, fyrsti hluti". Þarna hefði betur farið á að nota þolfall, fyrsta hluta. Svona fer íslenska fallakerfið smám saman halloka fyrir enskum áhrifum og útvarpsfólk er ekki lengur fært um að veita mótspyrnu.
Þulir fyrri tíðar hefðu væntanlega orðað þetta þannig: "Útvarpsleikhúsið flutti fyrsta hluta .... o.s.frv.
Leikverkið og flutningur þess fær fullt hús stiga, en þulurinn féll á prófinu í lokin.


Alger niðurlæging Alþingis

Kjarninn er án vafa orðinn einn áhrifamesti fjölmiðill landsins. Í morgunpósti Kjarnans birtust þessar vangaveltur.

 

„Þegar Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þáverandi

utanríkisráðherra, ákváðu upp á sitt einsdæmi að setja Ísland á „lista hinna staðföstu þjóða“ til stuðnings hernaðaraðgerðum bandamanna í Írak á vordögum árið 2003, mætti ákvörðunin mikilli gagnrýni í samfélaginu og á hinu háa Alþingi. Ekki síst fyrir þær sakir að ákvörðunin skyldi ekki hafa verið borin undir utanríkismálanefnd þingsins, og þar fór þingmaður stjórnarandstöðunnar að nafni Össur Skarphéðinsson mikinn.

Sami Össur ákvað svo nokkrum árum síðar, þegar hann var sjálfur orðinn utanríkisráðherra, nánar tiltekið árið 2011, að undirrita reglugerð um þvingunaraðgerðir gegn Líbýu án þess að spyrja kóng né prest og hvað þá utanríkismálanefnda Alþingis. Og viti menn, ákvörðun Össurar var harðlega gagnrýnd.

Gunnar Bragi Sveinsson, núverandi utanríkisráðherra, hefur meðal annars vísað til ofangreindra dæma til að réttlæta nýlega ákvörðun sína að bera ekki, að svo er virðist að minnsta kosti, máttlausa tilraun sína til að slíta viðræðum við Evrópusambandið. Víst Davíð, Halldór og Össur höfðu ekki fyrir því að hafa utanríkismálanefnd þingsins með í ráðum, af hverju í ósköpunum skyldi hann þá gera það?

Pæling Kjarnans: Er það boðlegt að vísa til gagnrýniverðra og umdeildra vinnubragða í fyrndinni til að réttlæta gagnrýniverð og óboðleg vinnubrögð í dag? Eru umdeildar ákvarðanir vel til þess fallnar að réttlæta fleiri umdeildar ákvarðanir? Er slík röksemdarfærsla líkleg til að setja gott fordæmi íslenskri stjórnmálamenningu til heilla?“

 

Það er ekki lengur nokkrum vafa undirorpið að niðurlæging Alþingis er orðin alger. Þar tíðkast varla rökræður heldur ofbeldisstjórnmál. Ýmsir liðir eins og athugasemdir við stjórn forseta eru notaðir til þess að tefja störf þingsins með þrasi og þrætubókarlist sem litlu skilar. Mál eru tekin í gíslingu með málþófi og virðist þar enginn stjórnmálaflokkur öðrum skárri.

Á meðan siðferði þingsins er ekki meira en þetta þarf enginn að velkjast í vafa um „réttmæti“ þess að ríkisstjórnin laumist til þess að óska eftir því við Evrópusambandið að Ísland verði tekið af lista umsóknarríkja.

Óheilindi og blekkingar stjórnarandstöðunnar, sem leikur með í spillingunni, birtast síðan í þeirri staðreynd að nú hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga um að umræðum um aðild skuli haldið áfram. Vinstri grænir, sem eru á móti aðild, taka þátt í hráskinnaleiknum af engu minni ástríðu en Samfylkingin.

Greinilegt er að siðbótar er þörf á Alþingi. Beita þarf breyttum aðferðum og meiri aga en hingað til. Það eykur raunverulegt lýðræði og hindrar lýðskrumið sem nú er stundað á Alþingi.

 


Kalt fótabað gegn blindu - gamalt húsráð?

Kastljósþáttur Ríkisútvarpsins sjónvarps í gærkvöld vakti mikla athygli fyrir ýmissa hluta sakir. Þar birtust ákveðnir þættir mannlegs eðlis sem annaðhvort er hægt að skýra sem dæmi um fádæma trúgirni sölumanna, ósvífni, loddaraskap, hjátrú eða hreinlega kukl.

Fátt af því sem sölumennirnir í kastljósi kvöldsins fjölluðu um, á nokkuð skylt við svokallaðar heildrænar lækningar, en það orð nota þeir í yfirlýsingu sem birt er á síðu Kastljóss.

Kuklarar eru allmargir hér á landi og virðast sumir þeirra ná ótrúlegum tökum á fólki. Sumum tekst að féfletta saklaust fólk, beina því frá læknum og einatt liggur við stórslysum þegar ættingjar sjúklinga átta sig og grípa til eigin ráða. Af þessu eru til sögur sem ef til vill væri rétt að birta með tíð og tíma.

Annars vegar er margt góðviljað og trúgjarnt fólk á ferð sem bendir á að Jesús hafi læknað blinda o.s.frv. Hér áður fyrr máttum við tvíburarnir iðulega þola ágang slíks fólks, sem sumt var úr sértrúarsöfnuðum, en annað hrjáði eitthvað enn annað. Ollu þessi ummæli undirrituðum miklu hugarangri og jafnvel örvilnan, þegar hann áttaði sig á því á 10. Og 11. Ári, að sjónin færi þverrandi og hyrfi sjálfsagt alveg. Bænir barnsins hrifu ekki – kannski hefur trú þess ekki verið nógu mikil.:)

 

Fótabað gegn blindu

Mér var eitt sinn gefið mjög fýsilegt ráð sem ég hef aldrei fylgt.

Sveitungi okkar Guðjóns sigurðssonar, formanns MND-félagsins, fór eitt sinn á fyllirí. Maður þessi var dagfarsprúður og fámæltur en færðist allur í aukana þegar þeir Bakkus áttu samleið. Svo vildi til að hann var staddur hjá frænku minni í eldhúsinu, þegar mig bar að garði, sennilega hef ég verið á 10. ári. Maðurinn sagðist kunna óbrigðult ráð gegn blindu.

„Náðu í vaskafat, þegar þú ert háttaður, fylltu það af köldu vatni og farðu í fótabað. Þegar þér er orðið jökulkalt á fótunum skaltu flýta þér inn í herbergi og skella þér upp í rúm. Þú mátt ekki láta nokkurn mann vita af þessu. Nú, þegar þú vaknar á morgun sérðu betur en ég!“

Frænka mín trúði þessu ekki og sagði þessa sögu einatt þegar sagna var þörf.

Þessu heillaráði er hér með komið á framfæri, ef einhver vill reyna það.

 


mbl.is Selja dauðvona sjúklingum von
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatnsskarðsskrímslið í lifandi landslagi o.fl.

Þrennt er mér hugstætt nú í morgunsárið.

1. Í gær byrjaði ballið í snjalla farsímanum mínum. Alls konar auglýsingar hrúguðust inn og upplýsingar um fólk sem ég hef átt samskipti við. Einn var staddur á Kaffitári og annar eihvers staðar annars staðar. Ég ákvað því að skrá mig út af Fésbókinni og vera ekki sítengdur til að forðast þessar upplýsingar.

2. Í morgun var kynnt smáforritið Lifandi landslag með þjóðlegum fróðleik úr Skagafirði. Verður forritinu hleypt af stokkunum á sæluviku Skagfirðinga. Vonandi verður það gert aðgengilegt öllum. Kynningin hófst á þjóðsögunni um Vatnsskarðsskrímslið. Það er til og gengur ljósum logum. Árið 1995 fórum við hjónin hjólandi norður á Akureyri. Gekk sú ferð að mestu áfallalaust. Á vatnsskarðinu var ný olíumöl og hámarkshraði 50 km. Þar sem við vorum á leið niður skarðið á u.þ.b. 45-50 km hraða á hjólinu brussaðist fram úr okkur jeppi á miklum hraða og jós yfir okkur grjóti. Var það óþægilegt. Þarna var vafalítið Vatnsskarðsskrímslið á ferð í gervi skagfirskrar stúlku á jeppa.

3. Í morgun sá ég í fyrsta skiptið orðið "fótnótu" á síðum Morgunblaðsins. Hingað til hefur fyrirbærið verið kallað neðanmálsgrein.


Jaðrar við níðingsverk

Það jaðrar við níðingshátt hvernig komið hefur verið fram við notendur ferðaþjónustu fatlaðra og er þá borgarstjórnarmeirihlutinn ekki undanskilinn. Hver mistökin hafa verið gerð á fætur öðrum og kerfið er svifaseint. Spyrja má eftirtalinna spurninga:
1. Hvers vegna var Ferðaþjónusta fatlaðra lögð niður?
2. Var fatlað fólk haft með í ráðum þegar ákvörðunin var tekin?
3. Hverjir áttu hugmyndina?
4. Lágu einhverjir hagsmunir að væntanlegri hagræðingu?
5. Ætlar Reykjavíkurborg að einkavæða þjónustuver borgarinnar, hitaveituna, félagsaðstoð, málefni aldraðra og fleiri einingar? Sé svarið nei, hvers vegna ekki?
EKKERT UM OKKUR ÁN OKKAR er kjörorð fatlaðra.


mbl.is Stúlkan sem sat ein í bílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glöggt er gestsaugað - eru Íslendingar að mylja undan sjálfum sér?

Nefnd frá Vináttusamtökum kínversku þjóðarinnar við erlend ríki var hér í þriggja daga heimsókn. Á milli funda gáfu nenfdarmenn sér tíma til þess að skoða sig um í íslenskum verslunum og keytptu sitthvað. Þeir voru einkar hrifnir af íslenskri hönnun á mörgum sviðum, en brá í brún þegar þeir sáu að varningurinn væri framleiddur í Kína.
„Ég get alls ekki hugsað mér að koma heim með eitthvað sem er sagt vera íslenskt og eiga kannski eftir að rekast á það úti í búð,“ sagði einn nefndarmanna.
Vafalaust væri hægt að framleiða sitthvað af þessum varningi hér á landi og selja með nokkrum hagnaði því að verð í verslunum, sem leggja áherslu á þjónustu við ferðamenn, er oft uppsprengt. Þannig er það víðar í veröldinni.


Páll Óskar Hjálmtýsson næsti forseti!

Fullyrt er að nú séu hafnar þreifingar um að Páll Óskar Hjálmtýsson bjóði sig fram til embættis forseta Íslands. Þá er því haldið fram að Salvör Nordal verði hans öflugasti andstæðingur, en framboð Páls Óskars muni valda sundrungu í „Jóns Gnarrs-liðinu“ eins og það var orðað af heimildarmanni.

Ýmsir eru taldir munu fylkja sér um Pál Óskar og vilji um leið að Íslendingar skrái enn eitt frumkvæði sitt á spjöld sögunnar. Þrennt er nefnt. Vigdís varð fyrst kvenna forseti eftir lýðræðislegar kosningar, Jóhanna Sigurðardóttir fyrsta konan í embætti forsætisráðherra á Íslandi og jafnframt fyrsta samkynhneigða konan á slíkum stóli og að lokum Páll Óskar fyrsti samkynhneigði forseti lýðveldisins og jafnvel þótt víðar væri leitað.

Heimildarmaður skipaði væntanlegum frambjóðendum í flokka. Hann taldi yfirburði Salvarar ótvíræða á ýmsum sviðum, en vinsældir Páls Óskars á meðal yngri kjósenda og samkynhneigð hans yrðu samt til þess að hann fengi um eða yfir 40% atkvæða sem nægðu til þess að hann næði kjöri. Minnti hann m.a. á árlega gleðigöngu samkynhneigðra sem sýndi mikinn stuðning við málstaðinn.

 


Dæmisaga úr nýjatestamentinu sem dásamar gróðafíkn - fyrirmynd útrásarvíkinga?

Í dag var sunnudagsprédikunin sagan um talenturnar úr Mattheasarguðspjalli, 14.-30. vers.

Í stuttu máli fjallar sagan um þrjá þjóna sem fengið var fé til ávöstunar. Tveir juku sjóðinn um helming en hinn þriðji fól í jörðu það sem honum var fengið. Að nokkrum tíma krafðist húsbóndi þeirra fjármuna sinna og fékk hann þá með vöxtum frá tveimur þjónanna, en sá þriðji óttaðist húsbónda sinn og lét hann því hafa það sem honum hafði verið afhent.

Presturinn viðurkenndi fyrir mér að erfitt væri að leggja út af þessari sögu. Ég sagðist ekki trúa því að sagan væri úr smiðju Krists. Hún hlyti að hafa verið samin til þess að samræma skoðanir kristinna manna auðhyggju Rómarveldis svo að trúin yrði auðsættanlegri Konstantínusi mikla. Presturinn, sem er með víðsýnni prestum og skemmtilegri, sem ég þekki. taldi rétt að leggjast í rannsóknir á uppruna sögunnar.

Ég birti dæmisöguna hér fyrir neðan og meti nú hver fyrir sig. Er ekki þarna réttilega lýst gróðahyggju og græðgi kaupahéðnanna sem gerðu Ísland gjaldþrota og er þessi saga e.t.v undirstaða Kalvínismans?

Lýsing þjónsins, sem kastað var út í ystu myrkur, á húsbónda sínum, er svona:

„Ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki.“ Þarna er siðlaus líking á því hvernig menn geta aflað sér fjár því að ekki var spurt um aðferðirnar sem þjónarnir notuðu til að ávaxta fé húsbónda síns. Voru þeir e.t.v. okrarar? Þarna er lýst himnaríki hinna ríku.

 

14 Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar.

15 Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi.

16 Sá sem fékk fimm talentur, fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm.

17 Eins gjörði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær.

18 En sá sem fékk eina, fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.

19 Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil.

20 Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: ,Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.'

21 Húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.'

22 Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: ,Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær.'

23 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.'

24 Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: ,Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki.

25 Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.'

26 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar, sem ég sáði ekki, og safna þar, sem ég stráði ekki.

27 Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum, þegar ég kom heim.

28 Takið af honum talentuna, og fáið þeim, sem hefur tíu talenturnar.

29 Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.

30 Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.'


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband