Morgunpóstur Kjarnans í dag hefst svo:
Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, utanríkisráðherra og seðlabankastjóri skrifaði svakalegt Reykjavíkurbréf í sunnudagsmoggann. Þar hafnar hann að bankarnir hafi verið einkavinavæddi, og lög hafi verið brotin þegar fyrrverandi ríkisstjórn nánast gaf Arion banka og Íslandsbanka erlendum kröfuhöfum.
Sé þetta rétt ályktað hjá pistilshöfundi Kjarnans skautar Davíð yfir ýmislegt sem tengist sölu bankanna í upphafi síðustu aldar, t.d. verðið og hvernig var lánað fyrir því í stað þess að erlendur gjaldeyrir yrði fluttur inn í landið. Leitt er í ljós hver inn raunverulegi einkavinur er sem er í sjálfu sér prýðilegt, enda um prýðis einstakling að ræða. En Davíð hefði sjálfsagt fengið meira pláss í Morgunblaði til þessa ævisöguágrips, sé það eftir hann, og þá hefði sitthvað fleira skýrst.
Það er sorglegt að Morgunblaðið sé orðið vettvangur manns sem virðist nærast á heift og langrækni í garð þeirra sem hann telur sig eiga sitthvað sökótt við. En þar sem ekki eru allir lesendur þessa bloggs áskrifendur að Morgunblaðinu þykir rétt að birta Reykjavíkurbréfið hér í heild.
Sögusmettum verður bumbult af sögunni þegar hún birtir lokaorðið
Viðskiptaráð veraldarinnar, framkvæmda- og athafnamenn eru vísast eins misjafnlega innréttaðir gagnvart trú og heimspeki eins og hitt fólkið í mannheimi og pólitísk binding hugans er sjálfsagt almennt ólík fyrir utan þann þátt sem snýr að frelsi í viðskiptum og almennu umhverfi þess.
Von vaknar
Það er þó sitt hvað sem einkennir þá í augum annarra, og eigin mati á sjálfum sér. Það er vonin um að fá eðlilegt svigrúm til að láta til sín taka, án fyrirmæla eða óeðlilegra hindana að ofan. Taka má Ísland sem dæmi. Það var mjög síðbúinn vettvangur frjálsra viðskipta og sat einmitt á sama tíma aftast á meri lífskjaranna. Um næstseinustu aldamót voru engin jarðgöng á Íslandi. En náttúran hafði gefið okkur forsmekkinn. Menn þekktu Víðgelmi og Surtshelli og því þekktu þeir tilfinninguna sem fylgir því að feta hrjúfa brautina í myrkri og sjá loks glitta í ljós. Þegar barátta Jóns Sigurðssonar og annarra í sömu erindum fór seint og um síðir að bera árangur gerðist einmitt þetta. Eftir barning í myrkri og þraut glitti í von um að betri tíð kynni að vera í vændum eftir allar þessar vondu og vonlitlu aldir. Ráðgjafaþing í Reykjavík, heimastjórn og loks fullveldi voru hraðfara risaskref, sé borið saman við aldalangt vonleysið. Það var eitthvað stórkostlegt að gerast.
En í augum nútímafólks, sem horfir um öxl, virðist þetta hafa verið agnarsmár árangur og varla farið fetið. En mestu varðaði að ferðin inn í framtíðina var hafin.
Heimatilbúnar meinlokur töfðu
Lítill markaður og veikluð kaupgeta alls almennings einkenndu fyrri hluta síðustu aldar. Þó fór þeim smám saman fjölgandi sem höfðu raunverulegar launatekjur, sem var undantekning í gamla íslenska bændasamfélaginu, ef embættismenn og prestar eru taldir frá.
Höft, í fjölbreyttari mynd en þau sem nú eru mest umtöluð, og pólitísk forsjá, oft í smáu sem stóru, einkenndu fyrstu 60 ár aldarinnar og takmörkuðu hreyfanleika þess fjár sem sem óx með skútuöld og auknum viðskiptum. Og þessa gætti enn þótt með bresku og bandarísku hernámi 1940-1945 hafi vellaunuðum störfum fjölgað mjög og digrir sjóðir myndast í erlendum gjaldeyri með almennum viðskiptum við bandamannaþjóðirnar.
En landið, svo fagurt og unaðslegt sem það var og er, naut sín ekki til fulls. Eftir heil 1000 ár var það enn um margt eins og ónumið væri.
Það hamlaði vexti margra atvinnugreina. Landið var nánast ófært fyrir almenna umferð lungann af öldinni, ef miðað er við það sem nú er. Ferðaþjónusta fór því hægt af stað. Nú spretta hótel upp eins og gorkúlur og mætti fara að með meiri gát. En lengi var það haft í flimtingum að ekkert hótel gæti borið sig fyrr en það hefði farið myndarlega á höfuðið fjórum sinnum, svo að allur stofnkostnaður, sem aðallega var fenginn úr opinberum sjóðum, hefði verið afskrifaður. En jafnvel þau hótel, sem farið höfðu samviskusamlega alla tilskilda kollhnísa, fóru samt á hausinn, því íslenska ferðaárið stóð aðeins í fáeinar vikur.
Það eina sem mátti sín
Enginn gat gert neitt stórt á Íslandi á þeirri tíð nema hið opinbera. Það, sem annars staðar var í höndum einkaaðila, var hér á landi í höndum ríkisins eða sveitarfélaga. Annaðhvort vegna þess að enginn hafði bolmagn til eins eða neins og lánsfé lá ekki á lausu eða að stjórnmálaleg þráhyggja sá svo um. Það kom mörgum á óvart að einkavæðing Bæjarútgerðar í Reykjavík skyldi lukkast svo vel sem hún gerði og verða borgarsjóði svona hagstæð.
Ýmsum hentar að láta eins og einkavæðing banka í landinu hafi verið neikvætt skref, jafnvel óháð því hvernig mönnum þótti slík einkavæðing hafa tekist.
En góðu ríkisbankarnir, sem sumir halda að þeir eigi að sakna eftir alla ruglingslegu umræðuna um það mál, voru ekki mjög burðugir.
Snemma á 10. áratug síðustu aldar varð þáverandi ríkisstjórn og seðlabanki að bregðast fljótt við til að koma í veg fyrir að sjálfur Landsbanki Íslands kæmist í þrot. Ríkissjóður og Seðlabankinn lögðu fram fé og ábyrgðust víkjandi lán fyrir bankann. Það er undra stutt síðan. Eitt það eftirtektarverðasta við þennan atburð nú er hve lág fjárhæðin var sem um var að tefla og þurfti til að koma mætti í veg fyrir að stærsti banki landsins færi á hliðina.
Án þess að fletta því upp til staðfestingar má af sæmilegu öryggi nefna töluna fjóra milljarða króna. Helmingur aðstoðarinnar kom sem bein fjárhagsaðstoð og hitt var tryggt með víkjandi lánsábyrgð.
Landsbankinn greiddi síðar féð til baka og engar ábyrgðir lentu á ríkissjóði.
Allt fram undir seinasta hluta aldarinnar gátu fyrirtæki ekki fengið nýtanlegar upphæðir að láni til fjárfestinga án þess að nefnd um langtímalán færi yfir slíkar beiðnir og viðskiptaráðherra samþykkti persónulega einstök lán. Hafði ráðherra mjög frjálsar hendur um mat sitt og ákvörðun.
Þegar fyrirtæki stækkuðu, svo sem Flugleiðir eða Eimskip, fengu þau leyfi til að vera með meginviðskipti sín við erlenda banka, því íslenska bankakerfið var ófært um að veita þeim þá þjónustu sem var óhjákvæmileg stærri fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni.
Mýturnar mygla ein af annarri
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hótaði því sýknt og heilagt að láta rannsaka einkavæðingu bankanna.
(Sú einkavæðing hefur gjarnan verið í sniðugheitum kölluð einkavinavæðing, sem er óneitanlega dálítið snjallt, enda kom hinn orðhagi rithöfundur og raunar fjöllistamaður, Ingólfur Margeirsson, fyrstur fram með það orð.
Þeir sem keyptu eða komust yfir þrjá stærstu íslensku bankanna voru auðvitað einkavinir þáverandi forsætisráðherra. Forstjóri banka Kaupþings í London segir frá því í bók, að þegar æðstu yfirmenn Kaupþings fengu þær fréttir að sá forsætisráðherra væri loks að hætta þá hafi þeir slegið upp gleðskap og dregið tappa úr eðalvínum. Einkavinur forsætisráðherrans númer 2, Jón Ásgeir Jóhannesson, réð yfir Glitni og skuldaði stjarnfræðilegar upphæðir í íslensku bankakerfi og eru ekki til dæmi um slíkar skuldir eins manns í nokkru bankakerfi í veröldinni.
Einkavinur númer 3 var Björgólfur Guðmundsson, sem fjármagnaði Albert Guðmundsson í baráttu hans gegn Davíð Oddssyni í prófkjöri um borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins vegna kosninga 1982.
Eini einkavinurinn með réttu var Kjartan Gunnarsson, sem mun hafa átt nærri 1% í Landsbankanum áður en yfir lauk. Þessar staðreyndir breyta raunar engu um að orðssmíðin er prýðileg og þessar staðreyndir breyta heldur engu um dellu fullyrðingar. Hinir óforbetranlegu halda sínu striki hversu skakkt sem það er.)
Á nýlegri ráðstefnu í Háskóla Íslands upplýstu fræðimenn, án andmæla, að ekki fyndist fótur fyrir tveimur vinsælum mýtum. Önnur var um ummæli þáverandi seðlabankastjóra í Kastljósi, daginn eftir að neyðarlög voru sett.
Spekingar í Samfylkingu, vefvitringar og lítt hæfir launaðir erindrekar sjálfs Ríkisútvarpsins, innanlands sem utan, höfðu lengi haldið því fram að forkastanleg ummæli þáverandi seðlabankastjóra um að íslenska þjóðin ætti ekki að axla skuldir óreiðumanna væri ástæðan fyrir óverjandi viðbrögðum Gordons Browns, en ekki yfirgengileg vanstilling hans sjálfs og neyðarlögin frá deginum áður.
Allar voru þær fullyrðingar auðvitað tilhæfulausar að mati fræðimannanna, svo sem raunar allir með gripsvit hafa lengi vitað.
Horfnar hótanir
Íslensku bankarnir fóru illa haustið 2008 eins og þúsundir erlendra banka. Sumum hinna erlendu tókst að bjarga. Fá lönd, sem í erfiðleikunum lentu, reyndu að bjarga öllum sínum bönkum.
Dæmin eru kunn frá Danmörku og Bandaríkjunum. Stærsti banki Danmerkur, Danske Bank, riðaði til falls. Það kom öllum í opna skjöldu, þ.m.t. ríkisstjórn, seðlabanka og fjármálaeftirliti.
Stjórnmálamenn stærstu flokka landsins hittust á leynifundum með framangeindum stofnunum og danskt og bandaríkst fé var fengið til að bjarga stórbankanum.
Sérfræðingar þaðan höfðu gapað um íslenska banka, og giskað rétt um sumt, virtust hins vegar ekkert vita um sinn eigin stórbanka.
Margir danskir bankar voru settir á guð og gaddinn.
Sá íslenski banki sem fyrstur féll og dró hina með sér í fallinu (enda voru þeir veikir fyrir) var ekki einka(vina)væddur á ríkisstjórnarárunum frá 1991-2005, eins og ætla mætti af afskræmdri umræðu. Þá einkavæðingu, sem snerti tilveru þess banka, framkvæmdi ríkisstjórnin sem sat árin 1987-1991.
Í þeirri stjórn voru tveir ráðherrar sem betur urðu kunnir síðar: Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Sífelldar hótanir Jóhönnu Sigurðardóttur, í öll hennar fjögur ár á valdastóli, um að láta rannsaka einka(vina)væðingu ríkisbankanna urðu aðeins orðin tóm. Og það þótt Morgunblaðið mælti í ritstjórnargreinum sínum eindregið með því að slík rannsókn færi fram, teldu menn ástæðu til þess. Því miður var sjaldan tilefni til þess að taka undir hugmyndir eða hótanir Jóhönnu Sigurðardóttur þessi fjögur ár. En það var gert í þessu tilviki. Engin skýring er til á því, hvers vegna Jóhanna lét ekki verða af þessum hótunum, þrátt fyrir ótvíræðan stuðning úr óvæntri átt.
Kannski má rekja það athafnaleysi til þess, að Ríkisendurskoðun hafði þegar, að sérstakri ósk, látið rannsaka þá einka(vina)væðingu.
Auðvitað gerði stofnunin þá sínar athugasemdir um einstök atriði, eins og jafnan gerist, en engin þeirra var í átt til þess sem Jóhanna dylgjaði um, svo ekki sé minnst á sögusmettur á vefnum. Lög höfðu ekki verið sniðgengin.
En þegar tveir íslenskir bankar voru hins vegar nánast gefnir erlendum kröfuhöfum var það gert án umræðu og án lagaheimildar, svo ótrúlega sem það hljómar. Þá héldu þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon um stýri þjóðarskútunnar.
Þau gerðu það þannig, að þjóðarskútan velktist um eins og í óveðri, þótt hún væri bundin við bryggju nánast allt kjörtímabilið, og fékk aldrei að sækja björg í bú.
Íslenskum kjósendum var nóg boðið. Þeir tóku sig því saman og settu strandkapteinana tvo í land, með slíkum vitnisburði, að ekki er líklegt að nokkur, sem hann les, ráði þá í sambærilega vinnu aftur.
Það er þó huggunarríkt.
Stjórnmál og samfélag | 1.2.2015 | 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er þett ásættanlegt? Morgunblaðið birti eftirfarandi frétt í dag:
"Allir sem hafa farið inn á Facebook eftir 1. janúar s.l. hafa veitt fyrirtækinu leyfi til að safna upplýsingum af öllum tækjum sem notuð eru til að fara inn á samskiptamiðilinn. Ekkert verndar fólk fyrir því að löggæsluaðilar fái aðgang að þeim gögnum, að sögn ráðgjafa hjá Deloitte.
Nýir notendaskilmálar tóku gildi á Facebook 1. janúar og fjallaði Ævar Einarsson, liðsstjóri upplýsingatækniráðgjafar Deloitte, um þá á málþingi Persónuverndar um rafrænt eftirlit í gær. Þeir veita bandaríska fyrirtækinu víðtækar heimildir til þess að safna upplýsingum um notandann sem hann hefur enga stjórn yfir, án þess hreinlega að hætta að nota miðilinn.
Ævar benti á að áætlað væri að 70% af öllum nettengdum fullorðnum einstaklingum í heiminum séu með Facebook-aðgang. Fyrirtækið sitji þannig á miklum upplýsingum um heiminn. Þær skiptist í tvo flokka, annars vegar þær sem fólk setji sjálfviljugt inn, myndir, stöðuuppfærslur og ummæli, og hins vegar upplýsingar sem skapast við notkunina. Þ.ám. upplýsingar um staðsetningu notandans og IP-tölu.
Ekki þurfti að samþykkja skilmálana sérstaklega heldur töldust þeir samþykktir um leið og fólk fór inn á Facebook eftir 1. janúar."
Hvað er til ráða?
Stjórnmál og samfélag | 29.1.2015 | 07:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í krafti sannfæringar, ævisaga Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrum hæstaréttardómara, rituð af honum sjálfum, kom út í haust. Að loknum lestri hennar sendi ég höfundi eftirfarandi bréf, en sagan er bæði einlæg og á köflum óvægin, enda talar höfundurinn enga tæpitungu.
Sæll, Jón Steinar,
Ég hef nýlokið við að lesa ævisögu þína og þótti mér hún hin merkasta bók - reyndar svo viðamikil og athyglisverð að ýmislegt í henni krefst nánari skoðunar við tækifæri. Bókin er margslungin eins og Njála og við lesturinn koma í hugan sífellt nýjar myndir og þankar.
Það er alllangt síðan ég fór að fylgjast með ferli þínum. Eins og gengur og gerist var ég mishrifin af ýmsu sem þú lést frá þér fara á fyrri árum. Stundum held ég að umfjöllun fjölmiðla hafi mótað skoðanir mínar og viðbrögð, en greinar þínar, einkum í Morgunblaðinu, leiðréttu sumt.
Athyglisverðar þykja mér frásagnir þínar af Hæstarétti. Ég hafði ímyndað mér að þar hefði ýmsu þokað áleiðis frá því sem var um miðja síðustu öld. Þegar ég tók að fylgjast með sem barn og unglingur á 7. áratug síðustu aldar virtist mér einatt sem Hæstiréttur dæmdi stundum út frá pólitískum forsendum og kunningskap en af sanngirni og raunverulegum málsástæðum. Faðir minn, Helgi Benediktsson, fékk fjölda mála fluttan fyrir Hæstarétti. Sum unnu lögmenn hans en önnur ekki. Síðasta málið fór þannig að honum var dæmt í hag en málskostnaður látinn niður falla og varð það ásamt ýmsu til þess að fjárhagur hans og fjölskyldunnar beið nokkurn hnekki.
Það olli mér því vonbrigðum þegar dómur Hæstaréttar 19. desember 2000 í öryrkjamálinu varð eins og véfrétt og allt, sem á eftir fór næstu vikurnar varð eins og hin versta martröð. Þá veldur það vissulega áhyggjum að ástandið sé eins og þú lýsir því. Ég ímynda mér að tillögur þínar um breytingar á réttinum séu einna best til þess fallnar að breyta honum.
Ég dáist mjög að einurð þinni og tryggð við lífsgildi þín og óska þér alls hins besta í baráttunni fyrir auknu réttlæti.
Bestu kveðjur,
Arnþór Helgason
Svar Jóns Steinars
Sæll Arnþór.
Kærar þakkir fyrir þessa orðsendingu.
Hún er mér mikils virði.
Mest er síðan um vert að menn sameini krafta sína til að gera það til endurbóta sem unnt er.
Kannski fyrst og fremst fyrir börnin okkar.
Endurteknar þakkir og megi þér vel farnast.
Jón Steinar
Bloggar | 18.1.2015 | 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Staksteinar Morgunblaðsins í dag fjalla um umsókn síðustu ríkisstjórnar að EES:
Á blog.is fjallar Ásthildur C. Þórðardóttir um bók Margrétar Tryggvadóttur, fyrrverandi alþingismanns, og umsóknina um aðild að Evrópusambandinu.
Fram kemur að í bókinni segi um umsóknarferlið: Ég skildi þetta ferli á eftirfarandi hátt og veit um fjöldann allan af fólki sem skildi þetta á sama hátt fyrir kosningar. Við sækjum um aðild að ESB en þetta eru í raun og veru eins konar könnunarviðræður þar sem við fáum að sjá hvað er í boði en við erum samt eiginlega ekki að sækja um aðild að ESB heldur kanna hvort kröfum okkar verði mætt. Ef okkur líkar illa við þann samning sem okkur verður boðinn getum við alltaf afþakkað og haldið áfram þar sem frá var horfið. Við erum sem sagt að fara í könnunarviðræður því að það er ekki víðtækur meirihluti, hvorki á Alþingi né meðal þjóðarinnar um stuðning við að ganga í Evrópusambandið.
Og áfram: Það fóru hins vegar að renna á okkur tvær grímur þegar við áttuðum okkur á tengslum Icesave-málsins og ESB-umsóknarinnar og þeim mikla hraða sem átti að vera á umsókninni.
Margrét lýsir því einnig hvernig snúið var upp á hendur ESB-andstæðinga í stjórnarliðinu og af öllum lýsingunum að dæma er augljóst að sótt var um á fölskum forsendum. Það hefur út af fyrir sig legið fyrir lengi, en þarna er komin viðurkenning enn eins þingmannsins.
Er ekki orðið tímabært að ljúka þessum ljóta leik?
Stjórnmál og samfélag | 17.1.2015 | 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ásmundur Friðriksson frá Vestmannaeyjum hefur sýnt af sér vítaverða fávisku með spurningu sinni á Fésbókinni um rannsókn á bakgrunni múslíma. Féttamaður Ríkisútvarpsins saumaði að honum í hádegisfréttum og stillti honum upp við vegg. Fréttamaðurinn hefur e.t.v. vitað að engin lög stæðu til þess að slík rannsókn færi fram, eins og Ásmundur ýjaði að.
Spyrja mætti hvort bakgrunnur allra Norðmanna hafi verið kannaður, sem hingað koma til lands eftir fjöldamorðin sumarið 2011. Það eru 15-20 Norðmenn fyrir hvern Íslending og samkvæmt hugsunargangi Ásmundar ætti því að vera nokkur hætta á ferðum.
Á Fésbókinni geysar hættuleg og öfgakennd umræða um minnihlutahópa í íslensku samfélagi. Þar er fólk, sem telur sig sannkristið ekki skárst. Grimmdin og miskunnarleysið er algert.
Ásmundur kemur úr vægðarlausu og grimmu samfélagi í Vestmannaeyjum þar sem ráðríkur meirihluti hefur einatt velgt þeim undir uggum sem reyna að synda gegn straumnum. Lítið leggst fyrir þingmanninn þegar hann í heimsku sinni og fáfræði um lög landsins kastar fram fyrirspurn sem ýfir öldur sem ef til vill verður erfitt að lægja. Því er spurn hvort slíkum manni sé sætt á Alþingi.
Ríkið rannsaki ekki fólk á grundvelli trúarskoðana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 13.1.2015 | 17:02 (breytt kl. 17:06) | Slóð | Facebook
Fyrir skömmu birtist í Morgunblaðinu grein sem nefnist Kapallinn gengur ekki upp þar sem leiddar voru líkur að því að ágóði af rekstri sæstrengs yfir til Bretlands, sem flytti rafmagn, yrði takmarkaður eða jafnvel enginn. Og nú birti Morgunblaðið í dag þessa frétt sem Helgi Bjarnason skrifaði:
Sá tími nálgast, með sömu þróun í sölu á roforku og virkjun hennar, að raforkan í landinu verði uppseld. Það myndi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir heimili og atvinnurekstur í landinu.
Hæg en stöðug aukning hefur verið í heildarraforkunotkun í landinu. Lítið bætist við framboðið því ekki er mikið virkjað. Orkukaupendur verða varir við að samkeppni er ekki mikil um að bjóða fram raforku og verðið fer hækkandi. Dæmi um það eru breytingar Landsvirkjunar á skilyrðum fyrir afhendingu á ótryggðri orku sem leiðir að óbreyttu til hækkunar á orkukostnaði fiskimjölsverksmiðjanna. Annað dæmi er minnkandi áhugi orkufyrirtækjanna á útboði Landsnets á orku til að mæta flutningstöpum á þessu ári. Aðeins tvö orkufyrirtæki buðu fram orku og þó ekki næga og verðið reyndist 23% hærra en á síðasta ári. Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir að verðhækkunin hljóti að sýna minni samkeppni, að samkeppni um söluna dragi verðið ekki lengur niður.
Megnið af framboðinni orku kom frá Landsvirkjun, eitthvað frá Orkuveitu Reykjavíkur en HS Orka tók ekki þátt. Guðmundur segir að einhverjar aðstæður hafi verið að breytast á markaðnum.
Landsvirkjun hefur selt allt
Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, segir að gagnaver og annar iðnaður um allt land hafi verið að bæta við sig og almenn umsvif, svo sem í ferðaþjónustu, kalli á aukna raforkunotkun. Landsvirkjun hafi haft ákveðið svigrúm en nú sé að koma að þeim tímapunkti að raforkan verði uppseld.
Með samningum við kísilver hefur Landsvirkjun lokið við að selja þá orku sem hún átti fyrirliggjandi. Björgvin segir ekki hægt að fullyrða hvenær virkjuð orka í landinu verði uppseld en farið sé að styttast í það.
Stjórnmál og samfélag | 12.1.2015 | 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dægurmálaumræða útvarpsstöðvanna í beinni útsendingu tekur á sig ýmsar myndir og mótar skoðanir sumrahlustenda. Þar skiptir miklu að stjórnendur séu vel undirbúnir. Talsvert þótti skorta á að stjórnandi umræðunnar í Kastljósi Ríkisútvarpsins í gær réði við hlutverk sitt. Hið sama má segja um talsmann múslíma í þættinum. af vörum beggja féllu ýmis ummæli sem betur hefðu verið ósögð.
Í gær átti ég tal við Íslending nokkurn. Skiptumst við á skoðunum um reynslu okkar af samstarfi við múslíma. Vorum við sammála um að þar leyndist margur gimsteinninn eins og meðal allra trúarhópa, þar sem margur gimsteinn glóir í mannsorpinu eins og Bólu-Hjálmar orðaði það.
Viðmælandi minn sagðist þó vera á sömu skoðun og hlustandi nokkur, sem fannst að Múslímar ættu ekki a fá að reisa hér mosku á meðan aðrir trúarhópar mættu ekki reisa kirkjur í múslímalöndum.
Hér er um mikla fáfræði og alhæfingu að ræða. Víða hafa múslímar og ýmsir trúarhópar búið í sátt og samlyndi og gera sem betur fer enn. Þar eru bæði moskur og kirkjur. Má þar nefna lönd eins og Palestínu, Egyptaland, Tyrkland og Sýrland, en þar eru Assiríngar kristnir. Nú er að vísu þrengt að þeim. Hið sama gildir um Írak.
Múslímar á Íslandi eru ekki íbúar landa eins og Saudi-Arabíu þar sem önnur lögmál kunna að gilda. Þess vegna hlýtur að fara um trúarbyggingar þeirra eins og kristinna söfnuða sem vilja koma sér upp kirkju.
Stjórnmál og samfélag | 9.1.2015 | 07:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útvarpsleikritið Blinda konan og þjónninn eftir Sigurð Pálsson, í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, er um margt snilldar vel gert verk. Tónlist Hildar Ingveldar Guðnadóttur og hljóðstjórn Einars Sigurðssonar spilltu ekki fyrir því.
Hljóðmyndin var yfirleitt sannfærandi og leikur höfundarins, Ólafíu Hrannar Jónsdóttur og Vals Freys Einarssonnar nær lýtalaus. Sennilega hefði mátt beita ákveðinni hljóðnemabrellu til þess að láta það heppnast betur þegar drukkna blinda konan hrundi í gólfið. Ýmsir hlusta á útvarpsleikritin með heyrnartólum og þar hefði þetta notið sín einkar vel.
Sigurður Pálsson leikur sér einkar vel að þeirri hugmynd að skapa persónur í leikriti og gera hlustendur óþyrmilega vara við endurskoðun og breytingar á handritinu. Að lokum fer svo að hann gefst hreinlega upp og allt er þurrkað út.
Útvarpsleikhússtjórinn hefur iðulega kynnt leikrit og ferst það vel úr hendi. Til nokkurra lýta finnst mér þegar sagt er: "Útvarpsleikhúsið flytur Blinda konan og þjónninn". Hvers vegna er ekki sagt "Útvarpsleikhúsið flytur Blindu konuna og þjóninn?" Þeir sem kunna íslensku vita að hér er þolfall á ferðinni og hvert nefnifallið og þar með heiti verksins er. Útvarpsleikhúsið ætti að hafa þetta í huga við framleiðslu næstu verka.
Öllum aðstandendum leikverksins er óskað til hamingju með þessa skemmtilegu leikfléttu sem gladdi eyru hlustenda í dag. Árið 2015 byrjar svo sannarlega vel hjá Útvarpsleikhúsinu.
Menning og listir | 4.1.2015 | 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við messu í Seltjarnarneskirkju í dag flutti Styrmir Gunnarsson, ritstjóri, athyglisverða hugvekju. Greindi hann m.a. galla þess og kosti sem fámennið á Íslandi hefur í för með sér. Sagði hann að bankahrunið 2008 mætti m.a. rekja til þess.
Kosti fámennisins taldi hann vera nálægð fólks hvert við annað. Rakti hann hvernig Íslendingar ættu að geta nýtt fámennið til þess að efla ýmsa samfélagsþætti. Í ræðunni fjallaði hann um ýmsa hópa sem standa höllum fæti í samfélaginu og taldi upp nokkur atriði sem betur mætti fara. Fullyrti hann að ókostir íslensks samfélags væru grimmd og eigingirni (túlkun höfundar). Nefndi hann að fangelsun væri sennilega úrelt ráðstöfun samfélagsins og að létta þyrfti margvíslegri leynd af ýmsum þáttum eins og drykkjusýki og geðsýki, sem hefðu djúpstæð áhrif á aðstandendur. Hvatti Styrmir til frekari stuðnings í þeim efnum og afnáms fátæktar, sem væri sýnilegri í íslenska fámenninu en á meðal milljónaþjóða.
Líklegt er að hin skarpa greining ritstjórans hafi hreyft við þanka þeirra sem hlýddu ræðunni. Neikvæð umræða, órökstuddar fullyrðingar og sleggjudómar eru sennilega verstu óvinir íslensku þjóðarinnar. Megi þetta ár verða Íslendingum gott til vitrænnar umræðu og rökstuddra ályktana um hvað eina sem ber á góma.
Stjórnmál og samfélag | 1.1.2015 | 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sitthvað riðar nú til falls í trúmálum. Sagnfræðingar hafa fyrir löngu upplýst um að jólaguðspjallið sé skáldskapur eða dæmisaga, vilji menn fremur nota það nafn, nýjustu rannsóknir benda til að Múhameð spámaður hafi aldrei verið til og nú viðurkennir Dalai Lama að stofnun embættisins sé mannanna verk og því hverfult sem slíkt.
Dalai Lama, sá 14. Síðan embættið var stofnað á 14. Öld, sagðist í samtali við BBC telja að líklegt væri að hann yrði sá síðasti í þessu embætti. Kína hefði nú tekið réttmætt sæti sitt á meðal þjóða heims. Það væri af hinu góða. En kínversk stjórnvöld yrðuað skilja stöðu sína og þjóðir heims yrðu að beita sér fyrir lýðræðislegri stjórnarháttum í Kína og upplýsingafrelsi.
- Olli það ekki vonbrigðum að bresk stjórnvöld skyldu ekki koma námsmönnum til hjálpar þegar þeir kröfðust aukins lýðræðis?
Breskir vinir mínir hafa sagt að tómir vasar bresku stjórnarinnar leyfðu ekki að hún stæði upp í hárinu á Kínverjum, svaraði Dalai kankvís.
Þegar fréttamaðurinn spurði hvort það væri ekki ólíklegt að hann yrði sá síðasti í þessu embætti þar sem kínversk stjórnvöld hefðu marglýst því að þau myndu velja eftirmann hans taldi hann vafasamt að valið yrði í embættið út frá pólitískum forsendum. En niðurstaða hins glaðlynda Dalai Lama varð þessi: Ef til vill kemst einhver heimskingi að sem næsti Dalai Lama. Stofnun þessa embættis var mannanna verk og það er því fólksins að ákveða áframhaldið. Það er þó skárra að núverandi Dalai Lama, sem er fremur vinsæll, verði sá s´íðasti, sagði hann og skellihló.
Stjórnmál og samfélag | 20.12.2014 | 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 319702
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar